03.04.2018 17:43

60´s eyðieyjulisti Tónskrattans 50 plötur

Jæja, þá er komið að næsta eyðueyjulistagrúski og nú eru það plötur frá 7. áratugnum, eða 60´s (sixtíst) tónlist eins og ég mun kalla hana. Hef tekið eftir því að það veldur ruglingi hjá mörgum þegar við notum íslensku í talningu tuga. Sixtís verður 7.áratugurinn og allt fer í graut í hausnum hjá sumum. Þess vegna finnst mér einfaldast að tala um sixtís og seventís.  Hér koma þær ein á dag plöturnar 50 sem ég hef valið sem fulltrúa mína á eyðieyjunni og eins og áður er þetta bara til gamans gert og fjarri því eitthvað heilagt. En ég get sagt ykkur það satt að það er hrikalega gaman að sökkva sér í þessa tónlist og mikil gerjun í gangi á þessum áratug á mörgum sviðum. Ég byrja á plötu 50 og tel niður eða réttara sagt byrja niðri og tel upp. Nýjasta platan mun alltaf birtast efst og eins og áður sagði ætla ég að reyna að henda inn einni á dag. Ég byrjaði á facebook á páskadag og nú geta lesendur þessarar síðu ef einhverjir eru líka fylgst með.

Plata 29 er fyrsta plata Henry Saint Clair Fredericks, sem tók sér hið sérkennilega sviðsnafn, Taj Mahal og kom út 1968. Þessi frábæri tónlistarmaður hefur fengist við allrahanda músík í gegnum tíðina og er fátt heilagt. Ferillinn hófst á blúsplötu og blúsinn hefur verið fyrirferðamikill á ferlinum og leitun að flottari blússöngvara. Ekki ómerkari menn en Ry Cooder og Jessie Ed Davis eru þarna gítarleikarar, og þó Cooder sé þekktur slide gítarleikari er það indíáninn Jessie Ed sem sér um slide gítarleik hér. Hér er að finna blúsinn góða, Statesboro blues eftir Blind Willie McTell, sem sennilega er hvað þekktastur í flutningi Almann Brothers Band, en sennilega er þessi útgáfa hér prototípan að útgáfu ABB. Annars er Jessie Ed merkur kall og hefur spilað á plötum með flestum merkustu tónlistarmönnum sinnar kynslóðar. Spilaði á sólóplötum Bítlanna, Eric Clapton, Donovan og Neil Diamond svo einhverjir séu nefndir. Hann óverdósaði 1988 aðeins 43 ára gamall. Uppáhalds blúsplata.

Plata 30 er A salty dog með Procol Harum frá 1969 og er þriðja platan frá þessu magnaða bandi. Það fyrsta sem manni dettur í hug er nafnið Procol Harum ber á góma eru hljómborð, en það gleymist stundum að bandið hafði innanborðs einn besta og jafnframt einn vanmetnasta gítarleikara breskrar rokksögu, Robin Trower. Hann á stórleik á þessari plötu og ljóst að hann stefnir í aðra átt, og þó hann sé enginn stórsöngvari kemst hann ágætlega frá söngnum í "Crucifiction lane". Frábær plata... og ekki síst á sjómannadaginn.

Plata 31 er Þorvaldur Halldórsson syngur sjómannalög með... já einmitt, honum. Lög af þessari plötu voru rosalega mikið spiluð á gufunni þegar ég var polli og heilluðu óharðnaðan og óþroskaðan drenginn.Því er þessi plata mjög nostalgíutengd og flytur mann til baka í sakleysi sveitarinnar. Einhverntíman á lífsleiðinni hef ég afneitað þessari plötu, en hafði þroska til að meðtaka hana aftur og er löngu búinn að læra að elska hana skilyrðislaust

Plata 32 er samnefnd flytjendunum, Nancy & Lee og kemur út 1968. Með merkilegri dúettum rokksögunnar og það eru skemmtilegir "beauty and the best" kontrastar á þessari plötu. Hin silkimjúka og seiðandi Nancy Sinatra og hinn ekki svo ekki mjúki en eitursvali Lee Hazelwood renna sér í gegnum hvert gullkornið á fætur öðru og bæta hvert annað upp. Þó það væri bara fyrir meistarasnilldina "Some velvet mornig" þá væri þetta eiguleg plata. Af því að sumardagurinn fyrsti er í dag þá er ekki úr vegi að rifja upp "Summer wine" sem er hér ekki síður en "Jackson". Já það er mikið sumar í þessari plötu og alltaf jafn yndislegt að bregða henni á fóninn.

Plata 33 er St.Louis to Liverpool með Chuck Berry frá 1964 eða um það leyti er lærlingar Berry´s, Bítlar og Stones eru verulega farnir að láta til sín taka í Bretlandi. Berry var konungur rokksins og einn besti textasmiður þess. Þetta vita náttúrulega allir, en alltaf jafn gaman að halda því fram. Kallinn féll frá í fyrra, níræður og saddur lífdaga og sama ár kom út síðasta platan sem hann gerði og hún var honum síður en svo til skammar. Hér má finna þrjú af uppáhalds Berry lögunum mínum, No particular place to go, Promise land og You never can tell og ég á verulega erfitt með að ímynda mér hvernig rokksagan hefði orðið án Berry... eða hvort það hefði orðið nokkur rokksaga.

Plata 34 er Songs of Leonard Cohen, frumburður þessa Kanadíska meistara frá 1967. Kallinn var orðinn 33 ára þegar ferilinn hefst fyrir alvöru og þessi snilldarplata kemur út og það má með sanni segja að lítið hafi verið um feilspor á þeirri vegleið. Útgangan úr þessari jarðvist var síðan af sömu hlýju hógværu reisninni og tónlist þessa merkilega listamanns, og ég er ekki frá því að tvær síðustu plötur hans séu bara í hópi hans bestu.

Plata 35 er Boss guitar með jazz snillingnum Wes Montgomery og kemur út 1963. Gítarjazz eins og hann gerist allra bestur og áður en Wes varð alltof mjúkur og minna áhugaverður. Þeir Melvin Rhyne á Hammond og Jimmy Cobb á trommur fylgja Wes í gegnum þessa plötu og vægt til orða tekið að kalla þetta trío kunnáttumenn í jazzi. Kannski ekki uppáhaldsplatan mín með Wes, en klárlega í þeirra hópi

Plata 36 er West side soul með hinum frábæra gítarleikara og söngvara Magic Sam, eða Samuel Gene Maghett eins og hann hét fullu nafni. Platan kom út 1967, en Sam deyr úr hjartaáfalli tveimur árum síðar aðeins 32 ára gamall. Þessi er mikil uppáhalds blúsplata og eldist ákaflega vel og er gullslegin blúsklassík sem ákaflega reglulega ratar í spilarann.

Plata 37 er fyrsta og eina plata Chicago Transit Authority, sem stuttu seinna varð vel þekkt bara sem Chicago, og kemur út 1969. Mér finnst þetta alltaf vera besta platan þeirra, en þessi sveit átti eftir að ganga í gegnum miklar breytingar tónlistarlega og sennilega margir sem þekkja hana bara sem ballöðubergrisana sem fluttu "If you leave me now" og "Baby , what a big suprise" svo eitthvað sé nefnt af þeirra ballöðum, sem maður þoldi frekar illa í gamla daga. Þetta var mögnuð sveit í denn og hafði á að skipa flottum spilurum og einum flottasta gítarleikara og söngvara þessara ára sem Terry Kath var, en mig minnir að hann hafi verið kallaður hinn hvíti Ray Charles og ekki minni menn en Jimi Hendrix voru meðal aðdáenda hans. Einn af þessum svokölluðu "unsung heros" rokksins. Þrátt fyrir að Peter Cetera sé þarna kemur það ekki að sök og þó ég hafi aldrei fílað þann kauða sem söngvara, má hann alveg eiga það að hann syngur uppáhalds Chicago lagið mitt, 25 or 6 to 4, en það kom út á næstu plötu þeirra sem heitir bara Chicago og kom ári seinna, og er flott plata einnig. Hann er hins vegar flottur bassaleikari. Þessi frumburður er æðisleg plata.

Plata 38 er heitir í höfuðið á hljómsveitinni, Yardbirds en er betur þekkt sem Roger the engineer og kemur út 1966. Hún heitir síðan Over under sideways down í Þýskalandi, Frakklandi og Bandaríkjunum, en það þurfti alltaf að flækja hlutina í denn eins og hægt var og gott ef hún var ekki hljóðblönduð sérstaklega fyrir Bandaríkjamarkað eins og var alsiða. Hrikalega skemmtileg plata og hér ægir saman öllum fjandanum, blús, rokki, sækadelía og svei mér þá ef örlar ekki á pönki í Psycho daisies. Þarna var hinn frábæri Jeff Beck í bandinu og syngur m.a.s. eitt lag og gott ef þetta er ekki bara eina skiptið sem hann söng á plötu... kannski skyljanlega. Á þessari útgáfu er platan bæði í mónó og sterio og auk þess fylgja með 5 sólólög frá Keith Relf. Það er oft kosturinn við að endurnýja plöturnar sýnar að fá aukaefni með, þó það sé nú ekki alltaf uppá marga fiska.

Plata 39 er "What we did on our holidays" með folk rokksveitinni Fairport Convention og er frá 1969. Það eru ekkert mörg ár síðan ég fór að kynna mér þessa sveit, og er ekki nærri búin með það verkefni. Þau kynni hafa verið ákaflega ánægjuleg og ekki síst við þessa plötu og Liege & lief sem er frá sama ári og hefði alveg verið verðugur fulltrúi á listanum. Sveitin skartar einni flottustu söngkonu rokksögunnar sem Sandy Denny var, en hún er ein af alltof mörgum tónlistarmönnum og konum sem hafa fallið frá langt fyrir aldur fram, einungis 31 árs. Það má eflaust deila um hve vel þessi plata hefur elst eins og annað stöff frá þessum tíma, en mér finnst hún yndisleg, enda gömul sál með gamaldags smekk.

Plata 40 er "To our children´s children´s children" með Moody Blues frá 1969. Fjórða platan frá þessari ensku rokksveit sem byrjaði í rhytmabús 1965. Hér er boðið uppá framsækið rokk og sækadelíáhrifin eru sterk. Konsept plata hvar fyrsta lending manna á tunglinu, sem einmitt var í júlí þetta ár, var innblásturinn. Hún skiptist dálítið í tvö horn hjá Moody´s aðdáendum, sumir telja hana eina þeirra veikustu á meðan aðrir telja hana þeirra strerkustu. Það er um ákaflega auðugan garð að gresja í þeirra katalóg og þarna sitthvorumegin við 70 sendu þeir frá sér gæðaplötur í hrönnum. Einhverra hluta vegna hef ég tekið ástfóstri við þessa og hún verður oftast fyrir valinu þegar ég vitja þessara snillinga. Ákaflega falleg plata og dásamleg ljúfsár melankólia einkennir hana. Ég verð alltaf glaður þegar hlusta á melankólíska tónlist.

Plata 41 er Jazz på svenska með sænska píanóleikaranum Jan Johansson sem út kemur 1964. Hér fara þeir Jan og kontrabassaleikarinn Georg Riedel einkar sparlega með nóturnar, en einkar smekklega með sænskan þjóðlagaarf, vitandi að minna er meira. Það er ekki alveg víst að landi þeirra Yngvie Malmsteen hafi kunnað að meta þetta, (þó hann hafi kunnað að meta syni Jans) en hann er eins og kunnugt er metalhausum, þekktur fyrir að reyna ætíðað spila sem flestar nótur á sem skemmstum tíma og á sennilega metið innahúss, án atrennu. Það er yndisleg melankólísk ljóðræna yfir öllu hér og þetta er bara dásamlega plata í alla staði, en einfaldleikinn er sannarlega ekki á allra færi. Þetta er lang söluhæsta jazzplata Svía fyrr og það er væntanlega hægt að segja síðar, en hann lifði nú ekki lengi til að njóta velgengni hennar því hann fórst í bílslysi 37 ára gamall, fjórum árum eftir að þessi plata kom út. Af því ég kom inn á þungarokk áðan, má geta þess að sænska rokksveitin Opeth telur þessa plötu til áhrifavalda sinna og má glökkt heyra það í titilagi plötunnar Heritage, en það gæti hæglega verið af Jazz på svenska. Þess má líka geta að synir Jan Johansson hafa gert það gott í þungarokksenunni í Svíþjóð og víðar og m.a. spilað með áðurnefndum Malmsteen, en margir ættu að kannast við hljómborðsleikarann Jens Johansson og Anders bróðir hans. En það er allt önnur ella og kemur þessari yndislegu plötu ekkert við, en kannski kemur það henni pínulítið við að hún á tvær systurplötur, Jazz på ryska, eða Jazz á rússnesku og Jazz på ungerska.

