12.06.2019 23:11

Sigvaldi Kaldalóns

 

Sigvaldi Kaldalóns – Söngvasafn Sigvalda Kaldalóns

Svanasöngur á heiði - 1

Ég lít í anda liðna tíð - 2

10/10

Læknirinn og tónskáldið Sigvaldi S Kaldalóns fæddist í Reyjavík 1881, og er tvímælalaust eitt ástsælasta tónskáld þjóðarinnar og ég efast um að nokkuð íslenskt mannsbarn sem komið er til vits og ára kannist ekki við Á Sprengisandi eða Þú eina hjartans yndið mitt, Ég lít í anda liðna tíð ( sem hér sungið svo undurljúflega af Gunnari Guðbjörnssyni) og Hamraborgina, svo rétt sé tæpt á vinsælustu konfektmolunum sem frá þessum meistara komu. Við sem komin erum komin vel á aldur, fengum tónlist Sigvalda með móðurmjólkinni, þökk sé „gömlu gufunni. Eitt þekktasta lagið hans, Suðurnesjamenn vantar hér og finnst mér það skrítið, en uppáhalds Sigvalda lagið mitt, Sofðu sofðu góði er að sjálfsögðu í pakkanum. Annars er uppáhalds útgáfa mín af því ósungin í flutningi Sigrúnar Eðvalds og Selmu Guðmundsdóttur, alveg frábær útgáfa sem koma á plötunni Ljúflingslög. Einsöngvarar og söngkonur hafa í gegnum tíðina keppst við að flytja lög hans og hljóðrita í gegnum tíðina og gaman væri að komast í lista yfir þær hljóðritanir. Hann starfaði um 11 ára skeið sem læknir í Norður Ísafjarðarsýslu, hafði aðsetur Í Ármúla skammt frá mynni Kaldalóns, sem er stuttur fjörður við norðanvert Ísafjarðardjúp. Þaðan tekur hann Kaldalónsnafnið. Svo vænt þótti sveitungum Sigvalda um hann að þeir réðust í það að kaupa handa honum forláta flygil,  flytja vestur og gefa honum. Það var nú lítið vandamál þó þyrfti að brjóta úr glugga til að koma honum inn í Húsið. Við sem komin erum komin vel á aldur, fengum tónlist Sigvalda með móðurmjólkinni, þökk sé „gömlu gufunni. Hann var að mestu sjálfmenntað tónskáld. Hann lærði undirstöðuatriði í nótnalestri í æsku og samhliða læknisnámi í Danmörku, varð hann sér út um allt sem að gagni mætti verða í tónlistinni, eins og segir í bæklingi sem fylgir diskunum. Þar er einnig að finna tvær sögur sem lýsa náðargáfu Sigvalda, og þar sem stutt er síðan að ég sá myndina Rocketman sem fjallar um ævi Elton John, þar sem sést í einni senunni hversu fljótur hann var að semja, þá eiga þessar sögur vel við. Í einni af læknisferðum sínum var hann á ferð í opnum báti í stillu og sólskini ásamt skrafhreifnum sveitunga sínum. Þeir ræddu heima og geima, en þegar minnst varir segir Sigvaldi: Viltu aðeins hafa hljótt. Stutta stund situr hann grafkyrr sem í leiðslu, en segir svo: Þetta er komið. Í annað skipti kom persónulegur vinur í heimsókn og réttir honum nýsamið ljóð. Sigvaldi meðtekur ljóðið, víkur sér samstundis afsíðis, en kemur fljótt aftur, sest við píanóið og leikur lagið Vorvindur (sem finna má hér)  í fyrsta sinn. Lög Sigvalda eru af ýmsum gerðum og fjölbreytni því töluverð og mörg þeirra, kannski flest, kalla á söng. Oft vildi ég óska þess að ég kynni að syngja og kannski sérstaklega þegar ég hlusta á svona fallega músík. Í bæklingnum sem fylgir diskunum segir Jón Ásgeirsson tónskáld svo frá: Samspil texta og lagferlis hjá Sigvalda Kaldalóns hefur trúlega byggst á söngþörf hans, því eins og lög hans syngjast hafa þau án efa orðið til í söng en ekki í skipulagðri og kunnáttusamri vinnu. Lög Sigvalda búa yfir  stemmningu sem höfundurinn upplifir er hann finnur hjá sér þörf til að tónklæða texta. tilv líkur. Í upphafi þessarar aldar fóru afkomendur Sigvalda þess á leit við píanóleikarann, Jónas Ingimundarson, að hafa umsjón með heildarútgáfu sönglaga Sigvalda S Kaldalóns. Jónas valdi 12 söngvara af ýmsum raddgerðum, deildi niður lögum og sá um píanóleik við allar upptökurnar, en þær fóru fram árin 2003 og 2005. Framan á diskunum stendur „Complete songs of Kaldalóns“  en í bæklingi með öðrum disknum segir þó að sönglög Sigvalda séu 203, en það eru bara 102 á þessum diskum. Samkvæmt því eru 101 lag óútgefið, nema þetta sé prentvilla. Minningasjóður Sigvalda Kaldalóns, Menningarmiðstöðin Gerðuberg ásamt útgáfufyrirtækinu Smekkleysu kostuðu fyrstu útgáfuna 2004 og 2006 og stóðu að gerð ítarlegra bæklinga. Þetta voru tveir tvöfaldir diskar, og 102 einsöngslög eins og áður kom fram, og er fyrri útgáfan löngu uppseld. Það er því gleðilegt að niðjar höfundar standi að endurútgáfu á þessum diskum og er það í samvinnu við Fermötu hljóðritun. Þetta eru sannarlega menningarverðmæti sem vert er að halda á lofti og einstaklega falleg útgáfa. Sigvaldi Snær Kaldalóns skrifar um verkefnið, Jón Ásgeirsson tónskáld skrifar um tónlistina og Trausti Jónson skrifar um Sigvalda. Öll ljóðin birt sem sungin eru og enskar þýðingar á þeim og fjöldi mynda úr lífi og starfi tónskáldsins frá ýmsum æviskeiðum. Jónas er alkunnur smekkmaður og valið á söngvurum er glæsilegt og útkoman eftir því. Þarna syngja þau Gunnar Guðbjörnsson tenor, Auður Gunnarsdóttir sópran, Bergþór Pálsson bariton, Ólafur Kjartan Sigurðarson bariton , Sigrún Hjálmtýrsdóttir sópran, Snorri Wium tenór, Hulda Björk Garðasdóttir sópran, Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Sesselja Kristjánsdóttir mezzosópran, Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenór, Sigríður Aðalsteinsdóttir mezzosópran og Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzosópran. Glæsilegt söngvaralið þarna og það er unun fyrir sönglaganörda að halla sér aftur í sófann og láta þessa dýrð líða um hlustir, því hér er allt til háborinnar fyrirmyndar. Fullt af lögum sem maður hefur ekki heyrt áður í bland við þekkta gullmola. Jónas, allir söngvaranir og aðrir aðstandendur eiga heiður skilinn, en ég velti fyrir mér hvort komi meira, fyrst 101 lag er eftir.

12.06.2019 20:20

Einar Bárðar - Myndir

Myndir - Einar Bárðar – 2019

8,5/10

Einar Bárða fagnaði 20 ára höfundarafmæli í fyrra og í kjölfar afmælistónleika var ákveðið að henda í geislaplötu með vinsælustu lögunum. Einar er einn af mönnunum á bak við tjöldin í poppbransanum og er einkar lagið að semja grípandi popplög sem er náðargáfa, lög sem söngla í hausnum á manni hvort sem manni líkar það betur eða verr. Það er nú þannig með grípandi popplög að þau eru yfirleitt þeirrar gerðar að útvarpsstöðvar sjá sér hag í því að spila þau oft á dag í langan tíma þangað til allir eru búnir að fá upp í kok. Menn fara loks að spyrja sig hvort ekki séu önnur lög á plötu listamannsins. Hver var ekki búinn að fá nóg af, Farinn með Skítamóral ? Sennilega er Farinn eitt alvinsælasta lag Einars og við hæfi að byrja plötuna á því og hér er það Klara Ósk Elíasdóttir sem syngur og skilar sínu af stakri prýði eins og reyndar allir söngvarar plötunnar. Lagið fær hér framhaldslíf og færeyingurinn Jákup Zachariassen sem er ekki síst ábyrgur fyrir færeysku kántrístjörnunni, Halli, stimplar sig inn með frábærum stálgítarleik sem víða setur skemmtilegan svip á plötuna, og neglir einhvern ljúfsáran kántrýtón í verkið sem er einkar viðeigandi á plötunni og hæfir lögunum vel. Ég verð nú bara að segja það strax að þetta er frábær popp plata og útsetning laganna er til fyrirmyndar og þau öðlast framhaldslíf í tímalausum og smekklegum útsetningum Þóris Úlfarssonar. Það var góður leikur að koma með nýjar útgáfur að lögunum, fyrir bragðið verður platan heilsteyptari.  Margar brellur sem eru í hávegum hafðar í nútímapoppi eins og t.d. autotune, eru sem betur fer sniðgengnar sem verður til þess að lögin eru ekki orðin hallærisleg á morgun. Eitt nýtt lag fær að fljóta með, en það er, Okkar líf, þrælgott lag, hvar vitnað er í frábært lag frá einni bestu poppsveit íslandssögunnar, Sálinni. Þeir syngja lagið nafnarnir, Bárðarson og Einar Ágúst. Vel sungið hjá báðum og það er eitthvað mjög svo sjarmerandi við rödd Bárðarsonar. Lögin á disknum urðu nú mis vinsæl en þau mynda sterka heild hérna og platan heldur frá fyrsta lagi til hins síðasta sem er, Ég sé þig, og Jóhanna Guðrún syngur frábærlega. Lag sem fyrst kom út með Björgvini Halldórssyni á safnplötunni, Ég tala um þig, árið 2002. Talandi um góðar söngkonur, þá er þarna ný rödd sem vekur athygli og á eftir að ná langt ef hún leggur sönginn fyrir sig, það er dóttir tónskáldsins, hún Klara Einarsdóttir. Hún skilar glæsilegum söng í Síðasta sumar, sem fyrst kom með Nælon flokknum sem auðvitað var líka afkvæmi Einars. Ingó veðurguð er góður í Myndir, sem Skítamórall gerði ódauðlegt á 10. áratugnum. Magni neglir, Bara í nótt, sem kom fyrst með Nylon. Svona mætti áfram telja og allir söngvara standa sig vel, en auk þeirra sem nefndir hafa verið eru þarna Sigga Beinteins, Gunni Óla úr Skítamóral, Kristján Gísla, Karítas Harpa, Birgitta Haukdal og síðastur en ekki sístur, hann Birgir Steinn Stefánssons, sem er dæmi um epli sem ekki fellur langt frá eik, góður söngvari eins og pabbinn Hilmarsson. Þáttur Þóris Úlfarssonar er stór hér, en eins og áður sagði sér hann um að útsetja herlegheitin auk þess að spila á píanó og bassa. Það er ekkert í kot vísað með aðra spilara, Jákup hinn færeyski á smekklegan stálgítarleik eins og áður hefur verið sagt. Tveir aðrir frábærir gítarleikarar koma við sögu, en það eru þeir Pétur Valgarð Pétursson og Kristján Grétarsson, og eiga þeir sína spretti. Gulli Briem trommar af sinni smekkvísi og Eiður Arnarsson plokkar bassa í nokkrum lögum og fleiri koma við sögu eins og t.d. Phillip Doyle á saxafón. Hér er vandað til verka og útkoman eftir því og maður skildi aldrei vanmeta góða popptónlist. Þeir sem voru uppá sitt besta á 10. áratug síðustu aldar hafa ríka ástæðu til að gleðjast. Það hefur lika hinn almenni poppaðdáandi og þessi plata býr yfir einhverjum svo jákvæðum og fallegum vibrum. Það er bara falleg manneskja sem býr til svona músík. Vonandi er hann ekki hættur að semja.

