25.05.2017 19:01

Dimma með sína bestu

Dimma – Eldraunir - 2017

9/10

Loksins kemur ný stúdíóplata frá hinni 13 ára gömlu Dimmu og er hún sú 5. í röðinni. Auk þess hafa þeir sent frá sér 5 tónleikaplötur og tvær þeirra í púkki með rokkkóngnum Bubba Morthens. Sennilega hefur engin íslensk hljómsveit verið jafn dugleg að senda frá sér tónleikaefni og er það vel, því þeir eru frábær tónleikasveit. Sveitin tók stakkaskiptum 2011 með tilkomu þeirra Stebba Jak og Bigga trommara og í kjölfarið fara þeir að syngja á íslensku. Síðan þá hefur allt verið uppávið og ævintýri líkast og stór hluti þjóðarinnar tekið ástfóstri við þessa sómapilta og þeirra gæðarokk.

                                       

Eldraunir er í raun síðasti hluti af þríleik sem tengist lauslega og hófst með útgáfu plötunnar Myrkraverk árið 2012 en þar var yrkisefnið öll þau mannanna verk sem framin eru í myrkrinu og skuggahliðum mannlífsins. Á Vélráð, sem kom út 2014, ræddi um þá klæki sem mannfólkið notar til þess að beygja náungann undir sinn vilja og ná yfirhöndinni og völdum í samskiptum sín á milli. Eldraunir er svo um erfiðleikana sem við mætum hvert og eitt í lífinu á meðan við berjumst áfram til að vinna okkur brautargengi í köldum og hörðum heimi.

 

Já, þessir strákar láta sig málin varða og textar þeirra eru vafalaust hluti af því að fólk tengir og þegar það fer svo saman við frábært Dimmurokkið er kominn heillandi galdur. Þetta er ekkert flókin músík, bara klassískt melódískt þungarokk, en flutt með heitu rokkhjarta og dragsíðum pung. Það gerir gæfumuninn og þessvegna hljómar þetta ekki þreytt og gamaldags. Eldraunir er þyngsta og harðasta plata þeirra til þessa og óhætt að segja að hér sé boðið uppá grjótharðan metal, með myrku yfirbragði, en samt ekki á kostnað melódíunnar. Ég held ég geti fullyrt að þetta er þeirra besta plata til þessa og hafa hinar þó ekki verið neitt slor.

 

Ég er alltaf að eignast ný og ný uppáhaldslög og ef fram fer sem horfir fá þau öll þann sess. Þannig er það með góðar plötur, en hún hljómar best sem heild. Textarnir sem Ingó á flesta, vekja til umhugsunar og eru hörkugóðir margir og tónlistin vekur upp notalegar, stundum gleymdar tilfinningar og bæði gæsahúð og rykkorn í auga hafa gert vart við sig. Kannski er maður að verða gamall og meir og farinn að láta rokkið bera sig ofurliði.

 

Upphafslagið, „Villimey“ grípur mann strax og rokkarinn hans Stebba í kjölfarið, „Í auga stormsins“ neglir mann fastan þannig að það er ekki aftur snúið. Hið pínu Acceptlega, Svörtu nóturnar er að heilla mig mig núna:

 

Ég hef gengið grýttan veg

Gamlan drösul minn ég dreg

Ferðin löng og feiknarleg

færði vetrarmyrkur.

 

Hinn þétti og melódíski „feelgood“ rokkari, Bergmál, hlítur að grípa hvert rokkhjarta, geggjað sóló hjá Ingó og kórinn flottur og ég heyri fyrir mér troðfullann Græna Hattinn taka kórinn á tónleikum þegar allir eru orðnir kunnugir laginu.

 

Illgresi er frábær keyrslurokkari með skemmtilegu uppbroti í sólókaflanum. Tvær hörkuflottar ballöður prýða plötuna. Stebbi Jak, á „Mín kald ást“ og naut í því aðstoðar Stefáns Mána við textagerðina, en þeir eiga einnig saman textann í „Í auga stormsins“. Ingó og Silli eiga síðan hið dimma lokalag, „Rökkur“ sem er mögnuð ballaða og viðeigandi endir á frábærri plötu.