Plata 42 er SF Sorrow með bresku sveitinni Pretty Things og kom hún út í desember 1968 og er fjórða platan frá þessari mjög svo merku sveit. Platan er talin með fyrstu consept plötum í rokkinu og einhverjir hafa kallað hana fyrstu rokkóperuna, og án efa hefur hún haft áhrif á Pete Townsend er sendi frá sér Tommy um hálfu ári síðar og allir rokkáhugamenn kannast við. Það má hinsvegar segja að frumkvöðla starf Pretty Things á þessu sviði hafi farið fyrir ofan garð og neðan og einhvernveginn tókst að klúðra þessari útgáfu. Þeir höfðu lítið fjármagn og urðu meðal annars að hanna umslagið sjálfir og á framhliðinni er mynd eftir Phil May söngvara og Dick Taylor gítarleikari tók að sér að sjá um að taka ljósmynd fyrir bakhliðina. EMI gerði síðan lítið í að kynna plötuna og það var ekki fyrr en hálfu ári síðar sem hún var gefin út í Bandaríkjunum hjá Rare Earth sem þá var nýstofnað hjá Motown til að sjá um rokkútgáfu þess fyrirtækis. Tommy var þá komin út fyrir nokkru, en Motown lagði lítið í kynningu og auk þess var platan illa hljóðblönduð fyrir Bandarísku útgáfuna sem ekki hjálpaði til. Þetta er því allt hálfgerð raunasaga varðandi þessa plötu. Sumar plötur eru hálfgerð völundarhús og það verður villugjarnt ef maður ratar ekki og skilur ekki út á hvað músíkin gengur. Þessi plata var völundarhús í byrjun en samt strax heillandi, en þegar leiðin var fundin varð hún dásamleg og mér hefur fundist hún batna við hverja hlustun síðan, en væntanlega þarf maður samt að vera pínu skrítinn til að fíla þetta í tætlur. Þarna eru Pretty Things búnir að yfirgefa hráan rhytmablúsinn sem einkenndi bandið í byrjun og komnir á kaf í sækadelíu. Mér finnst þessi plata eldast vel, dásamlega skrítin og skemmtileg og gefur manni alltaf eitthvað nýtt í hverji hlustun. Ætli megi ekki telja Pretty Things eina af þessum ósungnu hetjum (unsung heros) í bresku rokki, ein af vanmetnustu rokksveitum Breta. Þeir voru meira töff og mikið hrárri en Stones á sínum tíma og skiptir þá engu hvort var í rhytmablúsnum eða sækadelíunni, en sviðsljósið varð ekki þeirra.

Plata 43 er frumburður folk tríósins Peter, Paul and Mary og heitir í höfuðið á flytjendum eins og frumburðir einatt gera. Þessi plata kemur út árið 1962 og sló heldur betur í gegn og var einar 7 vikur í fyrsta sæti Bilboard listans, og er held ég mest selda plata tríósins. Ég er nú ekki mikill folk maður og þá frekar fyrir folkrokk, en þessi plata er svo frábær að mitt litla hjarta féll algerlega fyrir henni. Hún hefur líka nostalgíu tengingar til þessa áratugar er lög af henni fengu að hljóma á gömlu gufunni og barnið, blautt á bak við eyrun hafði gaman af. Þarna eru gullkorn eins og If i had a hammer, Lemon tree, Where have all the flowers gone, 500 miles og Early in the morning svo eitthvað sé nefnt. Dásamleg plata.

Plata 44 er Giant Steps með meistara John Coltrane og kom út í janúar 1960. Það var góð uppskera hjá þessum magnaða saxafónleikara á þessum áratug og má í því sambandi líka nefna plötuna Love supreme frá 65 og margir telja eina bestu jazzplötu sem út hefur komið. Mér finnst hún frekar leiðinleg og hef aldrei náð neinu sambandi við hana, en hún á kannski eftir að detta inn. Þessi er allt önnur ella og hér fara menn á kostum og þetta er sannarlega með skemmtilegri jassplötum. Ekki reyna að skilja jazzmúsík, sagði eitt sinn lífreyndur maður mér. Slepptu hömlunum, hallaðu þér bara aftur og hlustaðu með hjartanu og leyfðu þér að njóta. Láttu tónana hríslast um líkamann og þú munt skilja það sem þú þarft að skilja. Þessi ráð hafa reynst mér ágætlega og eiga ekki síst þátt í að ég elska þessa plötu.

Plata 45 er Mann made með Mannfred Mann og er önnur plata sveitarinnar og kemur út 1965. Mannfred Mann var ein af þessum gæðaböndum sem spruttu upp er breska beat bylgjan skall á heiminum og hét í höfuðið á snillingnum sem spilaði á hljómborðin. Hér á sinni annari plötu hafa þeir aðeins færst frá Chessblúsnum á fyrstu plötunni og músíkin orðin fjölbreyttari. Samt er rhytmablús mest áberandi en soul áhrifa gætir og jafnvel jazzáhrifa, enda með saxfón og flautuleikara sem var Mike Vickers, hvers aðalhlutverk var annars gítarleikur. Svo er hér vibrafónn er Mike Hugg trommari sá um að spila á. Sveitin hafði svo á að skipa einum flottasta söngvar breskrar rokksögu, Paul Jones sem auk þess var fantagóður munnhörpuleikari. Jones og Vickers yfirgefa síðan sveitina eftir þessa plötu. Jones átti eftir að gera garðinn frægan með The Blues Band, ásamt hinum gítarleikaranum, Tom Mc Guinnes, sem er held ég ennþá starfandi. Tvær fyrstu plöturnar þeirra eru stórskemmtilegar.

Plata 46 er I´m a lonesome fugitive með kántríboltanum, Merle Haggard frá 1967. Það verður að vera smá kántrí á eyðieyjunni og finnst mér þessi tilvalin. Þetta er þriðja platan frá þessum merka kántríkalli sem féll í valinn fyrir tveimur árum og titillagið fyrsti hittarinn sem fór í fyrsta sætið. Þarna er stórkallar eins og Glenn Campell og James Burton á gítara auk meistarans og allt er hér smekklega framreitt að sönnum sveitasið.

Plata 47 er Recorded in person at The Trident með hinum frábæra jazzsöngvara Jon Hendricks og kemur út 1965. Einn af mínum uppáhaldssöngvurum í þessari deild og eftir hann liggur mikið af tónlist og kannski er þekktasta efnið það sem hann gerði með söngtríóinu Lambert, Hendricks & Ross og síðar, Lambert, Hendricks & Bevan, frá 1957 - 1964. Hér er hann á tónleikum og tekur meðal annars nokkur lög sem upphaflega voru instrumental og setur texta við þau og má í því sambandi nefna Watermelon man eftir Herbie Hancock og Shiny stockings. Húmorinn aldrei langt undan hjá kalli en svo dettur hann í undurfallegar ballöður og maður fellur í stafi... aðallega göngustafi.

Plata 48 er The Legendary Italian westerns.The Film Composers series, volume II og inniheldur hún spagettivestra tónlist Ennio Morricone frá 1963 - 1969. Hér má finna allt besta stöffið úr þessum mögnuðu myndum sem heilluðu margan óharðnaðan unglinginn á sínum tíma. Bæði þeim þekktustu eins og dollaramyndunum og einnig minna þekktum myndum eins og Gunfight at red sands, Guns don´t argue og A gun for Ringo. Alls tónlist úr 9 myndum. Maður finnur púðurlyktina og blóðbragðið og þurrt rykið þyrlast um vitin. Morricone var einstakur í að skapa stemmningu og það besta við þessa tónlist er að hún stendur alveg ein og sér og það er jafn heillandi að hlusta á hana og að skoða gamlar leikaramyndir sem krakkar söfnuðu í gamla daga. Dásamlegt stöff.

Plata 49 er sko ekki af verri endanum frekar en nokkur á þessum lista. Stand!, 4. platan frá hinni mögnuðu Sly and The Family Stone og kemur út 1969. Þetta leiðir hugann að því að gaman væri að gera lista með svartri músík eingöngu. Jú, vissulega voru nokkrir af meðlimum sveitarinnar hvítir en þetta er svört músík eins og hún gerist best. Funk, soul og rokk í hæfilegum hlutföllum og nettum skammti af sækadelíu dreift yfir og maður situr sannarlega ekki stirður og stífur undir þessari músík. Það er gaman hvað hún er laus í sér og villt og er einhverskonar frjáls og óheft gleðiganga niður tónlistargötur rokksögunnar. Tímalaus snilld sem á alltaf erindi í mín eyru.

Plata 50 er From Elvis in Mephis frá árinu 1969. Það verður að vera einhver heldri maður í heiðurssætinu og sennilega engin betur til þess fallinn en Presley. Þessi áratugur var nú kannski ekki hans sterkasti en hér hittir hann á töfrastund í stúdíóinu og sannur suðurríkjasoulkántrýbluesgospel andi svífur yfir vötnum. Spilamennska og lagaval til fyrirmyndar og kallinn í fínu formi. Sé einhver að velta fyrir sér hvar Bo fékk hugmyndina að lagi sínu, Lennon (Hinn eini sanni Jón) þá má finna hana hér. Bitlarnir eða Stones, Wham eða Duran Duran... svona spurningar hafa alltaf komið fram varðandi þessa tvo turna sem oft myndast á hverjum tíma. Varðandi Presley eða Berry, þá stendur sá síðarnefndi ávallt nær hjarta mínu, en auðvitað ber maður virðingu fyrir Presley og þetta er geggjuð plata og ágætt að halda því til haga.

29.03.2018 14:46

Íslenska eyðieyjan 100 plötur

Íslensk eyðieyja  100 plötur

Skálmöld – Börn Loka

Megas – Á bleikum náttkjólum

Óðmenn – Óðmenn – 1970  

Spilverk Þjóðanna - Götuskór

Dimma – Myrkaraverk         

Þursaflokkurinn – Gæti eins verið – 1982

Trúbrot - Lifun

Sigurrós – Ágætis byrjun

Stuðmenn – Tívolí

Nýdönsk – Deluxe

 

Utangarðsmenn – Geislavirkir

Sólstafir - Berdreyminn

Mannakorn – Mannakorn

Strishow Late night cult show

Jón Ólafsson – Fiskar

Vintage Caravan - Arrival

Morðingjarnir – Flóttinn mikli

Hymnodía - Kveldúlfur

Baraflokkurinn – Zahir

Katla - Móðurástin

 

Grafík – 1981 - 2011

GCD – Bubbi + Rúnar

Röskun – Á brúninni

Ham – Svik, harmur og dauði

Innvortis – Reykjavík er ömurleg

Nykur - II

Svavar Knútur - Ölduslóð

XII – Black Box

Glerakur The Mountains are beatiful

Sálin  - Hér er draumurinn

 

Bubbi – Allar áttir

Skurk - Blóðbragð

Agent Fresco - Destrier

Bjartmar og Bergrisarnir – Skrítin veröld

Elín Helena – Til þeirra sem málið varðar

KK – Á Æðruleysinu

Boungura Band – Boungura Band

Kontinuum - Kyrr

200.000 Naglbítar – Vögguvísur fyrir skuggaprins

Maus – Í þessi sekúntubrot sem ég flýt

 

Helgi Björnsson – Veröldin er ný

Sugarcubes – Life´s to good

Sigurður Flosason – Bláir skuggar

Red Barnett - Shine

Hljómar - Hljómar

Rokk í Reykjavík - Ýmsir

Einar Scheving – Land míns föður

Herdís Hallvarðsdóttir - Gullfiskar

Ragga Gröndal - Svefnljóð

SH Draumur – Goð

 

Samaris – Silkidrangar

Helgi og Hljóðfæraleikararnir – Bæ Hæli

Snorri Helga – Vittu til

Ellen Kristjáns - Draumey

Mammút – Svarta systir

Árstíðir – Svefns og vökuskil

Todmobile - Todmobile

Anna María Björnsdóttir – Saknað fortíðar

Ómar Guðjónsson – Fram af

Legend – Fearless

 

Icecross - Icecross

Hrekkjusvín – Lög Unga fólksins

Orri Harðarson - Trú

Ylfa Mist – Ylfa Mist

Purrkur Pillnikk – Eigi enn

Karl Hallgrímsson – Draumur um koss

Hildur Vala - Lalala

Mánar – Nú er öldin önnur

Bang Gang – Something wrong

Sigurgeir Sigmundsson

 

Bootlegs - WC Monster

Sextett Ólafs Gauks - Þjóðhátíðarlögin

ONI – Misadventure – 2015

Rúnar Þórisson - Ólundardýr

Björn Thoroddsen - Luther

Magnús og Jóhann – Í tíma

Rúnar Gunnarsson – Undarlegt með unga menn

Lay Low – Brostinn strengur

Jóhann G. Jóhannsson - Langspil

Fræbbblarnir – Viltu bjór væna

 