11.06.2019 21:20

Trap

 

Trap – Trap – 2019

6,5/10

Hljómsveitin Trap var stofnuð á Ísafirði árið 1969 og er því 50 ára á þessu ári. Hana skipuðu í upphafi og skipa ennþá, Rúnar Þór Pétursson á gítar og syngur, Reynir Guðmundsson á gítar og syngur, en hann var upphaflega trommari, Örn Jónsson spilar á bassa,  Rúnar Vilbergsson spilar á trommur og Kristján Hermannsson spilar á hljómborð og harmonikku, en hann spilaði upphaflega á gítar. Rúnar Þór þekkja flestir en þarna eru líka tveir af fyrrum meðlimum hinnar skemmtilegu Ísfirsku hljómsveitar, ÝR, þeir Örn og Reynir. Rúnar Vilbergsson, er síðan þekktur fyrir af hafa spilað með BG og Ingibjörg, Þursaflokknum og Synfoníuhljómsveit Íslands sem fagottleikari til margra ára. Trap strákar eru komni hátt í sjötugt en spila ennþá á böllum á suðvestur horninu og hafa aðallega spilað á Catalínu í Kópavogi. Þar sem þeim finnst svo gaman af ballprógramminu þá var ákveðið að koma hluta af því á geisladisk og hér er hann kominn og heitir í höfuðið á bandinu. Nú veit ég ekki hvort svona diskar eigi erindi við nokkra nema hljómsveitarmeðlimi sjálfa og vini og ættingja, sem minnisvarði um ballspilamennskuna... jú kannski þá sem sækja böllin á Catalínu. Lagavalið er harla mikið héðan og þaðan og mis danshæft og vangalögin kannski fleiri en góðu hófi gegnir. Athygli vekur að öll lögin eru erlend og líka þau er hafa íslenska texta, fyrir utan Hesta Jóa, sem er eftir Baldur Geirmundsson, BG. Það ber íslenskum höfundum ekki gott vitni. Þeir sleppa þó þokkalega frá þessu og án stórslysa, en hvergi er neitt að heyra sem bætir fyrri útgáfur, og það verður að taka viljann fyrir verkið hér. Instrumental slagarinn, Time is tight frá Booker T and the MG´s startar ballinu, en þess má geta að The Clash hafa einnig hljóritað lagið. Síðan koma þau mis skemmtileg í kjölfarið, Happy together frá Turtles, Then i kissed her, Black magic woman, Thing´s we said today, Rock around the clock, allt lög með mikla reynslu. Þarna eru líka slagarar á íslensku eins og áður sagði og vestfirðingar sem vel eru komnir til vits og ára þekkja, Þín innsta þrá og Hesta Jóa frá BG.  Stones eiga, Last time og Gary Moore á Parisienne walkways og greinilegt að þeir hika ekki við að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur. Þú ein (Love Hurts) frá Hljómum endar diskinn og þar fær sjalfur Engilbert Jensen þann heiður að syngja millirödd, þessi útgáfa sýnir bara hvað Hljómaútgáfan er góð. Það er gaman að heyra aftur í Reyni, en hann er skemmtilegur söngvari, en ákaflega lítið er til af hljóðritunum með söng hans, kannski bara sitthvor platan með Ýr og Saga Class. Rúnar syngur flest lögin og það er æði misjafnt hvað þau henta honum vel. Bestur er hann þegar hann syngur á íslensku og hann er ágætur í Út á sjó (Stuck on you), sem Guðbergur Auðunnsson söng hér í denn og hann er bara fínn í, Þín innsta þrá, en gamanið kárnar í Last time. Annars hefur Rúnar líka verið í svolitlu uppáhaldi hjá mér, þessi hrjúfa rödd er alltaf pínu heillandi, en bestur er hann í sinni eigin tónlist. Talandi um það þá sendi hann frá sér fína plötu fyrir jólin sem ég á eftir að fjalla um. Það er kannski fátt sem stingur í hlustir nema þá helst þessi íslenski enskuframburður sem er misgóður eins og gengur og menn hafa mismikla þolinmæði gagnvart. Myndin framan á disknum sýnir sveitina að spila um hábjartan dag, en hvar hún er tekin veit ég ekki. Þegar hulstrið er opnað má sjá myndir frá upphafsárum sveitarinnar og stærri mynd af sveitinni í aksjón á balli og hefði hún sómt sér betur á framhliðinni. Þá vantar alveg upplýsingar um hverjir syngja, en Rúnar og Reynir bera greinilega bróðurpartinn af söngnum, en ég heyri aðrar raddir þarna líka eins og t.d. Í Hesta Jóa. Upplýsingar um hvar er tekið upp og hver er upptökustjóri vantar alveg. Þessir kappar eru þjakaðir af reynslu úr bransanum og kunna að skemmta fólki, annars væru þeir varla enn að, hvort það nær á þennan geisladisk er annað mál, en þeir þurfa ekkert að fara með veggjum vegna þessarar útgáfu.

10.06.2019 20:20

Lucy in blue - In flight

Lucy in blue – In flight - 2019

8/10

Hljómsveitin Lucy in blue, sem kemur frá Reykjavík, sendi nýverið frá sér sína aðra plötu. In flight kallast gripurinn og inniheldur eins og fyrri platan, sækadelískt progg rokk. Sveitina skipa þeir, Arnaldur Ingi Jónsson hljómborð og söngur, Kolbeinn Þórsson trommur, Matthías Hlífar Mogensen bassi og söngur og svo hann Steinþór Bjarni Gíslason gítar og söngur. Maður sest inn í tímavél við hlustun á plötunni og er fluttur ein 50 ár aftur í tímann. Árin í kringum 1970 voru ákaflega góð og gefandi í tónlistinni og þarna kom klassíska rokkið og svo proggið, sem að sjálfsögðu er flokkað með klassíska rokkinu í dag. Við hlustun á þessa plötu leyna áhrifavaldar sér ekki,  og Pink Floyd, King Crimson, Moody Blues og fleiri koma upp í hugann. Proggið lifir góðu lífi og sveitir eins og Opeth og Katatonia frá Svíþjóð, að ógleymdri hinni bresku, Anathema hafa verið að gera það gott og hoggið í þennan knérunn. Einhverjum kann að finnast Lucy in blue draga fullmikinn dám af gömlu hetjunum og höggva fullnærri proggarfinum. Mér finnst það alls ekki og Lucy in blue er það gott band og geta þess vegna lifað sjálfstæðu lífi og eiga vissulega eftir að þróast meira og tálga sinn eigin stíl aðeins betur. Þessi plata heldur manni þó frá fyrsta lagi til hins síðasta, og þetta ferðalag til fortíðar, eða kannski betra að segja, flug til fortíðar,  er unaðsleg upplifun og dásamlegt að svífa á þessum oft melankólísku tónum og drengirnir eru fundvísir á fegurðina. Platan er rökrétt framhald af frumburðinum og það er mikið lagt uppúr heildarmyndinni og það gengur fullkomnlega upp. Ekki skemmir fyrir að hljómurinn á plötunni er frábær. Í öllum æðibunugangi nútímans er gaman að finna svona unga menn sem gefa sé tíma í að ná fram ákveðnu andrúmslofti, leyfa lögunum að anda og nostra við tónverkið svo útkoma verði sem best. Það heyrist greinilega hér. Þeir sleppa alveg við þá tilgerð sem stundum hrjáir bönd í þessum geira. Rólegt svifið er skemmtilega brotið upp með síðasta lagi á síðu eitt, Matricide, en í því má heyra keim af Art for art shake með 10cc af How dare you, og það er alltaf gaman að fá kúabjöllu í partíið. Annað skemmtilegt uppbrot á stemmningunni er síðan í hinu glettna Tempest, næstsíðasta laginu á síðu tvö. Strákarnir eru góðir hljóðfæraleikarar og eru búnir að læra það sem margir læra aldrei, að það þarf ekki alltaf að taka löng sóló til að sýna snillina. Einstök smekkvísi í öllum hljóðfæraleik er áberandi og hvert smáatriði á sínum stað. Ég verð að geta frábærs bassleiks Matthíasar á plötunni, sem er einhverskonar burðarbiti víða, og langt er síðan ég hef heyrt bassa hljóma svona vel á íslenskri plötu. Akkilesarhæll plötunnar er eins og á mörgum íslenskum plötum, söngur á ensku. Íslendingum er ekki vel lagið að syngja á ensku með nokkrum undantekningum þó. Við eigum erfitt með að láta errið hljóma sannfærandi. Setning eins og „Soaring above, a torrent of dread and woe“ (upphaf þriðja lagsins, Respire) er sterklituð af íslenska hreimnum. Víða á plötunni er söngur raddaður og þá tekur maður minna eftir þessu. Annars er söngur til fyrirmyndar, og meira um raddaðan söng en á frumburðinum, en ég myndi ráðleggja þeim að æfa framburðinn vel. Nú er það einstaklingsbundið hvaða áhrif þetta hefur á menn og suma skiptir þetta engu máli. Strákarnir eru nú fluttir til Hollands og ætla að freista gæfunnar á erlendri grund. Þeir hafa alla burði til að ná langt í progggeiranum. Frábært band með frábæra plötu sem var gefin út á bláum vinyl, auk þess finna má báðar plötur þeirra á spotify. Fallegar umbúðir og "gatefold" umslag og virkilega vandað þar til verka.

 

19.01.2019 18:14

10 bestu íslensku plötur 2018

Magnús Þór og Árstíðir – Garðurinn minn

Þetta er einkar glæsilegt kombó og glæsileg plata, hjartahlý og heillandi. Svo manneskjuleg og full af fallegum tilfinningum. Það er unaðslegt að dvelja í þessum garði og ég er ekki frá því að þetta sé hápunkturinn á ferli meistara Magnúsar... allavegana einn af þeim.

Jóel Pálsson – Dagar koma

Saxafónleikarinn snjalli, Jóel Pálsson með enn eina snilldarplötuna og þá fyrstu sungnu. Það er enginn smákall sem sér um sönginn hér, en það er enginn annar en Valdimar Guðmundsson og auk þess spilar hann á básúnu. Hér er jazzað við ljóð okkar hestu nútímaskálda, eins og t.d. Þórarins Eldjárn og Gerðar Kristnýjar. Plata sem vinnur á og verður betri við hverja hlustun.

Lost – Fastir í fegurðinni

Akureyrskt pönk/rokk af bestu gerð. Þessi skemmtilega sveit kom saman aftur eftir langt hlé og uppfærða liðskipan. Það var svo skemmtilegt að ný tónlist fæddist og sem betur fer ákváðu þeir að koma henni út. Hljómsveit með slíka framvarðasveit sem Kristján Pétur og Jóa Ásmunds getur ekki klikkað.

Benny Crespo´s Gang – Minor mistakes

11 árum eftir frumburðinn sendir rokksveitin,  Benny Crespo´s Gang frá sér aðra plötu. Skemmtileg rokk Lovísu Elísabetar (Lay Low) og félaga hennar átti greiða leið að mínu rokkhjarta. Skemmtilegar pælingar í gangi  og tónlistin tímalaus.

Hildur Vala – Geimvísindi

Eftir langa bið sendi hin frábæra söngkona, Hildur Vala frá sér sína þriðju plötu. Hún sýnir á sér nýja hlið sem lagasmiður og þar er ekki neinn byrjendabrag að finna. Hlý og manneskjuleg plata, hógvær og heillandi og eftir því sem ég eldist kæri ég mig frekar um þannig tónlist. Eitthvað sem nærir hjartað.

Hjörvar – 52 fjöll

Hjörvar með sína þriðju plötu og þá fyrstu á íslensku. Við sem munum 9. áratuginn og allar þær hræringar er þá urðu, góðar og slæmar  í tónlist getum glaðst yfir þessari plötu. Minnir eilítið á þyngri popptónlist þess tíma eins og t.d. Echo and the Bunnyman, Davið Sylvian, The Cure og svo okkar íslenska Rúnar Þórisson og Grafík. Hjörvar hefur einmitt leikið með Rúnari.

Kjass – Rætur

Hin unga söngkona, Fanney Kristjáns og Snjólaugardóttir er stórhuga og hugrökk og sendir frá sér sína fyrstu plötu undir nafninu Kjass og það var sannarlega tímabært. Það hefði örugglega vafist fyrir einhverjum að senda frá sér vinyl plötu á þessum viðsjálverðu tímum í tónlistarútgáfu en sem betur fer fékk þessi fallega plata brautargengi örlaganna. Jazzskotin, ljúf og flutningur til stakrar prýði. Ekki ómerkari menn en Tómas R. Einarsson líta við og söngur Fanneyjar er einkar heillandi. Framtíðarstjarna.

Valdimar - Sitt sýnist hverjum

Aftur kemur Valdimar við sögu og nú með sinni eigin sveit. Minnir að þetta sé 4. platan hans og alltaf kemur hann með góða og einkar áhugaverða tónlist. Flestar plöturnar hans eru „slowburners“, vinna á við hverja hlustun, en það er oft einkenni bestu platnanna og þeirra er lengst lifa.

PS & Bjóla – Plasteyjan

Önnur plata tvíeykisins Péturs Stefánssonar og Sigurðar Bjólu, en sú fyrsta kom 1987. Skemmtilegt sækadelíu/progg/popp/rokk og fyrsta lagið gæti hafa verið tekið af óútgefinni sólóplötu Dave Gilmore. Það er ekki á hverjum degi sem þessir merku tónbæður bera afurðir sínar undir almenning og mikill fengur af þessari plötu. Vandað til verka og úrvals mannskapur kemur þessu vel til skila.

Kalli Tomm – Oddaflug

Önnur plata Kalla Tomm, fyrrum Gildru trommara. Þegar Gildran hætti vildi Kalli halda áfram í tónlistinni. Þá fæddist lagasmiðurinn og söngvarinn og hann kom skemmtilega á óvart með sinni fyrstu plötu, Örlagagaldri. Hann sýnir á Oddaflugi að sú frammistaða var engin tilviljun. Honum hefur vaxið ásmegin og gott ef þetta er ekki sterkari plata á allan hátt. Vönduð og hlý plata og Kalla og aðstoðarfólki til mikils sóma.