 

Um spilamennskuna þarf ekki að fjölyrða frekar en venjulega. Ingó hefur ekki í annan tíma framreitt glæsilegri gítarsólo eða reffilegri riff, Silli og Biggi þéttari en allt sem þétt er og Stefán sjálfum sér líkur í hlutverki besta rokksöngvara landsins. Sándið er frábært og þessi aukni þungi og harka fer þeim ákaflega vel. Þeir hafa greinilega mætt vel undirbúnir í súdíóið og í samvinnu við Harald V Sveinbjörnsson, sem einnig spilar á píanó, hljómborð og sér um strengi auk þess að útsetja með Dimmu, tekst þeim að láta þetta hljóma dásamlega og krafturinn skilar sér fyllilega. Það er nefnilega ekki alltaf sem það tekst í stúdíóum, hversu góð sem þau eru.

Umbúðirnar eru til fyrirmyndar eins og annað hér og á Ólöf Erla Einarsdóttir heiðurinn af þeim.

 

Nú er Dimma að safna á Karolina Fund fyrir útgáfu á þessum þríleik ( Myrkraverk, Vélráð og Eldraunir) á vinyl og ég hvet fólk til að lita á það og leggja því góða máli lið.

 

Frábær plata frá einni okkar bestu rokksveit og þeirra besta til þessa.

09.04.2017 18:29

Fagrir fiskar

Jón Ólafsson – Fiskar - 2017

9/10

Jón hefur lengi verið í hópi okkar bestu tónlistarmanna og skiptir þá engu hvort rætt er um lagahöfund, hljóðfæraleikara eða útsetjara. Veit samt ekki hvort fólk geri sér almennt grein fyrir hvað hann hefur gert mikið af flottum lögum í gegnum tíðina því það eru ekki lætin og athyglisþörfin sem eru að þjaka piltinn. Tónlistin hans er oftar en ekki hógvær og hlý og lætur oft lítið yfir sér, en segir þeim mun meira, umfaðmar og vekur von.

 

Fyrsta sólóplatan kom 2004 og svo kom Hagamelur 2007 þegar landinn var á hátindinum og um það bil að sigra heiminn. Lög hans hafa þó komið út með ýmsum listamönnum í millitíðinni og að sjálfsögðu með Nýdönsk. 2008 kom platan, Ferð án fyrirheits út hjá Sögum, en þar átti Jón 8 af 12 lögum plötunnar á móti 4 Sigurðar Bjólu, við ljóð Steins Steinars. Það fór ákaflega lítið fyrir þessari plötu sem var synd, en hún var sungin af ekki ómerkara fólki en KK, Ellenu, Hildi Völu, Þorsteini Guðmunds og Svavari Knúti.  Tónlistin á henni var frumflutt á Listahátíð 2008. Það er vert að vera ekkert að  rugla þeirri plötu við, Heimurinn og ég sem kom 10 árum áður, en þar átti Jón 2 lög við ljóð Steins og meðal annars hið frábæra Passíusálmur 51 sem Ellen gerði góð skil og er tvímælalaust í hópi hans bestu laga. Fyrst við erum farinn að tala um Stein, má geta þess að tvö lög voru svo við texta hans á fyrstu sólóplötunni.

 

En tölum um Fiska. Platan ber hæfileikum Jóns ákaflega fagurt vitni, og maður skilur hugtakið „less is more“ ákaflega vel þegar hlustað er á gripinn. Minna er stundum meira og það er einstæður hæfileiki að geta komið hlutunum frá sér á svona einfaldan og fallegan hátt að ekkert tapast, hvorki í tónum né texta.  Allt sem máli skiptir er sagt og ekkert verið að flækja hlutina í einhverju óþarfa útflúri og eflaust er leitun að skilmerkari tónlist. Það má kannski segja að Jóni beri einatt gæfu til að sníða sér stakk eftir vexti, þar sem hann er enginn stórsöngvari hentar honum einkar vel svona lágstemmt og einfalt tónmál. Þó Jón sé ekki stórsöngvari í þeim skilningi, þá er hann góður sönvari því hann þekkir mætavel sín takmörk og sú þekking nýtist honum vel í tónsköpuninni... með fallega og hlýja rödd sem gott er á að hlýða.