Valdemar – Batnar útsýnið

Alchemia – Lunatic lullaby

Tómas R Einarsson - Bongó

Gímaldin – Blóðlegur fróðleikur

Buff – Buff

Einar Vilberg - Starlight

Jón Múli Árnason – Söngdansar og Ópusar - 2011

Eik – Speglun - 1976

Stella Hauksdóttir – Stella - 1999

Pelican – Uppteknir - 1974

 

Kristinn Sigmundsson – Uppáhaldslög – 2001

Skytturnar – Illgresi 2003

Þokkabót – Fráfærur 1976

SúEllen – Fram til fortíðar 2013

Lost – Lost – 2017

Gæðablóð – Með sorg í hjarta – 2014

Björgvin Gíslason – Örlagaglettur

Guðmundur Ingólfsson – Guðmundur Ingólfsson

Kalli Tomm – Örlagagaldur - 2015

Jet Black Joe – Fuzz – 1994

 

28.01.2018 16:58

Best fyrir 50 árum

Allt í einu er ég horfinn langt aftur í tímann og farinn að grúska í tónlist sem á hálfrar aldar afmæli á þessu ári. Ég var bara 9 ára fyrir 50 árum og sumt  af þessari tónlist hef ég uppgvötað löngu eftir að hún kom út og fallið fyrir henni á mismunandi æviskeiðum, margt hefur þó fylgt mér æði lengi. Eins og gengur hefur tónlist frá þessum tíma elst misvel, raunar eins og tónlist frá öllum tímum gerir. Ákvað að henda í 20 platna lista yfir það sem helst hefur heillað fyrir frá þessum tíma. Þetta er ekki í sérstakri röð, ekki einu sinni stafrófsröð sem hefði ef til vill verið réttlátast. Hér eru lofandi byrjendaverk og rúmlega það og aðrir á hátindi frægðarinnar, en margar sveitir sem hér eiga plötur áttu eftir að gera mun betur seinna meir. Það er ákaflega gefandi að detta svona í ákveðin tímabil tónlistarsögunnar og þetta eru allt plötur sem gott er að týna sér í og gefa mér ennþá mikið og ennþá má uppgvöta eitthvað "nýtt" í þessu. 1968 var gott ár í tónlist.

 

 

Traffic – Traffic

 

The Zombies – Odessey and Oracle

 

The Band – Music from a big pink

 

Super session – Mike Bloomfield Al Kooper Steven Stills

 

The Kinks – Are The Village Green preservation society

 

Rolling Stones – Beggars Banquet

 

Hljómar - Hljómar

 

Jimi Hendrix – Electric Ladyland

 

The Beatles – The Beatles (White album)

 

Ten Years After - Undead

 

Fleedwood Mac – Fleedwood Mac

 

The Pretty Things – S.F. Sorrow

 

Taj Mahal – Taj Mahal 

  

             

Deep Purple -  The Book of Taliesyn

 

The Fairport Convention – The Fairport Convention

 

Johnny Winter -  The Progressive Blues Experiment

 

Frank Zappa – Were only in it for the money

 

Sextett Ólafs Gauks – 14 þjóðhátíðarlög

 

Bee Gees - Horizontal

 

Jethro Tull – This was

25.01.2018 19:11

The Shady

The Shady

Aren´t you that girl...?

8/10

 

Hvað skyldu íslenska sveitin, The Shady og Iron Maiden eiga sameiginlegt ? Jú, báðar sveitir skarta flugmönnum innanborðs, Sigurði Stein Matthíassyni trommara og Bruce Dickinson söngvara. Örugglega væri hægt að finna annað sameiginlegt með sveitunum, þó ekki væri nema að hér er um tvær gæðasveitir að ræða þó ólíkar séu.

The Shady rekur ættir sínar til Norðurlands, nánar tiltekið til Eyjarfjarðarsvæðisins. Siggi trommari, Einar gítarleikari og Sigurður Marteinsson voru í rokksveitinni Dauglas Wilson forðum, en þar var einnig söngvarinn Stefán Jakobsson sem seinna átti eftir að gera garðinn frægan með Dimmu og er einn okkar besti söngvari í dag eins og hvert mannsbarn veit. DW sendi frá sér eina plötu 2005, Stuck in a world og það er óhætt að segja án þess að móðga nokkurn, að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og þessir strákar tekið út mikinn þroska sem tónlistarmenn. Eins og þó nokkuð tíðkast í dag var ákveðið að safna fyrir Aren´t you that girl...?  á Karolina Fund og þar var tónlistin kynnt til sögunnar sem 70´s skotið alternatíf rokk, keyrt áfram af trommum, bassa, gitar, hammondi og kraftmikilli kvenrödd. Ef vitnað er frekar í kynningu þeirra á plötunni má lesa eftirfarandi:

„Hugmyndin af Aren't you that girl...? kviknaði við lestur blaðagreinar af ungri stúlku sem varð fyrir kynferðislegri áreitni. Úr þeim lestri varð til textinn við titillagið og á endanum þema plötunnar. Þar er farið yfir örlagarík ár í lífi stúlku. Myrku stundirnar og þær góðu. Slæmu dagana og þá góðu. Slæmu hugsanirnar og þær góðu og baráttu hennar við því hvort hægt sé að lenda á fótunum þrátt fyrir allt sem á undan hefur gengið". Heimilisofbeldi kemur einnig við sögu og því ákvað sveitin að láta 25% af sölunni renna til Kvennaathvarfsins. Virðing á það.

Textarnir  eru flestir samdir af trommaranum Sigurði Stein, ( fetar þar í spor annars trommubróðurs, Neil Peart úr Rush) en hann á 4 einn og 4 með Evu söngkonu. Sigurður Marteinsson bassaleikari á einn, Lawrent Somers einn og Einar Máni, höfundur laganna á einn. Þeir ná að lýsa baráttunni sem stúlkan lendir í á sannfærandi hátt og á köflum dramatísk og seiðandi tónlistin styður vel við þá. Ákaflega þarft umfjöllunarefni hér á ferðinni á þessum dramatísku #metoo tímum.

Unnendur klassíska rokksins ættu að kætast við þessa plötu og fá hér mikið til að kjamsa á. Það er kannski hammondinn sem sterkast tengir við fortíðina og sveitir eins og Uriah Heep og ekki síst Jet Black Joe, sem vissulega er nær í tíma,  koma upp í hugann og það er vitnað í þær báðar hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað. En nóg um áhrif því Shady er mikið meira en bara einhver áhrif héðan og þaðan.  Þegar byrjað var að hlusta tók maður fljótt eftir þessri kraftmiklu kvenrödd er áður var kynnt til sögunnar. Hún kemur úr barka Evu Björnsdóttur, sem var bara sturtusöngkona úr Kópavogi áður hún fékk þetta gullna tækifæri. Hún klúðrar því svo sannarlega ekki og er án efa stjarna plötunnar án þess þó að skyggja á aðra og skapa eitthvað ójafnvægi. Kraftmikil  rödd  í stúlkunni og ef hún á ekki eftir að slá í gegn, þá er eitthvað mikið að. Ég vil að sjálfsögðu að The Shady haldi áfram og þrói sína tónlist og þar á Eva sannarlega heima og hún á bara eftir að batna með meiri reynslu og ég hlakka til að fá að heyra hana syngja á íslensku, en hún sleppur alveg ágætlega frá enskunni miðað við marga íslenska söngvara. Það er einhver seventís tónn í röddinni sem er svo heillandi og ég held að hún geti sungið hvaða tónlist sem er. Hef heyrt hana syngja lasna á tónleikum og hún lét það ekkert aftra sér og gaf sig alla í hlutverkið. Hún hefur líka þann kost að þurfa ekki alltaf að vera blasta röddinni og fer sparlega með bomburnar, er yfirveguð og framvindan alltaf eðlileg. Einn fyrir alla, allir fyrir einn.

Við fyrstu hlustanir fannst mér lögin renna svolítið saman og platan virkaði einsleit og kannski af því voru flest í svipuðu tempói og svipuð að uppbyggingu.  Það er því óhætt að segja að platan sé heilsteypt verk og með ítrekuðum hlustunum fór maður að meta karekter hvers lags og þau aðgreindust hver frá öðru. Það hefur stundum eyðilagt heildarmyndir platna að vera með hittara sem útvarpsstöðvar ofspila út í eitt, en þeim fækkar óðum sem leggja upp úr því að hlusta á plötur sem heildarverk. Það hefði þó verið gaman að fá einn hressann rokkara til að brjóta þetta upp, en ég sakna ekki hittarans.

Lögin eru góð og í raun ekkert sem hefði mátt missa sig. Það er einhver yfirvegaður blær yfir þessari plötu og greinilegt að það er virkilega vandað til verka hér og nostrað við hvert smáatriði. Spilamennskan er virkilega góð og laus við sýndarmennsku og stæla og Hammondinn einskonar vörumerki. Gítarsólóin hjá Einari eru alltaf smekkleg og melódísk og einhvern veginn alltaf mátulega löng. Hann virðist ekki hafa þörfina fyrir að leika einhverja sérstaka gítarhetju. Talandi um gítarhetjur, þá á Akureyringurinn Andri Ívarsson ákaflega skemmtilega innkomu í hinu frábæra Elements of fire sem sker sig nokkuð úr lögunum hér og brýtur aðeins upp hljóðmyndina. Frábært sóló hjá Andra og rodes píanóið hjá Jóni setur skemmtilegan svip á lagið.

Sjálfur Barak Obama lítur í heimsókn í laginu Fracta, en vitnað er í ræðu hans, hvar talað er meðal annars um að skapa heim þar sem hvers kyns ofbeldi er ekki umborið. Skemmtilegt innlit og áhrifaríkt.

Platan hljómar ákaflega vel en upptökustjórn var í höndum  Einars Mána Friðrikssonar og hljómsveitarinnar en Sigurdór Guðmundssonar (Skonrokk Studios) sá um hljóðblöndun og hljómjöfnun auk þess að koma að útsetningum og production á nokkrum lögum. Umbúðirnar smekklegar, en þær voru hannaðar af systir trommarans, Rósu Matt. Handskrifaðir textarnir koma vel út.

Þó þetta sé nú ekkert brjálæðislega frumlegt þá er þetta hörkuplata sem á sannarlega skilið athygli og vonandi hlítur hún ekki þau örlög að týnast í hippi og hoppi nútímans. Hefði kannski slegið í gegn á öðrum tímum, það veit maður aldrei. Vissulega er ég þeirrar skoðunar að hún hefði verið sterkari hefði verið sungið á íslensku, en það er kannski bara mín sérviska. Þetta er virkilega góð músík sem kannski höfðar frekar til þeirra sem komnir eru af léttasta skeiði og áttu sín mótunarár á „gullöld“ rokksins frá 65 – 75, unnenda klassíska rokksins. En góð músík höfðar vissulega til allra tónlistarunnenda og margir ættu að geta samsvarað sig þessari tónlist og því miður... allt of margir textunum. 

24.01.2018 22:21

Þúsund ár

 

Guðmundur R

Þúsund ár

9/10

                    

Guðmundur R er sólólistamannsnafn Guðmundar Rafnkels Gíslasonar sem væntanlega er kunnastur fyrir sönghlutverk sitt í poppsveitinni SúEllen, sem rekur ættir sínar til Norðfjarðar og gerði garðinn frægan á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Einhverjir muna kannski eftir smellum á borð við Kona, Þessi nótt, Ferð á enda og Svart silki svo einhver séu nefnd. Sveitin vaknar af og til lífsins ennþá, en þar sem meðlimir eru dreifðir víðsvegar um landið er eðli málsins samkvæmt örðugra að koma henni saman til spilamennsku en ella. Þúsund ár, er önnur sólóplata Gumma, en sú fyrsta heitir Íslensk tónlist og kom út 2007.

Það má ef til vill segja að drengirnir í hljómsveitinni Coney Island Babies, sem er bílskúrsband frá Norðfirði, eigi að stórum hluta heiðurinn af að þessi plata lítur dagsins ljós þó Guðmundur hafi lengi verið á leiðinni með að skella sér í aðra sólóplötu. Þeir höfðu samband við drenginn fyrir rúmu ári síðan og spurðu  hvort hann ætti ekki fullt af lögum sem hann væri til í að æfa með þeim. Þess má þó geta að um helmingur laganna urðu til eftir að æfingar hófust. Plötuútgáfa kom svo til sögunnar seint í ferlinu og þar sem Gummi á öll lögin og textana lá það kannski beinast við að platan kæmi út undir hans nafni. Coney Island Babies hafa sent frá sér eina plötu undir eigin nafni, Morning to kill sem kom 2012.