 

16.12.2018 14:59

Jak

Stefán Jakobsson

Jak – 2018

8/10

Ég man fyrst eftir Stebba er hann söng Scorpions slagarann, Still loving you og gott ef það var ekki tengslum við söngkeppni framhaldsskólanna. Ein af þessum sjaldgæfu röddum sem gæti náð langt, hugsaði ég og í mínum huga var það aldrei spurning hvort, heldur hvenær.  Í framhaldinu var hann farinn að syngja með norlensku hljómsveinni Douglas Wilson en þeir sendu frá sér eina plötu, Stuck in a world árið 2005. Svo skemmtilega vill til að á því herrans ári sendir svo Reykvíska rokksveitin Dimma frá sér frumburð sinn, en þar átti okkar maður heldur betur eftir að koma við sögu nokkrum árum seinna og stimpla sig endanlega inn sem einn okkar besti rokksöngvari. Stúdíóplöturnar með Dimmu og Stebba eru orðnar 3 auk nokkurra tónleikaplatna. Þar fyrir utan hefur strákurinn sungið lög á plötum annara listamanna eins og t.d. eitt á síðustu Sniglabandsplötu og 2 athyglisverð lög á sólóplötu Gunna Þórða sem út kom í fyrra og kallast einfaldlega 16. Stebbi mun hafa ákveðið það fyrir þrítugt að hann skyldi gefa út sólóplötu og hér er hún loksins komin í öllu sínu veldi.

Það mun hafa verið er Stebbi söng einhver demo fyrir eurovision að hann kynnist Dóra í Legend (Halldóri Á Björnssyni) og  kemur þá í ljós að báðir virtust vera með fullar kistur af lögum sem ekki höfðu fengið þann farveg er hæfði. Eitt leiddi af öðru og markið var sett hátt og hugur var í mönnum að gera plötu. Fljótlega sá Stebbi að hann hefði ekki þá reynslu í textagerð til að halda uppi þeim gæðastandard sem hann var búinn að setja sér og leitaði því til vinar síns, Magnúsar Þórs Sigmundsson, en þeir hjálpast ýmist að við textagerðina eða Maggi semur einn.

Meðreiðarsveinar og meyjar okkar manns eru ekki að verri endanum og áður hefur verið nefndur til sögunnar Halldór Á Björnsson úr Legend, en það hefii alveg eins verið hægt að titla hann fyrir afurðinni eins og Stebba. Hann á einn 7 lög auk þriggja sem sem þeir Stebbi semja saman. Hann spilar á píanó og synta og er ábyrgur fyrir heillandi og epískri hljóðmyndinni. Birkir Rafn Gíslason skilar gítarhlutverkinu af stakri prýði, Birgir Jónsson er klettur á bak við settið og hinn magnaði bassaleikari, Hálfdán Árnason er akkúrat það, magnaður. Á þessum drengjum mæðir mest en fleiri koma við sögu.

Þó þetta sé ekki endilega líkt hvorki Dimmu eða Legend þá er auðvitað skarast hljóðheimar beggja sveita hér og það er bara gott og gilt. Platan er mest öll í þessu miðjutempói  sem var til að byrja með til þess að þetta rann svolítið saman og ég var ekkert alveg að kaupa þetta í byrjun, enda er þetta mikil og stór plata sem ekki verður gleypt í einum munnbita. Lögin eru flest svipuð að uppbyggingu, malla flest í hægagangi til að byrja með og það skapast spenna, síðan springa þau út með flugeldasýningu og þó dramatíkin verði mikil á stundum, verður hún aldrei óþægilega yfirþyrmandi eða væmin. Eftir nokkrar hlustanir fóru lögin að koma til manns á sínum forsendum og skjóta rótum og setjast að í hugskotinu og hér er fullt af flottum lögum. Bræðingur af rokki poppi og nýrómantísku kuldarokki.

Það verður þó að segjast að fyrri hluti plötunnar er ívið sterkari en sá seinni en alls ekki þannig að það skekki heildarmyndina. Stebbi selur manni þetta allt með sannfærandi og einlægri túlkun og hann fær að njóta sín vel hér og sýna allar sýnar bestu hliðar sem sá frábæri söngvari sem hann er. Það ásamt flottum lögum og flutningi, skilar plötunni í þann gæðaflokk sem hæfir.

Þeir eru frekar dimmir sumir textarnir en ég býst við að margir geti samsvarað sig í þeim. Hann gerir upp við fortíðardrauga og reynir að finna sig í brothættri  tilveru  gleði og sorgar, en alltaf greinir maður von. Eitt fallegasta lagið á plötunni er hið magnþrungna, Vatnið, en þar gerir hann upp við slys sem varð á Mývatni í lok síðustu aldar og fær aðstoð við textagerðin frá hagyrðingnum og sveitunga sínum, Friðriki Steingrímssyni. Hið stórgóða lag, Ánauð, náði manni einna fyrst og er kannski augljósasti hittarinn á plötunni.  Flóttamaður gæti líka náð langt á öldum ljósvakans, en þar sem ég sygli lítið á þeim öldum veit ég ekkert um stöðu þeirra mála. Bandið er þétt og gott og eins og áður hefur verið minnst á mæðir ekki hvað síst á Halldóri sem tekst hér að skapa hljóðheim við hæfi.

Kannski má segja að Stebbi sé á þessari plötu sinni á svipuðum stað í ferlinum og Eiki Hauks var er hann gaf út sína sólóplötu forðum, en plata Stebba hittir vissulega betur í mark, því plata Eika, þrátt fyrir ágæta spretti, var skot í myrkri. Smekklegar umbúðir prýða síðan þennan grip.

Hefði alveg vilað fá meira frá Stebba  sjálfum sem lagasmið, en það verður bara næst. Kraftmikil, dramatísk, einlæg og heiðarleg rokkplata frá einum okkar besta söngvara og mögnuðum meðreiðarsveinum og meyjum. 

16.11.2018 14:11

Sacred Blues

Tholly´s Sacred Blues Band

Sacred Blues – 2018

8/10

Það mun hafa verið 2003 sem Blúshljómsveit Þollýjar verður til, en þá kynnast söngkonan Þollý Rósmunds og gítarleikarinn Magnús Axel Hansen í fjallgönguferð. Fljótlega kemur trommarinn Benjamín Ingi Böðvarsson til sögunnar og um bassaleik til að byrja með sáu m.a. þær Herdís Hallvarðs fyrrum Grýla og Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir sem við þekkjum betur sem Lay Low. 2009 kemur svo Jonni Richter á bassan, reynslubolti úr rokkaðri hlið bransans og átti feril með Árblik, Stálfélaginu og Exizt svo eitthvað sé nefnt. Þannig skipuð (Þollý, Magnús, Benni og Jonni) sendir Blússveitin frá sér sína fyrstu plötu, My dying bed árið 20119. Textarnir eru margir  á trúarlegum nótum og mætti  kalla þetta gospelblús, en þau taka gjarnan sálma og gospellög og setja í blúsbúning auk blússlagara og fumsamins efnis.  Útfærslan er á stundum vel rokkuð og jafnvel metalskotin og um margt var þessi frumburður einkar athyglisverður.

Margur vatnsdropinn hefur til sjávar runnið síðan sú plata kom og nýjir spilarar komnir í áhöfn blúsdrottningarinnar og þeir sannarlega ekki af verri endanum. Friðrik Karlsson hefur leyst Magnús af hólmi á gítarinn og Fúsi Óttars er kominn á bak við trommusettið. Þá er Sigurður Ingimarsson kominn á rhytmagítar auk þess að syngja eitt lag, en Kapteinninn kom lítillega við sögu á frumburðinum þar sem hann spilaði á munnhörpu  í einu lagi. Jonni er svo hér ennþá á bassanum og gerir góðan félagsskap fullkominn.

En er þetta ekki bara hefðbundinn blús, er nokkuð verið að matreiða nýja spennandi rétti hér. Hvað er þá svona heillandi?... er þetta ekki bara enn ein klisjukennda blúsplatan? Því er til að svara að þetta er alls ekki óhefðbundin og frumleg blúsplata , (enda gera sennilega fáir kröfur um að fá frumlegar blúsplötur og við blúsunnendur óttalegir pappakassar hvað það snertir) og við höfum heyrt þetta allt áður. En málið er bara ekki svo einfalt og það er þetta aukakrydd sem oft skilur á milli feigs og ófeigs í bransanum sem hér er til staðar, þetta extra sem oft er ekki auðvelt að átta sig á í fyrstu hvað er, en bragðbætir réttinn svo um munar. Þessi auka sigurvilji sem bjargar frá að missa leikinn í steindautt jafntefli. Eitt af því sem ræður úrslitum um hvort ég nenni að hlusta á nýjar blúsplötur er t.d. hvernig hljómurinn  á henni  er og eitt það fyrsta sem ég tók eftir hér er frábær hljómurinn á plötunni, og hann grípur mann og umfaðmar og platan er frábærlega unnin í alla staði. Upptökumaður var Ásmundur Jóhannsson, en um hljóðblöndun og masteringu sá Jói Ásmunds. Það verður bara að segjast að þessi plata kemur mér töluvert á óvart, því hér eru framfarir miklar á milli platna, kannski svona svipað og fara úr 1. deild í úrvalsdeildina. Bandið frábærlega þétt og hér er bæði dínamik og grúv til staðar og þetta tekið á annað level, svo maður leyfi sér að sletta aðeins.

Blús af ýmsum gerðum úr ýmsum áttum sem verður til þess að platan verður aldrei þreytandi og leiðinleg. Rúmur helmingur laganna kemur frá hljómsveitarmeðlimum og er Þollý þar atkvæðamest með 5 lög. Kapteinninn á síðan eitt og Friðrik eitt og það verður að segjast að lög þeirra þremenninga standa hinum erlendu ekkert að baki nema síður sé.  Það er sneitt hjá þekktum slögurum sem allir eru búnir að hljóðrita hundrað sinnum ef frá er skilið bónuslagið Albatros frá Peter Green. Þar er engu bætt við fyrri útgáfur, en smekklega gert engu að síður. Minnir að Tryggvi Höbner hafi einnig gefið þetta  sama lag út fyrir nokkrum árum, og þar með eigum við allavegana tvær íslenskar útgáfur. Sem dæmi um að ekki sé ráðist á þreyttustu blúsbykkjurnar má nefna að það er lítt þekktur blús, Who will be next, úr smiðju meistara Howling Wolf (Chester Burnett) sem startar plötunni á hressilegan hátt (Annars er líttþekktur blús kannski ekki frábrugðinn blússlagaranum þegar allt kemur til alls) Blásarasveitin sem aðstoðar í tveimur  lögum, er þarna kynnt til sögunnar, þeir Jens, Ívar og Jón Arnar, og maður fær það á tilfinninguna að ekkert geti klikkað í framhaldinu. Vel til fundið að breikka aðeins hljóðheiminn með blásurum. Einnig kemur Hjörtur Howser við sögu á hljómborð og það er vel þegið krydd í hljóðmyndina. Siggi Kapteinn brýtur plötuna  skemmtilega upp á réttum stað í lagi sínu, Oh Lord, þvílíkur fantasöngvari.

Annar er hér einn sem kom mér  á óvart á einhvern hátt, og hefst þá Friðriks þáttur Karlssonar gítarleikara. Ég veit nú ekki afhverju hann kom mér svona á óvart, einn af okkar bestu og virtustu gítarleikurum og sem fyrir löngu er búinn að gera garðinn fægan og sanna sig. Kannski átti ég ekki von á að hann tæklaði blúsgítarleik svona smekklega og sneiddi þetta líka snyrtilega framhjá öllum gildrum. Þá rifjuðust upp smekkleg tilþrif hans í Jakarta dreams með Messoforte og allt kom heim og saman, og hugleiðslugítarplöturnar 100, gleymdust. Blúsgítarleikur á nefnilega ekki að vera eitthvað kapphlaup um að spila sem flestar nótur á sem skemstum tíma eins og sumir gítarleikarar halda. Ok, tónninn er frekar rokkaður á stundum, en það er mikil sál og tilfinning í gítarleik Friðriks og þá kemst maður nú upp með margt og það er þessi smekklega yfirvegun sem er alveg óskaplega heillandi í spilamennsku hans, láta gítarinn gráta fáar nótur. Það er helst í Mr Abuse sem hann hleypir klárnum aðeins á skeið.

 Hver sú hljómsveit sem hefur afnot af hæfileikum Fúsa Óttars telst heppinn því leitun er af slíkum afbragðstrommara sem getur spilað nánast hvaða tegund tónlistar sem er. Rhytmaparið hér er því í dýrari kantinum því annar eins bassaklettur og Jonni Righter er vandfundinn. Svo er það þetta náttúruafl sem Þollý sjálf er, dökk og mikil rödd sem maður meðtekur ekki strax, en guð hvað hún verður sjarmerandi við nánari kynni.

Þetta er flott blúsplata í rokkaðri kantinum og sannarlega með þeim betri sem út hafa komið hérlendis. Eins og góð sunnudagssteik hjá mömmu, þú villt ekki hafa steikina eitthvað frumlega og öðruvísi en síðast, bara með þessu extra braði sem gerir mömmusteik svo góða. Magnað band með flotta söngkonu, en ég væri alveg til í að heyra hana á íslensku. Hér eru allir textar á ensku eins og á fyrri plötunni. En hér er allt gert  með ást, tilfinningu og trúarhita og þá getur ekkert klikkað.

Umbúðirnar einfaldar og smekklegar, en kannski það sísta við þennan hörku blúspakka.

