17.02.2017 11:23

Hið svokallaða vit

Sumir segja að það séu bara til tvær tegundir af tónlist... góð og svo vond. Hvað er þá góð tónlist? Einfalda svarið er að það hlítur að vera sú tónlist sem þér finnst góð og svo öfugt. Þú ert dómari í þinni upplifun. Tónlist er í eðli sínu hvorki góð eða vond. Það er ekki fyrr en einhverjum fer að finnst eitthvað um hana sem þau hugtök taka á sig mynd. Þar með getur sama tónlistin bæði verið vond og góð, og tveir hlustendur á öndverðum meiði hafa báðir rétt fyrir sér... tónlist er ... tónlist... og hver metur fyrir sig. Smekkurinn ræður þarna miklu alveg eins og með matinn sem við borðum. Mér finnst kannski kæst skata góð, en þér finnst hún vond. Báðir/bæði höfum við rétt fyrir okkur. Þar með er kæst skata bæði vond og góð... fer bara eftir hver dæmir. Svo er hægt að setja sig á háan hest og reyna að færa einhver rök fyrir að einhver tónlist sé betri en önnur, einhver tónlist sé æðri en önnur, en það hefur í raun aldrei fært menn að skynsamlegum niðurstöðum og við deilum ekki um smekk.

Ég hef ástríðufullan áhuga og áralanga reynslu af hlustun á allskonar tónlist og gæti ekki án hennar lifað. En ég hef alltaf látið það fara í taugarnar á mér þegar einhver segir við mig... þú hefur nú vit á tónlist, hvernig finnst þér þetta ?.. eða menn afsaka sig og segja... ja ég hef nú ekkert vit á þessu, en þetta höfðar ekki til mín. Aldrei færi ég að gefa mig út fyrir að hafa eitthvað sérstakt "vit" á tónlist og aldrei vitað hvað það þýðir í rauninni. Er það t.d. að vita í hvaða tóntegund lag er? Ég kann ekki tónfræði, en eflaust hjálpaði það mér enn betur að njóta tónlistar... eða ekki. Mér hefur alltaf fundist tónlistin vera þannig fyrirbæri (eins og myndlist og fl) að það þyrfti ekkert sérstakt "vit" til að geta notið hennar, aðeins þokkalega heyrn og opið hjarta og smá þolinmæði. Fegurðin er í augum sjándans og eyrum heyrandans. Vissulega er hægt að læra mikið í og um tónlist, en það ræður engum úrslitum um hvort við náum að njóta hennar eða ekki. Ég hef ekki haft af því spurnir að tónlistarfólk njóti tónlistar eitthvað betur en aðrir, eða hafi betri tónlistarsmekk. 

Tónlistarástríðan varð síðan þess valdandi að ég ákvað að fara að blogga um tónlist, en ekki að ég teldi mig hafa eitthvað sérstakt vit á fyrirbærinu sem þyrfti að básúna (sem einnig er hljóðfæri). Langaði bara að lýsa upplifun minni á plötum sem ég kaupi mér ennþá út í búð og vekja kannski áhuga annarra í leiðinni. Sleppi öllu fræðibulli og tala bara um þetta á mannamáli og það hefur alveg víkkað upplífunina að reyna að koma böndum á hana í orðum. Mér finnst þetta skemmtilegt og það eina sem ég reyni að hafa að leiðarljósi er að bera virðingu fyrir viðfangsefninu og vera sanngjarn. Það hjálpar líka að hafa engan háa hestinn til að setja sig á og tónlistarsnobbarar finnst mér leiðinlegir.

Eitt það besta við tónlist er að öll eru við sérfræðingar í okkar eigin upplifun og enginn hefur rétt eða rangt fyrir sér varðandi tónlist... okkur finnst það sem okkur finnst. Stundum breytast viðhorfin og það er alltaf mest gaman þegar múrar hrynja. Við eigum það nefnilega til að reisa múra sem einatt eru byggðir á fordómum. Það er nefnilega engin tónlistarstefna annari æðri og það hefur hentað mér best að blanda léttmeti við þungmeti, hávaða við lávaða. Þetta virkar nefnilega best hvað með öðru. Smekkurinn er síðan stærsti faktorinn í þessu og öll erum við með fullkomnan smekk á tónlist. Hvernig má það öðruvísi vera. Tónlistarnördinn og grúskarinn hefur ekkert betri smekk en Eurovision aðdándinn. Hvor hefur sinn smekki sem gefur viðkomandi fullnaðar árangur í hlustun. Smekkurinn getur síða breyst og þróast, en það fer eftir því hve forvitin og víðsýn við viljum vera. Til að varast misskilnig getur nördinn, grúskarinn og eurovision aðdándinn alveg verið sami maðurinn.

Mig langar að lokum að vitna í gamalt viðtal í Akureyri vikublað við Guðmund Óla Gunnarsson, sem lengi var stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, en hann hefur lengi unnið að því að afhelga klassíska tónlist og kemur meðal annars snilldarlega inn á þetta með "vitið"

Tilvitnun hefst... "það er kannski klisja að orða það þannig, en tónlistin hefur orðið líf mitt. En það eru ekki allir sem fá notið hennar og sumpart er sú gjá vegna misskilnings. Milli mikils þorra fólks og klassískarar tónlistar er til staðar eitthvað sem mætti kalla ímyndaðan þröskuld.
Alltof margir trúa því að klassískir tónleikar séu bara fyrir einhverja sérstaka tegund af fólki. Bara fyrir þá sem "hafa vit á tónlist". Eina vitið hinsvegar sem þarf til að njóta klassískrar tónlistar er sama vit og þarf til að njóta hvaða tónlistar sem er. Það eina sem þarf er heyrn og hjarta. Svo þarf að vita að maður hafi viljann til að opna hjartað fyrir þeim áhrifum sem tónlistin færir manni í gegnum heyrnina. Þetta er eina vitið sem skiptir máli." tilvitnun líkur.

Hlustum og njótum og verum ekki hrædd við að hafa okkar tónlistarsmekk og okkar skoðanir á tónlist...öll höfum við "vitið" sem til þarf.

Flettingar í dag: 159
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 110
Gestir í gær: 41
Samtals flettingar: 224762
Samtals gestir: 72525
Tölur uppfærðar: 20.6.2018 22:11:39