22.11.2017 19:47

Íslenskur eyðieyjulisti 100 plötur

Er búinn að gera 100 platna íslenskan eyðieyjulista og hef verið að henda inn einni plötu á dag á facebook með smá umsögn. Stefnan er að setja umsagnirnar hér inn við tækifæri. Þetta eru allt plötur sem hafa heillað mig sérstaklega á einhverjum tímapunti og ég hef bundist þeim tryggðaböndum. Það er svo hrikalega misjafnt hvað það er við plötur sem heillar og stundum er það eitthvað sem manni finnst algjörlega órökrétt og á skjön við viðtekinn smekk og skilur ekki strax. Fyrir 10 árum hefði þessi listi litið allt öðruvísi út og í janúar á næsta ári er hann kannski gjörbreyttur. Hef elst og róast og vonandi þroskast og það er slatti af kósý stöffi hér. Röðin skiptir í raun, engu máli, enda plötur aldrei spilaðar í ákveðinni röð, þetta eru bara plötur sem ég hefði með mér á eyðieyju í dag. Ég tel niður og hér eru plötur 51 niður í hundrað. Birti svo restina fyrst á facebook áður en ég hendi henni hér inn.

 

51-60

Helgi og Hljóðfæraleikararnir – Bæ Hæli

Snorri Helga – Vittu til

Ellen Kristjáns - Draumey

Mammút – Kondu til mín svarta systir

Árstíðir - Svefns og vöku skil

Todmobile - Todmobile

Anna María Björnsdóttir – Saknað fortíðar

Ómar Guðjónsson – Fram af

Legend - Fearless

Icecross - Icecross

 

61-70

Hrekkjusvín – Lög Unga fólksins

Orri Harðarson - Trú

Ylfa Mist – Ylfa Mist

Purrkur Pillnikk – Eigi enn

Karl Hallgrímsson – Draumur um koss

Hildur Vala - Lalala

Mánar – Nú er öldin önnur

Bang Gang – Something wrong

Sigurgeir Sigmundsson

Bootlegs - WC Monster

 

71-80

Sextett Ólafs Gauks - Þjóðhátíðarlögin

ONI – Misadventure – 2015

Rúnar Þórisson - Ólundardýr

Björn Thoroddsen - Luther

Magnús og Jóhann – Í tíma

Rúnar Gunnarsson – Undarlegt með unga menn

Lay Low – Brostinn strengur

Jóhann G. Jóhannsson - Langspil

Fræbbblarnir – Viltu bjór væna

 

81-90

Valdemar – Batnar útsýnið

Alchemia – Lunatic lullaby

Tómas R Einarsson - Bongó

Gímaldin – Blóðlegur fróðleikur

Buff – Buff

Einar Vilberg - Starlight

Jón Múli Árnason – Söngdansar og Ópusar - 2011

Eik – Speglun - 1976

Stella Hauksdóttir – Stella - 1999

Pelican – Uppteknir - 1974

 

91-100

Kristinn Sigmundsson – Uppáhaldslög – 2001

Skytturnar – Illgresi 2003

Þokkabót – Fráfærur 1976

SúEllen – Fram til fortíðar 2013

Lost – Lost – 2017

Gæðablóð – Með sorg í hjarta – 2014

Björgvin Gíslason – Örlagaglettur

Guðmundur Ingólfsson – Guðmundur Ingólfsson

Kalli Tomm – Örlagagaldur - 2015

Jet Black Joe – Fuzz – 1994

 

08.11.2017 19:55

Blóðbragð

Skurk  - Blóðbragð - 2017

8/10            

Einhversstaðar las ég að hljómsveitin Skurk hafi verið stofnuð um 1990, en annarsstaðar að hún hafi verið stofnuð í kringum 1987. Í upphafi 10. áratugar síðustu aldar stóð til að sveitin gæfi út plötu en fjármagnsskortur hamlaði því og hún lagði upp laupana í kjölfarið. 2011 komu þeir aftur saman og ákváðu að kanna hvort eitthvað rokk væri eftir í blóðinu. Það reyndist sannarlega vera og í kjölfarið tóku þeir upp 5 bestu gömlu lögin og bættu einu nýju við og gáfu út á þröngskífunni, Final gift sem fór nú ekki á neitt flug hjá tónlistarunnendum, en fínasta plata samt. Gamall og góður trashmetall eins og hann gerðist hvað bestur á 9. Áratugnum og þarna fundu þeir blóðbragðið aftur og vildu eðlilega meira kjöt. Marmiðið var sett himinhátt og stefnan var aftur tekin í stúdíó með það í huga að búa til hvorki meira né minna en bestu þungarokksplötu Íslands.

Já, hér voru háleit markmið og engu skildi til sparað og fljótlega var ljóst að epískt stórvirki var á teikniborðinu.  Í samvinnu við Tónlistarskólann á Akureyri og Daníel Þorsteinsson  var lagt af stað í plötuupptöku með strengjasveit og kór.  Eftir töluvert langan biðtíma og gífurlegan spenning, kom svo platan og reyndist þá fyrsta upplagið af plötunni vera gallað og bíða þurfti í einar þrjár vikur eftir nýju upplagi.

Þessi plata er þemaplata í vissum skilningi, en þó frábrugðin öðrum slíkum er segja eina sögu frá byrjun til enda, að því leiti að hvert lag segir frá sama atvikinu á sinn hátt. Sagan fjallar um stúlkuna Mjöll sem endar sitt líf á því að falla fyrir hendi morðingja, auk þess sem skyggnst er inn í hugarheim hans. Sagan er komin frá gömlu Skurklagi, The Night before yesterday, sem reynist svo vera titillag þessarar plötu.

Þessi plata er búinn að vera stór og oft á tíðum erfiður biti fyrir gamlan rokkhund.  Þó ég kalli nú ekki allt ömmu mína, hef ég  þurft frá að hverfa og snúa mér að öðru minna krefjandi. Alltaf var það þó eitthvað sem dró mig aftur að verkinu en stundum leið þó nokkur tími á milli hlustana, og ég get alveg játað að ég náði ekki að tengjast plötunni framan af hlustunarferlinu, enda tæplega 70 mínútna verk, hvorki meira né minna. Svona eins og meðal Iron Maiden plata hin seinni ár, en á hinum enda skalans má svo finna meistaraverk eins og Raign in blood með Slayer sem slefar ekki í 30 mínúturnar, og það er alveg nóg.

Þetta var eitthvað aðeins of mikið fyrir mig að melta í byrjun og þó maður hafi nú ýmsa fjöruna sopið eru svona langar plötur orðnar mikið meira mál en áður. Sennilega hefur þolinmæðin minkað með aldrinum og nennan, en það einskorðast væntanlega ekki við mig að eiga fullt í fangi með þetta langar plötur. Einbeitingarskortur nútímamannsins og óþol hefur orðið til þess að æ færri leggja það á sig að hlusta á plötur sem heildarverk. Ég geri það þó ennþá og er ekki vanur að gefast upp ef ég skynja eitthvað gott í tónlist þó á brattann sé að sækja og læt nú yfirleitt ekki brekkurnar hindra mig. Smámsaman fór heilinn að meðtaka þetta margslungna stórvirki og metalfræið sem var sáð í upphafi fór að dafna í moldinni, innan um öll hin tónlistarfræin.

Það virðist engin hljómsveit vera sveit með sveitum í dag nema hafa migið utan í klassíkina og fengið sinfó, strengjasveit  eða kór með sér og þá virðist engu skipta hvort um metalbönd er að ræða eða ekki. Úr metalgeiranum er skemmst að minnast synfónískrar samsuðu við Skálmöld og Dimmu og er óhætt að segja að það hafi gengið bærilega upp. Þegar vel er að gáð þá passar slík nálgun líka vel í dramatíkina og mikilfengleikann sem of má finna bæði í lassíkinni og málminum þegar best lætur. Jafnvel eru margar sveitir sem spila synfónískt metalrokk og má í því sambandi nefna hina hollensku Epica og svo sænsku sveitin Therion, en sú síðast nefnda kemur einatt fram með strengjasveitum kórum og klassískt lærðum einsöngvurum og á einhvern skondinn hátt hefur þetta komið einstakalega skemmtilega út hjá Therion oft á tíðum.

Til að þessi blanda gangi upp má klassíski hlutinn ekki vera á kostnað metalsins og sú er sannarlega ekki raunin hér. Hér er nóg af rausnarlegum riffum, geggjuðum gítarsólóum og drulluþétt rytmaparið heldur þessu svo saman á einstakan hátt. Þessi plata er á forsendum þeirra Skurk drengja og klassíski factorinn stækkar síðan bara hljóðmyndina, eykur dramatíkina og á stóran þátt í að gera þessa plötu að því epíska stórvirki sem hún sannarlega er.

Gamla og góða trassmetalbandið frá Akureyri er nánast búið að sprengja utan af sér trass skilgreininguna því hér er sótt í hinar ýmsu áttir og víða komið við. Menn brjótast út fyrir þægindarammann og kanna nýjar lendur án þess þó að gleyma  kjarnanum, enda eru í málminum margar vistarverur. Kunnulegir frasar kinnka til manns kolli og treysta tenginu við ræturnar og sem betur fer er ekkert verið að yfirgefa heimavöllinn. Auðvitað má heyra þarna áhrif frá Maiden, Metallica og jafnvel Black Sabbath riff í laginu "Feigur" , en þannig er það nú og hjá flestum og bara gott og gilt að nikka til áhrifavalda. Drengirnir eru auðvitað orðnir eldri og þroskaðri, búnir að hlaupa af sér hornin og sjá hlutina í nýju ljósi og til í hvað sem er.

Það er engin nýlunda að metalplötur hefjist á ljúfu kassagítarspili og ekkert síður í harðasta geiranum. Ballaðan Eymd er skemmtilegur fyrirboði þess er koma skal og myndar spennu fyrir framhaldinu. Síðan tekur við fyrirmyndar  "trassaskapur"  sem Skurk er þekkt fyrir og þétt keyrsla sem gefur lítil grið, þó þeir þori alveg að brjóta hana upp inn á milli, gefa sér tíma og nostra við hlutina,  og jafnvel óhæddir að renna í laufléttann metalslagara, eins og Sálmyrkva.  

Það sem einna fyrst greip mig við þessa plötu var gífurlegur krafturinn sem náðst hefur að fanga í stúdíóinu og sándið er til mikillar fyrirmyndar, en það er ekki alltaf hægt að segja um plötur í dag, hvar dínamík er stundum bara ekki til staðar og það sem kallað hefur verið, háværðarstríðið  (loudness war) heldur áfram enn um stundir. Enda miðast upptökur í dag við að tónlistin komi sem best út í útvarpi og þessum  litlu hátölurum sem menn troða í eyrun og leggja grunninn að heyrnarleysi seinni hluta æfinnar. Upptökustjórn og hljóðblöndun var í höndum Jakobs Þórs Guðmundssonar auk þess sem Haukur Pálma og Hallgrímur Jónas Ómarsson komu einnig að upptökum plötunnar

Lögin eru mörg brotin upp með  skemmtilegum köflum og þeir víla ekki fyrir sér að breyta oft um takta í eina og samalaginu, hægja á og gefa í á vixl, eins og háttur trassanna var hér í denn. Hið epíska 15 mínútna lokalag, sjálft titillagið er gott dæmi um slíkt. Meistaralega samvinna við klassísku deildina og hið rúmlega tveggja mínútna forspil neglir mann alveg og býr til eftirvæntingu. Lag sem býr ekki bara yfir öllu því besta sem gott þungarokk býður uppá, kraft, keyrslu, melódíu, flott gítarriff og gítarsóló, heldur býður líka uppá mikið meira. „Vitjun“  er svo annað gott dæmi um hvernig það getur gengið upp að blanda saman þessum tveimur heimum.