14.11.2018 20:18

Eiífa tungl

Guðrún Gunnarsdóttir

Eilífa tungl - 2018

8/10

Ég held ég sé ekki að ljúga miklu þegar ég segist fyrst hafa séð nafn Guðrúnar Gunnarsdóttur á plötunni Spilduljónið með hljómsveitinni Svefngalsar sem kom 1986. Í Svefngölsum voru meðal annars Níels Ragnarsson hljómborð, Sigurgeir Sigmundsson á gítar og Stefán Stefánsson saxafónleikari. Myndin framan á plötunni var athyglisverð, en ekki hvetjandi til kaupa, en þar var hljómsveitin utan á Ferguson traktor, spilduljóninu. Ekki man ég fyrir mitt litla líf hvernig sú plata hljómar, og þá hverslags músík þar var á ferðinni, enda skiptir það svosem engu máli hér. Væntanlega var þetta ein fyrsta platan sem stúlkan söng inná.

Guðrún er fyrir löngu búin að syngja sig inn í hug og hjörtu tónelskra íslendinga og getur þar með talist ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar. Hún gerði lengi vel tónlist þeirri er Ellý Vilhjálms söng til frægðar góð skil, bæði á plötu og fjölmörgum tónleikum. Það hefur kannski verið minna fyrir Guðrúnu að gera á því sviði eftir að Ellý líkamnaðist í Katrínu Halldóru eins og frægt er orðið. Þá er hún kunn fjölmiðlamanneska eins og alþjóð veit, en mér finnst toppurinn hjá henni þar vera þegar hún neitaði að taka viðtal við klámmyndaleikarann Ron Jeremy um árið. Þar fékk hún prik í kladdann frá mér.

Eilífa tungl er 6. sólóplata söngkonunnar og sú fyrsta í 9 ár, en þá gerði hún tónlist sænska vísnatónskáldsins Cornelis Vreesvijk góð skil. Við þekkjum Guðrúnu úr allskonar tónlist í gegn um tíðina , en sennilega má alveg með góðu móti titla hana vísnasöngkonu, eða kannski réttara að segja ljóðasöngkonu, og þar liggja ræturnar. En hér uppi á litla Íslandi þarf tónlistarfólk að vera fjölhæft og Guðrún er að sjálfsögðu dægurlagasöngkona í bestu merkingu þess orðs.

Undir formerkjum vísnatónlistar kemur einatt hlý og manneskjuleg tónlist, blátt áfram og heiðarleg, þar eru flytjendur ekkert að þykjast og í besta falli skilur hún mann eftir hugsandi um fjölbreytileika tilverunnar og hvað við erum mikils virði hvert öðru í fallvöltum heimi. Lag og ljóð heldur yfirleitt vel við hvort annað og samhljómurinn er málið. Þannig er þessi plata og notalegheit er útganspunktur hér. Guðrún neglir þetta sjálf í viðtali við Vikuna er hún segir: „ Þessi plata er róleg með góðum textum, góðum lögum og góðum hljóðfæraleikurum. Akkúrat svona plata sem ég myndi sjálf vilja setja á fóninn heima“. Annarsstaðar segir hún eitthvað á þá leið, að stuð sé ofmetið fyrirbæri, og eftir því sem aldurinn færist yfir mann verður maður sannfærðari um það.

Platar byrjar á einu fallegasta lagi úr ljúfu deildinni sem ég hef lengi heyrt, en þar fara einstaka vel saman, fallegur texti Braga Valdimars og lag Haraldar V. Sveinbjörnssonar og falleg og næm túlkun Guðrúnar.

Því lífið er svo stutt, svo stutt

stokkaðu vel þín spil

Það fæst ekki endurflutt

svo faðmaðu það – meðan tími vinnst til.

Annars er tæplega helmingur laganna, ný íslensk lög. Skagfyrðingurinn Sveinn Arnar Sæmundsson, organisti  á Akranesi á hið fallega titillag plötunnar en textann Sigurbjörg Þrastardóttir. Ásgeir Ásgeirsson gítarleikari á eitt og útgefandinn Aðalsteinn Ásberg á eitt lag og texta auk tveggja texta við erlend lög. Annan við skoskt þjóðlag sem margir hafa spreytt sig á og er þekkt undir a.m.k. þremur nöfnum, en  Wild mountain tyme ef til vill kunnast, hér heitir það Kondu með, komum nú. Sama lag kom út á plötu í fyrra með þjólagasveitinni Kólgu, en þar heitir það, Þar sem beytilingið grær.. nóg um það.

Annars talandi um Aðalstein Ásberg, þá hefur hann í gegnum árin vera mikilvægur í vísnatónlistarsenunni, bæði sem laga og textahöfundur, en ekki síður sem útgefandi, að ógleymdum útvarpsþáttum um þessa tónlist. Hið rómaða samstarf þeirra hjóna, Aðalsteins og Önnu Pálínu heitinnar er unnendum gæðatónlistar af þessum meiði,  í fersku minni og skilaði af sér nokkrum frábærum plötum sem gott er að geta sótt í. Lag  Aðalsteins, Með storminn í fangið, sem er eitt besta lagið á plötunni minnir um margt á samstarf þeirra hjóna.

Jón Þorsteinsson á Vor í Þórsmörk við texta Guðjóns Helgasonar, en hvorugan þeirra kannast ég við. Þar syngur Svavar Knútur með Guðrúnu og ég geri ekki ráð fyrir að það komi nokkrum sem til hans þekkja á óvart, að hann gerir ákaflega vel.

Svo eru hér eldri íslensk lög, annað þeirra lítið þekkt lag eftir Sigvalda Kaldlóns, Vöggubarnsins mál við ljóð Guðfinnu frá Hömrum og svo gamalkunnugt Eyjalag etir Oddgeir Kristjáns og Ása í Bæ, Vögguvísa (Ég vildi geta sungið þér), en það er eitt af lögunum sem Svanhildur söng á hinni rómuðu Eyjaplötu Sextetts Óla Gauks. Sú mæta plata varð einmitt fimmtug á þessu ári og ef ég man það rétt tók Guðrún þátt í afmælistónleikum af þess völdum. Smekkleg útgáfa af þessum gamla gullmola sem manni er ekki sama um hvernig er leikið og ekkert stenst samanburð við Óla Gauks útsetninguna.

Af erlendu lögunum finnst mér standa uppúr lag hins norska Lars Bremnes, sem hér heitir, Ótækt lag. Þau Bremnes systkynin hafa getir sér gott orð í norskri vísnatónlist og sennilega er Kari Bremnes þeirra þekktust og á margar fyrirmyndarplötur að baki. Þá er hið fallega Galileo, eftir Írana Declan O´Rourke og Seamus Kotter,  velheppnað. Declan er rísandi stjarna og menn keppast við að hlaða hann lofi. Sjálfur Paul Veller lét hafa það eftir sér í tónlistartímariti að af lögum síðustu tveggja áratuga væri Galileo það lag sem hann vildi óska að hann hafi samið og Eddy Vedder  taldi hann eitt sinn vera eitt besta söngvaskáld samtímasns. Hér svífur léttur jazzandi yfir og lagið gæti alveg ein verið tekið úr amerísku söngbókinn frá miðri síðustu öld. Síst á plötunni finnst mér lokalagið eftir þá Björn og Benny.

Annars er ég bara glaður með þessa plötu og hún hentar mínu tilfinningalífi mjög vel. Aldraðri móður minni sem hugnast einmitt svona tónlist spurði mig hvort mér fyndist lögin ekki alltof lík hvert öðru og stemmningin þreytandi. Nú er ég af þeim gamla skóla að ég set plötur á fóninn eða í spilarann, sest niður og hlusta, les textana og lifi mig inn í tónlistina. Margir í dag nota tónlist bara sem hljóðrás í bakgrunninum og eru að brasa í hinu og þessu á meðan. Taka þá ekki eftir einkennum hvers lags og allt verður að sama grautnum í sömu skálinni. En það er rétt að það er sterkur heildarsvipur yfir plötunni, en lögin, þó komi úr sitthvorri áttinni hæfa hvert öðru einstaklega vel. Þessi plata er hlý og umfaðmandi og hentar einkar vel í bláu skammdegisrökkrinu við lámarks ljósmengun, er veturinn grobbar sig fyrir utan gluggann. Laus við væmni og sýndarmensku. Ég er alltaf til í að kaupa það.

Hljómsveitin sem tekur þátt í þessu veit hvað til síns friðar tilheyrir og hefur sig lítið í frammi þannig lagað og falleg rödd Guðrún dregur plötuna áfram. Ég hefði alveg sætt mig við frekari tilþrif, meiri hljómsveitarplötu því hér eru toppmenn í hverri stöðu sem kunna sitthvað fyrir sér. Gunnar Gunnarsson leikur á píanó, Ásgeir Ásgeirsson spilar á gítar, Hannes Friðbjarnarson trommar, Þorgrímur Jónsson plokkar bassann svo þeir helstu séu upptaldir. Þetta er þó þannig að ég sætti mig vel við útkomuna og eins og venjulega er hægt að gera hlutina endalaust á einhvern annan hátt.

 Svona var þetta gert og það eitt skiptir máli, smekklegheitin í fyrirrúmi, en kannski er það sem gerir þessa plötu svo áheyrilega sem raun ber vitni að hún er falleg, heiðarleg og sönn og svona tónlist er sannarlega nauðsynleg til að gera harðneskjulegan heiminn að aðeins betri stað að búa í.

Ég verð að játa að frekar kaldar umbúðirnar henta ekki hlýju innihaldinu. Það er eitthvað við þetta fókus misræmi hjá Danna ljósmyndara ( sem vel að merkja er frábær ljósmyndari) sem truflar mig, en hluti af myndinni af Guðrúnu framan á umslaginu er ekki í fókus og finnst mér þetta koma frekar illa út eins og þetta er gert hér. Ég vil taka það fram að ég hef ég nú ákaflega lítið vit á ljósmyndun og eflaust á þetta að vera arty og töff og ég bara gamall nöldrandi kall. En ég hef bara ekki smekk fyrir þessu og finnst þetta skemma umbúðirnar

 

 

30.09.2018 21:21

Útvarp Satan

Austurvígstöðvarnar

Útvarp Satan

9/10

Pönksveitin Austurvígstöðvarnar rekur ættir sínar til Austurlands þó höfurpaurinn, séra Davíð Þór Jónsson ukulele leikari, sé væntanlega borinn og barnfæddur á suðvesturhorninu og kannski fleiri af þessu góða fólki. Sveitina skipa auk Davíðs, þau Jón Knútur Ásmundsson (trommur), Jón Hafliði Sigurjónsson (gítar), Díana Mjöll Sveinsdóttir (söngur) Helga Elísabet Beck (bassa) og Þórunn Gréta Sigurðardóttir (hljómborð).  Það hafa komið prýðilegar pönksveitir frá austurlandi í gegnum tíðina og má í því sambandi nefna Niturbasana, Gleðisveitina Döðlur og Kóngulóarbandið, en þessar sveitir sendu allar frá sér plötur á 10. áratug síðustu aldar ef ég man rétt. 

Austurvígstöðvarnar eru ekki endilega svo líkar þessum sveitum enda er aldursmunur töluverður. Í fyrrnefndu sveitunum voru menn vart komnir af unglingsaldri en hér er fólk sem er þjakað af reynslu hinnar miðaldra manneskju þó unggæðinglegur hráleikinn sé til staðar sem betur fer. Það er samt aðalega munur á textagerðinni sem skilur á milli ef maður leifir sér að halda samanburðinum áfram. Hárbeitt ádeila á „fyrirmyndarþjóðfélagið Ísland“  er hér í fyrirrúmi og ég verð nú bara að segja að mikið hef ég saknað þess að einhver hafi haft rænu á því að segja okkur til syndanna í textum og tónlist, og hvað er betra en að gera það í hressu pönki og ég er sannarlega tilbúinn að hlusta á presta „messa“ á þennan hátt. Annars hef ég alltaf lagt við hlustir eða lesið ef Davíð hefur komið í viðtöl eða skrifað eitthvað,  því hann hefur skemmtilega sýn á heiminn og er geysilega rökfastur.

Það fyrsta sem tekið er eftir er nátturulega titillinn á plötunni og hvernig hann er settur upp. Þar er hæðst  að Útvarpi Sögu, en sú undarlega útvarpsstöð fær það líka óþvegið í textum a.m.k. tveggja laga og ég get ekki sagt að ég gráti það. Eftir að ég eignaðist þessa plötu safnaði ég kjarki í nokkra daga til að hlusta á þessa umdeildu útvarpsstoð eftir margra ára aðskilnað, því mig langaði að heyra með eigin eyrum hvað þarna færi fram. Það er skemmst frá því að segja að þegar ég skipti um stöð var ég orðinn lífsleiður og dapur, og alveg miður mín lengi fram eftir degi.  