 

Já, þannig er þetta á Fiskum og til að gera hlutina ennþá... ja, kvað getur maður sagt, lífrænni og meira orginal kannski, þá blandaði Jón demo upptökunum við eiginlegar plötuupptökur og t.d. eru flest píanó og hljómborðs sóló frá demóupptökunum. Og eins og Jón sagði sjálfur frá... oft fundist eitthvað glatast í ferlinu frá demóupptöku til hins eiginlega upptökuferlis. Oft einhverjir galdrar sem gerast þegar frumsköpun er í gangi og pressan engin. Margir vinnutextar voru látnir halda sér þó mjög stuttir væru þar sem þeir komu kjarna málsins til skila og því mikilvægari en eitthvað orðaflúr um hreinar tilfinningar.

Það er nefnilega enginn vandi að flækja hlutina, en það getur verið fjandanum flóknara að einfalda þá og ekki á færi hvers sem er... að greina kjarnann frá hisminu.

 

Það er stór hluti af galdrinum hér, að Jón er svo góður í þessari greiningu og allt gengur upp og útkoman er dásamleg fegurð, hrein og tær. Þó plata þessi beri sterk höfundareinkenni þá er hún ekkert endilega svo lík hinum sólóplötunum. Hún er lágstemmdari ef eitthvað er og áhrif raftónlistar gætir hér og er það vel. Ákaflega vel heppnað samstarf Jóns og raf snillingsins, Futuregraphers á plötunni, Eitt frá 2015, er áhugafólki um góða rafmúsík væntanlega enn í fersku minni og áhrif þeirrar vinnu hefur skilað sér á Fiska.

 

Hér koma lögin og nudda sig upp við mann eins og mjúkur köttur sem maður freistast ósjálfrátt til að taka í fangið og strjúka uns hann fer að mala notalega í kjöltunni. Hlustandinn er ekki krafinn um neitt nema að  halla sér aftur og njóta og verðlaunin eru ríkuleg... friður og vellíðan í sálinni því lögin eru full af dásamlegu andrými. Þó einfaldleikinn sé í fyrirrúmi hér er aldrei neitt ódýrt í boði, tónmyndin er skýr og hver tónn skiptir máli og engu ofaukið.

 

Stuttar draumkenndar píanóstemmur brjóta plötuna skemmtilega upp á tveimur stöðum og mikið óskaplegar er Flæðarmál dásamleg smíð þó stutt sé. Það er einhver óræður John Grant fílingur í hinu fallega upphafslagi, Gangur lífsins við texta Hallgríms Helgasonar sem tileinkaður er Þorvaldi heitnum Þorsteinssyni. Annars á Jón alla textana nem þann síðasta sem Stefán Máni á. Þetta hefur því snúist við frá fyrstu sólóplötunni er Jón átti bara einn texta. Þeir eru eins og áður segir orðfáir margir, einlægir og hlýjir og fjalla um tilfinningar, rómantík, langanir og þrár, en aldrei verða þeir væmnir. Það er líka erfitt að vera einlægur og væminn í senn, sannar tilfinningar eru aldrei væmnar. Guðmundur Andri Thorsson sá svo um yfirlestur texta.

 

Meðreiðarsveinar og meyjar á plötunni eru Bassi Ólafs á trommur auk þess að sjá um hljóðblöndun með Jóni, Andri Ólafsson, Róbert Örn Hjálmtýrsson og Ingi Skúlason sjá um bassaleik, Gummi Pé og Stefán Hjörleifsson spila á gítar og Bryndís Halla Gylfadóttir spilar á selló í tveimur lögum.  Þessi góði hópur veit til hvers af honum er ætlast og framlag hans er til fyrirmyndar, og Jón sjálfur veit hvað til hans friðar tilheyrir og gerir ákaflega vel hér. Hljómurinn á plötunni er mjög góður og vel við hæfi og umbúðirnar til fyrirmyndar þó ég hefði sleppt þessum hvíta kanti utan um fyrir minn smekk.