"Vitjun" minnir aðeins á hina sænsku Therion á köflum og virkilega gaman hversu vel hefur tekist til í hinu rúmlega 9 mínútna verki. Kórinn og Þórhildur Örvars setja sterkan svip hér að ógleymdum karlaröddunum tveimur sem renna sér í gegnum ljóð Rómverska skáldsins Catullus á latínu, og hann orti til ástkonu sinnar, Lesbiu. Það má geta þess í framhjáhlaupi að Catullus þessi var uppi  84-54 fyrir Krist. Auk rómverska skáldsins, á okkar eini og sanni, Einar Ben ljóð á plötunni í laginu Rökkvar, en það er tekið úr kvæðinu Skútahraun.

Guðni gítarleikari og söngvari á síðan restina af kveðskapnum og gerir víða vel á því sviði. Maður skynjar frostið og fannfergið, angistina, óttann og myrkrið, og blóðidrifinn snjórinn stendur manni ljóslifandi fyrir hugskotssjónum og blóðbragðið gælir nánast við bragðlaukana. Þeir fá náttúrulega extra stóran plús fyrir að hafa textana á íslensku, en fram að þessu hafa þeir sungið á ensku. Íslendingar eru alltaf meira sannfærandi á móðurmálinu, eðlilega. Textana má finna á heimasíðu sveitarinnar.

Sem söngvari er Guðni enginn Stebbi Jak eða Rúnar Eff, og þetta er ein af þeim röddum sem ekki hugnast öllum og skiptar skoðanir eru um, eins og t.d. hann Björgvin Sigurðsson í Skálmöld, án þess að ég ætli að líkja þeim eitthvað saman. Þess má geta að téður Björgvin á hér magnaða innkomu í hinu eiturhressa, "Rökkvar", en ennþá er ég að hitta menn sem ekki segjast geta hlustað á Skálmöld út af söngnum. Það finnst mér svona svipað og geta ekki borðað sushi út af vasibíinu, hvorttveggja óaðskiljanlegt. Svona hryssingslegar raddir heilla mig stundum og ég er fyrir löngu búinn að taka Guðna í sátt og finnst hann  smellpassa  sem söngvari Skurk, en ég skil vel sjónarmið þeirra sem láta ekki heillast. Hann nýtur sín hvað best í hinum hraðari trasslögum, eins og t.d. í hinu magnaða lagi, Refsing, hvar hann er frábær. En hann er misgóður og lögin henta honum misvel.

Kristján er einstakur trommari og klárlega í stórmeistaradeildinni, en það er ekki fyrir neinn venjulegan mann að tromma þessa tónlist svo vel sé. Það er svo ekki amarlegt fyrir hann að hafa Jón Heiðar sér við hlið á bassanum og þeir hafa nóg fyrir stafni, svo vægt  sé tekið til orða. Höddi á mörg frábær gítarsóló og allt gítarspil er hér til stakrar prýði, hugmyndaríkt, útpælt, en samt svo skemmtilega í hefðinni. Daníel og hans fólk á svo mikinn heiður skilið fyrir einstaka smekkvísi og fagmennsku og að vera tilbúinn að taka þátt í svona verkefni.

Að baki þessarar plötu liggja blóð, sviti og tár, geysilegur metnaður og elja, sköpunargáfa, stór hjörtu og ekki síst, dragsíður pungur. Eins og með mörg stór og mikil verk þarf að gefa plötunni góðan tíma, vingast við hana eins og baldinn fola sem að lokum launar erfiðið og þolinmæðina og gefur  manni allt margfallt til baka sem hann á. Bestu plöturnar eru þær sem maður þarf að hafa smá fyrir. Þeir lögðu upp með að gera bestu metalplötu á Íslandi, en hvort þeim hafi tekist það skal ósagt látið, en þetta er helvíti góð plata og án efa í hópi þeirra bestu í þessari deild hérlendis. Magnað að tvær Akureyrskar þungarokksveitir séu með plötur í hæsta gæðaflokki þetta árið, en smemma á arinu sendu strákarnir í Röskun frá sér hina frábæru, Á brúninni. Nú er það bara spurning hvort ég sé ekki bara kominn á bragðið með löngu plöturnar og teysti mér bara í að reyna enn og aftur við Book of souls með Maiden, en hún liggur óbætt hjá garði.

Um umbúðirnar má eflaust segja margt en mér finnst þær ekki  aðlaðandi og skorta þetta metal aðdráttarafl  sem oft er svo heillandi og hefur dregið mann að mörgu meistaraverkinu. Þetta ræður engum úrslitum hér. Áfram Þungarokk.

31.10.2017 20:23

Happy hour

Raggi Bjarna og Karl Orgel trío

Happy Hour

7,5/10

Raggi Bjarna er kominn á níræðisaldur og á honum sannast að aldur er ákaflega afstætt hugtak, en níræðisaldurinn er ef til vil nýji áttræðisaldurinn. Raggi er ennþá bráðhress og hefur sennilega sjaldan verið afkastameiri í plötuútgáfu en nú hin seinni ár. 2013 kom platan, Falleg hugsun, hvar öll lögin voru ný og var hún aðstandendum til sóma og fylgdi í kjölfar vinsællar dúettaplötu sem kom árið áður.

Það er samt ef til vill útsetning Karls Olgeirssonar á Nirvana laginu Smells like teen spirit, sem hann gerði með Miljónamæringunum 2002 og Raggi söng svo eftirminnilega sem kom honum aftur á kortið í tónlistinni eftir langa hvíld frá bransanum. Gjörólík og skondin útsetning sem smellpassaði svona líka vel fyrir Ragga og þar má segja að hugmyndin að þessari plötu hafi kviknað í kolli Kalla. Það er svo 11 árum síðar sem hann stofnar orgeltríó sitt að hugmyndin fór að gerjast ennfrekar, að gera heila plötu með Ragga þar sem hann syngur lög úr óvæntri átt og allt annari deild en hann er vanur. Nú er hún komin og ég verð nú bara að segja að þetta er um margt kærkominn gripur, grúví og eitursvalur á köflum.

Tónlistin að mestu vel þekkt popplög úr samtímanum, spiluð í anda orgeltríóanna sem gerðu garðinn frægan á 6. og 7. áratugnum. Orgelleikarinn spilar bassann á hammondinn og svo eru trommari og gítarleikari. Það er að sjálfsögðu Karl sem spilar á Hammondinn,  Ólafur Hólm trommar og Ásgeir Jón Ásgeirsson spilar á gítar og bouzouki. Hér eru nokkrir aðstoðarmenn í sumum lögum sem brjóta upp stemmninguna og setja meiri breidd í plötuna og má nefna þá Snorra Sigurðsson á trompet og Hauk Gröndal á saxafón og nærvera þeirra jassar þetta aðeins meira upp.

Lagavalið er kostulegt og til að byrja með er sumt fyndið og maður brosir út í annað, en brandarinn er auðvitað ekki eins fyndinn og þegar Nirvana slagarinn kom, enda nánast sami brandarinn þannig lagað. En það er fleira hérna en fynd og sannarlega réttlætanlegt að henda í ábreiðuplötu þegar mönnum ber gæfa til að finna nýja fleti á tónlistinni. Platan hefst á Get the party started eftir eina af mínum uppáhaldssöngkonum, Lindu Perry sem var aðalsprautan í 4 None Blondes,  en hefur síðan ásamt frekar láfleygum sólóferli, fengist við að semja lög fyrir aðra. Það var svo hún Pink sem gerði lagið vinsælt.

 Strax þarna í fyrsta laginu kemur akkilesarhæll plötunnar fram, en það er hreimurinn hjá Ragga. Yllu heilli eru flestir textarnir á ensku þar sem þetta eru jú erlend lög, og of mikill hreimur fyrir minn smekk skemmir flæðið. Sérstaklega þegar inn á milli koma íslenskir textar, þá heyrir maður hvað þeir ná sterkar til manns og söngvarinn meira sannfærandi og greinilega að spila á heimavelli og flæðið verður eðlilegra. Þannig er þetta nú með, ja kannski flesta íslenska söngvara sem syngja á ensku. Hefði verið sterkur leikur hér að snara textunum yfir á okkar ástkæra ylhýra. Það er hinsvegar ekkert út á sönginn annars að setja og Raggi er í glymrandi formi og gerir vel. Það er svo undir hverjum og einum komið hvort menn láta hreiminn trufla sig og sumstaðar kemur þetta ekkert að sök.

Þarna er To cut a long story short af fyrstu plötu Spandu Ballet áður en sveitin breyttist í leiðinda poppsveit og útsetningin ákaflega skemmtileg. Call me  frá Blondie, með smá Booker T fíling og Lady shave frá Gus Gus steinliggja. Þarna er líka annað  Call me, en Petula Clark söng það á 7. áratugnum. Við sem eldri erum, en þeir sem yngri eru,  þekkjum það í mikið betri útgáfu sem Hringdu, með Hljómum frá Keflavík. Útgáfa Ragga nær ekki verulegu flugi en dásamlegt að hlýða á gítarsóló Ásgeirs, eins og víða á plötunni.  Í I´ve seen it all með Björk nýtur Raggi aðstoðar hinnar frábæru söngkonu, Sölku Sólar og er það dágóður dúett og kraftur í bandinu. Hljómsveitarstjórinn semur síðan tvö lög og í hinu ágæta, Allt í fína syngur með honum hin nýja stjarna okkar, Katrín Halldóra sem sló svo eftirminnilega í gegn sem Ellý Vilhjálms í Borgarleikhúsinu. Fallegur dúett þar á ferð.

Þó  lögin séu mis áhugaverð, þá er þetta að mörgu leiti hörku plata ef menn eru tilbúnir að láta ekki hreiminn hjá Ragga trufla sig. Frábær spilamennska og gott grúv víða lifta henni upp í hæðstu hæðir því stundum fara menn á heljarinnar flug í flutningi sínum og geggjuð sóló frá bæði Kalla og Ásgeir og blásurunum og platan swingar mjög skemmtilega  á köflum. Þessi svali sixtís andi sem víða liggur þarna  yfir er skemmtilegur og það er eitthvað heillandi við þennan kontrast er það gamla mætir hinu nýja á þennan hátt. Ég vona sannarlega að Karl Orgeltrío sendi frá sér fleiri plötur, já og Raggi líka, því röddin í kallinum er ennþá engu lík og þessi lifandi goðsögn á vissulega heiður skilinn fyrir að taka þátt í þessu skondna verkefni, sem ef betur er að gáð, alveg í hans anda. En Ragga fer betur að syngja á íslensku.