Já, hér er fast skotið og þó merki sveitarinnar sé skýrskotun í fána sovétríkjanna, gítar og sigð, þá fá meira að segja vinstri menn  gusu yfir sig í laginu, Gröð í völd. Davíð Oddson fær sinn skerf í Upplitsdjarfur álþýðupiltur (Ég lýg), sem og Þjóðfylkingin í Þrammað í stígvélunum. Það er deilt á „Innlits – útlits“ þætti allra stöðva í laginu,  Ósmekkleg sýning á auð og svona mætti áfram telja því ádeilunni linnir ekki.  Allir textarnir eru eftir Davíð og oft fer hann á kostum á því sviði. Hann á einnig öll lögin fyrir utan þrjú, en m.a. á Steinn Ármann Magnússon fyrrum félagi hans í Kátum piltum og Radíusbróðir eitt lag og finnska tónskáldið Veikko Samuli, en ég varði heilu síðdegi youtube í að finna út hvað af lögum hans er hér undir nafninu, Æstir ásta. Það tókst ekki en nokkur komu til greina.  

Það er hér boðið uppá 16 hressileg pönklög og ekki teknir neinir fangar. Platan rétt skríður yfir hálftímann, sem er alveg mátuleg plötulengd fyrir athyglisskertan nútímamanninn. Davíð syngur með sinni hrjúfu rödd sem passar einkarvel í þetta púkk en á móti kemur há og hvell rödd Díönu Mjallar og þessar tvær ólíku raddir mynda skemmtilegan kontrast sem er stór hluti af töfrum plötunnar. Annað sem kemur einkar skemmtilega út er hljómborðsleikur prestfrúarinnar Þórunnar Grétu sem setur stundum nýbylgjulegan bæ á tónlistina sem gefur henni aukna vídd. Sum lögin gætu alveg eins verið úr söngleik, eða hafa þannig blæ á sér, en það er síður en svo til vansa og kannski væri pönksöngleikur málið. Þau Jón Knútur, Jón Hafliði og Helga Elísabet standa síðan fyllilega fyrir sínu, en einhverjum kann að finnast spilamennskan full vönduð fyrir pönk, og hljómurinn fullgóður, en Jón Ólafsson var upptökustjóri. Mér finnst það aldrei til vansa ef vandað er til verka,  og þetta kemur bara einstaklega vel og skemmtilega út. Lögin eru auðvitað missterk og misföst í pönkhefðinni, en öll á því plani að það þarf ekkert að skippa nokkru þeirra og hér er sterk og kraftmikil heild í boði og maður er kominn með krepptan hnefann í lokin, tilbúin í uppreisn.

Margir verða hræddir er þeir heyra orðið pönk og kannski hafa fáar tónlistarstefnur mætt meiri fordómum. Það er fátt hallærislegra en dæma tónlist út frá merkimiðanum, en bæði ég og fleiri hafa örugglega lent í því. Man alltaf eftir manni sem ég hitti forðum, sem sagðist ekki hlusta á Geirmund þar sem hann hlustaði ekki á jazz. Hann tengdi skagfirsku sveifluna (swing) eðlilega við jazz. Ég reikna hinsvegar ekkert með að hann hafi borið skaða af að hlusta ekki á Geirmund, með fullri virðingu fyrir honum.

Hér er ekkert að óttast og engir subbulegir hrækjandi pönkarar með hanakamb og litað hár, en hárbeittir og þeim liggur mikið á hjarta og hafa margt fram að færa. Ég hvet alla til að kynna sér þessa bráðskemmtilegu plötu, hvort sem menn kaupa sér geislaplötu, vinylplötu, eða hlusta á spotify.  Vel þeginn og hressadi andblær í íslenska tónlistaflóru og löngu kominn tími til að einhver rífi kjaft á kostnað ástartextanna, þó ástin sé alltaf að endingu málið. Nægt er yrkisefnið og vonandi kemur meir út með þessari skemmtilegu sveit í þessa veru.

Eins og ég sagði áður er snúið skemmtilega út úr lógói Útvarps Sögu á umslaginu og þar má einnig  finna tilvísanir í frumherja íslensku pönksenunnar, Fræbbblana, með appelsínugula litnum. Það er við hæfi að nikka til frumherjanna.

26.08.2018 14:23

Volta - Á nýjum stað

 

 

Volta - Á nýjum stað

7,5/10

Hljómsveitin Volta er stofnuð 2015 á Akureyri  með það að markmiði að spila eingöngu frumsamda tónlist og leyfa sköpunargleðinni að njóta sín. Hljómsveitina skipa þeir Aðalsteinn Jóhannsson sem spilar á bassa og semur lög og texta, Heimir Bjarni Ingimarsson  sér um sönginn, spilar á kassagítar og á þrjú lög og texta, Ingvar Leví Gunnarsson spilar á rafgítar og það gerir Jóhannes Stefánsson líka, Arnar Scheving á trommur og Hans Friðrik Hilarius Guðmundsson spilar síðan á Hammond.

Tónlistin er í klassískum „feelgood“ popp/rokk stíl með viðkomu í kántrí og folk rokk ef það segir einhverjum eitthvað. Frekar afslappað yfirbrað og flest lögin í millitempói eða rólegri kantinum. Við fyrstu hlustanir heyrðist að hér væru menn ekkert að finna upp hjólið, en það heyrðist að hér væru drengir sem sitthvað kynnu fyrir sér. Það er nefnilega margt ákaflega snotur hér og virkilega áheyrileg lög í boði hér innan um, þó ekki sé það frumlegt.

 Farið er ákaflega vel af stað í titilaginu Á nýjum stað og mikið vildi ég að þeim hafi borið gæfu til að hafa alla plötuna á íslensku, því mér finnst það trufla flæðið að hafa texta bæði á íslensku og ensku, auk þess sem íslenski hreimurinn hjálpar ekki til. Platan hefði nefnilega orðið sterkari á íslensku. Ég blæs á þær röksemdir að það sé svo erfitt að semja texta á íslensku og afhverju ætti að vera auðveldara að semja á einhverju öðru tungumáli. En nóg um það, þetta er ekkert þess valdandi að platan verði óáheyrileg og það er öllu hægt að venjast, en hitt hefði bara lyft plötunni uppá annað plan. Climbing upp on the the wall er dálítið Jet Black Joe legt, svona „feelgood“ slagari og eins og í gegnum plötuna setur hammondinn skemtilegan svip. Trail back home er fallegt lag og eitthvað sálmalegt við það... einhverskonar folk/kántrí/gospel fílingur í gangi. Fuglabúrið er rokkari af bestu gerð og textinn varð til eftir heimsókn í kvenna fangelsið hér á Akureyri, hvar hljómsveitin spilaði. Eitt besta lagið á plötunni er Betrun, en textinn fjallar um samband Aðalsteins við konu sína sem komið var á endastöð... látlaust og fallegt lag. Help me this way er fínt lag og hef ég Aðalstein sjálfan sterklega grunaðan um að syngja lagið, en það er ekki tekið fram á umslaginu. En eins og viða á plötunni finnst mér trommurnar vera of aftarlega í mixinu og þær virka stundum hálf kraftlausar, sérstaklega snerilsándið, en þetta er víða í góðu lagi.

Annars er hljómurinn bara fínn, en Haukur Pálmason er upptökustjóri á plötunni. Kristján Edelstein kemur við sögu sem hljóðfæraleikari og Andrea Gylfadóttir ljær hinu ágæta lokalagi, Time waits for no one rödd sína og liftir því uppá annað plan, og fleiri góðir koma við sögu. Hljómsveitin er virkilega góð og ákaflega smekkleg spilamennska hér í boði og allt í góðu jafnvægi. Heimir er náttúrulega frábær söngvari og skilar sínu af stakri prýði og það hljóta að vera forréttindi að starfa í bandi með svona stórsöngvara. Eitt og annað hefði auðvitað mátt betur fara en  ég er bara nokkuð sáttur við þessa plötu og það var sannarlega betur af stað farið en heima setið. Umbúðirnar eru smekklegar.

18.07.2018 21:09

Eistnaflugshugleiðingar

 

Jæja, maður er við það að vera búinn að jafna sig eftir Eistnaflugið sem lauk á sunnudagsnóttina með dansiballi. Þriðja hátíðin okkar hjóna og ég ber mikla virðingu fyrir Þóru minni taka það í mál að fara á þessa hávaðasamkomu sem Flugið vissulega er. Ég verð nú líka að játa að þó mér sé rokkið í blóð borið þá er ég af þeim gamla skóla að vilja hafa melodíur í minni tónlist og það gerir lítið fyrir mig að menn standi bara á öskrinu og geti spilað voða hratt, eða skvetti svínablóði fram í salinn. Ég hef samt verið sáttur við flugið fram að þessu, því það hefur verið mátulega fjölbreitt og flestir ættu að hafa fundið þar tónlist við sitt hæfi og stundum uppgvötar maður eitthvað nýtt. Veðrið lék við veislugesti yfir hátíðina og einhvernveginn verður góða veðrið betra á austurlandinu en á Akureyrinni. Miðvikudagurinn og fimmtudagurinn voru bara með þeim betri dögum veðurfarslega séð sem ég hef upplifað á landinu bláa. En að hátíðinni og því helsta er vakti athygli mína.

Það voru heimamenn sem riðu á vaðið á miðvikudeginum, en miðaldra pönkararnir í DDT Skordýraeitur hófu hátíðina af krafti og voru bráðskemmtilegir. Þar innanborðs er norðanmaðurinn Arnar Guðmunds, en við sem sóttum öldurhús á Akureyri á fyrri hluta 10 áratugar síðustu aldar könnumst við kappann sem trúbador í Kjallaranum og víða.. Coney Island babys tóku síðan við af þeim og komu mér á óvart, virkilega flott band sem einnig er frá Neskaupsstað, en þeir spila eitísskotna og á köflum Nick Cavelega popp/rokk músík. Um kvöldið voru það Tappi Tíkarrass, Vintage Caravan og Legend sem heilluðu, en smá rafmagnsvandræði voru að gera vart við sig annað slagið. Legend er orðið alvöruband og mun rokkaðri en í byrjun ferils og þeim fer það bara mjög vel. Fimmtudagurinn var níðþungur og þar kannaðist ég ekki við neina flytjendur aðra en VC sem slúttuðu. Þar vöktu þó athygli hin íslenska Une Misére, sem full orku þeyttist um sviðið og krafturinn var ofboðslegur. Danirnir í Hatesphere voru hressir og sænsku blackmetal strákarnir í Watain með sitt svínablóð nógu djöfullegir fyrir viðstadda. Þegar komið var fram á föstudaginn hugsaði ég gott til glóðarinnar því fimmtudagurinn gerði lítið fyrir mig þannig lagað og sólin þá meira freistandi en myrkrið í tónleikasalnum og í tónlistinni og það fannst greinilega fleirum. Hemúllinn reið á vaðið á föstudeginum og var alveg frábær, hæðinn, beinskeyttur og virkilega fyndinn í sinni sérkennilegu tónlist. Kvöldið áður horfði ég á fyrrum borgarstjórakandidat í Tappanum en nú fékk ég að sjá alvöru bæjarstjóra, en fyrir Saktmóðugi fer Karl Óttar nýskipaður bæjarstjóri Fjarðabyggðar og þeir klikkuðu ekki frekar en venjulega. Um kvöldið kom svo Glerakur, en ég beið spenntur eftir að sjá þá merku sveit sem sendi frá sér magnaða plötu á síðasta ári. 4 gítarleikarar mynduðu þéttann og háværan gítarvegg og tónlistin var áhrifamikil og seiðandi. Sólstafir tóku síðan við keflinu og skiluðu sér í mark af miklu öryggi. En eins og mér finnst Sólstafir fínt band þá er oftast alveg á mörkunum að ég hafi þolinmæði í heila tónleika með þeim, enda vilja þeir dragast á langinn. En þar fer frábær sveit í stöðugri þróun. Þá var komið að annari af þeim sveitum sem drógu mig á Flugið, en það var Liverpool krakkarnir í Anathema. Hef fylgt þeim að málum síðan 95 og það er ein af þessum böndum sem eru í stöðugri þróun. Byrjaði sem dauða/doom metalband en þróaðist síðan meira í gothic og svo progg og ef til mætti segja að bandið spili poppskotið proggrokk í dag. Þau stóðu sannarlega undir væntingum og vel það, en þar sem fáir virðast þekkja þetta band var salurinn frekar þunnskipaður sem var sorglegt. Þegar ég mætti út í veitingatjaldið eftir settið þeirra var það fullt og allir að syngja "holy diver" er Andrea Jónsdóttir grjóthafi Eistnaflugs og plötusnúður, skellti yfir líðinn. Með fullri virðingu fyrir bæði Dio og Andreu fannst mér skjóta skökku við að discotekið í tjaldinu væri að keppa við tónleikasalinn með gömlum misþreyttum rokklummum, og spurning um að það fari seinna af stað. Þarna var komið fram yfir miðnætti og tími fyrir gamalt edrúfólk að koma sér í bólið.

Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur og álitlegasta dagskrá framundan. Hinar umdeildu Austurvígsstöðvarnar, pönksveit séra Davíðs Þórs og félaga startaði dagskránni af krafti, en þau hafa nýverið sent frá sér plötuna Útvarp Satan, hvar skotið er grimmt á Útvarp Sögu og margt annað. Mér fannst þau einna skemmtilegasta atriði hátíðarinnar, virkilega þétt band með einkar beinskeytta ádeilu í textum sínum. Við af þeim tók svo hin íslenska Alchemia, en þeir flytja melódískt tuddarokk og vænkaðist nú hagur þeirra er meira eru fyrir melódíuna en bara hávaðann og skiluðu þeir af sér kraftmiklu og þéttu setti, eða eins og maðurinn sagði við mig... svona vil ég hafa mitt þungarokk. Annars er merkilegt með margar sveitir og þar á meðal Alchemia, hvað menn eru lítið fyrir að leggja í einhverja smá kynningu á sér. Fáir vita eitthvað um þessa sveit, sem hefur þó sent frá sér tvær stórar plötur og eina stuttskífu (allavegana) og bara alveg hörkugóðar. Stærsti gallinn þeirra er samt að mínu viti að þeir syngja á ensku. Held þeir kæmust alveg í deild með Dimmu, Skálmöld og Sólstöfum ef þeir tileinkuðu sér móðurmálið. Kontiuum er ein okkar fremsta rokksveit, sem líka hljómar betur á íslensku en þeir hafa alfarið snúið sér að enskunni. Þeir skiluðu sínu frekar myrka rokki af stakri prýði og alltaf heyri ég einhvern óræðan Ecco and The Bunnyman tón í þeim. Pólska blackmetalsveitin Batushka mætti í fullum skrúða á sviðið með hauskúpur og kerti, huldu andlit sín og klæddumst hettu hempun miklum og engu líkara en boðið væri uppá djöflamessu, en ekkert var þó blóðið. Alls ekki slæmt band en höfðaði ákaflega lítið til mín. Þá var komið að því sem einna helst dróg mig á flugið, en það var þýska trassbandið Kreator. Þeir eru sannarlega ennþá í fullu fjöri og hafa á undanförnum árum verið að senda frá sér alveg magnaðar plötur, og mér til mikillar ánægju var uppistaðan í prógramminu af þeim. Hafa blandað saman við trassið hefðbundnari metaláhrifum án þess að tapa krafti og ákafa. Skemmst er frá því að segja að þeir voru frábærir og stóðu framar mínum björtustu vonum. Höfðu salinn alveg á sínu bandi og Mille gítarleikari lét menn ekki komast upp með neitt múður. Færeysku frændur okkar í Tý tóku síðan við, en þá var ég búinn að fá nóg af rokki og róli og hreinlega gafst bara upp. Hafði ætlað mér að sjá Agent Fresco og jafnvel GusGus til að ná mér niður, en varð að játa mig sigraðan og við hjónakornin gengum til okkar síðustu náða á Norðfirðinum góða.

Það hefur fram að þessu alltaf verið gaman að koma á þessa hátíð og njóta gestrisni bæjarbúa. Mér fundust frekar fáir mæta núna og eins og áður sagði skiluðu menn sér ekki inn á tónleikana nema í takmörkuðu mæli. Ég saknaði íslensku rokkrisanna í Dimmu, Skálmöld og Ham, og ég heyrði mikið að það gerðu fleiri. Ham eru að hætta svo það er sjálfgefið að þeir mæti ekki meira, en ég geri kröfu um að takist að semja við hinar tvær fyrir næsta ár. Flugið hefur verið jákvætt og uppbyggilegt samfélag fram að þessu og ást og friður svifið yfir vötnum. Þarna geta allir mætt, stórir, litlir, feitir og mjóir, klætt sig upp og málað sig eða ekki, verið á hvern þann hátt er tilfinningin bíður og presinterað sig sem þeir/þær eru, án þess að verða fyrir aðkasti. Á Eistnaflugi eru allir kóngar einn dag. Það var boðið uppá AA fundi alla dagana, sem er til fyrirmyndar og hefur vafalaust verið vel þegið fyrir þá er á þurfa að halda. Einnig fór fram málþing þungarokkara um þunglyndi og andlega líðan með sálfræðingnum Orra Smárasyni og valinkunnum rokkurum í panel. Allt svona lagað eykur vigt hátíðarinnar til muna og styrkir hana. En þá að því neikvæða:

 

Saga konu sem byrlað var einhver ólifjan á hátíðinni bendir þó til að minnsta kosti einn drullusokkur hafi mætt og kjörorðið góða að það sé bannað að vera fáviti, því ef til vill hætt að virka. Vonandi nær hún sér, en það er ömurlegt að finna sig ekki lengur öruggan á Eistnafluginu. Það væri sorglegt ef þetta yrði til þess að fólki þyki nóg komið og segi stopp, en það hugsa sennilega allir vel sinn gang er að hátíðinni standa. Eitt tilvik, hvort sem það er nauðgun eða tilraun til nauðgunar er einu tilviki of mikið, og ekki hægt að segja að hátíð þar sem "bara" eitt atvik eigi sér stað, fari vel fram.

20.06.2018 17:45

90´s eyðieyjulisti Tónskrattans 50 plötur

 

Plata10 er eina plata Temple of the Dog og er frá 1991. Hljómsveitin er stofnuð til að heiðra minningu Andrew Wood söngvara Mother Love Bone sem látist hafði árið áður, 24 ára gamall af völdum of mikilla eiturlyfja. Fyrir þessari sveit fór stórsöngvari sem einnig er látinn, Chris nokkur Cornell og aðrir með honum í þessu bandi voru Matt Cameron félagi hans í Soungarden og tveir fyrrum MLB meðlimir, þeir Jeff Ament og Stone Gossard og svo Mike McCready en þessir þrír eru allir í Pearl Jam eins og einhverjir vita. Eddie Vedder kemur einnig við sögu á plötunni. Frábær rokkplata og eitt af því besta sem út kom á þessum áratug. 
Sterk áhrif af 70´s rokki í bland við nýja strauma og Cornell fer á kostum ekki síður en Mike McCready sem er stórkostlegur á gítarinn.

Plata 11 er frumburður Rage Against The Machine frá árinu 1992. Féll fyrir þessari sleggju, en hjálpi mér guð, hvað arflegð RAGTM (allt helvítis numetalið) er leiðinleg tónlist. Ég man að það var engin dans hljómsveit með dans hljómsveitum nema að Killing in the name of væri á setlistanum og bara núna fyrir nokkrum vikum renndu Meistarar dauðans sér í gegnum þennan ódauðlega slagara er þeir hituðu upp fyrir Skálmöld á Græna. Þannig að þetta er komið til nýrra kynslóða, sem er ágætt. Það er einhver dásamlega heilandi kraftur í þessu meistaraverki og við liggur að maður sé tilbúinn að fara út og frelsa heiminn undan helvítis kapítalistunum. 

Plata 12 er Judgement með Liverpool sveitinni Anathema frá 1999. Nýbúinn að sjá þessa gæðasveit á Eistnafluginu, en því miður tóku þeir ekkert lag af þessari plötu. Það koma lítið að sök þar sem þeir eiga svo mikið af góðri tónlist. Það er melankólísk ára yfir þessari plötu eins og mörgum frá þeim, og ef til mætti heimfæra umsögn um uppáhalds Anathema plötuna mína, A natural disaster frá 2003, á þessa en niðurlagið í dómnum á Allmusic var eitthvað á þessa leið...misery has never sounded this beautiful. Já þau búa til fallega tónlist. Metaláhrifin á undanhaldi og progg áhrifin að koma sterk inn. Gæðagripur frá gæðasveit. Áfram Liverpool... í poppinu

Plata 13 er Urban hymns með Bresku sveitinni The Verve og kemur út 1997 og er þeirra þriðja plata. Ég var ekki mjög hallur undir brit- poppið þarna á þessum áratug og í rauninni var það ekki fyrr en löngu síðar að ég fór að kynna mér þær sveitir allar. Ég hef heldur aldrei átt vini eða kunningja sem hlustuðu á þessa músík og held ég að okkur hafi þótt það fyrir neðan virðingu okkar. En í tónlist er allt í lagi að vera vitur eftirá. Það eru nokkur lög á þessari plötu sem fengu það óþvegið á útvarpsstöðvum og urðu ofspilun að bráð, en núna mörgum árum síðar næ ég að spila þessa plötu í heild án þess að þau trufli mig sérstaklega. Það er ekki síst sækadelíuáhrifin sem eru svo heillandi á plötunni og hér er allt morandi í frábærum lögum. Platan á undan þessari, A Northern soul sækir líka mikið í spilarann.

Plata 14 er Time out of mind með Bob Dylan frá 1997 og er plata 30 frá þeim gamla. Daniel Lanois er upptökustjóri hér eins og á Oh mercy (1989) og hann hefur gert mikið fyrir kallinn, en þessar tvær plötur eru hörkugóðar og hljóma ákaflega vel í mín eyru. Með betri Dylan plötum og ein af þeim sem oftast rata í spilarann. Hörkugripur.

Plata 15 er Seasons in the abyss með Slayer og kemur út 1990. Sennilega er þetta næstbesta plata Slayer, næst á eftir Reign in blood. Ok, þessi er betri en samt ekki...æi það skiptir engu máli, báðar frábærar og South of heaven líka. Nú er þessi magnaða metalsveit að syngja sitt síðasta og það verður einhverjum sárt að sakna. Get alveg játað að ég hef lítið fylgst með þeim eftir þessa plötu, enda haft öðrum hnöppum að hneppa. Vitja þessara þriggja er nefndar eru þó reglulega og þær veitir mér hugarró og vellíðan eins og góður metall gerir jafnan.

Plata 16 er Beat the bastards með Skosku pönksveitinni The Exploited frá 1996 og er þeirra 7unda. Þessi plata er bræðingur af hardcore pönki og trashmetal og sándið mjög metalskotið. The Exploted minna ef til vill hér örlítið á Chicago bandið Zoetrope, sem spiluðu svokallað streetmetal á 9. áratugnum. Þessi plata er algjör sleggja í eyrun og við liggur að maður þurfi áfallahjálp að lokinni hlustun. Hef grun um að þessi plata sé dálítið vanmetin í rokkheimum og kannski er þetta of mikið pönk fyrir metalhausana og of mikill metall fyrir pönkhausana. Þá koma eyrun á mér sterk inn því ég elska bæði pönk og metal og hef gaman af svona crossover dæmum.

 

 

Plata 17 er frumburður Bristol krakkanna í Portishead og nefnist Dummy og kemur út 1994. Þessi flottu brautryðjendur í trip-hoppi sendu aðeins frá sér 3 plötur á ferlinum, enn sem komið er a.m.k. og eru þær allar mjög áhugaverðar. Hinar tvær eru mjög tilraunakenndar og alls ekki auðteknar, en það finnst mér kostur við músík. Dummy er aðgengilegust og að mínu mati þeirra langbesta plata. Melankólisk, seiðandi og dimm á köflum og jafnvel blúsuð. Beth Gibbons er síðan alveg einstaklega heillandi söngkona og hafi maður fallið fyrir henni er ekki aftur snúið. Flott plata sem ennþá er í mikilli spilun hjá mér.

Plata 18 er Sehnsucht með þýsku strákunum í Rammstein frá árinu 1997 og er þeirra önnur. Féll strax fyrir þeirra kalda og vélræna rokki og fannst þeir koma með ferskan blæ inn í bransann. Eitt af því sem gerir þá svo sérstaka og skemmtilega er að þeir syngja á móðurmálinu og ég er ekki viss um að þeir væru jafnvinsælir hefðu þeir brugðið fyrir sig ensku með þýskum hreim. Aðeins Klaus Meine í Scorpions kemst upp með að syngja ensku með þýskum hreim. Tónleikar og myndbönd Rammstein eru svo sér kapítuli, er þar er engu til sparað eins og margir vita.

Plata 19, er Wildflower með Tom Petty, ok þetta er sólóplata en samt með Heartbreakers. Steve Ferrone sem trommar þessa plötu varð fullgildur meðlimur í kjölfarið. Þetta er önnur sólóplata kappans, en hin frábæra Full moon fever kom 1989. Hér eru Traveling Wilburys og Jeff Lynne áhrifin farin og Petty kominn aftur. Platan er fjölbreytt og sýnir ágætlega hæfileika þessa listamanns sem féll frá á síðasta ári. Hér allt frá Petty rokkurum niðrí minimanilískari lög þar sem hann er bara einn með kassagítarinn.

Plata 20 er Radiator með Welsku sveitinni Super Furry Animals og er önnur plata þeirra og kemur út 1997. Ári á eftir frábærum frumburðinum Fuzzy Logic. Super Furry Animals spila skemmtilegt sækadelíu popp/rokk og sækja áhrif aftur á 7. áratuginn. Samt finnst mér tónlist þeirra vera skemmtilega tímalaus og hún á alltaf við í mínum eyrum.

Plata 21 er Walk on the water með bresku rokksveitinni UFO og kemur hún út 1997. Hér kemur aftur saman mannskapurinn sem skapaði þessa mögnuðu rokksveit,sem átti sína mektardaga á 8. og fram á 9. áratuginn. Andy Parker, Phil Mogg, Pete Way, Paul Raymond og gítarkóngurinn Michael Schenker. Alltaf samt verið frekar vanmetin sveit og hvað þá þessi plata. Hér má líka fynna tvær endurgerðir á tveimur af þeirra helstu númerum, hinum ódauðlegu perlum, Doctor doktor og Light´s out og gaman að fá þau loks í góðu stúdíósándi, þó þau séu auðvitað best á tónleikaplötunni frábæru Stranger in the night frá 79. Schenkerinn fer á kostum á þessari plötu og greinilegt að menn njóta sín til fullnustu hér. Afhverju þessi sveit náði ekki meiri hilli en raun ber vitni er mér óskiljanlegt, en þeir eru enn að og hefur annar gítarsnillingur, Vinnie Moore verið með þeim undanfarin ár. Minnir þó að ég hafi séð það í einhverju blaði nýlega að hinn magnaði söngvari, Phil Mogg segði þetta vera orðið gott og hann væri að hætta. Góður leikur að hætta á meðan maður er lifandi og getur tekið ákvörðun um það.

