12.06.2019 20:20

Einar Bárðar - Myndir

Myndir - Einar Bárðar – 2019

8,5/10

Einar Bárða fagnaði 20 ára höfundarafmæli í fyrra og í kjölfar afmælistónleika var ákveðið að henda í geislaplötu með vinsælustu lögunum. Einar er einn af mönnunum á bak við tjöldin í poppbransanum og er einkar lagið að semja grípandi popplög sem er náðargáfa, lög sem söngla í hausnum á manni hvort sem manni líkar það betur eða verr. Það er nú þannig með grípandi popplög að þau eru yfirleitt þeirrar gerðar að útvarpsstöðvar sjá sér hag í því að spila þau oft á dag í langan tíma þangað til allir eru búnir að fá upp í kok. Menn fara loks að spyrja sig hvort ekki séu önnur lög á plötu listamannsins. Hver var ekki búinn að fá nóg af, Farinn með Skítamóral ? Sennilega er Farinn eitt alvinsælasta lag Einars og við hæfi að byrja plötuna á því og hér er það Klara Ósk Elíasdóttir sem syngur og skilar sínu af stakri prýði eins og reyndar allir söngvarar plötunnar. Lagið fær hér framhaldslíf og færeyingurinn Jákup Zachariassen sem er ekki síst ábyrgur fyrir færeysku kántrístjörnunni, Halli, stimplar sig inn með frábærum stálgítarleik sem víða setur skemmtilegan svip á plötuna, og neglir einhvern ljúfsáran kántrýtón í verkið sem er einkar viðeigandi á plötunni og hæfir lögunum vel. Ég verð nú bara að segja það strax að þetta er frábær popp plata og útsetning laganna er til fyrirmyndar og þau öðlast framhaldslíf í tímalausum og smekklegum útsetningum Þóris Úlfarssonar. Það var góður leikur að koma með nýjar útgáfur að lögunum, fyrir bragðið verður platan heilsteyptari.  Margar brellur sem eru í hávegum hafðar í nútímapoppi eins og t.d. autotune, eru sem betur fer sniðgengnar sem verður til þess að lögin eru ekki orðin hallærisleg á morgun. Eitt nýtt lag fær að fljóta með, en það er, Okkar líf, þrælgott lag, hvar vitnað er í frábært lag frá einni bestu poppsveit íslandssögunnar, Sálinni. Þeir syngja lagið nafnarnir, Bárðarson og Einar Ágúst. Vel sungið hjá báðum og það er eitthvað mjög svo sjarmerandi við rödd Bárðarsonar. Lögin á disknum urðu nú mis vinsæl en þau mynda sterka heild hérna og platan heldur frá fyrsta lagi til hins síðasta sem er, Ég sé þig, og Jóhanna Guðrún syngur frábærlega. Lag sem fyrst kom út með Björgvini Halldórssyni á safnplötunni, Ég tala um þig, árið 2002. Talandi um góðar söngkonur, þá er þarna ný rödd sem vekur athygli og á eftir að ná langt ef hún leggur sönginn fyrir sig, það er dóttir tónskáldsins, hún Klara Einarsdóttir. Hún skilar glæsilegum söng í Síðasta sumar, sem fyrst kom með Nælon flokknum sem auðvitað var líka afkvæmi Einars. Ingó veðurguð er góður í Myndir, sem Skítamórall gerði ódauðlegt á 10. áratugnum. Magni neglir, Bara í nótt, sem kom fyrst með Nylon. Svona mætti áfram telja og allir söngvara standa sig vel, en auk þeirra sem nefndir hafa verið eru þarna Sigga Beinteins, Gunni Óla úr Skítamóral, Kristján Gísla, Karítas Harpa, Birgitta Haukdal og síðastur en ekki sístur, hann Birgir Steinn Stefánssons, sem er dæmi um epli sem ekki fellur langt frá eik, góður söngvari eins og pabbinn Hilmarsson. Þáttur Þóris Úlfarssonar er stór hér, en eins og áður sagði sér hann um að útsetja herlegheitin auk þess að spila á píanó og bassa. Það er ekkert í kot vísað með aðra spilara, Jákup hinn færeyski á smekklegan stálgítarleik eins og áður hefur verið sagt. Tveir aðrir frábærir gítarleikarar koma við sögu, en það eru þeir Pétur Valgarð Pétursson og Kristján Grétarsson, og eiga þeir sína spretti. Gulli Briem trommar af sinni smekkvísi og Eiður Arnarsson plokkar bassa í nokkrum lögum og fleiri koma við sögu eins og t.d. Phillip Doyle á saxafón. Hér er vandað til verka og útkoman eftir því og maður skildi aldrei vanmeta góða popptónlist. Þeir sem voru uppá sitt besta á 10. áratug síðustu aldar hafa ríka ástæðu til að gleðjast. Það hefur lika hinn almenni poppaðdáandi og þessi plata býr yfir einhverjum svo jákvæðum og fallegum vibrum. Það er bara falleg manneskja sem býr til svona músík. Vonandi er hann ekki hættur að semja.

Flettingar í dag: 80
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 89
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 262363
Samtals gestir: 85259
Tölur uppfærðar: 20.6.2019 16:20:05