29.10.2017 16:33

Söngur vonar

Sólmundur Friðriksson

Söngur  vonar

8/10

Sólmundur Friðrikssona er austfirðingur, nánar tiltekið frá Stöðvarfirði, en yfirgaf heimahagana ungur að árum og hefur síðan víða farið. Hann er tónmenntakennari og sjóaður af ballspilamennsku, m.a. með Geirmundi Valtýssyni til fjölda ára. Nú er hann búsettur í Keflavík og unir þar hag sínum vel. Þessi fyrsta sólóplata Sólmundar, hvar hann semur öll lög og texta, hefur átt langan aðdraganda, en fyrst stóð til að hún kæmi út á fertugsafmæli hans. Það gekk ekki eftir og þá var stefnan sett á 45 ára afmælið, en það er síðan ekki fyrr en nú á fimmtugasta afmælisárinu sem svo gripurinn kemur  loks út.

Hér er ekki harkan í fyrirrúmi og flauelsmjúk stemmning svífur yfir vötnum, en aldrei er þó Sólmundur væminn og vælandil. Einkvern tíman hefði þetta verið kallað „softrock“, en sú tónlistarstefna var hvað vinsælust á 8. áratugnum með hljómsveitum á borð við Player, Air Suply, Breed, James Taylor, og Fleedwood Mac, svo einhverjar séu nefndar. Margt hér samsvarar sig einnig við tónlist Mannakornanna okkar ef litið er heim á klakann. Þetta eru velsamin dægurlög hjá Sólmundi og hann þorir að vera einlægur og syngja frá hjartanu, laus við tilgerð og prjál. Frumlegt er þetta nú ekki og það er í góðu lagi og þetta er langt frá því að vera gamaldags og hallærislegt. Úrvinnslan er svo góð og smekkleg að það er hægur vandi að halla sér aftur og njóta. Fegurð tilverunnar er honum hugleikin og þakklæti til lífsins og gjafa þess. Hann syngur fallega til eiginkonunnar í „Lagið okkar“ og í „Hugarflug“ sem hann semur 12 ára gamall, en textann um 30 árum síðar, lætur hann hugann reika til æskustöðvanna fyrir austan. Einn instrumental blús fylgir hér með, Blús fyrir Agga, en hann saminn til minningar um Ágúst Ármann sem var tónlistagúrú fyrir austan. Það er gítarsnillingurinn og faðir upptökustjórans, Sigurgeir Sigmundsson sem fer þar á kostum á gítarinn. Annað næstum því instrumental lag er einnig hér að finna, kannski pínulítið í stíl við lag Magnúsar Blöndals Jóhannssonar, Sveitin milli sanda úr 69 af stöðinni og Ellý gaf rödd. Hef aldrei vitað hvort það telst instrumental, en hér ljáir Birta Sigurjónsdóttir laginu, "Leitin að Angelu" rödd sýna.

Titillagið er einstaklega smekklegt og textinn fallegur um vonina sem fer um heiminn og linar þrautir mannanna. Hildur dóttir Sólmundar syngur lagið lagið af stakri prýði og ég væri til í að heyra meira í þeirri rödd. Agnes systir henn syngur svo hið stórgóða lokalag hún er ekki síðri söngkona.  Þar er ákall um frið á jörð sem er gamalt stef, en fellur vonandi aldrei úr gildi. Annars syngur Sólmundur sjálfur flest lögin og þó hann hafi ekki mikla rödd þá ferst honum  söngurinn ákaflega vel úr barka og hann veit alveg hvað til hans friðar heyrir og er ávallt smekklegur og við hæfi. Notaleg  og einlæg rödd sem gott er á að hlýða. Það er síðan Davíð Sigurgeirsson gítaleikari sem er upptökustjóri hér og sér auk þess um útsetningar og spila á gítar. Hann kann greinilega sitt fag uppá 10 og á stórann þátt í glæsilegri útkomu hér. Meðspilarar hans eru síðan í takt við annað hér og hljóðfæraleikur er einkar  smekklegur og má til sögunna nefna þá Arnór Vilbergsson á Hammond, Ingvar Alfreðsson á píanó og orgel og Þorvald Halldórsson á trommur, svo einhverjir séu nefndir. Sjálfur spilar svo Sólmundur á bassa.  Umbúðirnar eru fallegar og við hæfi.

Mér hugnast þessi plata og styrkur hennar er einlægnin og látleysið. Það er ekkert verið að reyna að sigra heiminn og vera hipp og kúl og búa til eitthvað meistaraverk. Menn leyfa sér einlægni og hlýju og ég er alltaf svolítið skotinn í þeim framgangsmáta. Það er fullt af svona skúffuskáldum sem langar að gefa út plötu og margir láta drauminn rætast. Ekki eiga allir erindi sem erfiði og sumt á kannski ekki erindi út fyrir nánustu fjölskyldu. Þessi plata á sannarlega erindi og ég er ekki frá því að Sólmundur hafi gert heiminn að aðeins betri stað með því að láta þennan draum sinn rætast.

19.10.2017 19:15

Á plánetunni Jörð

 

Nýdönsk

Á plánetunni Jörð

9/10

 

Þessi plata með Nýdönsk sem út kom í síðasta mánuði er 10. hljóðversplatan þeirra og það telst nú varla mikil afköst frá 30 ára gamalli hljómsveit, rúmlega þrjár plötur á áratug. Þegar skoðað er yfir ferilinn og gæðin metin þá kannski horfir málið örlítið öðruvísi við og held ég að flestir séu tilbúnir að taka gæðin platna þeirra fram yfir magnið. Í þessi 30 ár hefur Nýdönsk verið ein okkar albesta dægurlagasveit og það er með ólíkindum að þeim hafi tekist að halda sér ungum og ferskum og búið til tónlist sem er óháð tíma og rúmi og einhvernveginn alltaf viðeigandi.

Þessir drengir eru önnum kafnir í hinum ýmsu verkefnum og þessvegna þegar á að henda í eina plötu, hafa þeir haft þann háttinn á í seinni tíð, að taka sér frí og fara erlendis í stúdíó. Núna varð Kanada fyrir valinu og ég verð nú bara að segja það strax að þessi vesturheimska afurð er til háborinnar fyrirmyndar og ber hæfileikum þessara pilta ákaflega fagurt vitni.

Diskó Berlín sem kom á undan þessari var virkilega góð plata sýndi og sannaði að ennþá var nóg eftir á sköpunartanknum. Á þessari plötu er tekinn allt annar póll í hæðina því hér er stemmningin frekar róleg og lágstemmd og þeir hafa fengið strengjasveit til liðs við sig. Sú ákvörðun gerir þessari plötu ákaflega gott því útsetningar eru einkar smekklegar og jafnvægið er gott. 2004 sendi Nýdönsk frá sér tónleikaplötu í samstarfi við sinfóníuhljómsveit  Íslands og þar bar sinfó meira hitann og þungann af flutningnum, en það var ágætisplata samt. Ætla samt ekkert að fjalla meira um hana hér.

Sköpunargáfan svíkur þá  félaga ekki frekar en fyrri daginn og allir leggja þeir hér í púkkið. Það hvað platan er jöfn að gæðum sýnir og sannar að ákaflega erfitt er að segja hverjir eru fremstir á meðal jafningja er kemur að lagasmíðum hér. Það er hellingur af frábærum lögum og sum jafnvel í hópi þeirra bestu eins og t.d opnunarlagið, Stundum, eftir Jón Ólafsson, sem er klárlega eitt af bestu lögum sem ég hef heyrt á árinu. Félagslíf plantna er snilldarlag eftir Ólaf Hólm trommuleikara og texti þeirra Björns og Daníels einstaklega skemmtilegur, en það ætti nú ekki að koma nokkrum á óvart sem til þeirra þekkja. Á plánetunni Jörð, eftir Björn Jörund, Hversdagsprins eftir Daníel, hið fallega og angurværa Tónaflóð, eftir Jón og Stöðuvatn sannleikans eftir Stefán eru allt snilldalög. Blendnastar eru tilfinningarnar gagnvart lokalaginu Tímamót, en verð samt að viðurkenna að ég hef lúmskt gaman að því.

Að vera með tvo slíka snilldarsöngvara og textasmiði sem Björn og Daníel eru í sömu hljómsveitinni er alveg magnað, og þeir „Ljúfur“ og „Hrjúfur“, eins og einhver kallaði þá, sýna sitt besta hér og allir eru auðvitað að standa sig og þessi plata er einstaklega vel heppnuð í alla staði. Tónlistin hefur mikið andrými og aldrei er neinu ofaukið. Flæðið flauelsmjúkt og afslappað, spilamennskan látlaus og smekkleg, en þetta er aldrei eitthvað einfalt og innantómt. Ef hægt er að tala um að tónlist sé þroskuð, þá mundi ég hiklaust segja þetta þroskað verk og skemmtilegar pælingar í gangi. Aldrei er þó kímnin langt undan hjá þeim félögum þó ef til vill megi segja að þetta sé frekar alvarleg plata í grunnin. Kannski er þetta besta platan þeirra, en það skiptir ekki neinu máli þannig lagað og hver metur það fyrir sig, en mér finnst hún allavegana í hópi þeirra albestu. 

11.09.2017 20:37

Óbrotinn kristall

Páll Óskar

Kristalsplatan

Stjörnugjöf 7,5/10

 

Sennilega nær  tónlistarferill  Páls Óskars yfir 3 áratugi og þó hann sé vissulega þekktastur fyrir sitt danspopp, þá hefur hann víða komið við og má þar nefna jafnólík verkefni og Milljónamæringana, samstarf hans við hörpuleikarann Monicku Abendroth og hlutverk Frank Furter í Rocky Horror, hvar hann fór á kostum forðum 18 eða 19 ára gamall og nú er komið að því að endurtaka leikinn... og það er ekki víst að það klikki.

Ég get ekki gert að því að mér finnst Páll Óskar skemmtilegur drengur sem erfitt er að láta sér líka illa við. Hann er fábær söngvari  með gífurlega sterka útgeislun sem hæfir poppstjörnunni sem hann vissulega er. Hann gengst sannarlega upp í stjörnuhlutverkinu, mínus stjörnustælana en samt er hann bara venjulegur drengur á sama tíma og hann er sannarlega engum líkur. Hann býr yfir innri fegurð. Hann er jákvæður, hvetjandi og bjartsýnn í sinni textagerð og tónlist og þar af leiðandi góð fyrirmynd fyrir aðdáendur sína. Hann tekur sig ekki of alvarlega, en hann gerir sér grein fyrir ábyrgð sinni og axlar hana af stakri prýði. Þegar Palli tjáir sig um hin ýmsu málefni leggja ég og fleiri einatt við eyru, nema kannski helst þegar hann tjáir sig um eurovision, þá missir hann mig.