 Jón Ólafsson féllst síðan á að stjórna upptökum auk þess sem hann spilar á píanó og raddar og kemur að útsetningum. Þó það sé nú ekki alltaf fengur að fá „sérfræðinga að sunnan“ eins og við landsbyggðatútturnar köllum þá stundum, þá er vissulega fengur að fá snillinga á borð við Jón í hverskyns tónlistarverefni. Hann klikkar ekki hér frekar en fyrri daginn.

Hér hefur virkilega vel tekist til og þessi plata er abragðsgóð í alla staði og aðstandendum sínum til mikils sóma. Tónlistin dregur skemmtilega dám af því besta frá 9. áratugnum án þess að vera eitthvað óþarflega eitís. Það er ekkert óeðlilegt við það þar sem flytjendur áttu sín mótunarár á þeim tíma er hetjur á borð við The Smiths, Ecco and The Bunnyman, Stranglers,  Prefab Sprout, Baraflokkinn og Bubba heilluðu unga menn og konur og breska nýbylgjan var gott mótvægi við allan metalinn sem tröllreið öllu á hinum kantinum og svo var svuntuþeisasúpu poppið einhversstaðar þarna á milli.

Það sem m.a. einkennir þessa plötu er þetta afslappaða látleysi sem unnendur SúEllen kannast svo vel við hjá sínum mönnum. Vissulega minnir hér sumt á þá ágætu sveit eins og t.d. Öreigi í langreið, en Bubbaáhrif koma líka þar sterk inn. Annars er hér hvert lagið öðru betra og öll hafa þau sinn sérstaka sjarma og karakter og textarnir hjá Gumma eru góðir og vekja mann til umhugsunar um lífið og tilveruna. Margir hverjir hvatning um að njóta stundarinnar og dagsins því við vitum ekki hversu snemma það verður of seint... „Haltu fast í hamingju / því við vitum ekki lengd okkar líflínu“. Hann nær einnig að koma með skemmtilegar myndlíkingar í textum  eins og í hinu ágæta titillagi, Þúsund ár

Platan opnar á, Eins og vangalag,  fallegt lag sem Gummi tileinkar spúsu sinni og hefur töluvert hljómað á Rás2 segja mér menn og þess má geta að platan er plata vikunnar þar á bæ.

Hvatningin um að njóta dagsins fær dýpri merkingu þegar við gerum okkur grein fyrir hversu línan milli lífs og dauða er hárfín og við áttum okkur á að gleði og sorg er sitthvor hliðin á sama peningnum.  Kveikjan að laginu, Dagur um miðja nótt, var fráfall vinar er varð bráðkvaddur langt fyrir aldur fram, virkilega flott lag og bassaleikurinn virkilega skemmtilegur og gott ef maður heyrir ekki smá Cure áhrif í bassasándinu. Eins og víða á plötunni er nostrað við útsetningar og hér t.d. setur básúnúleikur Gumma skemmtilegan svip á þessa afbragssmíð. 

Talandi um dauðann þá er þessi plata tileinkuð unga fólkinu okkar sem kvatt hefur þetta líf alltof fljótt. Geðheilbrigðismál eru dauðans alvara og við sem samfélag verðum að gera miklu, miklu betur, skrifar Gummi innan í umslagið. Lagið Grafarþögn, er til minningar um Bjarna gítarleikara Akureyrsku rokksveitarinnar Churchhouse Creepers sem tók líf sitt á síðasta ári. Gummi þekkir til slíkra sorgaratburða þar sem hann missti bróðir sinn á svipaðan hátt.

 

Far þú í friði fugl minn

fljúgðu burt í nótt

Syngdu með öðrum sálum

er þurftu að fara líka

of fljótt.

 

Eitt skemmtilegasta lagið á plötunni og eitt það hressasta er, Aldrei einn,  létt shuffle bítið keyrir það áfram og Gummi á hér einn sinn besta söngperformans á plötunni. Texti um að það er alltaf hægt að fá hjálp við hvers kyns fíkn, við þurfum bara að bera okkur eftir henni. „Að biðja um hjáparhönd er aldrei of seint“.

Lagið, Mikið lengur kemur inn á hvernig er að missa barn sitt í klær eiturlyfja. Flott bassagrúf og klingjandi og Chris Isaack legur gítarinn draga mann til síðari hluta 9. áratugarins og Gummi syngur eins og engill.

Smá pönkuð ádeila er í hinu hressa, Best í heimi og ég er ekki frá því að ég heyri hér einhver óræð Waterboys áhrif... en að sjálfsögðu er Ísland best í heimi.

1974 sem endar plötuna er í rauninni sama laga og opnar hana, Eins og vangalag, en útsetningin er aðeins öðruvísi og t.d. hefur Jón hér bætt fallegum píanólínum við. Ofan á lagið les Ingvar Sigurðsson leikari, sem rekur ættir sínar til Norðfjarðar prósa, hvers innihald eru hugleiðingar höfundar um snjóflóðin tvö sem féll á Norðfirði í desember 1974 er hann var fjögurra ára snáði. Þetta var gífurlegt högg fyrir lítið byggðarlag að missa 12 manneskjur og  atvinnufyritæki lögð í rúst. Ákaflega áhrifamikil útgáfa og þar kemur fyrir hin áleitna spurning: Er dagurinn í dag kannski svarið við spurningum allra daga?

Hljóðfæraleikur á plötunni  er fumlaus og til fyrirmyndar. Átakalítill en alltaf við hæfi og útsetningarnar skemmtilegar og svo er hljómurinn einstaklega lifandi og skemmtilegur og þá ekki síst bassasándið og þetta eftirsótta andrími er sannarlega til staðar. Gummi hefur greinilega lagt góð lög í þetta púkk, en þau breittust vissulega í meðförum strákanna og Jóns. Gummi er fínn söngvari og á marga virkilega góða spretti hér. Vinur minn sem kom í heimsókn er ég var að hlusta spurði hvort ég væri að hlusta á Felix Bergsson. Þegar betur er að gáð er sú spurning alls ekki út í hött því raddir þeirra liggja alveg lýgilega vel saman á köflum. Flottir söngvarar báðir tveir. Umbúðirnar er skemmtilegar, en Múlinn, fjallið handans Neskaupsstaðar birtist þar hvítur undir gráum himni og vínrauðum sjó.

Þetta er bara fjandigóður gripur, vönduð íslensk dægurtónlist sem vekur vellíðan auk þess að vekja okkur til umhugsunar um allt of stutta tilveru okkar á Hótel Jörð. Manneskjuleg nálgun og hlýja en aldrei væmni eða væl. Það eru ekkert allt of margir sem eru að búa til svona tónlist í dag, tónlist sem heldur á lofti merkjum sígildrar dægurlagahefðar okkar, og þora að nikka til gamalla áhrifavalda hér og þar án þess að verða eitthvað hallærislegir. Þetta er virkilega smekklega gert hjá þessum góða mannskap og platan er alveg laus við uppfyllingarefni og því óþarfi að skippa einhverjum lögum. Vonandi er þetta bara byrjun á einhverju meira hjá þeim því þetta er greinilega gefandi samstarf.

03.12.2017 19:53

Bestu íslensku plöturnar 2017

Miðað við það sem ég er búinn að hlusta á af íslenska tónlist á árinu myndi ég segja að þetta sé gott plötuár. Þessar 21 sem ég tilgreini hér finnst mér allar eiga heima á topp 10, allt góðar plötur sem hafa glatt mig á árinu og auðgað líf mitt til muna. Það er ekki á þær allar fullhlustað svo margar þeirra eiga bara eftir að batna við ennfrekari hlustun á næstu mánuðum. Auðvitað er aldrei fullhlustað á neina plötu og hver hlustun gefur manni alltaf eitthvað nýtt. Það er hluti af töfrum tónlistarinnar að hún er aldrei nákvæmlega það sem maður heyrði við síðustu hlustun. Það er ánægjulegt hvað konur hafa verið öflugar á árinu og þarna eru 6 plötur þar sem konur eru í aðalhlutverkum. Treysti mér ekki til að raða þeim í neina sérstaka röð enda alger óþarfi, en allar eiga heima á topp 10. Áfram íslensk tónlist.

Nýdönsk – Á plánetunni Jörð

Dimma – Eldraunir

Mammút – Kinder versions

Sólstafir – Berdreyminn

Tómas R og Eyþór Gunnars – Innst inni

Skurk – Blóðbragð

Röskun – Á brúninni

Mimra – Sinking island

Jón Ólafsson – Fiskar

Glerakur – The Mountain are beautiful

The Shady – Aren´t you that girl...?

Ham – Söngvar um helvíti mannanna

Guðmundur R – Þúsund ár

Katla – Móðurást

Legend – Midnight champions

Ösp – Tales from a poplar tree

Bubbi – Túngumál

Roforofo - Roforofo

Högni - Two trains

Bergljót Arnalds - Heart beat

Vök - Figure

22.11.2017 19:47

Íslenskur eyðieyjulisti 100 plötur

Er búinn að gera 100 platna íslenskan eyðieyjulista og hef verið að henda inn einni plötu á dag á facebook með smá umsögn. Stefnan er að setja umsagnirnar hér inn við tækifæri. Þetta eru allt plötur sem hafa heillað mig sérstaklega á einhverjum tímapunti og ég hef bundist þeim tryggðaböndum. Það er svo hrikalega misjafnt hvað það er við plötur sem heillar og stundum er það eitthvað sem manni finnst algjörlega órökrétt og á skjön við viðtekinn smekk og skilur ekki strax. Fyrir 10 árum hefði þessi listi litið allt öðruvísi út og í janúar á næsta ári er hann kannski gjörbreyttur. Hef elst og róast og vonandi þroskast og það er slatti af kósý stöffi hér. Röðin skiptir í raun, engu máli, enda plötur aldrei spilaðar í ákveðinni röð, þetta eru bara plötur sem ég hefði með mér á eyðieyju í dag. Ég tel niður og hér eru plötur 51 niður í hundrað. Birti svo restina fyrst á facebook áður en ég hendi henni hér inn.

 

51-60

Helgi og Hljóðfæraleikararnir – Bæ Hæli

Snorri Helga – Vittu til

Ellen Kristjáns - Draumey

Mammút – Kondu til mín svarta systir

Árstíðir - Svefns og vöku skil

Todmobile - Todmobile

Anna María Björnsdóttir – Saknað fortíðar

Ómar Guðjónsson – Fram af

Legend - Fearless

Icecross - Icecross

 

61-70

Hrekkjusvín – Lög Unga fólksins

Orri Harðarson - Trú

Ylfa Mist – Ylfa Mist

Purrkur Pillnikk – Eigi enn

Karl Hallgrímsson – Draumur um koss

Hildur Vala - Lalala

Mánar – Nú er öldin önnur

Bang Gang – Something wrong

Sigurgeir Sigmundsson

Bootlegs - WC Monster

 

71-80

Sextett Ólafs Gauks - Þjóðhátíðarlögin

ONI – Misadventure – 2015

Rúnar Þórisson - Ólundardýr

Björn Thoroddsen - Luther

Magnús og Jóhann – Í tíma

Rúnar Gunnarsson – Undarlegt með unga menn

Lay Low – Brostinn strengur

Jóhann G. Jóhannsson - Langspil

Fræbbblarnir – Viltu bjór væna

 

81-90

Valdemar – Batnar útsýnið

Alchemia – Lunatic lullaby

Tómas R Einarsson - Bongó

Gímaldin – Blóðlegur fróðleikur

Buff – Buff

Einar Vilberg - Starlight

Jón Múli Árnason – Söngdansar og Ópusar - 2011

Eik – Speglun - 1976

Stella Hauksdóttir – Stella - 1999

Pelican – Uppteknir - 1974

 

91-100

Kristinn Sigmundsson – Uppáhaldslög – 2001

Skytturnar – Illgresi 2003

Þokkabót – Fráfærur 1976

SúEllen – Fram til fortíðar 2013

Lost – Lost – 2017

Gæðablóð – Með sorg í hjarta – 2014

Björgvin Gíslason – Örlagaglettur

Guðmundur Ingólfsson – Guðmundur Ingólfsson

Kalli Tomm – Örlagagaldur - 2015

Jet Black Joe – Fuzz – 1994

 

08.11.2017 19:55

Blóðbragð

Skurk  - Blóðbragð - 2017

8/10            

Einhversstaðar las ég að hljómsveitin Skurk hafi verið stofnuð um 1990, en annarsstaðar að hún hafi verið stofnuð í kringum 1987. Í upphafi 10. áratugar síðustu aldar stóð til að sveitin gæfi út plötu en fjármagnsskortur hamlaði því og hún lagði upp laupana í kjölfarið. 2011 komu þeir aftur saman og ákváðu að kanna hvort eitthvað rokk væri eftir í blóðinu. Það reyndist sannarlega vera og í kjölfarið tóku þeir upp 5 bestu gömlu lögin og bættu einu nýju við og gáfu út á þröngskífunni, Final gift sem fór nú ekki á neitt flug hjá tónlistarunnendum, en fínasta plata samt. Gamall og góður trashmetall eins og hann gerðist hvað bestur á 9. Áratugnum og þarna fundu þeir blóðbragðið aftur og vildu eðlilega meira kjöt. Marmiðið var sett himinhátt og stefnan var aftur tekin í stúdíó með það í huga að búa til hvorki meira né minna en bestu þungarokksplötu Íslands.