 

Mér finnst þetta dásamleg plata, fallegt skjól í hretviðrum lífsins sem og á ljúfum góðviðrisdögum og hún minnir mann á hvað skiptir máli í lífinu. Hún er stutt, rétt skríður yfir hálftímann og það er einhvern veginn í stíl við allt annað hér... hún er nefnilega akkúrat mátulega löng. Hvers virði er það að eignast allann heiminn ef við þurfum sífellt að flækja alla hluti og getum ekki greint kjarnann frá hisminu?

 

Þessvegna eru tónlistarmenn eins og Jón Ólafsson svo mikilvægir og ég vil enda þetta á lagaheiti 2. lags annarar sólóplötu Jóns... takk, takk, takk... fyrir þína bestu plötu.

 

Bestu lög:  Gangur lífsins, Þrá eftir þér, Flæðarmál, Ég græt það og Þegar þú finnur til.

07.03.2017 21:02

Á brúninni

Röskun - Á brúninni

9/10

 

Sú dásamlega tónlist sem þungarokkið er, hefur alltaf verið eitt af óhreinu börnunum hennar Evu þegar að útvarpsspilun kemur og þá breytir litlu velgengni sveita eins og Skálmaldar og Dimmu.

 

Þó vissulega væri gott fyrir rokkarana að fá inni á útvarpsstöðvum hvað kynningu varðar, þá hafa þeir aldrei  látið „vertu úti vinur“ viðhorfið á sig fá, og fara ekki að taka upp á því héðan af. Góð tónlist ratar alltaf á endanum til þeirra sem vilja njóta og þurfa á að halda, þó vissulega væri hægt að stækka þann hóp ef hún heyrðist á öldum ljósvakans.

 

Nýlega kom út platan Á brúninni, með Akureyrsku þungarokksveitinni Röskun, og er það þeirra fyrsta plata. Platan er búin að vera ein þrjú ár í smíðum því strákarnir ákváðu að vanda verulega til verka. Röskun skipa þeir Ágúst Örn Pálsson sem spilar á gítar og syngur, Heiðar Brynjarsson lemur húðir af miklum móð, Magnús Hilmar Felixsson plokkar bassann og sér um hreina sönginn og síðast en ekki síst hann Þorlákur Lyngmo sem spilar á gítar og syngur. Þessir drengir eru flestir góðkunningjar þungarokkssenunnar  á  Akureyri og ákváðu á sínum tíma, eins og þeir segja.. „stofna enn eitt helvítis bandið“. Magnús kemur þó úr aðeins annari átt, en hann er klassískt menntaður. Allir eru þeir vinnandi menn sem komnir eru með fjölskyldur, en rokkskrímslið lætur ekki að sér hæða og kallar menn til leiks þegar því hentar.

 

Í þetta skiptið skildi talað frá hjartanu og sungið á íslensku um eitthvað sem skipti þá máli. Hér er sungið um geðveiki, eitthvað sem allir meðlimir sveitarinnar hafa kynnst af eigin raun á einn eða annan hátt, og ætlunin að vekja athygli á því hve hættulegt þunglyndi og alvarlegir geðsjúkdómar geta verið og grafið undan lífi fólks. Alveg hreint frábær leið til þess að opna á þarfa umræðu um þessi mál verð ég að segja. Þetta er því consept plata sem segir sögu manns í gegnum geðveiki og það er okkar hlustendanna að túlka textana. Þeir eru margir stórfínir og vekja til umhugsunar um mikilvæg mál. Geðveiki er nefnilega dauðans alvara. Frábært og töff að syngja á íslensku og það er aldrei ofmetið né fullþakkað fyrir.

