25.05.2017 19:01

Dimma með sína bestu

Dimma – Eldraunir - 2017

9/10

Loksins kemur ný stúdíóplata frá hinni 13 ára gömlu Dimmu og er hún sú 5. í röðinni. Auk þess hafa þeir sent frá sér 5 tónleikaplötur og tvær þeirra í púkki með rokkkóngnum Bubba Morthens. Sennilega hefur engin íslensk hljómsveit verið jafn dugleg að senda frá sér tónleikaefni og er það vel, því þeir eru frábær tónleikasveit. Sveitin tók stakkaskiptum 2011 með tilkomu þeirra Stebba Jak og Bigga trommara og í kjölfarið fara þeir að syngja á íslensku. Síðan þá hefur allt verið uppávið og ævintýri líkast og stór hluti þjóðarinnar tekið ástfóstri við þessa sómapilta og þeirra gæðarokk.

                                       

Eldraunir er í raun síðasti hluti af þríleik sem tengist lauslega og hófst með útgáfu plötunnar Myrkraverk árið 2012 en þar var yrkisefnið öll þau mannanna verk sem framin eru í myrkrinu og skuggahliðum mannlífsins. Á Vélráð, sem kom út 2014, ræddi um þá klæki sem mannfólkið notar til þess að beygja náungann undir sinn vilja og ná yfirhöndinni og völdum í samskiptum sín á milli. Eldraunir er svo um erfiðleikana sem við mætum hvert og eitt í lífinu á meðan við berjumst áfram til að vinna okkur brautargengi í köldum og hörðum heimi.

 

Já, þessir strákar láta sig málin varða og textar þeirra eru vafalaust hluti af því að fólk tengir og þegar það fer svo saman við frábært Dimmurokkið er kominn heillandi galdur. Þetta er ekkert flókin músík, bara klassískt melódískt þungarokk, en flutt með heitu rokkhjarta og dragsíðum pung. Það gerir gæfumuninn og þessvegna hljómar þetta ekki þreytt og gamaldags. Eldraunir er þyngsta og harðasta plata þeirra til þessa og óhætt að segja að hér sé boðið uppá grjótharðan metal, með myrku yfirbragði, en samt ekki á kostnað melódíunnar. Ég held ég geti fullyrt að þetta er þeirra besta plata til þessa og hafa hinar þó ekki verið neitt slor.

 

Ég er alltaf að eignast ný og ný uppáhaldslög og ef fram fer sem horfir fá þau öll þann sess. Þannig er það með góðar plötur, en hún hljómar best sem heild. Textarnir sem Ingó á flesta, vekja til umhugsunar og eru hörkugóðir margir og tónlistin vekur upp notalegar, stundum gleymdar tilfinningar og bæði gæsahúð og rykkorn í auga hafa gert vart við sig. Kannski er maður að verða gamall og meir og farinn að láta rokkið bera sig ofurliði.

 

Upphafslagið, „Villimey“ grípur mann strax og rokkarinn hans Stebba í kjölfarið, „Í auga stormsins“ neglir mann fastan þannig að það er ekki aftur snúið. Hið pínu Acceptlega, Svörtu nóturnar er að heilla mig mig núna:

 

Ég hef gengið grýttan veg

Gamlan drösul minn ég dreg

Ferðin löng og feiknarleg

færði vetrarmyrkur.

 

Hinn þétti og melódíski „feelgood“ rokkari, Bergmál, hlítur að grípa hvert rokkhjarta, geggjað sóló hjá Ingó og kórinn flottur og ég heyri fyrir mér troðfullann Græna Hattinn taka kórinn á tónleikum þegar allir eru orðnir kunnugir laginu.

 

Illgresi er frábær keyrslurokkari með skemmtilegu uppbroti í sólókaflanum. Tvær hörkuflottar ballöður prýða plötuna. Stebbi Jak, á „Mín kald ást“ og naut í því aðstoðar Stefáns Mána við textagerðina, en þeir eiga einnig saman textann í „Í auga stormsins“. Ingó og Silli eiga síðan hið dimma lokalag, „Rökkur“ sem er mögnuð ballaða og viðeigandi endir á frábærri plötu.

 

Um spilamennskuna þarf ekki að fjölyrða frekar en venjulega. Ingó hefur ekki í annan tíma framreitt glæsilegri gítarsólo eða reffilegri riff, Silli og Biggi þéttari en allt sem þétt er og Stefán sjálfum sér líkur í hlutverki besta rokksöngvara landsins. Sándið er frábært og þessi aukni þungi og harka fer þeim ákaflega vel. Þeir hafa greinilega mætt vel undirbúnir í súdíóið og í samvinnu við Harald V Sveinbjörnsson, sem einnig spilar á píanó, hljómborð og sér um strengi auk þess að útsetja með Dimmu, tekst þeim að láta þetta hljóma dásamlega og krafturinn skilar sér fyllilega. Það er nefnilega ekki alltaf sem það tekst í stúdíóum, hversu góð sem þau eru.

Umbúðirnar eru til fyrirmyndar eins og annað hér og á Ólöf Erla Einarsdóttir heiðurinn af þeim.

 

Nú er Dimma að safna á Karolina Fund fyrir útgáfu á þessum þríleik ( Myrkraverk, Vélráð og Eldraunir) á vinyl og ég hvet fólk til að lita á það og leggja því góða máli lið.

 

Frábær plata frá einni okkar bestu rokksveit og þeirra besta til þessa.

Flettingar í dag: 2
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 65
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 220914
Samtals gestir: 71627
Tölur uppfærðar: 23.5.2018 00:40:34