Tónlistin hans hefur nú kannski aldrei verið minn tebolli, þannig lagað, og stundum hefur mér fundist umbúðirnar á kostnað innihaldsins (kannski ekki ósvipað og í eurovision). Ég hef nú samt staðið mig að því að hrífast í laumi, þegar ég held að enginn viti af, og lítil hætta á að tapa kúlinu. Þessi músík er velheppnuð til síns brúks og það er dauður maður sem ekki dillar sér við Palladiskóið á einhverjum tímapunkti lífsins. Þess vegna nýtur hún sín væntanlega hvað best, hvar menn hyggjast iðka dansmennt og dill, og skiptir þá væntanlega litlu hvort það er í stofunni heima eða á diskótekum. Þó nær hún sennilega hvað mestum áhrifum í múgsefjuninni í margmenni diskóteksins.

Mér finnst hann kannski fulllítið hafa þróast í sinni tónsköpun og full fastur í sínu gamla fari, þó alltaf spretti nýjir angar hér og þar.  En þá kemur  kemur maður alltaf að þeirri rökréttu pælingu, hvort skynsamlegt sé að fokka eitthvað í vinningliðinu á meðan sigrar vinnast. Mér hefur stundum fundist Palli taka niður fyrir sig tónlistarlega og ég er sannfærður um að hann á mikið inni sem tónlistarmaður. Ég er alltaf í bjartsýni minni að bíða eftir „þungu“ rafplötunni frá drengnum, eitthvað í stíl við lokalagið á þessari, Walk away, sem er eftir Frosta Jónsson og BistroBoy. Sú plata yrði þá á kostnað danspoppsins. Áðurnefnt Walk away er með betri lögum hér og svo er ég líka skotinn í ballöðunni fallegu, Ég elska þig til baka eftir Bjarka Hallbergsson við texta Palla. Hið pínu Röykksopp lega „Meistarinn“ hittir í mark og hér er gert góðlátlegt grín að eurovision viðhorfi Íslendinga í hinu skemmtilega, „Vinnum þetta fyrirfram“ við texta Palla og Braga Valdimars Skúlasonar.  „Ást sem endist“  er líka að heilla þessa dagana og hefur fengið mig til að þeytast hér um vistarverur, jafnvel bömpa.

Hér eru ekki verulega feilsporin stigin en lögin eru misáhugaverð eins og gengur. Helsta gæfa Palla fyrir utan óumdeilanlega hæfileika eru góðir samstarfsmenn og því er þannig farið hér. Í lagasmíðum og undirleik eru ekki  minnst áberandi þeir Bjarki Hallbergsson og Jakob Reynir  Jakobsson. Drengir sem vita uppá sína 10 hvernig á að búa til tölvudanspopp. Palli er afkastamestur í textagerðinni auk þess að koma að lagasmíðum og í textum er hann vel frambærilegur og hefur tekið miklum framförum. Grunnstefið í textum Palla er kannski sú að ástin sigri allt og við getum það sem við ætlum okkur í lífinu, svo framarlega að við látum ekki nokkurn lifandi mann telja okkur trú um annað og fylgjum settu marki.

Umbúðirnar, sem eru í anda Palla, voru handföndraðar, en Palli  ásamt vinum og kunningjum, föndruðu 2000 diska og 1000 vinylplötur. Þeim áhugasömustu bauðst að kaupa plötuna í forsölu og hugðist Palli heimsækja þá og afhenda plötur og diska. Þegar 1000 plötur höfðu verið seldar í forsölu var ákveðið að fleiri heimili yrðu ekki heimsótt, enda hefði drengurinn þá ekki gert annað.

Palli er baráttumaður og sigurvegari í lífinu. Hann boðar ást og frið og hvernig í ósköpunum ætti maður einhverjum að mislíka það.  Hann má vera sáttur við þessa afurð sína og ég er 100% viss um að aðdáendurnir eru það líka. Mér leiðist ekki við að hlusta á þessa plötu og ef til vill er þetta hans besta til þessa, en hann má alveg fara að líta til annara átta.

06.07.2017 21:14

Öspin ilmar

Ösp Eldjárn – Tales from a poplar tree - 2017

8/10

 

Það eru kannski einhverjir sem kannast við Ösp Eldjárn úr bluegrass sveitinni Brother Grass sem sent hefur frá sér tvær plötur, en þar var einnig innanborðs Örn bróðir hennar ásamt öðru góðu fólki. Þessi hæfileikaríka stúlkan kemur af Svarfdælsku listafólki og henni kippir sannarlega í kynið. Móðir hennar er söngkonan Kristjana Arngrímsdóttir og faðir Kristján Hjartarson.  Einhverjir hefðu þegar hér er komið sögu farið að minnast á eplið og eikina, en ég læt mér nægja að tala um Ösp.

 

Hún hefur frá 2011 búið í London þar sem hún stundar tónlistarnám og hefur jafnframt unnið við tónlist. Um það leiti sem hún flutti út hóf hún að semja tónlist og texta og nú, um 6 árum seinna lítur svo dagsins ljós hennar fyrsta sólóplata, Tales from a poplar tree, sem ef til vill mætti þýða sem, Sagnir af öspinni. Platan er tekin upp í Cafe Music Studios í London og  upptökustjóri var Cherif Hashizume.

 

Ösp getur sannarlega verið sátt með þennan frumburð sinn, því hér er víða vel gert, bæði í lögum og ljóði. Tónlistin þjóðlagaskotin og það sem ekki er hvað síst svo heillandi hér er þessi dásamlega fallega melankólía sem þræðir sig í gegnum plötuna. Ljúfsárt, er mantran hér og hún gengur fullkomnlega upp. Þetta er ekki plata fyrir alla frekar en aðrar plötur og er ég hræddur um að sumir sem ég þekki þætti þessi tónlist full aðgerðarlítil og afslöppuð og sakni þessi að fá ekki hressilegt uppbrot inn á milli.

Mér þótti þetta full einsleitt í byrjun og var ekki alveg að kaupa þessa yfirveguðu ró og saknaði ásláttar. Fann þó fljótt að þarna var margt gott sem kallaði á frekari hlustanir og smám saman er ég gaf henni séns, læddist platan inn og tók sér bólfestu í höfðinu og ég lærði að elska þessi notalegheit. Það er ekki síst þessi dásamlega fallega rödd sem kallar til frekari samfunda og þegar við bætast þroskaðar lagasmíðar, og svona líka vel futtar, er ekki að sökum að spyrja. En platan krefst þess að maður gíri sig niður, klæði sig úr stresskápu hins daglega lífs og lifi sig inn í notalegt flæðið og gefi sig fallegri tónlistinni á vald. Þeir sem leggja  það á sig gætu átta von á að verða ríkulega verðlaunaðir, það er að segja þeir sem ekki tapa þolinmæðinni. Stór hlutim fólks í dag hefur nefnilega ekki þolinmæði eða tíma til að setjast niður og hlusta á heila plötu.

 

Ösp telur Svarfaðardal og London ólíka staði og maður á vissulega ekki erfitt með að trúa því. Það geti verið erfitt að vera með hjartað á tveimur stöðum og viðfangsefni plötunnar er meðal annars heimþrá og rótleysi ferðalangsins, ásamt sögum af mannlegum átökum og ástinni í öllum sínum fjölbreytileika.

 

Platan hefst á fallegu lagi við eitt af ástarljóðum Páls Ólafssonar,  Ástarnetið. Lagið læðist af stað með ljúfu píanóinu og síðan kemur sellóið inn til stuðnings og fallegur söngurinn kórónar síðan þessa snotru smíð. Annar mikill höfðingi, Davíð Stefánsson, á ljóðið í Klettabrúður, sem er ekki síðra lag og maður á auðvelt með að sjá fyrir sér hrikalega íslenska kletta hvar burnirótin grær. Lagið byrjar líkt og gamalt íslenskt sönglag, píanóið sér um meginstefið en einmannalegur  gítar og ýmislegt dúllerí í bakgrunninum sveipar skemmtilegri dulúð á lagið. Linda Guðmundsdóttir á svo textann í hinu stórfína Sól í sól. Í Tree without a root tekst Ösp á við heimþrána og rótleysið og gítarinn hjá Erni þræðir síðan ljúfsáran söknuðinn í lagið. Dramatísk, dimm og þjóðleg er byrjunin á vögguvísunni Neverland og mér finnst þetta mögnuð smíð, en sennilega hefði hún verið enn áhrifaríkari á íslensku. Skemmtilegt er myndbandið við Travelling man sem finna má á youtube, en það sýnir foreldra stúlkunnar fyrir margt löngu á ferðalagi uppi á öræfum. Lagið er auðvitað skínandi gott og viðeigandi endir á góðri plötu. Já hér er mikið af góðum lögum, hlaðin af ljúfsárum sjarma, hlýju og manneskjulegheitum.

 

Það er mikið af góðu fólki sem kemur að gerð þessarar plötu og það er góð samvinna sem ekki hvað síst skapar þetta góða verk. Það er ekki alltaf eitthvað sjálfgefið að það takist að skapa sannfærandi hljóðheim þegar gefa skal út tónlist sem búin er að vera gerjast í huga höfundar. Þessu fólki tekst það og ávalt er alltaf heillandi þegar fólk fer sparlega með hljóðfærin sín, en nær að heilla með hógværðinni. Lögin fá að anda og hver smáhljóð í hljóðmyndinni skiptir máli.

 

Örn bróðir hennar spilar á gítar auk þess að útsetja strengi. Helga Ragnarsdóttir spilar á píanó, hljómborð, harmonium og gítar. Samuel Pegg spilar á bassa, Valeria Rosso á fiðlu, Stefan Knapik á celló, Jez Houghton á franskt horn. Marit Rokeberg bakraddar og svo sér upptökustjórinn Cherif um electronikina sem skiptir sannarlega máli í hljóðmyndinn. Platan hljómar vel og yfir engu að kvarta þar.

 

Sjálf syngur Ösp og spilar auk þess á gítar og semur lög og texta, fyri utan þá er áður er getið. Allt leikur þetta í höndunum á henni og hún er frábær söngkona með heillandi rödd. Hún líkist móður sinni á köflum og þar er ekki leiðum að líkjast. Þegar Sól í sól byrjaði fannst mér engu líkara en Kristjana sjálf væri mætt.

 

Hún tekur þann pól í hæðina að syngja á ísl/ensku, 4 lög á íslensku og restin á ensku. Hún er meira sannfærandi á íslenskunni og maður tengir meira við hana. Hreimurinn kemur alltaf upp um íslendinginn. Það er þó alls ekkert til baga hér þannig lagað, því hér er allt gert með svo fallegri útgeislun og virðingu fyrir viðfangsefninu.

 

Plötuna er hægt að kaupa á bæði á vinyl og disk. Auk þess er hægt að kaupa aspartréskífur úr Svarfaðardal með niðurhalskóða fyrir þá sem vilja plötuna rafrænt. Skemmtilegt.

 

Þetta er yndisleg plata og hún vekur sömu velíðan og lífsfyllingu eins og þegar ég geng um fallega gróðursæla bæinn minn eftir rigningu og asparilmurinn fyllir vit mín og ég hugsa... lífið er gott.