 

Það er skemmst frá því að segja að þetta er alveg frábær plata hjá stákunum og klárlega í hópi flottustu þungarokkplatna sem komið hafa út hérlendis. Það er mjög greinilegt að hér er nostrað við hlutina og að þeir hafa gefið sér góðan tíma í verkið. Áhrif koma héðan og þaðan, bæði frá eldra þungarokki og svo nýrri sveitum eins og Shadows Fall, Killswitch Engage og hvað þær nú heita allar sem blanda saman hreinum söng og öskrum. Jafnvel má heyra áhrif frá forníslenskum fimmundarsöng. Annars heyri ég aðallega bara Röskun hér og þeir þurfa sannarlega engar hækjur sér til framdráttar. Ferskir en á sama tíma vel kunnir hefðinni og það er nefnilega eitt af því frábæra við þessa plötu.

 

Allt er hér morandi í flottum melódíum í bland við geggjuð gítarriff, spilamenskan óaðfinnanleg  og gaman að heyra þessi flottu twinguitar sóló af og til sem leiða mann til eldri tíma er Thin Lizzy og Helloween riðu um héruð. Krafturinn gífurlegur og skilar sér fullkomnlega og sándið á plötunni er frábært, en Ágúst er upptökustjóri og nýtur auk þess aðstoðar Hauks Pálmasonar. Lögin ólík og margræð, hvert með sínum hætti en mynda svo sterka heild. Full af flottum köflum og samspil hörku og mýktar er aðdáunarvert og í eitthvað svo góðu jafnvægi. Alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast.

 

Frábærar lagasmíðar margar hér og áðurnefnt nostur skilar sér í hljóðmyndinni. Það er þessi skemmtilegi kontrast sem hér er svo víða heillandi, þegar harðneskjan og mýktin mætast og stíga dans og sérstaklega er þetta skemmtilegt í söngnum sem er heillandi á plötunni. Heiðar og Þorlákur eru stórskemmtilegir báðir, Heiðar með hreinu röddina og Láki með öskrin og það er alveg ofboðslegur plús að maður heyrir textana hjá báðum. Það er nefnilega ekki alltaf þannig í þessum bransa.  Gústi syngur líka og gerir vel, gott ef hann syngur ekki Ákvörðun. Svo er víða flott raddað sem er virkilega gaman að heyra.

 

Til að spila svona þungarokk þarf góða spilara og ekki síst þétt ryhtmapar. Það er unun að hlusta á þá Heiðar og Magnús hér og þá alla. Hver og einn skilar sínu fullkomnlega og Heiðari hefur farið gífurlega fram sem trommara síðan hann spilaði inn á Music to snap by með Nevolution fyrir 9 árum. Það var þó ekki yfir neinu að kvarta þar.

 

Þetta er gífurlega metnaðarfullt verk sem þeir félagar hafa sett hjartað í og metnaðurinn nær til allra hluta hér, því umbúðir eru í stíl við annað. Vandaðar og grípandi og textarnir fylgja með, en það er Kristján Lyngmo sem hannar þær. Flottustu umbúðir sem ég hef lengi séð. Þarna kemur skýrt fram hvað það skiptir miklu máli að fá tónlist í föstu formi, en ekki bara á netinu. Allavegana skiptir það mig máli að hafa svona fallegan grip í höndunum. Tala nú ekki um ef þetta væri vinylplata.

 

Þessi plata er búin að heilla mig í nokkrar vikur frá því hún kom út. Ákvað að bíða með að skrifa um hana uns nýjabrumið væri farið af henni og ég kominn niður á jörðina í aðdáun minni. Það er bara ekkert að breytast í því sambandi og enn á ég gæsahúðarmóment varðandi þessa plötu.  Frábær frumburður...og eins og maðurinn sagði forðum og segir enn..áfram Þungarokk.

 

Bestu lög:  Röskun, Ákvörðun, Volæði, Leiðin heim, Ég veit og Þú eða þeir

05.03.2017 17:59

Konuplötu eyðieyjulisti 55 plötur

Það hefur verið einkar ánægjulegt að vinna þennan lista og ákaflega mikið verið hlustað á konutónlist. Hver kona fær bara eina plötu og það er líka skilyrði að platan sé til í plötusafninu mínu. Þar eru þær plötur sem ég þekki best og hef hlustað mest á. Einhverjir kalla mig risaeðlu en frekar vil ég vera risaeðla með plötur og diska en týndur og tröllum gefinn á netinu. Annað skilyrði var að konan kæmi að því að búa til músíkina, annaðhvort ein eða með öðrum og væri ekki bara söngkona. Fyrst áttu þetta bara að vera 25 plötur, en fljótlega sá ég að það var algjörlega útilokað að einskorða sig við þann fjölda. Mér fannst fljótlega sniðugast að hafa íslenskar konur með og það bara auka á gæðin og fjölbreytnina. 