Já, hér voru háleit markmið og engu skildi til sparað og fljótlega var ljóst að epískt stórvirki var á teikniborðinu.  Í samvinnu við Tónlistarskólann á Akureyri og Daníel Þorsteinsson  var lagt af stað í plötuupptöku með strengjasveit og kór.  Eftir töluvert langan biðtíma og gífurlegan spenning, kom svo platan og reyndist þá fyrsta upplagið af plötunni vera gallað og bíða þurfti í einar þrjár vikur eftir nýju upplagi.

Þessi plata er þemaplata í vissum skilningi, en þó frábrugðin öðrum slíkum er segja eina sögu frá byrjun til enda, að því leiti að hvert lag segir frá sama atvikinu á sinn hátt. Sagan fjallar um stúlkuna Mjöll sem endar sitt líf á því að falla fyrir hendi morðingja, auk þess sem skyggnst er inn í hugarheim hans. Sagan er komin frá gömlu Skurklagi, The Night before yesterday, sem reynist svo vera titillag þessarar plötu.

Þessi plata er búinn að vera stór og oft á tíðum erfiður biti fyrir gamlan rokkhund.  Þó ég kalli nú ekki allt ömmu mína, hef ég  þurft frá að hverfa og snúa mér að öðru minna krefjandi. Alltaf var það þó eitthvað sem dró mig aftur að verkinu en stundum leið þó nokkur tími á milli hlustana, og ég get alveg játað að ég náði ekki að tengjast plötunni framan af hlustunarferlinu, enda tæplega 70 mínútna verk, hvorki meira né minna. Svona eins og meðal Iron Maiden plata hin seinni ár, en á hinum enda skalans má svo finna meistaraverk eins og Raign in blood með Slayer sem slefar ekki í 30 mínúturnar, og það er alveg nóg.

Þetta var eitthvað aðeins of mikið fyrir mig að melta í byrjun og þó maður hafi nú ýmsa fjöruna sopið eru svona langar plötur orðnar mikið meira mál en áður. Sennilega hefur þolinmæðin minkað með aldrinum og nennan, en það einskorðast væntanlega ekki við mig að eiga fullt í fangi með þetta langar plötur. Einbeitingarskortur nútímamannsins og óþol hefur orðið til þess að æ færri leggja það á sig að hlusta á plötur sem heildarverk. Ég geri það þó ennþá og er ekki vanur að gefast upp ef ég skynja eitthvað gott í tónlist þó á brattann sé að sækja og læt nú yfirleitt ekki brekkurnar hindra mig. Smámsaman fór heilinn að meðtaka þetta margslungna stórvirki og metalfræið sem var sáð í upphafi fór að dafna í moldinni, innan um öll hin tónlistarfræin.

Það virðist engin hljómsveit vera sveit með sveitum í dag nema hafa migið utan í klassíkina og fengið sinfó, strengjasveit  eða kór með sér og þá virðist engu skipta hvort um metalbönd er að ræða eða ekki. Úr metalgeiranum er skemmst að minnast synfónískrar samsuðu við Skálmöld og Dimmu og er óhætt að segja að það hafi gengið bærilega upp. Þegar vel er að gáð þá passar slík nálgun líka vel í dramatíkina og mikilfengleikann sem of má finna bæði í lassíkinni og málminum þegar best lætur. Jafnvel eru margar sveitir sem spila synfónískt metalrokk og má í því sambandi nefna hina hollensku Epica og svo sænsku sveitin Therion, en sú síðast nefnda kemur einatt fram með strengjasveitum kórum og klassískt lærðum einsöngvurum og á einhvern skondinn hátt hefur þetta komið einstakalega skemmtilega út hjá Therion oft á tíðum.

Til að þessi blanda gangi upp má klassíski hlutinn ekki vera á kostnað metalsins og sú er sannarlega ekki raunin hér. Hér er nóg af rausnarlegum riffum, geggjuðum gítarsólóum og drulluþétt rytmaparið heldur þessu svo saman á einstakan hátt. Þessi plata er á forsendum þeirra Skurk drengja og klassíski factorinn stækkar síðan bara hljóðmyndina, eykur dramatíkina og á stóran þátt í að gera þessa plötu að því epíska stórvirki sem hún sannarlega er.

Gamla og góða trassmetalbandið frá Akureyri er nánast búið að sprengja utan af sér trass skilgreininguna því hér er sótt í hinar ýmsu áttir og víða komið við. Menn brjótast út fyrir þægindarammann og kanna nýjar lendur án þess þó að gleyma  kjarnanum, enda eru í málminum margar vistarverur. Kunnulegir frasar kinnka til manns kolli og treysta tenginu við ræturnar og sem betur fer er ekkert verið að yfirgefa heimavöllinn. Auðvitað má heyra þarna áhrif frá Maiden, Metallica og jafnvel Black Sabbath riff í laginu "Feigur" , en þannig er það nú og hjá flestum og bara gott og gilt að nikka til áhrifavalda. Drengirnir eru auðvitað orðnir eldri og þroskaðri, búnir að hlaupa af sér hornin og sjá hlutina í nýju ljósi og til í hvað sem er.

Það er engin nýlunda að metalplötur hefjist á ljúfu kassagítarspili og ekkert síður í harðasta geiranum. Ballaðan Eymd er skemmtilegur fyrirboði þess er koma skal og myndar spennu fyrir framhaldinu. Síðan tekur við fyrirmyndar  "trassaskapur"  sem Skurk er þekkt fyrir og þétt keyrsla sem gefur lítil grið, þó þeir þori alveg að brjóta hana upp inn á milli, gefa sér tíma og nostra við hlutina,  og jafnvel óhæddir að renna í laufléttann metalslagara, eins og Sálmyrkva.  

Það sem einna fyrst greip mig við þessa plötu var gífurlegur krafturinn sem náðst hefur að fanga í stúdíóinu og sándið er til mikillar fyrirmyndar, en það er ekki alltaf hægt að segja um plötur í dag, hvar dínamík er stundum bara ekki til staðar og það sem kallað hefur verið, háværðarstríðið  (loudness war) heldur áfram enn um stundir. Enda miðast upptökur í dag við að tónlistin komi sem best út í útvarpi og þessum  litlu hátölurum sem menn troða í eyrun og leggja grunninn að heyrnarleysi seinni hluta æfinnar. Upptökustjórn og hljóðblöndun var í höndum Jakobs Þórs Guðmundssonar auk þess sem Haukur Pálma og Hallgrímur Jónas Ómarsson komu einnig að upptökum plötunnar

Lögin eru mörg brotin upp með  skemmtilegum köflum og þeir víla ekki fyrir sér að breyta oft um takta í eina og samalaginu, hægja á og gefa í á vixl, eins og háttur trassanna var hér í denn. Hið epíska 15 mínútna lokalag, sjálft titillagið er gott dæmi um slíkt. Meistaralega samvinna við klassísku deildina og hið rúmlega tveggja mínútna forspil neglir mann alveg og býr til eftirvæntingu. Lag sem býr ekki bara yfir öllu því besta sem gott þungarokk býður uppá, kraft, keyrslu, melódíu, flott gítarriff og gítarsóló, heldur býður líka uppá mikið meira. „Vitjun“  er svo annað gott dæmi um hvernig það getur gengið upp að blanda saman þessum tveimur heimum.

"Vitjun" minnir aðeins á hina sænsku Therion á köflum og virkilega gaman hversu vel hefur tekist til í hinu rúmlega 9 mínútna verki. Kórinn og Þórhildur Örvars setja sterkan svip hér að ógleymdum karlaröddunum tveimur sem renna sér í gegnum ljóð Rómverska skáldsins Catullus á latínu, og hann orti til ástkonu sinnar, Lesbiu. Það má geta þess í framhjáhlaupi að Catullus þessi var uppi  84-54 fyrir Krist. Auk rómverska skáldsins, á okkar eini og sanni, Einar Ben ljóð á plötunni í laginu Rökkvar, en það er tekið úr kvæðinu Skútahraun.

Guðni gítarleikari og söngvari á síðan restina af kveðskapnum og gerir víða vel á því sviði. Maður skynjar frostið og fannfergið, angistina, óttann og myrkrið, og blóðidrifinn snjórinn stendur manni ljóslifandi fyrir hugskotssjónum og blóðbragðið gælir nánast við bragðlaukana. Þeir fá náttúrulega extra stóran plús fyrir að hafa textana á íslensku, en fram að þessu hafa þeir sungið á ensku. Íslendingar eru alltaf meira sannfærandi á móðurmálinu, eðlilega. Textana má finna á heimasíðu sveitarinnar.

Sem söngvari er Guðni enginn Stebbi Jak eða Rúnar Eff, og þetta er ein af þeim röddum sem ekki hugnast öllum og skiptar skoðanir eru um, eins og t.d. hann Björgvin Sigurðsson í Skálmöld, án þess að ég ætli að líkja þeim eitthvað saman. Þess má geta að téður Björgvin á hér magnaða innkomu í hinu eiturhressa, "Rökkvar", en ennþá er ég að hitta menn sem ekki segjast geta hlustað á Skálmöld út af söngnum. Það finnst mér svona svipað og geta ekki borðað sushi út af vasibíinu, hvorttveggja óaðskiljanlegt. Svona hryssingslegar raddir heilla mig stundum og ég er fyrir löngu búinn að taka Guðna í sátt og finnst hann  smellpassa  sem söngvari Skurk, en ég skil vel sjónarmið þeirra sem láta ekki heillast. Hann nýtur sín hvað best í hinum hraðari trasslögum, eins og t.d. í hinu magnaða lagi, Refsing, hvar hann er frábær. En hann er misgóður og lögin henta honum misvel.

Kristján er einstakur trommari og klárlega í stórmeistaradeildinni, en það er ekki fyrir neinn venjulegan mann að tromma þessa tónlist svo vel sé. Það er svo ekki amarlegt fyrir hann að hafa Jón Heiðar sér við hlið á bassanum og þeir hafa nóg fyrir stafni, svo vægt  sé tekið til orða. Höddi á mörg frábær gítarsóló og allt gítarspil er hér til stakrar prýði, hugmyndaríkt, útpælt, en samt svo skemmtilega í hefðinni. Daníel og hans fólk á svo mikinn heiður skilið fyrir einstaka smekkvísi og fagmennsku og að vera tilbúinn að taka þátt í svona verkefni.

Að baki þessarar plötu liggja blóð, sviti og tár, geysilegur metnaður og elja, sköpunargáfa, stór hjörtu og ekki síst, dragsíður pungur. Eins og með mörg stór og mikil verk þarf að gefa plötunni góðan tíma, vingast við hana eins og baldinn fola sem að lokum launar erfiðið og þolinmæðina og gefur  manni allt margfallt til baka sem hann á. Bestu plöturnar eru þær sem maður þarf að hafa smá fyrir. Þeir lögðu upp með að gera bestu metalplötu á Íslandi, en hvort þeim hafi tekist það skal ósagt látið, en þetta er helvíti góð plata og án efa í hópi þeirra bestu í þessari deild hérlendis. Magnað að tvær Akureyrskar þungarokksveitir séu með plötur í hæsta gæðaflokki þetta árið, en smemma á arinu sendu strákarnir í Röskun frá sér hina frábæru, Á brúninni. Nú er það bara spurning hvort ég sé ekki bara kominn á bragðið með löngu plöturnar og teysti mér bara í að reyna enn og aftur við Book of souls með Maiden, en hún liggur óbætt hjá garði.

Um umbúðirnar má eflaust segja margt en mér finnst þær ekki  aðlaðandi og skorta þetta metal aðdráttarafl  sem oft er svo heillandi og hefur dregið mann að mörgu meistaraverkinu. Þetta ræður engum úrslitum hér. Áfram Þungarokk.

31.10.2017 20:23

Happy hour

Raggi Bjarna og Karl Orgel trío

Happy Hour

7,5/10

Raggi Bjarna er kominn á níræðisaldur og á honum sannast að aldur er ákaflega afstætt hugtak, en níræðisaldurinn er ef til vil nýji áttræðisaldurinn. Raggi er ennþá bráðhress og hefur sennilega sjaldan verið afkastameiri í plötuútgáfu en nú hin seinni ár. 2013 kom platan, Falleg hugsun, hvar öll lögin voru ný og var hún aðstandendum til sóma og fylgdi í kjölfar vinsællar dúettaplötu sem kom árið áður.