 

Bestu lög: Ástarnetið, Travelling man, Neverland og Sisters of the valley.

27.06.2017 22:31

Willie Nelson God´s problem child

Willie Nelson – God´s probmlem child - 2017

8/10

Í gegnum tíðina hef ég ekki mikið lagt mig eftir tónlistinni hans Willie Nelson og hef fram að þessu ekki talið mig til sérstakra aðdáenda hans. Eins og mörg önnur stórmenni rokksögunnar já, og minni spámenn, hefur hann þó með einum eða öðrum hætti verið hluti af „sándtrakki“ lífs míns, þó það væri ekki nema út af On the road again og Crazy (sem Patcy Cline fékk heiðurinn af að gera vinsælt). Hef þó af og til keypt plötur hans, en oftast fer tvöföld safnplata í spilarann. Ég átti nefnilega framan af í stökustu vandræðum með að kunna við þessa skrítnu rödd sem blessaður maðurinn hafði og hefur enn. Enginn í heiminum syngur eins og hinn grasreykjandi Willie, það er á hreinu.

 

Ég er fyrir löngu búinn að taka þessa rödd í sátt, því minna er bara stundum meira. Hún er svo dásamlega laus við tilgerð og sýndarmennsku, en full af hlýju og látlausri einlægni. Aldrei hvarflaði  þó að mér að 84 ára gamall væri hann ennþá að syngja og röddin heldur ennþá á þessari sextugustu og fyrstu stúdíóplötu kallsins. Gárungarnir segja að Willie hafi aldrei haft neina rödd, því sé ekkert að missa.

 

Það er erfitt annað en að láta sér þykja vænt um Willie, því hann er skemmtilegur karakter sem er laus við stjörnustæla og einn óstjörnulegasti listamaður samtímans með sinn nælonstrengjaða Trygger sem er einn ljótasti gítar sem ég hef séð. En kallinn kann að spila og mér finnst hann ákaflega vanmetinn sem gítarleikari.

 

Hafi ég ekki verið aðdáandi kallsins þá er ég orðinn það eftir þessa plötu. God´s promblem child er nefnilega alveg stórgóð plata og sú besta sem ég hef heyrt frá kallinum. Söngurinn er sannarlega ekki eins og hjá 84 ára gömlum manni (nema hún hafi alltaf verið það). Hér finnst mér einhvernveginn allt ganga upp. Lögin góð og spilamennskan algjörlega við hæfi og það er ekkert klisjulegt við kántríið hans Willie og félaga. Flest lögin eru eftir Willie og uptökustjórann Buddy Cannon en það má til gamans geta að háöldruð móðir Buddys, Lyndel Rhodes á lagið sem byrjar plötuna, Little house on the hill.

 

Stemmningin notaleg og ákaflega afslöppuð þó aðeins sé hleypt á skeið inn á milli, eins og t.d. í hinu bráðskemmtilega Still not dead, hvar hann gerir grín af ótímabærum andlátsfregnum af sér á internetinu. Ég er viss um að þessi slagari á eftir að lifa kallinn og einhvern tímann hefði hann slegið í gegn. Gamli fenjarefurinn Tony Joe White á titillagið og þar líta við auk hans, Jamey  Johnson og sjálfur Leon Russel, en þetta mun vera eitt það síðasta sem hann gerði á tónlistarsviðinu áður en hann yfirgaf jarðvistina. Típískur fenjablús að hætti Tony Joe og klárlega eitt sterkast lagið hér og flutningurinn dásamlegur. Merle Haggart er minnst í lokalaginu He won´t ever be gone og ef til vill mætti heimfæra þessar línur úr textanum á Willie sjálfan: “Some are so mutch larger than life/ You can´t believe thay could pass away“.  

 

Hér er líka boðið uppá ljúfsára rómantík en alltaf er framsetning smekkleg, látlaus, einlæg og laus við væmni. Hann vottar tilverunni virðingu sína, sáttur í eigin skinni, en farinn að skynja að það er liðið á haustið og dauðinn kannski farinn að brýna ljáinn handan við hornið. Hann er þó ekkert að fara að deyja þó hann hverfi úr þessari vist. Góð tónlist lifir höfunda sína, líka þá hógværu og hávaðalausu. Það er æðilangt síðan ég hef hlustað jafnmikið á kántrýplötu eins og þessa, og ég er bæði búinn að fá mér hana á vinyl og cd. Hvort það segir meira um mig en plötuna skal ósagt látið.

 

Bestu lög: God´s problem Child, Still not dead og Old timer

25.06.2017 20:07

Deep Purple - InFinite

Deep Purple – Infinity – 2017

7,5/10

 

Á næsta ári fagnar Deep Purple 50 ára útgáfu afmæli. Já, það var 1968 sem þeir sendu frá sér Shades of Deep Purple og ótrúleg saga einnar bestu rokksveitar Breta hófst, og það sér ekki enn fyrir endann á því ævintýri. Þeir hafa selt yfir 120 miljón platna og þessi plata er sú 20. í röð stúdíóplatna og fjórða í röðinni með þessum mannskap sem lengst hefur starfað saman undir Purple nafninu. Purple var fyrsta ástin mín í rokkinu og kassettan Made in Japan var spiluð fermingarárið mitt þangað til hún gaf upp öndina. Betri tónleikaplötu hef ég ekki heyrt og efast um að eiga eftir að heyra og það var ekki amarlegt að fá að kynnast henni á þessum miklu mótunarárum sem unglings árin eru. Ekki var heldur leiðinlegt að hafa Zeppelin og Sabbath þarna samhliða til að kynda undir rokkáhuganum.

 

Segja má með sanni að að sveitin hafi gengið í gegnum gallsúrt og sætt í gegnum tíðina. Unnið stóra rokk sigra en einnig átt sín niðurlægingartímabil. Lágpunkturinn er væntanlega platan Slaves and masters frá 1990, hvar hinn slappi Joe Lynn Turner er tekinn við hljóðnemanum. Platan hljómar eins og léleg Rainbow plata og Purple nafninu var lítill greiði gerður með henni og ég er viss um að þeir vilja flestir gleyma henni sem að komu, nema þá Joe Lynn sem telur hana meistaraverk.

 

Þeir hafa alltaf risið upp úr sínum lægðum, og undanfarin ár hafa þeir siglt lygnan sjó og þrátt fyrir þessa miklu arflegð  sem þeir gætu hæglega lifað á, þá eru þeir enn að búa til músík og segjast enn hafa gaman af því. Tveir þeirra komnir yfir sjötugt, tveir að detta í sjötugt og svo unglingurinn Morse, sextíu og tveggja.

 

Sjaldan eru fordómar til fagnaðar. Ég get alveg játað að mér leist ekkert sérstaklega vel á gripinn í fyrstu atrennu, og lét það álit í ljós, en það átti nú eftir að breytast við frekari hlustanir. Þar sem plötusala hefur dregist svo verulega saman eins og raun ber vitni og Purple ekki heitasta bandið á markaðinum, þá gefur það þeim frjálsari hendur í tónlistarsköpun að þurfa ekki að gefa út tónlist til að selja í bílförmum. Engin pressa og þeir gera bara það sem þeim hentar og þá langar til.

 

Þannig er þessi plata. Þeir eru afslappaðir og það skín í gegn að þeir hafa notið sín við gerð plötunnar því spilagleðin leynir sér ekki.  Frábær hljóðfæraleikurinn eins og maður er vanur úr þessari átt. Það má segja að nýjasti (15 ár) meðlimur sveitarinnar, Don Airey nánast steli senunni. Hann fer víða á kostum á Hammondinn svo unun er á að hlíða. Platan er nefnilega mjög orgeldrifin og sver sig þess vegna mikið í gullöld sveitarinnar á 8. áratugnum. Morse góður á gítarinn að venju og tónninn blúsaðri en oft áður, og þeir félagar hafa gott rými til að njóta sín til fullnustu og eiga sennilega hvað stærstan þátt í að skapa hin eina sanna Purple hljóm hér. Paice greinilega búinn að jafna sig eftir vægt heilablóðfall sem hann fékk fyrir um ári síðan og ekki þarf að fjölyrða um Gloverinn, eitt flottasta rhytmaparið í rokksögunni, þjakað af reynslu kann ekkert annað en að standa sig með prýði. Gillan öskrin frægu heyra þó sögunni til, enda karlinn á sjötugasta og öðru aldursári, en hann kemst samt mjög vel frá sínu hér og er enn heillandi.

 

Ef til vill er þetta heilsteyptasta Purple platan lengi, ja allavegana af þeim fjórum á þessari öld og sú besta í mjög langan tíma þó engan veginn sé hér neitt meistaraverk á ferðinni.  Af þessum 20 súdíóplötum lenti hún þó væntanlega á topp 10. Góð spilamennskan lyftir henni  ekki hvað síst yfir meðallagið og þó þeir ríði ekki endilega spikfeitum hesti frá  lagasmíðum eru mörg laganna vel frambærileg og sum góð eins og t.d „All I got is you“  sem óhætt er að setja í klassísku Purple deildina. Þar tekur Airey frábært minimoog solo og árin með Colosseum 2 koma upp í hugann, og Morse tekur síðan við með ákaflega smekklegt gítarsóló. Jon Lord hataði synta og það meðal annrs skilur á mlli hans og Aire, sem mér finnst  ekki síðri spilari. Típískur Purple rokkari, Time for Bedlam, byrjar plötuna , Hip boots og One night in Vegas sverja sig í blúsrokkið og það siðara jafnvel með smá funk grúvi. Progg áhrifin leyna sér ekki í hinu tæplega 6 mínútna The Surprising sem er með þeim betri hérna. Johnny´s Band er kannski léttvægur rokkari en Purple nær að gera hann áheyrilegan sem og lokalagið sem er eitt af kunnari lögum Doors, Roadhouse Blues. Vandmeðfarið lag sem þeir ná að endurgera á sómasamlegan hátt.

 

Það hefur aldrei verið neinn Bob Dylan „wannabe“ í Purple og þeir ekki þekktir fyrir að vera neitt sérstakir orðasmiðir, enda hefur maður ekki verið að gera neinar kröfur um að dýrt sé kveðið í klassíska rokkinu. Þetta er þó ekki verra en oft áður og ekkert sem maður lætur trufla sig.

 

Upptökustjórinn er hinn gamalreyndi  Bob Ezrin og er þetta önnur platan í röð sem hann er upptökustjóri á. Mjög gott og dynamískt sándið á plötunni, en jafnast þó ekki á við best hljómandi Purple plöturnar á 8. áratugnum.

 

Ég myndi hiklaust segja að þessi plata sé mun betri en maður getur átt von á frá þessum öldnu stríðshrossum klassíska rokksins sem brátt verða flestir dottnir á áttræðisaldurinn. Platan hljómar ekki eins og gamlir karlar hafi komið saman til að reyna að endurvekja forna dýrðardaga. Þeir verða aldrei endurvaktir hjá neinum. Hún er þeim þó til sóma og ef þetta verður þeirra síðasti ópus þá er vel skilið við, ennþá skapand, vel spilandi og skemmtilegir.