Núna er ég með heilu búnkana af plötum og diskum í kring um mig með konum og ég mun njóta þess næstu vikurnar og bara vonandi um ókomna tíð að hlusta meira á konutónlist. Það hefur nefnilega verið mikill kynjahalli á hlustuninni hjá mér. Kannski eðlilegt þar sem mikið meira er af karlatónlist, en ekki af því að hún sé betri. Það hefur sem sé orðið vitundarvakning í kotinu og megi hún verða sem víðast. Hér er smá sýnishorn af því sem hefur glatt mig undanfarið og ég færi með mér á eyðieyjuna og ég mun að sjálfsögðu hafa augun opin fyrir góðum konum í framtíðinni, því það eru æði margir snillingarnir sem ég á eftir að uppgvöta. Áfram konur í tónlist.... maður á samt ekki að að þurfa að segja eitthvað slíkt á 21. öldinni, eða hvað ?

Það vantar þarna myndir af tveimur plötuumslögum, Stellu Hauksdóttur, Trúður í felum og Krístínar Einsteinsdóttur, Litir.  Ég mun svo reyna að henda smá umsögn um hverja plötu þegar ég nenni. Þær eiga það skilið.

Röðin á plötunum er að sjálfsögðu ekkert heilög. Þær fyrstu verða síðastar og þær síðustu fyrstar ef sá gállinn er á manni. Ég hef aldrei spilað plötur eftir einhverri ákveðinni röð. Og ég gleymdi ekki Janis Joplin, Kate Bush, Enju eða Carly Simon... sem allar eru frábærar.

 

Stella Hauks - Trúður í felum

 

Joni Mitchell – Court and spark - 1974

 

Björk - Post - 1995

Natalie Merchant – Natalie Merchant - 2014

 

Ragga Gröndal – Svefnljóð - 2014

 

Lucinda Williams – Down where the spirit meets the bone - 2014

 

Cassandra Wilson - Glamoured - 2003

 

Lay Low – Brostinn strengur - 2011

 

Rumer – Seasons of my soul - 2010

 

Sunna Gunnlaugs – Long Pair Bond - 2011

 

Karla Bonhoff – Restless nights - 1979

 

Anna Halldórsdóttir – Villtir morgnar

 

Mary Chapin Carpenter – Come on come on - 1992

 

Eivör Pálsdóttir – Krákan - 2003

 

Stina Nordenstam – And she closed her eyes - 1994

 

Anna María – Saknað fortíðar - 2012

 

Janis Ian – Souvenirs Best of

 

Lisa Ekdahl – Lisa Ekdahl - 1994

 

Tory Amos- Under the pink - 1994

 

Concrete Blonde – Mexican moon - 1994

 

Carol King – Tepresty - 1971

 

Bambaló – Ófelía - 2016

Julia Holter - Have you in my wilderness - 2015

 

Joan Armatrading – Me myself I - 1980

 

Laura Marling – Once I was an eagle - 2013

 

Reykjavíkurdætur - RVD - 2016

 

Ane Brun  - It all starts with one - 2011

 

Regina Spektor – Mary Ann meets the Gravedigger - 2006

 

Nigrita & The Mellowbeats - 

 

Ingibjörg Þorbergs – Í gulu húsi - 2005

 

Alanis Morrisett - Jagged little pill - 1995

 

L7 – Bricks are heavy - 1992

 

Sinéad O´Connor – I do not want what i haven´t  got - 1990

 

Sofia Karlsson – Levande - 2011

 

Nora Jones – Day Breaks - 2016

 

Hljómsveitin Eva – Nóg til frammi

 

