16.08.2016 20:57

Gillon

Gillon

Gillon

7,5/10

 

Gísli Þór Ólafsson starfar sem skjalavörður á Héraðsskjalasafni Skagafjarðar og er auk þess bassaleikari í hinni athyglisverðu hljómsveit, Contalgen Funeral sem kemur frá Króknum. Hann hefur sent frá sér fimm ljóðabækur og á dögunum sendi hann frá sér sína fjórðu sólóplötu og kemur hún út undir listamnnsnafni hans, Gillon.

Á meðal þessara platna er meðal annars Bláir skuggar, hvar hann semur lög við ljóð Geirlaugs Magnússonar. Þessar plötur hafa nú ekki vakið mikla athygli til þessa á meðal hins almenna hlustanda og sennilega er tónlist Gísla ekki nægilega straumlínulaga og upplífgandi til að útvarpsmenn gefi henni gaum.  Það er heldur enginn mælikvarði á góða tónlist hvort hún heyrist í útvarpinu í tíma og ótíma.

 

Ég get nú alveg játað að platan vakti enga sérstaka hrifningu hjá mér við fyrstu rennsli og mér fannst þetta allt renna saman og vera heldur dauflegt. En eins og með margar plötur sem eitthvað er spunnið í, þá batnaði hún við hverja hlustun og verðlaunar mann er „blómin“  fara að springa út og núna er hún aðallega bara falleg og notaleg.

 

Þessi plata er kannski ekkert stórvirki og örugglega ekki lagt upp með það að gera eitthvað meistaraverk, en hún á það sannarlega skilið að henni sé gaumur gefinn, því hér er margt áhugavert að finna og hún hefur sína töfra. Gísli verður seint talinn til stórsöngvara og í raun bara raulari, en það þurfa alls ekki að vera slæm örlög. Mér finnst hann tækla þetta ágætlega og söngurinn hæfir lögunum og röddin venst vel. Hún hefur skemmtilegan karakter og hann þekkir sín takmörk, og þó hann fari alveg út að þolmörkum stundum þá er hann alltaf réttu megin. Hann er einlægur án þess þó að taka sig eitthvað hátíðlega og ég skynja þarna húmorista á bakvið og einhver óræður Megas er þarna einhversstaðar á sveimi. Lögin eru flest í rólegri kantinum og með þennan ljúfsára tón sem er svo heillandi en aldrei verður þetta neitt þunglyndislegt. Flest þeirra eru alveg ágæt og sum mjög góð. Kallar eins og Nick Cave, Leonard Chohen og fleiri „singers/songwriters“ koma upp í hugann, en Gillon er fyrst og fremst bara hann sjálfur. Eitt lag er með enskum texta og finnst mér My special mine einna sísta lagið á plötunni og það virkar sem stílbrot að hafa það hér og ég skynja smá tilgerð, á plötu sem annars er laus við tilgerð og stæla og er sönn og heiðarleg.

 

Vangoldin ást, öryggisleysi, söknuður, þrá og svört nóttin eru þarna á sveimi í textunum, en líka sumar og gleði yfir að vera í heitri sólinni með kaffibollann. Gísli semur textana fyrir utan tvo sem eru eftir hina frábæru skáldkonu úr Jökuldalnum, Ingunni Snædal. Mjög fínir textar hjá drengnum. Hann vinnur þessa plötu með félaga sínum úr Contalgen Funiral, Sigfúsi Benediktsyni og sjá þeir tvímenningar um allan hljófæraleik.  Hann er látlaus og afslappaður en verður aldrei „dull“ þó tilþrif skorti. Hann er bara við hæfi og hér styður í rauninni allt hvað annað í einlægum samhljómi.

 

Ég mæli með að fólk kynni sér þessa plötu. Hún lætur ekki mikið yfir sér og er ekkert að trana sér fram. Þetta er ekki allra frekar en nokkuð annað, en ég fann þarna einhvern sannan tón sem ekkert er alltof algengur nú til dags, en kannski er maður að leita á vitlausum stöðum.

 

Bestu lög: Sumar, Svo blindur, Hin eina sanna og Mannþefur í kolli mínum.

Flettingar í dag: 73
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 89
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 262356
Samtals gestir: 85257
Tölur uppfærðar: 20.6.2019 13:53:02