Það er samt ef til vill útsetning Karls Olgeirssonar á Nirvana laginu Smells like teen spirit, sem hann gerði með Miljónamæringunum 2002 og Raggi söng svo eftirminnilega sem kom honum aftur á kortið í tónlistinni eftir langa hvíld frá bransanum. Gjörólík og skondin útsetning sem smellpassaði svona líka vel fyrir Ragga og þar má segja að hugmyndin að þessari plötu hafi kviknað í kolli Kalla. Það er svo 11 árum síðar sem hann stofnar orgeltríó sitt að hugmyndin fór að gerjast ennfrekar, að gera heila plötu með Ragga þar sem hann syngur lög úr óvæntri átt og allt annari deild en hann er vanur. Nú er hún komin og ég verð nú bara að segja að þetta er um margt kærkominn gripur, grúví og eitursvalur á köflum.

Tónlistin að mestu vel þekkt popplög úr samtímanum, spiluð í anda orgeltríóanna sem gerðu garðinn frægan á 6. og 7. áratugnum. Orgelleikarinn spilar bassann á hammondinn og svo eru trommari og gítarleikari. Það er að sjálfsögðu Karl sem spilar á Hammondinn,  Ólafur Hólm trommar og Ásgeir Jón Ásgeirsson spilar á gítar og bouzouki. Hér eru nokkrir aðstoðarmenn í sumum lögum sem brjóta upp stemmninguna og setja meiri breidd í plötuna og má nefna þá Snorra Sigurðsson á trompet og Hauk Gröndal á saxafón og nærvera þeirra jassar þetta aðeins meira upp.

Lagavalið er kostulegt og til að byrja með er sumt fyndið og maður brosir út í annað, en brandarinn er auðvitað ekki eins fyndinn og þegar Nirvana slagarinn kom, enda nánast sami brandarinn þannig lagað. En það er fleira hérna en fynd og sannarlega réttlætanlegt að henda í ábreiðuplötu þegar mönnum ber gæfa til að finna nýja fleti á tónlistinni. Platan hefst á Get the party started eftir eina af mínum uppáhaldssöngkonum, Lindu Perry sem var aðalsprautan í 4 None Blondes,  en hefur síðan ásamt frekar láfleygum sólóferli, fengist við að semja lög fyrir aðra. Það var svo hún Pink sem gerði lagið vinsælt.

 Strax þarna í fyrsta laginu kemur akkilesarhæll plötunnar fram, en það er hreimurinn hjá Ragga. Yllu heilli eru flestir textarnir á ensku þar sem þetta eru jú erlend lög, og of mikill hreimur fyrir minn smekk skemmir flæðið. Sérstaklega þegar inn á milli koma íslenskir textar, þá heyrir maður hvað þeir ná sterkar til manns og söngvarinn meira sannfærandi og greinilega að spila á heimavelli og flæðið verður eðlilegra. Þannig er þetta nú með, ja kannski flesta íslenska söngvara sem syngja á ensku. Hefði verið sterkur leikur hér að snara textunum yfir á okkar ástkæra ylhýra. Það er hinsvegar ekkert út á sönginn annars að setja og Raggi er í glymrandi formi og gerir vel. Það er svo undir hverjum og einum komið hvort menn láta hreiminn trufla sig og sumstaðar kemur þetta ekkert að sök.

Þarna er To cut a long story short af fyrstu plötu Spandu Ballet áður en sveitin breyttist í leiðinda poppsveit og útsetningin ákaflega skemmtileg. Call me  frá Blondie, með smá Booker T fíling og Lady shave frá Gus Gus steinliggja. Þarna er líka annað  Call me, en Petula Clark söng það á 7. áratugnum. Við sem eldri erum, en þeir sem yngri eru,  þekkjum það í mikið betri útgáfu sem Hringdu, með Hljómum frá Keflavík. Útgáfa Ragga nær ekki verulegu flugi en dásamlegt að hlýða á gítarsóló Ásgeirs, eins og víða á plötunni.  Í I´ve seen it all með Björk nýtur Raggi aðstoðar hinnar frábæru söngkonu, Sölku Sólar og er það dágóður dúett og kraftur í bandinu. Hljómsveitarstjórinn semur síðan tvö lög og í hinu ágæta, Allt í fína syngur með honum hin nýja stjarna okkar, Katrín Halldóra sem sló svo eftirminnilega í gegn sem Ellý Vilhjálms í Borgarleikhúsinu. Fallegur dúett þar á ferð.

Þó  lögin séu mis áhugaverð, þá er þetta að mörgu leiti hörku plata ef menn eru tilbúnir að láta ekki hreiminn hjá Ragga trufla sig. Frábær spilamennska og gott grúv víða lifta henni upp í hæðstu hæðir því stundum fara menn á heljarinnar flug í flutningi sínum og geggjuð sóló frá bæði Kalla og Ásgeir og blásurunum og platan swingar mjög skemmtilega  á köflum. Þessi svali sixtís andi sem víða liggur þarna  yfir er skemmtilegur og það er eitthvað heillandi við þennan kontrast er það gamla mætir hinu nýja á þennan hátt. Ég vona sannarlega að Karl Orgeltrío sendi frá sér fleiri plötur, já og Raggi líka, því röddin í kallinum er ennþá engu lík og þessi lifandi goðsögn á vissulega heiður skilinn fyrir að taka þátt í þessu skondna verkefni, sem ef betur er að gáð, alveg í hans anda. En Ragga fer betur að syngja á íslensku.

29.10.2017 16:33

Söngur vonar

Sólmundur Friðriksson

Söngur  vonar

8/10

Sólmundur Friðrikssona er austfirðingur, nánar tiltekið frá Stöðvarfirði, en yfirgaf heimahagana ungur að árum og hefur síðan víða farið. Hann er tónmenntakennari og sjóaður af ballspilamennsku, m.a. með Geirmundi Valtýssyni til fjölda ára. Nú er hann búsettur í Keflavík og unir þar hag sínum vel. Þessi fyrsta sólóplata Sólmundar, hvar hann semur öll lög og texta, hefur átt langan aðdraganda, en fyrst stóð til að hún kæmi út á fertugsafmæli hans. Það gekk ekki eftir og þá var stefnan sett á 45 ára afmælið, en það er síðan ekki fyrr en nú á fimmtugasta afmælisárinu sem svo gripurinn kemur  loks út.

Hér er ekki harkan í fyrirrúmi og flauelsmjúk stemmning svífur yfir vötnum, en aldrei er þó Sólmundur væminn og vælandil. Einkvern tíman hefði þetta verið kallað „softrock“, en sú tónlistarstefna var hvað vinsælust á 8. áratugnum með hljómsveitum á borð við Player, Air Suply, Breed, James Taylor, og Fleedwood Mac, svo einhverjar séu nefndar. Margt hér samsvarar sig einnig við tónlist Mannakornanna okkar ef litið er heim á klakann. Þetta eru velsamin dægurlög hjá Sólmundi og hann þorir að vera einlægur og syngja frá hjartanu, laus við tilgerð og prjál. Frumlegt er þetta nú ekki og það er í góðu lagi og þetta er langt frá því að vera gamaldags og hallærislegt. Úrvinnslan er svo góð og smekkleg að það er hægur vandi að halla sér aftur og njóta. Fegurð tilverunnar er honum hugleikin og þakklæti til lífsins og gjafa þess. Hann syngur fallega til eiginkonunnar í „Lagið okkar“ og í „Hugarflug“ sem hann semur 12 ára gamall, en textann um 30 árum síðar, lætur hann hugann reika til æskustöðvanna fyrir austan. Einn instrumental blús fylgir hér með, Blús fyrir Agga, en hann saminn til minningar um Ágúst Ármann sem var tónlistagúrú fyrir austan. Það er gítarsnillingurinn og faðir upptökustjórans, Sigurgeir Sigmundsson sem fer þar á kostum á gítarinn. Annað næstum því instrumental lag er einnig hér að finna, kannski pínulítið í stíl við lag Magnúsar Blöndals Jóhannssonar, Sveitin milli sanda úr 69 af stöðinni og Ellý gaf rödd. Hef aldrei vitað hvort það telst instrumental, en hér ljáir Birta Sigurjónsdóttir laginu, "Leitin að Angelu" rödd sýna.

Titillagið er einstaklega smekklegt og textinn fallegur um vonina sem fer um heiminn og linar þrautir mannanna. Hildur dóttir Sólmundar syngur lagið lagið af stakri prýði og ég væri til í að heyra meira í þeirri rödd. Agnes systir henn syngur svo hið stórgóða lokalag hún er ekki síðri söngkona.  Þar er ákall um frið á jörð sem er gamalt stef, en fellur vonandi aldrei úr gildi. Annars syngur Sólmundur sjálfur flest lögin og þó hann hafi ekki mikla rödd þá ferst honum  söngurinn ákaflega vel úr barka og hann veit alveg hvað til hans friðar heyrir og er ávallt smekklegur og við hæfi. Notaleg  og einlæg rödd sem gott er á að hlýða. Það er síðan Davíð Sigurgeirsson gítaleikari sem er upptökustjóri hér og sér auk þess um útsetningar og spila á gítar. Hann kann greinilega sitt fag uppá 10 og á stórann þátt í glæsilegri útkomu hér. Meðspilarar hans eru síðan í takt við annað hér og hljóðfæraleikur er einkar  smekklegur og má til sögunna nefna þá Arnór Vilbergsson á Hammond, Ingvar Alfreðsson á píanó og orgel og Þorvald Halldórsson á trommur, svo einhverjir séu nefndir. Sjálfur spilar svo Sólmundur á bassa.  Umbúðirnar eru fallegar og við hæfi.

Mér hugnast þessi plata og styrkur hennar er einlægnin og látleysið. Það er ekkert verið að reyna að sigra heiminn og vera hipp og kúl og búa til eitthvað meistaraverk. Menn leyfa sér einlægni og hlýju og ég er alltaf svolítið skotinn í þeim framgangsmáta. Það er fullt af svona skúffuskáldum sem langar að gefa út plötu og margir láta drauminn rætast. Ekki eiga allir erindi sem erfiði og sumt á kannski ekki erindi út fyrir nánustu fjölskyldu. Þessi plata á sannarlega erindi og ég er ekki frá því að Sólmundur hafi gert heiminn að aðeins betri stað með því að láta þennan draum sinn rætast.

19.10.2017 19:15

Á plánetunni Jörð

 

Nýdönsk

Á plánetunni Jörð

9/10

 

Þessi plata með Nýdönsk sem út kom í síðasta mánuði er 10. hljóðversplatan þeirra og það telst nú varla mikil afköst frá 30 ára gamalli hljómsveit, rúmlega þrjár plötur á áratug. Þegar skoðað er yfir ferilinn og gæðin metin þá kannski horfir málið örlítið öðruvísi við og held ég að flestir séu tilbúnir að taka gæðin platna þeirra fram yfir magnið. Í þessi 30 ár hefur Nýdönsk verið ein okkar albesta dægurlagasveit og það er með ólíkindum að þeim hafi tekist að halda sér ungum og ferskum og búið til tónlist sem er óháð tíma og rúmi og einhvernveginn alltaf viðeigandi.

Þessir drengir eru önnum kafnir í hinum ýmsu verkefnum og þessvegna þegar á að henda í eina plötu, hafa þeir haft þann háttinn á í seinni tíð, að taka sér frí og fara erlendis í stúdíó. Núna varð Kanada fyrir valinu og ég verð nú bara að segja það strax að þessi vesturheimska afurð er til háborinnar fyrirmyndar og ber hæfileikum þessara pilta ákaflega fagurt vitni.

Diskó Berlín sem kom á undan þessari var virkilega góð plata sýndi og sannaði að ennþá var nóg eftir á sköpunartanknum. Á þessari plötu er tekinn allt annar póll í hæðina því hér er stemmningin frekar róleg og lágstemmd og þeir hafa fengið strengjasveit til liðs við sig. Sú ákvörðun gerir þessari plötu ákaflega gott því útsetningar eru einkar smekklegar og jafnvægið er gott. 2004 sendi Nýdönsk frá sér tónleikaplötu í samstarfi við sinfóníuhljómsveit  Íslands og þar bar sinfó meira hitann og þungann af flutningnum, en það var ágætisplata samt. Ætla samt ekkert að fjalla meira um hana hér.

Sköpunargáfan svíkur þá  félaga ekki frekar en fyrri daginn og allir leggja þeir hér í púkkið. Það hvað platan er jöfn að gæðum sýnir og sannar að ákaflega erfitt er að segja hverjir eru fremstir á meðal jafningja er kemur að lagasmíðum hér. Það er hellingur af frábærum lögum og sum jafnvel í hópi þeirra bestu eins og t.d opnunarlagið, Stundum, eftir Jón Ólafsson, sem er klárlega eitt af bestu lögum sem ég hef heyrt á árinu. Félagslíf plantna er snilldarlag eftir Ólaf Hólm trommuleikara og texti þeirra Björns og Daníels einstaklega skemmtilegur, en það ætti nú ekki að koma nokkrum á óvart sem til þeirra þekkja. Á plánetunni Jörð, eftir Björn Jörund, Hversdagsprins eftir Daníel, hið fallega og angurværa Tónaflóð, eftir Jón og Stöðuvatn sannleikans eftir Stefán eru allt snilldalög. Blendnastar eru tilfinningarnar gagnvart lokalaginu Tímamót, en verð samt að viðurkenna að ég hef lúmskt gaman að því.