Kari Bremnes – Gate við gate - 2000

 

Ylja - Commotion - 2014

 

Suzanne Vega – Retrospective The Best of

 

Emiiana Torini – Fisherman´s wife - 2005

 

Buika – Nina de fuego - 2008

 

Eliza Newman – Straumhvörf - 2016

 

Ýmsar – Women of the world Acoustic

 

Hera – Don´t play this - 2005

 

Rhonda Vinsent – Good thing going - 2008

 

Dalí - Dalí - 2015

 

Pretenders – Break up the concret - 2008

 

Aimee Mann – The Forgotten Arm - 2005

Elllen Kristjánsdóttir - Draumey

 

Patti Smith – Land

 

Kristín Eysteinsdóttir - Litir

 

Pascal Pinion - Sundur - 2016

 

Mari Boine Band -  Bálvvoslatjna

 

Ýmsar - O sister were art thou ?

 

Michelle Shocked - Short sharp shocked - 1988

 

Fabúla - Dusk - 2006

26.02.2017 15:08

Bestu 25 "debut" eyðieyja

Bestu byrjenda plötur (debut album)

Sumir byrja ferilinn rólega en gefa góðar vonir um framhaldið. Aðrir byrja með hvelli og þurfa sannarlega að standa sig í stykkinu við að fylgja frumburðinum eftir. Mörgum tekst það en aðrir þurfa að vera í skugganum af sinni fyrstu plötu. Það verður hver að meta það fyrir sig hvernig honum finnst til takast í þeim efnum. Hendi hér inn 25 byrjenda plötum sem ég tæki glaður með mér á eyðieyju. Það sem fyrst kom upp í hugann áður en ég fer að pæla eitthvað sérstaklega og „shit, gleymdi þessari... og þessari... og þessari“ ferlið byrjar. Röðin ekkert heilög, enda hlusta ég á plötur í neinni sérstakri röð.

Black Sabbath-  Black Sabbath

Dire Straits – Dire Straits

Metallica – Kill em´all

Stranglers -  Rattus norvegicus

Kris Kristofferson - Kristofferson

Joy Division Unknown plesure

Lynyrd Skynyrd -  (pronnounced ´Léh ´nérd ´Skin-´nérd)

Fleet Foxes – Fleet Foxes

Stevie Ray Vaughan – Texas flood

Bad Company – Bad Co

Steely Dan – Can´t by a thrill

Led Zeppelin - Led Zeppelin

Van Halen – Van Halen

Exodus – Bonded by blood

Ramones – Ramones

Almann Brothers Band – Almann Brothers Band

Santana – Santana

Doors – Doors

Rage Against the Machine – Rage Against the Machine

The Who – My Generations

Wire – Pink Flag

Sex Pistols – Never mind the bullocks

Leonard Cohen – Songs of Leonard Cohen

King Crimson – In the court of crimson king

Beastie Boys – Licensed to ill

 

17.02.2017 11:23

Hið svokallaða vit

Sumir segja að það séu bara til tvær tegundir af tónlist... góð og svo vond. Hvað er þá góð tónlist? Einfalda svarið er að það hlítur að vera sú tónlist sem þér finnst góð og svo öfugt. Þú ert dómari í þinni upplifun. Tónlist er í eðli sínu hvorki góð eða vond. Það er ekki fyrr en einhverjum fer að finnst eitthvað um hana sem þau hugtök taka á sig mynd. Þar með getur sama tónlistin bæði verið vond og góð, og tveir hlustendur á öndverðum meiði hafa báðir rétt fyrir sér... tónlist er ... tónlist... og hver metur fyrir sig. Smekkurinn ræður þarna miklu alveg eins og með matinn sem við borðum. Mér finnst kannski kæst skata góð, en þér finnst hún vond. Báðir/bæði höfum við rétt fyrir okkur. Þar með er kæst skata bæði vond og góð... fer bara eftir hver dæmir. Svo er hægt að setja sig á háan hest og reyna að færa einhver rök fyrir að einhver tónlist sé betri en önnur, einhver tónlist sé æðri en önnur, en það hefur í raun aldrei fært menn að skynsamlegum niðurstöðum og við deilum ekki um smekk.