 

PS...Purple voru alltaf skemmtilegri en Zeppelin.

25.05.2017 19:01

Dimma með sína bestu

Dimma – Eldraunir - 2017

9/10

Loksins kemur ný stúdíóplata frá hinni 13 ára gömlu Dimmu og er hún sú 5. í röðinni. Auk þess hafa þeir sent frá sér 5 tónleikaplötur og tvær þeirra í púkki með rokkkóngnum Bubba Morthens. Sennilega hefur engin íslensk hljómsveit verið jafn dugleg að senda frá sér tónleikaefni og er það vel, því þeir eru frábær tónleikasveit. Sveitin tók stakkaskiptum 2011 með tilkomu þeirra Stebba Jak og Bigga trommara og í kjölfarið fara þeir að syngja á íslensku. Síðan þá hefur allt verið uppávið og ævintýri líkast og stór hluti þjóðarinnar tekið ástfóstri við þessa sómapilta og þeirra gæðarokk.

                                       

Eldraunir er í raun síðasti hluti af þríleik sem tengist lauslega og hófst með útgáfu plötunnar Myrkraverk árið 2012 en þar var yrkisefnið öll þau mannanna verk sem framin eru í myrkrinu og skuggahliðum mannlífsins. Á Vélráð, sem kom út 2014, ræddi um þá klæki sem mannfólkið notar til þess að beygja náungann undir sinn vilja og ná yfirhöndinni og völdum í samskiptum sín á milli. Eldraunir er svo um erfiðleikana sem við mætum hvert og eitt í lífinu á meðan við berjumst áfram til að vinna okkur brautargengi í köldum og hörðum heimi.

 

Já, þessir strákar láta sig málin varða og textar þeirra eru vafalaust hluti af því að fólk tengir og þegar það fer svo saman við frábært Dimmurokkið er kominn heillandi galdur. Þetta er ekkert flókin músík, bara klassískt melódískt þungarokk, en flutt með heitu rokkhjarta og dragsíðum pung. Það gerir gæfumuninn og þessvegna hljómar þetta ekki þreytt og gamaldags. Eldraunir er þyngsta og harðasta plata þeirra til þessa og óhætt að segja að hér sé boðið uppá grjótharðan metal, með myrku yfirbragði, en samt ekki á kostnað melódíunnar. Ég held ég geti fullyrt að þetta er þeirra besta plata til þessa og hafa hinar þó ekki verið neitt slor.

 

Ég er alltaf að eignast ný og ný uppáhaldslög og ef fram fer sem horfir fá þau öll þann sess. Þannig er það með góðar plötur, en hún hljómar best sem heild. Textarnir sem Ingó á flesta, vekja til umhugsunar og eru hörkugóðir margir og tónlistin vekur upp notalegar, stundum gleymdar tilfinningar og bæði gæsahúð og rykkorn í auga hafa gert vart við sig. Kannski er maður að verða gamall og meir og farinn að láta rokkið bera sig ofurliði.

 

Upphafslagið, „Villimey“ grípur mann strax og rokkarinn hans Stebba í kjölfarið, „Í auga stormsins“ neglir mann fastan þannig að það er ekki aftur snúið. Hið pínu Acceptlega, Svörtu nóturnar er að heilla mig mig núna:

 

Ég hef gengið grýttan veg

Gamlan drösul minn ég dreg

Ferðin löng og feiknarleg

færði vetrarmyrkur.

 

Hinn þétti og melódíski „feelgood“ rokkari, Bergmál, hlítur að grípa hvert rokkhjarta, geggjað sóló hjá Ingó og kórinn flottur og ég heyri fyrir mér troðfullann Græna Hattinn taka kórinn á tónleikum þegar allir eru orðnir kunnugir laginu.

 

Illgresi er frábær keyrslurokkari með skemmtilegu uppbroti í sólókaflanum. Tvær hörkuflottar ballöður prýða plötuna. Stebbi Jak, á „Mín kald ást“ og naut í því aðstoðar Stefáns Mána við textagerðina, en þeir eiga einnig saman textann í „Í auga stormsins“. Ingó og Silli eiga síðan hið dimma lokalag, „Rökkur“ sem er mögnuð ballaða og viðeigandi endir á frábærri plötu.

 

Um spilamennskuna þarf ekki að fjölyrða frekar en venjulega. Ingó hefur ekki í annan tíma framreitt glæsilegri gítarsólo eða reffilegri riff, Silli og Biggi þéttari en allt sem þétt er og Stefán sjálfum sér líkur í hlutverki besta rokksöngvara landsins. Sándið er frábært og þessi aukni þungi og harka fer þeim ákaflega vel. Þeir hafa greinilega mætt vel undirbúnir í súdíóið og í samvinnu við Harald V Sveinbjörnsson, sem einnig spilar á píanó, hljómborð og sér um strengi auk þess að útsetja með Dimmu, tekst þeim að láta þetta hljóma dásamlega og krafturinn skilar sér fyllilega. Það er nefnilega ekki alltaf sem það tekst í stúdíóum, hversu góð sem þau eru.

Umbúðirnar eru til fyrirmyndar eins og annað hér og á Ólöf Erla Einarsdóttir heiðurinn af þeim.

 

Nú er Dimma að safna á Karolina Fund fyrir útgáfu á þessum þríleik ( Myrkraverk, Vélráð og Eldraunir) á vinyl og ég hvet fólk til að lita á það og leggja því góða máli lið.

 

Frábær plata frá einni okkar bestu rokksveit og þeirra besta til þessa.

09.04.2017 18:29

Fagrir fiskar

Jón Ólafsson – Fiskar - 2017

9/10

Jón hefur lengi verið í hópi okkar bestu tónlistarmanna og skiptir þá engu hvort rætt er um lagahöfund, hljóðfæraleikara eða útsetjara. Veit samt ekki hvort fólk geri sér almennt grein fyrir hvað hann hefur gert mikið af flottum lögum í gegnum tíðina því það eru ekki lætin og athyglisþörfin sem eru að þjaka piltinn. Tónlistin hans er oftar en ekki hógvær og hlý og lætur oft lítið yfir sér, en segir þeim mun meira, umfaðmar og vekur von.

 

Fyrsta sólóplatan kom 2004 og svo kom Hagamelur 2007 þegar landinn var á hátindinum og um það bil að sigra heiminn. Lög hans hafa þó komið út með ýmsum listamönnum í millitíðinni og að sjálfsögðu með Nýdönsk. 2008 kom platan, Ferð án fyrirheits út hjá Sögum, en þar átti Jón 8 af 12 lögum plötunnar á móti 4 Sigurðar Bjólu, við ljóð Steins Steinars. Það fór ákaflega lítið fyrir þessari plötu sem var synd, en hún var sungin af ekki ómerkara fólki en KK, Ellenu, Hildi Völu, Þorsteini Guðmunds og Svavari Knúti.  Tónlistin á henni var frumflutt á Listahátíð 2008. Það er vert að vera ekkert að  rugla þeirri plötu við, Heimurinn og ég sem kom 10 árum áður, en þar átti Jón 2 lög við ljóð Steins og meðal annars hið frábæra Passíusálmur 51 sem Ellen gerði góð skil og er tvímælalaust í hópi hans bestu laga. Fyrst við erum farinn að tala um Stein, má geta þess að tvö lög voru svo við texta hans á fyrstu sólóplötunni.

 

En tölum um Fiska. Platan ber hæfileikum Jóns ákaflega fagurt vitni, og maður skilur hugtakið „less is more“ ákaflega vel þegar hlustað er á gripinn. Minna er stundum meira og það er einstæður hæfileiki að geta komið hlutunum frá sér á svona einfaldan og fallegan hátt að ekkert tapast, hvorki í tónum né texta.  Allt sem máli skiptir er sagt og ekkert verið að flækja hlutina í einhverju óþarfa útflúri og eflaust er leitun að skilmerkari tónlist. Það má kannski segja að Jóni beri einatt gæfu til að sníða sér stakk eftir vexti, þar sem hann er enginn stórsöngvari hentar honum einkar vel svona lágstemmt og einfalt tónmál. Þó Jón sé ekki stórsöngvari í þeim skilningi, þá er hann góður sönvari því hann þekkir mætavel sín takmörk og sú þekking nýtist honum vel í tónsköpuninni... með fallega og hlýja rödd sem gott er á að hlýða.

 

Já, þannig er þetta á Fiskum og til að gera hlutina ennþá... ja, kvað getur maður sagt, lífrænni og meira orginal kannski, þá blandaði Jón demo upptökunum við eiginlegar plötuupptökur og t.d. eru flest píanó og hljómborðs sóló frá demóupptökunum. Og eins og Jón sagði sjálfur frá... oft fundist eitthvað glatast í ferlinu frá demóupptöku til hins eiginlega upptökuferlis. Oft einhverjir galdrar sem gerast þegar frumsköpun er í gangi og pressan engin. Margir vinnutextar voru látnir halda sér þó mjög stuttir væru þar sem þeir komu kjarna málsins til skila og því mikilvægari en eitthvað orðaflúr um hreinar tilfinningar.

Það er nefnilega enginn vandi að flækja hlutina, en það getur verið fjandanum flóknara að einfalda þá og ekki á færi hvers sem er... að greina kjarnann frá hisminu.

 

Það er stór hluti af galdrinum hér, að Jón er svo góður í þessari greiningu og allt gengur upp og útkoman er dásamleg fegurð, hrein og tær. Þó plata þessi beri sterk höfundareinkenni þá er hún ekkert endilega svo lík hinum sólóplötunum. Hún er lágstemmdari ef eitthvað er og áhrif raftónlistar gætir hér og er það vel. Ákaflega vel heppnað samstarf Jóns og raf snillingsins, Futuregraphers á plötunni, Eitt frá 2015, er áhugafólki um góða rafmúsík væntanlega enn í fersku minni og áhrif þeirrar vinnu hefur skilað sér á Fiska.

 

Hér koma lögin og nudda sig upp við mann eins og mjúkur köttur sem maður freistast ósjálfrátt til að taka í fangið og strjúka uns hann fer að mala notalega í kjöltunni. Hlustandinn er ekki krafinn um neitt nema að  halla sér aftur og njóta og verðlaunin eru ríkuleg... friður og vellíðan í sálinni því lögin eru full af dásamlegu andrými. Þó einfaldleikinn sé í fyrirrúmi hér er aldrei neitt ódýrt í boði, tónmyndin er skýr og hver tónn skiptir máli og engu ofaukið.

 

Stuttar draumkenndar píanóstemmur brjóta plötuna skemmtilega upp á tveimur stöðum og mikið óskaplegar er Flæðarmál dásamleg smíð þó stutt sé. Það er einhver óræður John Grant fílingur í hinu fallega upphafslagi, Gangur lífsins við texta Hallgríms Helgasonar sem tileinkaður er Þorvaldi heitnum Þorsteinssyni. Annars á Jón alla textana nem þann síðasta sem Stefán Máni á. Þetta hefur því snúist við frá fyrstu sólóplötunni er Jón átti bara einn texta. Þeir eru eins og áður segir orðfáir margir, einlægir og hlýjir og fjalla um tilfinningar, rómantík, langanir og þrár, en aldrei verða þeir væmnir. Það er líka erfitt að vera einlægur og væminn í senn, sannar tilfinningar eru aldrei væmnar. Guðmundur Andri Thorsson sá svo um yfirlestur texta.