Að vera með tvo slíka snilldarsöngvara og textasmiði sem Björn og Daníel eru í sömu hljómsveitinni er alveg magnað, og þeir „Ljúfur“ og „Hrjúfur“, eins og einhver kallaði þá, sýna sitt besta hér og allir eru auðvitað að standa sig og þessi plata er einstaklega vel heppnuð í alla staði. Tónlistin hefur mikið andrými og aldrei er neinu ofaukið. Flæðið flauelsmjúkt og afslappað, spilamennskan látlaus og smekkleg, en þetta er aldrei eitthvað einfalt og innantómt. Ef hægt er að tala um að tónlist sé þroskuð, þá mundi ég hiklaust segja þetta þroskað verk og skemmtilegar pælingar í gangi. Aldrei er þó kímnin langt undan hjá þeim félögum þó ef til vill megi segja að þetta sé frekar alvarleg plata í grunnin. Kannski er þetta besta platan þeirra, en það skiptir ekki neinu máli þannig lagað og hver metur það fyrir sig, en mér finnst hún allavegana í hópi þeirra albestu. 

11.09.2017 20:37

Óbrotinn kristall

Páll Óskar

Kristalsplatan

Stjörnugjöf 7,5/10

 

Sennilega nær  tónlistarferill  Páls Óskars yfir 3 áratugi og þó hann sé vissulega þekktastur fyrir sitt danspopp, þá hefur hann víða komið við og má þar nefna jafnólík verkefni og Milljónamæringana, samstarf hans við hörpuleikarann Monicku Abendroth og hlutverk Frank Furter í Rocky Horror, hvar hann fór á kostum forðum 18 eða 19 ára gamall og nú er komið að því að endurtaka leikinn... og það er ekki víst að það klikki.

Ég get ekki gert að því að mér finnst Páll Óskar skemmtilegur drengur sem erfitt er að láta sér líka illa við. Hann er fábær söngvari  með gífurlega sterka útgeislun sem hæfir poppstjörnunni sem hann vissulega er. Hann gengst sannarlega upp í stjörnuhlutverkinu, mínus stjörnustælana en samt er hann bara venjulegur drengur á sama tíma og hann er sannarlega engum líkur. Hann býr yfir innri fegurð. Hann er jákvæður, hvetjandi og bjartsýnn í sinni textagerð og tónlist og þar af leiðandi góð fyrirmynd fyrir aðdáendur sína. Hann tekur sig ekki of alvarlega, en hann gerir sér grein fyrir ábyrgð sinni og axlar hana af stakri prýði. Þegar Palli tjáir sig um hin ýmsu málefni leggja ég og fleiri einatt við eyru, nema kannski helst þegar hann tjáir sig um eurovision, þá missir hann mig.

Tónlistin hans hefur nú kannski aldrei verið minn tebolli, þannig lagað, og stundum hefur mér fundist umbúðirnar á kostnað innihaldsins (kannski ekki ósvipað og í eurovision). Ég hef nú samt staðið mig að því að hrífast í laumi, þegar ég held að enginn viti af, og lítil hætta á að tapa kúlinu. Þessi músík er velheppnuð til síns brúks og það er dauður maður sem ekki dillar sér við Palladiskóið á einhverjum tímapunkti lífsins. Þess vegna nýtur hún sín væntanlega hvað best, hvar menn hyggjast iðka dansmennt og dill, og skiptir þá væntanlega litlu hvort það er í stofunni heima eða á diskótekum. Þó nær hún sennilega hvað mestum áhrifum í múgsefjuninni í margmenni diskóteksins.

Mér finnst hann kannski fulllítið hafa þróast í sinni tónsköpun og full fastur í sínu gamla fari, þó alltaf spretti nýjir angar hér og þar.  En þá kemur  kemur maður alltaf að þeirri rökréttu pælingu, hvort skynsamlegt sé að fokka eitthvað í vinningliðinu á meðan sigrar vinnast. Mér hefur stundum fundist Palli taka niður fyrir sig tónlistarlega og ég er sannfærður um að hann á mikið inni sem tónlistarmaður. Ég er alltaf í bjartsýni minni að bíða eftir „þungu“ rafplötunni frá drengnum, eitthvað í stíl við lokalagið á þessari, Walk away, sem er eftir Frosta Jónsson og BistroBoy. Sú plata yrði þá á kostnað danspoppsins. Áðurnefnt Walk away er með betri lögum hér og svo er ég líka skotinn í ballöðunni fallegu, Ég elska þig til baka eftir Bjarka Hallbergsson við texta Palla. Hið pínu Röykksopp lega „Meistarinn“ hittir í mark og hér er gert góðlátlegt grín að eurovision viðhorfi Íslendinga í hinu skemmtilega, „Vinnum þetta fyrirfram“ við texta Palla og Braga Valdimars Skúlasonar.  „Ást sem endist“  er líka að heilla þessa dagana og hefur fengið mig til að þeytast hér um vistarverur, jafnvel bömpa.

Hér eru ekki verulega feilsporin stigin en lögin eru misáhugaverð eins og gengur. Helsta gæfa Palla fyrir utan óumdeilanlega hæfileika eru góðir samstarfsmenn og því er þannig farið hér. Í lagasmíðum og undirleik eru ekki  minnst áberandi þeir Bjarki Hallbergsson og Jakob Reynir  Jakobsson. Drengir sem vita uppá sína 10 hvernig á að búa til tölvudanspopp. Palli er afkastamestur í textagerðinni auk þess að koma að lagasmíðum og í textum er hann vel frambærilegur og hefur tekið miklum framförum. Grunnstefið í textum Palla er kannski sú að ástin sigri allt og við getum það sem við ætlum okkur í lífinu, svo framarlega að við látum ekki nokkurn lifandi mann telja okkur trú um annað og fylgjum settu marki.

Umbúðirnar, sem eru í anda Palla, voru handföndraðar, en Palli  ásamt vinum og kunningjum, föndruðu 2000 diska og 1000 vinylplötur. Þeim áhugasömustu bauðst að kaupa plötuna í forsölu og hugðist Palli heimsækja þá og afhenda plötur og diska. Þegar 1000 plötur höfðu verið seldar í forsölu var ákveðið að fleiri heimili yrðu ekki heimsótt, enda hefði drengurinn þá ekki gert annað.

Palli er baráttumaður og sigurvegari í lífinu. Hann boðar ást og frið og hvernig í ósköpunum ætti maður einhverjum að mislíka það.  Hann má vera sáttur við þessa afurð sína og ég er 100% viss um að aðdáendurnir eru það líka. Mér leiðist ekki við að hlusta á þessa plötu og ef til vill er þetta hans besta til þessa, en hann má alveg fara að líta til annara átta.

06.07.2017 21:14

Öspin ilmar

Ösp Eldjárn – Tales from a poplar tree - 2017

8/10

 

Það eru kannski einhverjir sem kannast við Ösp Eldjárn úr bluegrass sveitinni Brother Grass sem sent hefur frá sér tvær plötur, en þar var einnig innanborðs Örn bróðir hennar ásamt öðru góðu fólki. Þessi hæfileikaríka stúlkan kemur af Svarfdælsku listafólki og henni kippir sannarlega í kynið. Móðir hennar er söngkonan Kristjana Arngrímsdóttir og faðir Kristján Hjartarson.  Einhverjir hefðu þegar hér er komið sögu farið að minnast á eplið og eikina, en ég læt mér nægja að tala um Ösp.

 

Hún hefur frá 2011 búið í London þar sem hún stundar tónlistarnám og hefur jafnframt unnið við tónlist. Um það leiti sem hún flutti út hóf hún að semja tónlist og texta og nú, um 6 árum seinna lítur svo dagsins ljós hennar fyrsta sólóplata, Tales from a poplar tree, sem ef til vill mætti þýða sem, Sagnir af öspinni. Platan er tekin upp í Cafe Music Studios í London og  upptökustjóri var Cherif Hashizume.

 

Ösp getur sannarlega verið sátt með þennan frumburð sinn, því hér er víða vel gert, bæði í lögum og ljóði. Tónlistin þjóðlagaskotin og það sem ekki er hvað síst svo heillandi hér er þessi dásamlega fallega melankólía sem þræðir sig í gegnum plötuna. Ljúfsárt, er mantran hér og hún gengur fullkomnlega upp. Þetta er ekki plata fyrir alla frekar en aðrar plötur og er ég hræddur um að sumir sem ég þekki þætti þessi tónlist full aðgerðarlítil og afslöppuð og sakni þessi að fá ekki hressilegt uppbrot inn á milli.

Mér þótti þetta full einsleitt í byrjun og var ekki alveg að kaupa þessa yfirveguðu ró og saknaði ásláttar. Fann þó fljótt að þarna var margt gott sem kallaði á frekari hlustanir og smám saman er ég gaf henni séns, læddist platan inn og tók sér bólfestu í höfðinu og ég lærði að elska þessi notalegheit. Það er ekki síst þessi dásamlega fallega rödd sem kallar til frekari samfunda og þegar við bætast þroskaðar lagasmíðar, og svona líka vel futtar, er ekki að sökum að spyrja. En platan krefst þess að maður gíri sig niður, klæði sig úr stresskápu hins daglega lífs og lifi sig inn í notalegt flæðið og gefi sig fallegri tónlistinni á vald. Þeir sem leggja  það á sig gætu átta von á að verða ríkulega verðlaunaðir, það er að segja þeir sem ekki tapa þolinmæðinni. Stór hlutim fólks í dag hefur nefnilega ekki þolinmæði eða tíma til að setjast niður og hlusta á heila plötu.

 

Ösp telur Svarfaðardal og London ólíka staði og maður á vissulega ekki erfitt með að trúa því. Það geti verið erfitt að vera með hjartað á tveimur stöðum og viðfangsefni plötunnar er meðal annars heimþrá og rótleysi ferðalangsins, ásamt sögum af mannlegum átökum og ástinni í öllum sínum fjölbreytileika.

 

Platan hefst á fallegu lagi við eitt af ástarljóðum Páls Ólafssonar,  Ástarnetið. Lagið læðist af stað með ljúfu píanóinu og síðan kemur sellóið inn til stuðnings og fallegur söngurinn kórónar síðan þessa snotru smíð. Annar mikill höfðingi, Davíð Stefánsson, á ljóðið í Klettabrúður, sem er ekki síðra lag og maður á auðvelt með að sjá fyrir sér hrikalega íslenska kletta hvar burnirótin grær. Lagið byrjar líkt og gamalt íslenskt sönglag, píanóið sér um meginstefið en einmannalegur  gítar og ýmislegt dúllerí í bakgrunninum sveipar skemmtilegri dulúð á lagið. Linda Guðmundsdóttir á svo textann í hinu stórfína Sól í sól. Í Tree without a root tekst Ösp á við heimþrána og rótleysið og gítarinn hjá Erni þræðir síðan ljúfsáran söknuðinn í lagið. Dramatísk, dimm og þjóðleg er byrjunin á vögguvísunni Neverland og mér finnst þetta mögnuð smíð, en sennilega hefði hún verið enn áhrifaríkari á íslensku. Skemmtilegt er myndbandið við Travelling man sem finna má á youtube, en það sýnir foreldra stúlkunnar fyrir margt löngu á ferðalagi uppi á öræfum. Lagið er auðvitað skínandi gott og viðeigandi endir á góðri plötu. Já hér er mikið af góðum lögum, hlaðin af ljúfsárum sjarma, hlýju og manneskjulegheitum.

 

Það er mikið af góðu fólki sem kemur að gerð þessarar plötu og það er góð samvinna sem ekki hvað síst skapar þetta góða verk. Það er ekki alltaf eitthvað sjálfgefið að það takist að skapa sannfærandi hljóðheim þegar gefa skal út tónlist sem búin er að vera gerjast í huga höfundar. Þessu fólki tekst það og ávalt er alltaf heillandi þegar fólk fer sparlega með hljóðfærin sín, en nær að heilla með hógværðinni. Lögin fá að anda og hver smáhljóð í hljóðmyndinni skiptir máli.

