12.06.2019 23:11

Sigvaldi Kaldalóns

 

Sigvaldi Kaldalóns – Söngvasafn Sigvalda Kaldalóns

Svanasöngur á heiði - 1

Ég lít í anda liðna tíð - 2

10/10

Læknirinn og tónskáldið Sigvaldi S Kaldalóns fæddist í Reyjavík 1881, og er tvímælalaust eitt ástsælasta tónskáld þjóðarinnar og ég efast um að nokkuð íslenskt mannsbarn sem komið er til vits og ára kannist ekki við Á Sprengisandi eða Þú eina hjartans yndið mitt, Ég lít í anda liðna tíð ( sem hér sungið svo undurljúflega af Gunnari Guðbjörnssyni) og Hamraborgina, svo rétt sé tæpt á vinsælustu konfektmolunum sem frá þessum meistara komu. Við sem komin erum komin vel á aldur, fengum tónlist Sigvalda með móðurmjólkinni, þökk sé „gömlu gufunni. Eitt þekktasta lagið hans, Suðurnesjamenn vantar hér og finnst mér það skrítið, en uppáhalds Sigvalda lagið mitt, Sofðu sofðu góði er að sjálfsögðu í pakkanum. Annars er uppáhalds útgáfa mín af því ósungin í flutningi Sigrúnar Eðvalds og Selmu Guðmundsdóttur, alveg frábær útgáfa sem koma á plötunni Ljúflingslög. Einsöngvarar og söngkonur hafa í gegnum tíðina keppst við að flytja lög hans og hljóðrita í gegnum tíðina og gaman væri að komast í lista yfir þær hljóðritanir. Hann starfaði um 11 ára skeið sem læknir í Norður Ísafjarðarsýslu, hafði aðsetur Í Ármúla skammt frá mynni Kaldalóns, sem er stuttur fjörður við norðanvert Ísafjarðardjúp. Þaðan tekur hann Kaldalónsnafnið. Svo vænt þótti sveitungum Sigvalda um hann að þeir réðust í það að kaupa handa honum forláta flygil,  flytja vestur og gefa honum. Það var nú lítið vandamál þó þyrfti að brjóta úr glugga til að koma honum inn í Húsið. Við sem komin erum komin vel á aldur, fengum tónlist Sigvalda með móðurmjólkinni, þökk sé „gömlu gufunni. Hann var að mestu sjálfmenntað tónskáld. Hann lærði undirstöðuatriði í nótnalestri í æsku og samhliða læknisnámi í Danmörku, varð hann sér út um allt sem að gagni mætti verða í tónlistinni, eins og segir í bæklingi sem fylgir diskunum. Þar er einnig að finna tvær sögur sem lýsa náðargáfu Sigvalda, og þar sem stutt er síðan að ég sá myndina Rocketman sem fjallar um ævi Elton John, þar sem sést í einni senunni hversu fljótur hann var að semja, þá eiga þessar sögur vel við. Í einni af læknisferðum sínum var hann á ferð í opnum báti í stillu og sólskini ásamt skrafhreifnum sveitunga sínum. Þeir ræddu heima og geima, en þegar minnst varir segir Sigvaldi: Viltu aðeins hafa hljótt. Stutta stund situr hann grafkyrr sem í leiðslu, en segir svo: Þetta er komið. Í annað skipti kom persónulegur vinur í heimsókn og réttir honum nýsamið ljóð. Sigvaldi meðtekur ljóðið, víkur sér samstundis afsíðis, en kemur fljótt aftur, sest við píanóið og leikur lagið Vorvindur (sem finna má hér)  í fyrsta sinn. Lög Sigvalda eru af ýmsum gerðum og fjölbreytni því töluverð og mörg þeirra, kannski flest, kalla á söng. Oft vildi ég óska þess að ég kynni að syngja og kannski sérstaklega þegar ég hlusta á svona fallega músík. Í bæklingnum sem fylgir diskunum segir Jón Ásgeirsson tónskáld svo frá: Samspil texta og lagferlis hjá Sigvalda Kaldalóns hefur trúlega byggst á söngþörf hans, því eins og lög hans syngjast hafa þau án efa orðið til í söng en ekki í skipulagðri og kunnáttusamri vinnu. Lög Sigvalda búa yfir  stemmningu sem höfundurinn upplifir er hann finnur hjá sér þörf til að tónklæða texta. tilv líkur. Í upphafi þessarar aldar fóru afkomendur Sigvalda þess á leit við píanóleikarann, Jónas Ingimundarson, að hafa umsjón með heildarútgáfu sönglaga Sigvalda S Kaldalóns. Jónas valdi 12 söngvara af ýmsum raddgerðum, deildi niður lögum og sá um píanóleik við allar upptökurnar, en þær fóru fram árin 2003 og 2005. Framan á diskunum stendur „Complete songs of Kaldalóns“  en í bæklingi með öðrum disknum segir þó að sönglög Sigvalda séu 203, en það eru bara 102 á þessum diskum. Samkvæmt því eru 101 lag óútgefið, nema þetta sé prentvilla. Minningasjóður Sigvalda Kaldalóns, Menningarmiðstöðin Gerðuberg ásamt útgáfufyrirtækinu Smekkleysu kostuðu fyrstu útgáfuna 2004 og 2006 og stóðu að gerð ítarlegra bæklinga. Þetta voru tveir tvöfaldir diskar, og 102 einsöngslög eins og áður kom fram, og er fyrri útgáfan löngu uppseld. Það er því gleðilegt að niðjar höfundar standi að endurútgáfu á þessum diskum og er það í samvinnu við Fermötu hljóðritun. Þetta eru sannarlega menningarverðmæti sem vert er að halda á lofti og einstaklega falleg útgáfa. Sigvaldi Snær Kaldalóns skrifar um verkefnið, Jón Ásgeirsson tónskáld skrifar um tónlistina og Trausti Jónson skrifar um Sigvalda. Öll ljóðin birt sem sungin eru og enskar þýðingar á þeim og fjöldi mynda úr lífi og starfi tónskáldsins frá ýmsum æviskeiðum. Jónas er alkunnur smekkmaður og valið á söngvurum er glæsilegt og útkoman eftir því. Þarna syngja þau Gunnar Guðbjörnsson tenor, Auður Gunnarsdóttir sópran, Bergþór Pálsson bariton, Ólafur Kjartan Sigurðarson bariton , Sigrún Hjálmtýrsdóttir sópran, Snorri Wium tenór, Hulda Björk Garðasdóttir sópran, Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Sesselja Kristjánsdóttir mezzosópran, Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenór, Sigríður Aðalsteinsdóttir mezzosópran og Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzosópran. Glæsilegt söngvaralið þarna og það er unun fyrir sönglaganörda að halla sér aftur í sófann og láta þessa dýrð líða um hlustir, því hér er allt til háborinnar fyrirmyndar. Fullt af lögum sem maður hefur ekki heyrt áður í bland við þekkta gullmola. Jónas, allir söngvaranir og aðrir aðstandendur eiga heiður skilinn, en ég velti fyrir mér hvort komi meira, fyrst 101 lag er eftir.

Flettingar í dag: 77
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 89
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 262360
Samtals gestir: 85258
Tölur uppfærðar: 20.6.2019 15:39:08