Plata 22 er Handful of blues með gítarsnillningnum Robben Ford og sveit hans Blue Mile frá 1995. Ford er einn af þessum sjaldgæfu snillingum sem einatt tekst að sneiða hjá klisjum í gítarleik sínum og alltaf er unun að hlusta á drenginn spila á gítar, annálaður smekkmaður. Hann getur spilað hvað sem er en hefur mest haldið sig við blús og jazz en spilar jazz ekki eins og blúsleikari og blús ekki eins og jazzleikari. Hann spilar bara eins og sá Robben Ford sem hann er. Hann er auðvitað ekki alveg óumdeildur, en mörgum þykir hann ekki góður söngvari og röddin stundum á skjön við tónlistina. Þeir sem vilja hrjúfa og dökka rödd í sínum blús finna lítið við hæfi í rödd Robba. Hafandi hlustað á kappan til fjölda ára hef ég fyrir löngu sætt við söngvarann Robben Ford. Hann hefur kannski ekki mikla rödd en mér finnst hann afbrags söngvari og smekklega gerir hann alla hluti. Mörgum er ef til vill í fersku minni er hann gerði plötu með Bjössa Thor og Önnu fyrir nokkrum árum og hefur auðvitað komið hér á klakann til tónleikahalds.Einn almagnaðasti gítarsnillingur rokk og blússögunnar.

Plata 23 er Aftertaste með New York alternative rokk/metal bandinu Helmet og kemur út 1997. Þessi er sú 4. frá þeim og er almennt ekki talin til þeirra bestu verka en hitti mig í hjartastað forðum daga og ennþá finnst mér þetta alveg geggjuð rokkplata, kraftmikil, melódísk og mátulega þung.

Plata 24 heitir í höfuðið á hljómsveitinni, eða Sublime og er þeirra þriðja og jafnframt sú síðasta. Í lok upptökuferlisins varð tríóið að dúett er aðalgaurinn, Brad Nowell overdósaði á heróíni. Tónlist drengjann er ska, pönk reggae og rokk með útúrdúrum. Þeir eru óhræddir að fá lánað héðan og þaðan og gera að sínu og taka þar Led Zeppelin sér til fyrirmyndar. Upptökuferlið var erfitt og segir upptökustjórinn Paul Leary svo frá að þeir hafi mætt kl 9 á morgnanna með margarítu í annari hendinni og hljóðfærin í hinni. Af og til þurfti einhver að fara inn á baðherbergið til að athuga hvort Brad væri á lífi og eins sorglegt og það er, þá lifði hann ekki upptökuferlið af. Þessi plata er samt full af lífi og er kraftmikil og grúvar feitt á köflum.

Plata 25 er Metalhead með hinum öldnu stríðshrossunum í Saxon og kemur hún út 1999. 90´s katalógur sveitarinnar er mjög vanmetinn, en þar eru margir gullmolarnir. Finnst þessi standa þar fremst á meðal jafningja. Saxon er ein af þessum ódrepandi metalsveitum sem maður hefur ennþá sterkar taugar til. Þeir hafa fram að þessu verið að senda frá sér hörkuskífur og nú bara í fyrra kom hin prýðisgóða, Thunderbolt.

Plata 26, er Mezzanine með Bristol sveitinni Massive Attack frá 1998, og er þeirra þriðja plata. Það var komið fram á þessa öld er ég fór að kynna mér Bristol senuna og trip-hoppið fyrir alvöru. Hafði þó átt Dummy með Portised sem uppáhaldplötu frá því hún kom út 94. Féll svo fyrir Blue lines, fyrstu MA plötunni, en þessi er meistaraverkið sem ég sæki reglulega í. Þungur og dimmur undirtónn og tónlistin er ákaflega seiðandi og leiðir mann ínn í áhugaverða veröld.

Plata 27 er 100% fun frá 1995 með konungi power gítarpoppsins, Matthew Sweet frá Nebraska. Hann hefur ýmislegt verið að braska í gegnum tíðina og m.a. gefið út þrjár dúettaplötur með Susanna Hoffs sem kannski einhverjir muna eftir úr kvennasveitinni Bangles og Sweet var í sveitinni The Thorns sem sendi frá eina stóra plötu 2003 og lagið I can´t rember hljómaði eitthvað í útvarpin hérlendis. Sólóplöturnar eru svo orðnar sirka 14. Sweet er snjall lagasmiður og melódískt gítarpoppið sækir m.a. áhrift í 7. og 8. áratuginn og stundum blandast smá sækadelía saman við. Sweet hefur aldrei notið þeirrar hylli sem hann á skilið að mínu mati og er einn af þessum "unsung heros" sem heimurinn er fullur af.

Plata 28 er Sweet Black Angel með blúsmeistaranum Joe Willie "Pinetop" Perkins frá 1998. Hér er þessi frábæri Mississippi píanóleikari og söngvari orðinn 88 ára og fjörið enn til staðar en kannski meira breyst í yfirvegun. Þjakaður af reynslu, fer kallinn á sínum kunnu kostum og valinkunnir meðreiðarsveinar hjálpa til við gera þessa plötu svo áheyrilega sem raun ber vitni. Hann dó 9 árum síðar, en það ár fékk hann Grammy fyrir bestu hefðbundnu blúsplötuna og varð þar með sá elsti til að fá Grammy 97 ára. Hann átti bókuð 20 gigg er hann féll frá.

Plata 29 er Throwing Copper og er önnur plata Pennsylvaniu strákanna í Live og kemur út 1993. Ef þetta er ekki 90´s rokk þá veit ég ekki hvað, en ég verð að játa að ég hætti að fylgjast náið með þessari sveit eftir þessa plötu og finnst þeir hafa gert lítið að viti síðan. Þessi plata steinlá á skrítnum tíma í lífi mínu og mér finnst alltaf gott að vitja hennar. Hún dansar þó stundum á mörkum þess að vera of útvarpsvæn en sleppur þó oftast réttu megin við strikið. Hún nýtur sín betur í dag sem heild en þegar hún kom út forðum og lög af henni heyrðust í útvarpinu. Útvarpi hættir til að eyðileggja tónlist og þessvegna er ég löngu hættur að hlusta á tónlistarútvarp.

Plata 30 er Stranger than fiction með LA pönkurunum í Bad Religion frá árinu 1994. B.R er stofnuð 1980 og þetta er ein albesta sveitin í sínum flokki tónlistar (og þá erum við að tala um bandarískt popp/pönk) og Green Day komast ekki með tærnar þar sem þeir hafa hælana þrátt fyrir góða spretti. Dead Kennedys og Ramones eru auðvitað konungar bandaríska pönksins, en ég freistast til að hafa BR þar með. Ein af þeim plötum sem rata reglulega í spilarann og gleðja rokkhjartað.

Plata 31 er Wandering spirit með Mick Jagger frá 1993 og er þriðja sólóplatan hans. Stones senda frá sér tvær plötur á þessum áratug sem alls ekki eru svo slæmar og margt mjög gott á þeim. Þessi er betri en þær báðar og ég tók strax ástfóstri við hana. Sumt hér eðli málsins samkvæmt ansi Stoneslegt, en ég hef aldrei litið á það sem galla á tónlist. Hér er allt morandi í flottum lögum og Jaggerinn syngur eins og sá engill sem hann er. Rokk og rólegheit að hætti eins almagnaðasta karakters rokksögunnar og þess sem á fallegasta brosið.

 

Plata 32 er Grand Prix með skosku strákunum í Teenage Fanclub frá árinu 1995 og er þeirra 5. plata. TF eru undir 60´s og 70´s áhrifum og þetta powerpopp þeirra er ákaflega skemmtilegt og gefandi fyrir okkur sem viljum melódíu í okkar tónlist og unnum Byrds og Bítlapoppi.

Plata 33 er Toolbox með meistara Ian Gillan frá 1991. Þessi kemur áður en hann gengur í Purple í síðasta sinn (væntanlega). Ein harðasta og þyngsta platan frá Gillan, kannski fyrir utan Sabbath, og þeir sem elska öskrin hans fá nóg af þeim hér. Hann er í frábæru söngformi hér og leikur við hvern sinn fingur ásamt þeim Steve Morris sem er líttþekktur breskur gítarleikari, og væntanlega er þetta hápunkturinn á ferli hans, og svo er hér bandaríska rhytmaparið Brett Bloomfield á bassa og Leonard Haze trommari Y&T. Ekkert hljómborð. Kraftmikið metalskotið rokk og ról sem gleður gamla kalla og ég er ekki frá því að þessi plata sé töluvert vanmetin.

Plata 34 er ...And you ? með Manitoba´s Wild Kingdom frá 1990. Þetta er eina plata sveitarinnar og ekki nema 25 mínútna löng þrátt fyrir 10 lög, það er alveg nóg og maður rennir henni bara tvisvar í staðinn. Sveitin er afkvæmi New York pönkaranna The Dictators, en sú sveit var stofnuð 1973 og er því ein af forverum Bandarísku pönksenunnar er seinna leit dagsins ljós. Söngvarinn Handsome Dick Manitoba, bassaleikarinn og aðallagahöfundur, Andy Shernoff og gítarleikarinn Ross The Boss koma allir úr Dictators og fara hér á kostum í hressum pönkskotnum metal sínum. Ross The Boss klingir væntanlega bjöllum hjá einhverjum en hann var náttúrulega gítarleikari í Manowar og spilar á 6 fyrstu plötnunum þeirra, Rokk og ról eins og það gerist hvað skemmtilegast.

Plata 35 er Wrecking ball með Emmylou Harris frá 1995. Hér kveður við annan tón hjá þessari frábæru söngkonu og óhætt að segja að hér sé ekki dæmigerð E.H. plata á ferðinni. Hér er meistari Daniel Lanois við stjórnvölinn í stúdíóinu og setur sannarlega sinn sérstaka blæ á gripinn. Danni er einn af þessum stóru sem stjórnað upptökum hjá helstu stjörnum samtímans og nægir að nefna U2 og Bob Dylan. Hann er líka tónlistarmaður og spilar hér á gítar og klingjandi gítarsándið minnir stundum eilítið á hinn eina og sanna The Edge. Fyrst minnst var á Edge má geta þess að Larry nokkurn Mullen trommar þessa plötu af sinni smekkvísi. Lögin eru úr ýmsum áttum og á meðal höfunda eru Jimi Hendrix, Neil Young, Bob Dylan, Lucinda Williams. Emmylou er einstök listakona og með þessari plötu hefur hún örugglega eignast nýja aðdáendur, en kannski glatað gömlum. Alltaf gaman þegar listamenn hafa hugrekki til á kanna nýjar lendur á tónlistarakrinum. Frábær plata.

Plata 36 er Perfectly good guitar með John Hiatt og er frá 1993. Hér er kallinn á rokkbuxunum venju fremur og þetta verður að teljast rokkaðasta plata þessa meistara. Hiatt er ákaflega virtur á meðal tónlistarmanna og ótal margir hafa spreytt sig á lögunum hans, en hann sjálfur hefur aldrei náð að slá almennilega í gegn þrátt fyrir að vera einn besti lagasmiður samtímans. Titillagið ætti fyrir löngu að vera komið í hóp rock anthema ekki síður en Rockin´in the free world með Neil Young, það lýsir húmor Hiatt´s vel:

Well he threw one down form the top of the stairs
Beautiful women were standing everywhere
They all got wet when he smashed that thing
But off in the dark you could hear somebody sing

[Chorus:]
Oh it breaks my heart to see those stars
Smashing a perfectly good guitar
I don't know who they think they are
Smashing a perfectly good guitar

Hiatt hefur sent frá sér 22 sólóplötur og eitt af markmiðum mínum í lífinu er að eignast þær allar. Þess vegna hef ég það fyrir sið að grípa alltaf plötu með kallinum ef ég sé hana í plötubúð.

Plata 37 er Remember með Rusted Root sem kemur frá Pittsburgh í Pennsilvaniu, er þeirra þriðja plata og kemur út 1996. Rusted Root flytur rokk og popp með heimstónlistaráhrifum ef það segir einhverjum eitthvað. Þeim er fátt heilagt hvað áhrifavalda varðar og útkoman verður ákaflega skemmtileg blanda af allskonar. Söngvari þeirra Michael Glabicki er ákaflega sérstæður og á stóran þátt í töfrum sveitarinnar. Gæti samt trúað því að hann sé einn af þessum söngvurum sem menn annaðhvort elska eða hata. 