 

Örn bróðir hennar spilar á gítar auk þess að útsetja strengi. Helga Ragnarsdóttir spilar á píanó, hljómborð, harmonium og gítar. Samuel Pegg spilar á bassa, Valeria Rosso á fiðlu, Stefan Knapik á celló, Jez Houghton á franskt horn. Marit Rokeberg bakraddar og svo sér upptökustjórinn Cherif um electronikina sem skiptir sannarlega máli í hljóðmyndinn. Platan hljómar vel og yfir engu að kvarta þar.

 

Sjálf syngur Ösp og spilar auk þess á gítar og semur lög og texta, fyri utan þá er áður er getið. Allt leikur þetta í höndunum á henni og hún er frábær söngkona með heillandi rödd. Hún líkist móður sinni á köflum og þar er ekki leiðum að líkjast. Þegar Sól í sól byrjaði fannst mér engu líkara en Kristjana sjálf væri mætt.

 

Hún tekur þann pól í hæðina að syngja á ísl/ensku, 4 lög á íslensku og restin á ensku. Hún er meira sannfærandi á íslenskunni og maður tengir meira við hana. Hreimurinn kemur alltaf upp um íslendinginn. Það er þó alls ekkert til baga hér þannig lagað, því hér er allt gert með svo fallegri útgeislun og virðingu fyrir viðfangsefninu.

 

Plötuna er hægt að kaupa á bæði á vinyl og disk. Auk þess er hægt að kaupa aspartréskífur úr Svarfaðardal með niðurhalskóða fyrir þá sem vilja plötuna rafrænt. Skemmtilegt.

 

Þetta er yndisleg plata og hún vekur sömu velíðan og lífsfyllingu eins og þegar ég geng um fallega gróðursæla bæinn minn eftir rigningu og asparilmurinn fyllir vit mín og ég hugsa... lífið er gott.

 

Bestu lög: Ástarnetið, Travelling man, Neverland og Sisters of the valley.

27.06.2017 22:31

Willie Nelson God´s problem child

Willie Nelson – God´s probmlem child - 2017

8/10

Í gegnum tíðina hef ég ekki mikið lagt mig eftir tónlistinni hans Willie Nelson og hef fram að þessu ekki talið mig til sérstakra aðdáenda hans. Eins og mörg önnur stórmenni rokksögunnar já, og minni spámenn, hefur hann þó með einum eða öðrum hætti verið hluti af „sándtrakki“ lífs míns, þó það væri ekki nema út af On the road again og Crazy (sem Patcy Cline fékk heiðurinn af að gera vinsælt). Hef þó af og til keypt plötur hans, en oftast fer tvöföld safnplata í spilarann. Ég átti nefnilega framan af í stökustu vandræðum með að kunna við þessa skrítnu rödd sem blessaður maðurinn hafði og hefur enn. Enginn í heiminum syngur eins og hinn grasreykjandi Willie, það er á hreinu.

 

Ég er fyrir löngu búinn að taka þessa rödd í sátt, því minna er bara stundum meira. Hún er svo dásamlega laus við tilgerð og sýndarmennsku, en full af hlýju og látlausri einlægni. Aldrei hvarflaði  þó að mér að 84 ára gamall væri hann ennþá að syngja og röddin heldur ennþá á þessari sextugustu og fyrstu stúdíóplötu kallsins. Gárungarnir segja að Willie hafi aldrei haft neina rödd, því sé ekkert að missa.

 

Það er erfitt annað en að láta sér þykja vænt um Willie, því hann er skemmtilegur karakter sem er laus við stjörnustæla og einn óstjörnulegasti listamaður samtímans með sinn nælonstrengjaða Trygger sem er einn ljótasti gítar sem ég hef séð. En kallinn kann að spila og mér finnst hann ákaflega vanmetinn sem gítarleikari.

 

Hafi ég ekki verið aðdáandi kallsins þá er ég orðinn það eftir þessa plötu. God´s promblem child er nefnilega alveg stórgóð plata og sú besta sem ég hef heyrt frá kallinum. Söngurinn er sannarlega ekki eins og hjá 84 ára gömlum manni (nema hún hafi alltaf verið það). Hér finnst mér einhvernveginn allt ganga upp. Lögin góð og spilamennskan algjörlega við hæfi og það er ekkert klisjulegt við kántríið hans Willie og félaga. Flest lögin eru eftir Willie og uptökustjórann Buddy Cannon en það má til gamans geta að háöldruð móðir Buddys, Lyndel Rhodes á lagið sem byrjar plötuna, Little house on the hill.

 

Stemmningin notaleg og ákaflega afslöppuð þó aðeins sé hleypt á skeið inn á milli, eins og t.d. í hinu bráðskemmtilega Still not dead, hvar hann gerir grín af ótímabærum andlátsfregnum af sér á internetinu. Ég er viss um að þessi slagari á eftir að lifa kallinn og einhvern tímann hefði hann slegið í gegn. Gamli fenjarefurinn Tony Joe White á titillagið og þar líta við auk hans, Jamey  Johnson og sjálfur Leon Russel, en þetta mun vera eitt það síðasta sem hann gerði á tónlistarsviðinu áður en hann yfirgaf jarðvistina. Típískur fenjablús að hætti Tony Joe og klárlega eitt sterkast lagið hér og flutningurinn dásamlegur. Merle Haggart er minnst í lokalaginu He won´t ever be gone og ef til vill mætti heimfæra þessar línur úr textanum á Willie sjálfan: “Some are so mutch larger than life/ You can´t believe thay could pass away“.  

 

Hér er líka boðið uppá ljúfsára rómantík en alltaf er framsetning smekkleg, látlaus, einlæg og laus við væmni. Hann vottar tilverunni virðingu sína, sáttur í eigin skinni, en farinn að skynja að það er liðið á haustið og dauðinn kannski farinn að brýna ljáinn handan við hornið. Hann er þó ekkert að fara að deyja þó hann hverfi úr þessari vist. Góð tónlist lifir höfunda sína, líka þá hógværu og hávaðalausu. Það er æðilangt síðan ég hef hlustað jafnmikið á kántrýplötu eins og þessa, og ég er bæði búinn að fá mér hana á vinyl og cd. Hvort það segir meira um mig en plötuna skal ósagt látið.

 

Bestu lög: God´s problem Child, Still not dead og Old timer

25.06.2017 20:07

Deep Purple - InFinite

Deep Purple – Infinity – 2017

7,5/10

 

Á næsta ári fagnar Deep Purple 50 ára útgáfu afmæli. Já, það var 1968 sem þeir sendu frá sér Shades of Deep Purple og ótrúleg saga einnar bestu rokksveitar Breta hófst, og það sér ekki enn fyrir endann á því ævintýri. Þeir hafa selt yfir 120 miljón platna og þessi plata er sú 20. í röð stúdíóplatna og fjórða í röðinni með þessum mannskap sem lengst hefur starfað saman undir Purple nafninu. Purple var fyrsta ástin mín í rokkinu og kassettan Made in Japan var spiluð fermingarárið mitt þangað til hún gaf upp öndina. Betri tónleikaplötu hef ég ekki heyrt og efast um að eiga eftir að heyra og það var ekki amarlegt að fá að kynnast henni á þessum miklu mótunarárum sem unglings árin eru. Ekki var heldur leiðinlegt að hafa Zeppelin og Sabbath þarna samhliða til að kynda undir rokkáhuganum.

 

Segja má með sanni að að sveitin hafi gengið í gegnum gallsúrt og sætt í gegnum tíðina. Unnið stóra rokk sigra en einnig átt sín niðurlægingartímabil. Lágpunkturinn er væntanlega platan Slaves and masters frá 1990, hvar hinn slappi Joe Lynn Turner er tekinn við hljóðnemanum. Platan hljómar eins og léleg Rainbow plata og Purple nafninu var lítill greiði gerður með henni og ég er viss um að þeir vilja flestir gleyma henni sem að komu, nema þá Joe Lynn sem telur hana meistaraverk.

 

Þeir hafa alltaf risið upp úr sínum lægðum, og undanfarin ár hafa þeir siglt lygnan sjó og þrátt fyrir þessa miklu arflegð  sem þeir gætu hæglega lifað á, þá eru þeir enn að búa til músík og segjast enn hafa gaman af því. Tveir þeirra komnir yfir sjötugt, tveir að detta í sjötugt og svo unglingurinn Morse, sextíu og tveggja.

 

Sjaldan eru fordómar til fagnaðar. Ég get alveg játað að mér leist ekkert sérstaklega vel á gripinn í fyrstu atrennu, og lét það álit í ljós, en það átti nú eftir að breytast við frekari hlustanir. Þar sem plötusala hefur dregist svo verulega saman eins og raun ber vitni og Purple ekki heitasta bandið á markaðinum, þá gefur það þeim frjálsari hendur í tónlistarsköpun að þurfa ekki að gefa út tónlist til að selja í bílförmum. Engin pressa og þeir gera bara það sem þeim hentar og þá langar til.

 

Þannig er þessi plata. Þeir eru afslappaðir og það skín í gegn að þeir hafa notið sín við gerð plötunnar því spilagleðin leynir sér ekki.  Frábær hljóðfæraleikurinn eins og maður er vanur úr þessari átt. Það má segja að nýjasti (15 ár) meðlimur sveitarinnar, Don Airey nánast steli senunni. Hann fer víða á kostum á Hammondinn svo unun er á að hlíða. Platan er nefnilega mjög orgeldrifin og sver sig þess vegna mikið í gullöld sveitarinnar á 8. áratugnum. Morse góður á gítarinn að venju og tónninn blúsaðri en oft áður, og þeir félagar hafa gott rými til að njóta sín til fullnustu og eiga sennilega hvað stærstan þátt í að skapa hin eina sanna Purple hljóm hér. Paice greinilega búinn að jafna sig eftir vægt heilablóðfall sem hann fékk fyrir um ári síðan og ekki þarf að fjölyrða um Gloverinn, eitt flottasta rhytmaparið í rokksögunni, þjakað af reynslu kann ekkert annað en að standa sig með prýði. Gillan öskrin frægu heyra þó sögunni til, enda karlinn á sjötugasta og öðru aldursári, en hann kemst samt mjög vel frá sínu hér og er enn heillandi.

 

Ef til vill er þetta heilsteyptasta Purple platan lengi, ja allavegana af þeim fjórum á þessari öld og sú besta í mjög langan tíma þó engan veginn sé hér neitt meistaraverk á ferðinni.  Af þessum 20 súdíóplötum lenti hún þó væntanlega á topp 10. Góð spilamennskan lyftir henni  ekki hvað síst yfir meðallagið og þó þeir ríði ekki endilega spikfeitum hesti frá  lagasmíðum eru mörg laganna vel frambærileg og sum góð eins og t.d „All I got is you“  sem óhætt er að setja í klassísku Purple deildina. Þar tekur Airey frábært minimoog solo og árin með Colosseum 2 koma upp í hugann, og Morse tekur síðan við með ákaflega smekklegt gítarsóló. Jon Lord hataði synta og það meðal annrs skilur á mlli hans og Aire, sem mér finnst  ekki síðri spilari. Típískur Purple rokkari, Time for Bedlam, byrjar plötuna , Hip boots og One night in Vegas sverja sig í blúsrokkið og það siðara jafnvel með smá funk grúvi. Progg áhrifin leyna sér ekki í hinu tæplega 6 mínútna The Surprising sem er með þeim betri hérna. Johnny´s Band er kannski léttvægur rokkari en Purple nær að gera hann áheyrilegan sem og lokalagið sem er eitt af kunnari lögum Doors, Roadhouse Blues. Vandmeðfarið lag sem þeir ná að endurgera á sómasamlegan hátt.

 

Það hefur aldrei verið neinn Bob Dylan „wannabe“ í Purple og þeir ekki þekktir fyrir að vera neitt sérstakir orðasmiðir, enda hefur maður ekki verið að gera neinar kröfur um að dýrt sé kveðið í klassíska rokkinu. Þetta er þó ekki verra en oft áður og ekkert sem maður lætur trufla sig.

 

Upptökustjórinn er hinn gamalreyndi  Bob Ezrin og er þetta önnur platan í röð sem hann er upptökustjóri á. Mjög gott og dynamískt sándið á plötunni, en jafnast þó ekki á við best hljómandi Purple plöturnar á 8. áratugnum.

 

Ég myndi hiklaust segja að þessi plata sé mun betri en maður getur átt von á frá þessum öldnu stríðshrossum klassíska rokksins sem brátt verða flestir dottnir á áttræðisaldurinn. Platan hljómar ekki eins og gamlir karlar hafi komið saman til að reyna að endurvekja forna dýrðardaga. Þeir verða aldrei endurvaktir hjá neinum. Hún er þeim þó til sóma og ef þetta verður þeirra síðasti ópus þá er vel skilið við, ennþá skapand, vel spilandi og skemmtilegir.

 

PS...Purple voru alltaf skemmtilegri en Zeppelin.

Flettingar í dag: 2
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 65
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 220914
Samtals gestir: 71627
Tölur uppfærðar: 23.5.2018 00:40:34