 

Meðreiðarsveinar og meyjar á plötunni eru Bassi Ólafs á trommur auk þess að sjá um hljóðblöndun með Jóni, Andri Ólafsson, Róbert Örn Hjálmtýrsson og Ingi Skúlason sjá um bassaleik, Gummi Pé og Stefán Hjörleifsson spila á gítar og Bryndís Halla Gylfadóttir spilar á selló í tveimur lögum.  Þessi góði hópur veit til hvers af honum er ætlast og framlag hans er til fyrirmyndar, og Jón sjálfur veit hvað til hans friðar tilheyrir og gerir ákaflega vel hér. Hljómurinn á plötunni er mjög góður og vel við hæfi og umbúðirnar til fyrirmyndar þó ég hefði sleppt þessum hvíta kanti utan um fyrir minn smekk.

 

Mér finnst þetta dásamleg plata, fallegt skjól í hretviðrum lífsins sem og á ljúfum góðviðrisdögum og hún minnir mann á hvað skiptir máli í lífinu. Hún er stutt, rétt skríður yfir hálftímann og það er einhvern veginn í stíl við allt annað hér... hún er nefnilega akkúrat mátulega löng. Hvers virði er það að eignast allann heiminn ef við þurfum sífellt að flækja alla hluti og getum ekki greint kjarnann frá hisminu?

 

Þessvegna eru tónlistarmenn eins og Jón Ólafsson svo mikilvægir og ég vil enda þetta á lagaheiti 2. lags annarar sólóplötu Jóns... takk, takk, takk... fyrir þína bestu plötu.

 

Bestu lög:  Gangur lífsins, Þrá eftir þér, Flæðarmál, Ég græt það og Þegar þú finnur til.

07.03.2017 21:02

Á brúninni

Röskun - Á brúninni

9/10

 

Sú dásamlega tónlist sem þungarokkið er, hefur alltaf verið eitt af óhreinu börnunum hennar Evu þegar að útvarpsspilun kemur og þá breytir litlu velgengni sveita eins og Skálmaldar og Dimmu.

 

Þó vissulega væri gott fyrir rokkarana að fá inni á útvarpsstöðvum hvað kynningu varðar, þá hafa þeir aldrei  látið „vertu úti vinur“ viðhorfið á sig fá, og fara ekki að taka upp á því héðan af. Góð tónlist ratar alltaf á endanum til þeirra sem vilja njóta og þurfa á að halda, þó vissulega væri hægt að stækka þann hóp ef hún heyrðist á öldum ljósvakans.

 

Nýlega kom út platan Á brúninni, með Akureyrsku þungarokksveitinni Röskun, og er það þeirra fyrsta plata. Platan er búin að vera ein þrjú ár í smíðum því strákarnir ákváðu að vanda verulega til verka. Röskun skipa þeir Ágúst Örn Pálsson sem spilar á gítar og syngur, Heiðar Brynjarsson lemur húðir af miklum móð, Magnús Hilmar Felixsson plokkar bassann og sér um hreina sönginn og síðast en ekki síst hann Þorlákur Lyngmo sem spilar á gítar og syngur. Þessir drengir eru flestir góðkunningjar þungarokkssenunnar  á  Akureyri og ákváðu á sínum tíma, eins og þeir segja.. „stofna enn eitt helvítis bandið“. Magnús kemur þó úr aðeins annari átt, en hann er klassískt menntaður. Allir eru þeir vinnandi menn sem komnir eru með fjölskyldur, en rokkskrímslið lætur ekki að sér hæða og kallar menn til leiks þegar því hentar.

 

Í þetta skiptið skildi talað frá hjartanu og sungið á íslensku um eitthvað sem skipti þá máli. Hér er sungið um geðveiki, eitthvað sem allir meðlimir sveitarinnar hafa kynnst af eigin raun á einn eða annan hátt, og ætlunin að vekja athygli á því hve hættulegt þunglyndi og alvarlegir geðsjúkdómar geta verið og grafið undan lífi fólks. Alveg hreint frábær leið til þess að opna á þarfa umræðu um þessi mál verð ég að segja. Þetta er því consept plata sem segir sögu manns í gegnum geðveiki og það er okkar hlustendanna að túlka textana. Þeir eru margir stórfínir og vekja til umhugsunar um mikilvæg mál. Geðveiki er nefnilega dauðans alvara. Frábært og töff að syngja á íslensku og það er aldrei ofmetið né fullþakkað fyrir.

 

Það er skemmst frá því að segja að þetta er alveg frábær plata hjá stákunum og klárlega í hópi flottustu þungarokkplatna sem komið hafa út hérlendis. Það er mjög greinilegt að hér er nostrað við hlutina og að þeir hafa gefið sér góðan tíma í verkið. Áhrif koma héðan og þaðan, bæði frá eldra þungarokki og svo nýrri sveitum eins og Shadows Fall, Killswitch Engage og hvað þær nú heita allar sem blanda saman hreinum söng og öskrum. Jafnvel má heyra áhrif frá forníslenskum fimmundarsöng. Annars heyri ég aðallega bara Röskun hér og þeir þurfa sannarlega engar hækjur sér til framdráttar. Ferskir en á sama tíma vel kunnir hefðinni og það er nefnilega eitt af því frábæra við þessa plötu.

 

Allt er hér morandi í flottum melódíum í bland við geggjuð gítarriff, spilamenskan óaðfinnanleg  og gaman að heyra þessi flottu twinguitar sóló af og til sem leiða mann til eldri tíma er Thin Lizzy og Helloween riðu um héruð. Krafturinn gífurlegur og skilar sér fullkomnlega og sándið á plötunni er frábært, en Ágúst er upptökustjóri og nýtur auk þess aðstoðar Hauks Pálmasonar. Lögin ólík og margræð, hvert með sínum hætti en mynda svo sterka heild. Full af flottum köflum og samspil hörku og mýktar er aðdáunarvert og í eitthvað svo góðu jafnvægi. Alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast.

 

Frábærar lagasmíðar margar hér og áðurnefnt nostur skilar sér í hljóðmyndinni. Það er þessi skemmtilegi kontrast sem hér er svo víða heillandi, þegar harðneskjan og mýktin mætast og stíga dans og sérstaklega er þetta skemmtilegt í söngnum sem er heillandi á plötunni. Heiðar og Þorlákur eru stórskemmtilegir báðir, Heiðar með hreinu röddina og Láki með öskrin og það er alveg ofboðslegur plús að maður heyrir textana hjá báðum. Það er nefnilega ekki alltaf þannig í þessum bransa.  Gústi syngur líka og gerir vel, gott ef hann syngur ekki Ákvörðun. Svo er víða flott raddað sem er virkilega gaman að heyra.

 

Til að spila svona þungarokk þarf góða spilara og ekki síst þétt ryhtmapar. Það er unun að hlusta á þá Heiðar og Magnús hér og þá alla. Hver og einn skilar sínu fullkomnlega og Heiðari hefur farið gífurlega fram sem trommara síðan hann spilaði inn á Music to snap by með Nevolution fyrir 9 árum. Það var þó ekki yfir neinu að kvarta þar.

 

Þetta er gífurlega metnaðarfullt verk sem þeir félagar hafa sett hjartað í og metnaðurinn nær til allra hluta hér, því umbúðir eru í stíl við annað. Vandaðar og grípandi og textarnir fylgja með, en það er Kristján Lyngmo sem hannar þær. Flottustu umbúðir sem ég hef lengi séð. Þarna kemur skýrt fram hvað það skiptir miklu máli að fá tónlist í föstu formi, en ekki bara á netinu. Allavegana skiptir það mig máli að hafa svona fallegan grip í höndunum. Tala nú ekki um ef þetta væri vinylplata.

 

Þessi plata er búin að heilla mig í nokkrar vikur frá því hún kom út. Ákvað að bíða með að skrifa um hana uns nýjabrumið væri farið af henni og ég kominn niður á jörðina í aðdáun minni. Það er bara ekkert að breytast í því sambandi og enn á ég gæsahúðarmóment varðandi þessa plötu.  Frábær frumburður...og eins og maðurinn sagði forðum og segir enn..áfram Þungarokk.

 

Bestu lög:  Röskun, Ákvörðun, Volæði, Leiðin heim, Ég veit og Þú eða þeir

05.03.2017 17:59

Konuplötu eyðieyjulisti 55 plötur

Það hefur verið einkar ánægjulegt að vinna þennan lista og ákaflega mikið verið hlustað á konutónlist. Hver kona fær bara eina plötu og það er líka skilyrði að platan sé til í plötusafninu mínu. Þar eru þær plötur sem ég þekki best og hef hlustað mest á. Einhverjir kalla mig risaeðlu en frekar vil ég vera risaeðla með plötur og diska en týndur og tröllum gefinn á netinu. Annað skilyrði var að konan kæmi að því að búa til músíkina, annaðhvort ein eða með öðrum og væri ekki bara söngkona. Fyrst áttu þetta bara að vera 25 plötur, en fljótlega sá ég að það var algjörlega útilokað að einskorða sig við þann fjölda. Mér fannst fljótlega sniðugast að hafa íslenskar konur með og það bara auka á gæðin og fjölbreytnina. 

Núna er ég með heilu búnkana af plötum og diskum í kring um mig með konum og ég mun njóta þess næstu vikurnar og bara vonandi um ókomna tíð að hlusta meira á konutónlist. Það hefur nefnilega verið mikill kynjahalli á hlustuninni hjá mér. Kannski eðlilegt þar sem mikið meira er af karlatónlist, en ekki af því að hún sé betri. Það hefur sem sé orðið vitundarvakning í kotinu og megi hún verða sem víðast. Hér er smá sýnishorn af því sem hefur glatt mig undanfarið og ég færi með mér á eyðieyjuna og ég mun að sjálfsögðu hafa augun opin fyrir góðum konum í framtíðinni, því það eru æði margir snillingarnir sem ég á eftir að uppgvöta. Áfram konur í tónlist.... maður á samt ekki að að þurfa að segja eitthvað slíkt á 21. öldinni, eða hvað ?

Það vantar þarna myndir af tveimur plötuumslögum, Stellu Hauksdóttur, Trúður í felum og Krístínar Einsteinsdóttur, Litir.  Ég mun svo reyna að henda smá umsögn um hverja plötu þegar ég nenni. Þær eiga það skilið.

Röðin á plötunum er að sjálfsögðu ekkert heilög. Þær fyrstu verða síðastar og þær síðustu fyrstar ef sá gállinn er á manni. Ég hef aldrei spilað plötur eftir einhverri ákveðinni röð. Og ég gleymdi ekki Janis Joplin, Kate Bush, Enju eða Carly Simon... sem allar eru frábærar.