Plata 38 er Flaming pie með Paul MacCartney og hún kemur út 1997. Hér Palli í sinni tærustu mynd og þessi plata er tvímælalaust á topp 5 af sólóplötunum hans. Hann nýtur aðstoðar reynslubolta úr bransanum eins og Jeff Lynne og Stevie Miller að ógleymdum Ringó Starr í tveimur lögum. Annars trommar Paul sjálfur alla plötuna og hann hefur þennan skemmtilega stíl "ekki trommara". Það kemur upp í hugann kvótið sem haft er eftir Lennon er hann hann var spurður hvort Ringo væri besti trommari í heimi: "Bestur í heimi? hann er ekki einu sinni besti trommarinn í Bítlunum". Kannski átti hann við að Paul væri betri. Mér finnst Ringó frábær trommari og það kemur vel fram hér er þeir félagar Paul, Ringo og Jeff Lynne jamma saman Really love you hvað hann er þéttur og hvað þeir grúva vel saman. Þessi plata hefur í gegnum tíðina mikið sótt í spilarann og skilur mann alltaf eftir glaðan og sáttan.

Plata 39 er Born to quit, önnur plata Chicago popppönk sveitarinnar skemmtilegu, Smoking Popes frá 1995. Ólikt mörgum sveitum í þessum geira er söngurinn svolítið á skjön við tónlistin til að byrja með, en svo fer maður að fíla Josh Caterer. Ef Morrissey og Pat Dinizio hefðu eignast barn saman hefði það væntanlega sungið svona. Hressilegt, melódíst "feelgood" punk sem alltaf gleður mitt einfalda hjarta. Eignaðist líka plötuna á eftir þessari og hún er í sama gæðaflokki.

Plata 40 er Come on home með gítarleikaranum og söngvaranum Boz Scaggs og kemur hún út 1997. Boz var í Steve Miller bandinu á 7. áratugnum en er ef til vill hvað þekktastur fyrir sólóplötuna Silk degrees sem kom 1976 og sló heldur betur í gegn. Hér tekur hann fyrir gamlan rhytmablús og blússöngva og gerir sérdeilis góð skil. Afar sérstæður og skemmtilegur söngvari hann Boz, og vel frambærilegur gítarleikari og hann ásamt góðum aðstoðarmönnum, gerir þessum slögurum ákaflega góð skil á þessari skemmtilegu plötu.

Plata 41 er The First day með þeim David Sylvian og Robert Fripp frá 1993. Þessi plata er sú fyrsta af þremur plötum sem þessir snillingar gerðu saman. Fripparinn einn frumlegasti gítarleikari rokksögunnar og væntanlega hvað þekktastur fyrir veru sína í King Crimson. Hljómborðleikarinn, gítarleikarinn og söngvarinn Sylvian kemur úr hinni skemmtilegu bresku sveit, Japan sem átti sína mektardaga á 8. og 9. áratugnum. Það má eiginlega segja að skrattinn hitti ömmu sína hér því þessir kallar hæfa hvor öðrum ákaflega vel. Stundum vel víruð og framsækin rokktónlist, seiðandi og heillandi. Lögin frá 4 mínútum uppí 17 mínútna ópusa. Ekki skemmir fyrir að sjálfur Jerry Marotta trommar plötuna. Snilldarplata hér.

Plata 42 er fyrri platan af tveimur er Kaliforníu sveitin Sugartooth sendi frá sér og árið er 1994. Ein af þessum sveitum sem hurfu jafnhratt og þær komu en rokk-radar undirritaðs náði þó að nema. Kannski voru það Sabbath áhrifin sem fyrst kveiktu á bandinu en samt má segja að bandið hljómi mjög 90´s. Seinni platan sem þeir sendu frá sér er tuddagóð líka en samt er eins og um allt aðra sveit sé þar að ræða, svo ólíkar eru plöturnar og tónlistarstílarnir. "Unsung hero´s" í 9o´s rokkinu. Tuddagott band og plata.

Það er hrikalega gaman að rifja upp þennan áratug í safninu og hverju einn sankaði að sér. Ég held mér við mæður um stund en í kjölfarið af Mother´s Finest kemur hér sjálf móðurstöðin, en plata 43 er Brand new bag sem er eina plata Bandarísku soul/blús/rokk sveitarinnar Mother Station sem rekur ættir sínar til Memphis og kom út 1994. Hljómsveitin sækir innblástur til blússkotinna rokksveita 7. og byrjun 8. áratugarins, eða hippaáranna, og Janis kemur upp í hugann og hér má finna eitt lag frá Steve Marriott og félögum í Humble Pie sem smellpassar við stílinn. Fyrir sveitinni fer hin magnaða og kraftmikla söngkona, Susan Marshall en svo undarlegt sem það hefur hún aðallega unnið sem bakradda söngkona eftir veru sína í Mother station en hefur þó sent frá sér að minsta kosti þrjár sólóplötur. Önnur frábær stúlka sér um gítarleikinn, en það er Gvin Spencer. Mother Station voru búin að taka upp aðra plötu en hún hefur ekki litið dagsins ljós og mun sennilega ekki gera. Þessi er ein af þeim plötum sem eiga það til að festast í spilaranum vikum saman, og ég hvet áhugamenn og konur um þess háttar músík að kynna sér gripinn.

Plata 44 er "Black radio won´t play this record" með Mother´s Finest sem kemur frá Atlanta í Bandaríkjunum og er frá 1992.
Rætur sveitarinnar má rekja aftur til 1972 og tónlist MF hefur verið skilgreind sem funkrokk en það er kannski ónákvæm skilgreining, hard rokk r&b funkmetal eða bara heavy metal bætir ef til vill einhverju við. Sveitin er ein af þessum vanmetnu böndum sem einatt flugu undir radarinn en áttu skilið mikið meiri athygli. Flestir meðlimir hafa verið svartir í gegnum tíðina og þá meina ég ekki af drykkju og dópneyslu og fyrir henni fara hinir mögnuðu söngfuglar, Joyce "Baby Jean" Kennedy og Glenn "Doc" Murdock. Baby Jean svipar mjög til Tinu Turner og það mætti gera ráð fyrir að Tina hljómaði eitthvað svipað væri hún í harðari efnum (þyngri tónlist). Þetta er það þyngsta sem ég hef heyrt frá MF og skratti skemmtileg plata. Þau njóta hér í nokkrum lögum, aðstoðar gítarleikarans Tracay "Spacy T" Singelton sem kemur úr annar svartri metalsveit sem starfaði á 9. áratugnum og hét Sound Barrier. Upptökustjóri er enginn annar en Thom Panunzio, sem þeir sem láta sig varða hverjir stjórna upptökum á plötum og fleira því tengdu, þekkja af góðu, en hann hefur á sinni afrekaskrá marga af helstu artistum sem skiptir máli í rokksögunni, Bruce Springsteen, Bob Dylan, U2, Deep Purple, Aerosmith, Black Sabbath, Motörhead, Tom Petty og Iggy Pop svo einhverjir séu nefndir. Á meðan einhverjir voru að hlusta á Living Colour og Tinu Turner, hlustaði sveitastrákurinn á Mother´s Finest og undraðist á afhverju þessi gæðasveit næði ekki heimsathygli.

Plata 45 er "Vauxhall and I" með meistara Morrissey og kemur út það ágæta ár 1994. Umdeildur maður og hefur stundum hagað sér eins og hálfviti... hver hefur ekki gert það. Svei mér þá ef þetta er ekki bara meistaraverkið hans, en hann hefur sent frá sér helling af gæðaplötum á sólóferlinum. Ekki má gleyma töfrum The Smiths áratugnum á undan, en það er allt önnur ella. Mér finnst þetta frábær plata eins og margt annað með honum og elska melankólíuna í röddinni og kallinn er frábær laga og texta smiður. Einn af mínum uppáhaldköllum í músíkinni.

Plata 46 er On the blue side með bandaríska gítarleikarnum snjalla og söngvaranum ekki síður snjalla, Dave Meniketti og kemur út 1998. Dave er hvað kunnastur fyrir að vera aðalsprautan í metalbandinu Y&T sem næstum því gerði garðinn frægan "in the 80´s". Þessi snillingur er enn eitt dæmið um hinar ósungnu hetjur, gífurlega hæfileikaríkur tónlistarmaður en bar aldrei gæfa til að slá verulega í gegn. Hljómsveitin frábæra, Y&T var alltaf undir radarnum þrátt fyrir nokkrar frábærar melódískar metalplötur, og þó þeir færu í fataskápinn hjá eiginkonunum og fengu lánað hárspreyið þeirra og málninguna dugði það ekki til. Meniketti hefur hina eftirsóttu þrennu, er góður lagasmiður og frábær gítarleikari og söngvari og hefur sál í sinni tónlist. Þetta er fyrsta sólóplatan frá kappanum og hér kemur hann ást sinni á blús vel til skila, því þetta er vel rafmögnuð blúsplata og þá meira svona rokkblúsplata og Gary Moore kemur upp í hugann sem eitthvað sambærilegt. Mér finnst bara Meniketti mikið skemmtilegri en Moore. Yfirleitt fynnst mér svona metalskotinn blús ekki skemmtilegur en þessi plata er undantekningin og Meniketti hefur sál og tilfinningu í sínum flutningi. Það skilur sennilega á milli feigs og ófeigs. Það er búið að vera gífurlega gaman að rifja upp þessa plötu og hún er mikið betri en mig minnti.

Plata 47 er Heaven and Hull með hinum magnaða Mick Ronson gítarleikara og kemur hún út 1994. Flestir þekkja hann vafalaust best sem gítarleikara og útsetjara Bowie og Kóngulónna frá Mars og margir telja að Bowie hefði aldrei orðið sú sjarna sem hann varð nema fyrir Ronson. Sumir af þeim hlusta hvorki á Bowie eða Ronson en þykjast samt geta um það dæmt. En Ronson á stóran kafla í ferli Bowie á 8. áratugnum, enda Bowie þekktur fyrir að vinna bara með gæðamannskap. Það er ekki víst að margir vissu hver Mick Ronson væri ef ekki væri fyrir veru hans í Bowie bandinu. Þessi plata kom út rúmu ári eftir dauða hans, en hann lést úr lifrarkrabba 46 ára 1993. Hörkuflott plata og áðurnefndur Bowie kemur við sögu og syngur kraftmikla útgáfu af Bob Dylan slagarann Just like a woman. Joe Elliott úr Def Leppard, Chrissie Hynde, John Mellenkamp og fleiri góðir syngja líka á plötunni auk Ronsons sjálfs, sem þrátt fyrir að vera margt til lista lagt, er enginn stórsöngvari. Hann sleppur þó vel frá sínu og eitt flottasta lagið syngur hann, sem er hið fallega When the world falls down, sem eins og flest lögin eru eftir Ronson og S. Morris. Þykir alltaf vænt um þessa plötu og finnst skemmtilega oft við hæfi að setja hana í spilarann.

Plata 48 er Stomping ground með hinum hressu strákum í Kentucky Headhunters sem koma einmitt frá Kentucky. Skemmtileg tilviljun það. Þessi plata þeirra kemur út 1997 og er sú 5. í röðinni, en það má rekja ferilinn allt aftur til 1968 en þá undir nafninu Itchy Brothers. Hafa starfað undir K.H. nafninu síðan 1986 og fyrsta platan kom 1989. Tónlist þeirra er einhverskonar blanda af kántríi, blús, soul og rokki og róli. Kannski bara einfaldast að kalla þetta kántrírokk af kraftmeiri gerðinni. Þeir hafa sent frá sér 11 plötur og skoruðu hátt hjá mér þarna á síðasta áratugnum og alltaf kemst ég í gott skap er í set Kentucky Headhunters plötu í spilarann.

 

Plata 49 er Brave með hinni bresku Marillion og er frá 1994. Ég hef löngum átt frekar erfitt með að tengjast þessari sveit og enn síður Hogarth tímabilinu sem enn varir, en Fish tímabilinu. Eigandi Marillion vin sem lagði sig allan fram við að kristna kallinn er þetta frekar vandræðalegt, eða kannski ekki. Þar sem ég á nokkrar Marillion plötur með báðum söngvurunum, set ég þær nú af og til í spilarann og Misplaced Childhood og og Clutching at straws með Fiskinum eru fínar plötur og þessi Hogarth plata hefur nú verið að tengjast mér sterkari böndum hin seinni ár en aðrar frá sveitinni. Er orðin svolítið skotinn í hvernig þeir blanda saman proggi, poppi og rokki í sérstæðan bræðing. Það er frekar þungt yfir þessari consept plötu og hún þarf margar hlustanir til að síast inn, en á leiðinni uppgvötar maður margt fallegt og flott og í rauninni er þetta tímalaus tónlist sem þar af leiðandi eldist vel. Ég vona að Marillion fari í tónleikaferð til Indlands, það myndi gleðja vin minn.

Sæti 50, eða heiðurssætið fá strákarnir í Ramones með plötu sína, Mondo Bizarro frá 1992. Fyrsta plata þeirra í 3 ár og sú síðasta sem talist getur góð, en sennilega kom bara ein í viðbót við þessa. Ramones rokkið hefur alltaf á greiða leið að hjarta mínu og komandi úr sveit er gott að vera fjárglöggur. 200 hvítar kindur eru allar eins fyrir utanaðkomandi en svo þekkir bóndinn þær allar með nafni. Ég þekki Ramones lögin hvert frá öðru. 

  • 1
Flettingar í dag: 80
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 89
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 262363
Samtals gestir: 85259
Tölur uppfærðar: 20.6.2019 16:20:05