 

Stella Hauks - Trúður í felum

 

Joni Mitchell – Court and spark - 1974

 

Björk - Post - 1995

Natalie Merchant – Natalie Merchant - 2014

 

Ragga Gröndal – Svefnljóð - 2014

 

Lucinda Williams – Down where the spirit meets the bone - 2014

 

Cassandra Wilson - Glamoured - 2003

 

Lay Low – Brostinn strengur - 2011

 

Rumer – Seasons of my soul - 2010

 

Sunna Gunnlaugs – Long Pair Bond - 2011

 

Karla Bonhoff – Restless nights - 1979

 

Anna Halldórsdóttir – Villtir morgnar

 

Mary Chapin Carpenter – Come on come on - 1992

 

Eivör Pálsdóttir – Krákan - 2003

 

Stina Nordenstam – And she closed her eyes - 1994

 

Anna María – Saknað fortíðar - 2012

 

Janis Ian – Souvenirs Best of

 

Lisa Ekdahl – Lisa Ekdahl - 1994

 

Tory Amos- Under the pink - 1994

 

Concrete Blonde – Mexican moon - 1994

 

Carol King – Tepresty - 1971

 

Bambaló – Ófelía - 2016

Julia Holter - Have you in my wilderness - 2015

 

Joan Armatrading – Me myself I - 1980

 

Laura Marling – Once I was an eagle - 2013

 

Reykjavíkurdætur - RVD - 2016

 

Ane Brun  - It all starts with one - 2011

 

Regina Spektor – Mary Ann meets the Gravedigger - 2006

 

Nigrita & The Mellowbeats - 

 

Ingibjörg Þorbergs – Í gulu húsi - 2005

 

Alanis Morrisett - Jagged little pill - 1995

 

L7 – Bricks are heavy - 1992

 

Sinéad O´Connor – I do not want what i haven´t  got - 1990

 

Sofia Karlsson – Levande - 2011

 

Nora Jones – Day Breaks - 2016

 

Hljómsveitin Eva – Nóg til frammi

 

Kari Bremnes – Gate við gate - 2000

 

Ylja - Commotion - 2014

 

Suzanne Vega – Retrospective The Best of

 

Emiiana Torini – Fisherman´s wife - 2005

 

Buika – Nina de fuego - 2008

 

Eliza Newman – Straumhvörf - 2016

 

Ýmsar – Women of the world Acoustic

 

Hera – Don´t play this - 2005

 

Rhonda Vinsent – Good thing going - 2008

 

Dalí - Dalí - 2015

 

Pretenders – Break up the concret - 2008

 

Aimee Mann – The Forgotten Arm - 2005

Elllen Kristjánsdóttir - Draumey

 

Patti Smith – Land

 

Kristín Eysteinsdóttir - Litir

 

Pascal Pinion - Sundur - 2016

 

Mari Boine Band -  Bálvvoslatjna

 

Ýmsar - O sister were art thou ?

 

Michelle Shocked - Short sharp shocked - 1988

 

Fabúla - Dusk - 2006

26.02.2017 15:08

Bestu 25 "debut" eyðieyja

Bestu byrjenda plötur (debut album)

Sumir byrja ferilinn rólega en gefa góðar vonir um framhaldið. Aðrir byrja með hvelli og þurfa sannarlega að standa sig í stykkinu við að fylgja frumburðinum eftir. Mörgum tekst það en aðrir þurfa að vera í skugganum af sinni fyrstu plötu. Það verður hver að meta það fyrir sig hvernig honum finnst til takast í þeim efnum. Hendi hér inn 25 byrjenda plötum sem ég tæki glaður með mér á eyðieyju. Það sem fyrst kom upp í hugann áður en ég fer að pæla eitthvað sérstaklega og „shit, gleymdi þessari... og þessari... og þessari“ ferlið byrjar. Röðin ekkert heilög, enda hlusta ég á plötur í neinni sérstakri röð.

Black Sabbath-  Black Sabbath

Dire Straits – Dire Straits

Metallica – Kill em´all

Stranglers -  Rattus norvegicus

Kris Kristofferson - Kristofferson

Joy Division Unknown plesure

Lynyrd Skynyrd -  (pronnounced ´Léh ´nérd ´Skin-´nérd)

Fleet Foxes – Fleet Foxes

Stevie Ray Vaughan – Texas flood

Bad Company – Bad Co

Steely Dan – Can´t by a thrill

Led Zeppelin - Led Zeppelin

Van Halen – Van Halen

Exodus – Bonded by blood

Ramones – Ramones

Almann Brothers Band – Almann Brothers Band

Santana – Santana

Doors – Doors

Rage Against the Machine – Rage Against the Machine

The Who – My Generations

Wire – Pink Flag

Sex Pistols – Never mind the bullocks

Leonard Cohen – Songs of Leonard Cohen

King Crimson – In the court of crimson king

Beastie Boys – Licensed to ill

 

17.02.2017 11:23

Hið svokallaða vit

Sumir segja að það séu bara til tvær tegundir af tónlist... góð og svo vond. Hvað er þá góð tónlist? Einfalda svarið er að það hlítur að vera sú tónlist sem þér finnst góð og svo öfugt. Þú ert dómari í þinni upplifun. Tónlist er í eðli sínu hvorki góð eða vond. Það er ekki fyrr en einhverjum fer að finnst eitthvað um hana sem þau hugtök taka á sig mynd. Þar með getur sama tónlistin bæði verið vond og góð, og tveir hlustendur á öndverðum meiði hafa báðir rétt fyrir sér... tónlist er ... tónlist... og hver metur fyrir sig. Smekkurinn ræður þarna miklu alveg eins og með matinn sem við borðum. Mér finnst kannski kæst skata góð, en þér finnst hún vond. Báðir/bæði höfum við rétt fyrir okkur. Þar með er kæst skata bæði vond og góð... fer bara eftir hver dæmir. Svo er hægt að setja sig á háan hest og reyna að færa einhver rök fyrir að einhver tónlist sé betri en önnur, einhver tónlist sé æðri en önnur, en það hefur í raun aldrei fært menn að skynsamlegum niðurstöðum og við deilum ekki um smekk.

Ég hef ástríðufullan áhuga og áralanga reynslu af hlustun á allskonar tónlist og gæti ekki án hennar lifað. En ég hef alltaf látið það fara í taugarnar á mér þegar einhver segir við mig... þú hefur nú vit á tónlist, hvernig finnst þér þetta ?.. eða menn afsaka sig og segja... ja ég hef nú ekkert vit á þessu, en þetta höfðar ekki til mín. Aldrei færi ég að gefa mig út fyrir að hafa eitthvað sérstakt "vit" á tónlist og aldrei vitað hvað það þýðir í rauninni. Er það t.d. að vita í hvaða tóntegund lag er? Ég kann ekki tónfræði, en eflaust hjálpaði það mér enn betur að njóta tónlistar... eða ekki. Mér hefur alltaf fundist tónlistin vera þannig fyrirbæri (eins og myndlist og fl) að það þyrfti ekkert sérstakt "vit" til að geta notið hennar, aðeins þokkalega heyrn og opið hjarta og smá þolinmæði. Fegurðin er í augum sjándans og eyrum heyrandans. Vissulega er hægt að læra mikið í og um tónlist, en það ræður engum úrslitum um hvort við náum að njóta hennar eða ekki. Ég hef ekki haft af því spurnir að tónlistarfólk njóti tónlistar eitthvað betur en aðrir, eða hafi betri tónlistarsmekk. 

Tónlistarástríðan varð síðan þess valdandi að ég ákvað að fara að blogga um tónlist, en ekki að ég teldi mig hafa eitthvað sérstakt vit á fyrirbærinu sem þyrfti að básúna (sem einnig er hljóðfæri). Langaði bara að lýsa upplifun minni á plötum sem ég kaupi mér ennþá út í búð og vekja kannski áhuga annarra í leiðinni. Sleppi öllu fræðibulli og tala bara um þetta á mannamáli og það hefur alveg víkkað upplífunina að reyna að koma böndum á hana í orðum. Mér finnst þetta skemmtilegt og það eina sem ég reyni að hafa að leiðarljósi er að bera virðingu fyrir viðfangsefninu og vera sanngjarn. Það hjálpar líka að hafa engan háa hestinn til að setja sig á og tónlistarsnobbarar finnst mér leiðinlegir.

Eitt það besta við tónlist er að öll eru við sérfræðingar í okkar eigin upplifun og enginn hefur rétt eða rangt fyrir sér varðandi tónlist... okkur finnst það sem okkur finnst. Stundum breytast viðhorfin og það er alltaf mest gaman þegar múrar hrynja. Við eigum það nefnilega til að reisa múra sem einatt eru byggðir á fordómum. Það er nefnilega engin tónlistarstefna annari æðri og það hefur hentað mér best að blanda léttmeti við þungmeti, hávaða við lávaða. Þetta virkar nefnilega best hvað með öðru. Smekkurinn er síðan stærsti faktorinn í þessu og öll erum við með fullkomnan smekk á tónlist. Hvernig má það öðruvísi vera. Tónlistarnördinn og grúskarinn hefur ekkert betri smekk en Eurovision aðdándinn. Hvor hefur sinn smekki sem gefur viðkomandi fullnaðar árangur í hlustun. Smekkurinn getur síða breyst og þróast, en það fer eftir því hve forvitin og víðsýn við viljum vera. Til að varast misskilnig getur nördinn, grúskarinn og eurovision aðdándinn alveg verið sami maðurinn.

Mig langar að lokum að vitna í gamalt viðtal í Akureyri vikublað við Guðmund Óla Gunnarsson, sem lengi var stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, en hann hefur lengi unnið að því að afhelga klassíska tónlist og kemur meðal annars snilldarlega inn á þetta með "vitið"

Tilvitnun hefst... "það er kannski klisja að orða það þannig, en tónlistin hefur orðið líf mitt. En það eru ekki allir sem fá notið hennar og sumpart er sú gjá vegna misskilnings. Milli mikils þorra fólks og klassískarar tónlistar er til staðar eitthvað sem mætti kalla ímyndaðan þröskuld.
Alltof margir trúa því að klassískir tónleikar séu bara fyrir einhverja sérstaka tegund af fólki. Bara fyrir þá sem "hafa vit á tónlist". Eina vitið hinsvegar sem þarf til að njóta klassískrar tónlistar er sama vit og þarf til að njóta hvaða tónlistar sem er. Það eina sem þarf er heyrn og hjarta. Svo þarf að vita að maður hafi viljann til að opna hjartað fyrir þeim áhrifum sem tónlistin færir manni í gegnum heyrnina. Þetta er eina vitið sem skiptir máli." tilvitnun líkur.

Hlustum og njótum og verum ekki hrædd við að hafa okkar tónlistarsmekk og okkar skoðanir á tónlist...öll höfum við "vitið" sem til þarf.

Flettingar í dag: 22
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 62
Gestir í gær: 30
Samtals flettingar: 197544
Samtals gestir: 63966
Tölur uppfærðar: 25.11.2017 09:38:39