Ég hef ástríðufullan áhuga og áralanga reynslu af hlustun á allskonar tónlist og gæti ekki án hennar lifað. En ég hef alltaf látið það fara í taugarnar á mér þegar einhver segir við mig... þú hefur nú vit á tónlist, hvernig finnst þér þetta ?.. eða menn afsaka sig og segja... ja ég hef nú ekkert vit á þessu, en þetta höfðar ekki til mín. Aldrei færi ég að gefa mig út fyrir að hafa eitthvað sérstakt "vit" á tónlist og aldrei vitað hvað það þýðir í rauninni. Er það t.d. að vita í hvaða tóntegund lag er? Ég kann ekki tónfræði, en eflaust hjálpaði það mér enn betur að njóta tónlistar... eða ekki. Mér hefur alltaf fundist tónlistin vera þannig fyrirbæri (eins og myndlist og fl) að það þyrfti ekkert sérstakt "vit" til að geta notið hennar, aðeins þokkalega heyrn og opið hjarta og smá þolinmæði. Fegurðin er í augum sjándans og eyrum heyrandans. Vissulega er hægt að læra mikið í og um tónlist, en það ræður engum úrslitum um hvort við náum að njóta hennar eða ekki. Ég hef ekki haft af því spurnir að tónlistarfólk njóti tónlistar eitthvað betur en aðrir, eða hafi betri tónlistarsmekk. 

Tónlistarástríðan varð síðan þess valdandi að ég ákvað að fara að blogga um tónlist, en ekki að ég teldi mig hafa eitthvað sérstakt vit á fyrirbærinu sem þyrfti að básúna (sem einnig er hljóðfæri). Langaði bara að lýsa upplifun minni á plötum sem ég kaupi mér ennþá út í búð og vekja kannski áhuga annarra í leiðinni. Sleppi öllu fræðibulli og tala bara um þetta á mannamáli og það hefur alveg víkkað upplífunina að reyna að koma böndum á hana í orðum. Mér finnst þetta skemmtilegt og það eina sem ég reyni að hafa að leiðarljósi er að bera virðingu fyrir viðfangsefninu og vera sanngjarn. Það hjálpar líka að hafa engan háa hestinn til að setja sig á og tónlistarsnobbarar finnst mér leiðinlegir.

Eitt það besta við tónlist er að öll eru við sérfræðingar í okkar eigin upplifun og enginn hefur rétt eða rangt fyrir sér varðandi tónlist... okkur finnst það sem okkur finnst. Stundum breytast viðhorfin og það er alltaf mest gaman þegar múrar hrynja. Við eigum það nefnilega til að reisa múra sem einatt eru byggðir á fordómum. Það er nefnilega engin tónlistarstefna annari æðri og það hefur hentað mér best að blanda léttmeti við þungmeti, hávaða við lávaða. Þetta virkar nefnilega best hvað með öðru. Smekkurinn er síðan stærsti faktorinn í þessu og öll erum við með fullkomnan smekk á tónlist. Hvernig má það öðruvísi vera. Tónlistarnördinn og grúskarinn hefur ekkert betri smekk en Eurovision aðdándinn. Hvor hefur sinn smekki sem gefur viðkomandi fullnaðar árangur í hlustun. Smekkurinn getur síða breyst og þróast, en það fer eftir því hve forvitin og víðsýn við viljum vera. Til að varast misskilnig getur nördinn, grúskarinn og eurovision aðdándinn alveg verið sami maðurinn.

Mig langar að lokum að vitna í gamalt viðtal í Akureyri vikublað við Guðmund Óla Gunnarsson, sem lengi var stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, en hann hefur lengi unnið að því að afhelga klassíska tónlist og kemur meðal annars snilldarlega inn á þetta með "vitið"

Tilvitnun hefst... "það er kannski klisja að orða það þannig, en tónlistin hefur orðið líf mitt. En það eru ekki allir sem fá notið hennar og sumpart er sú gjá vegna misskilnings. Milli mikils þorra fólks og klassískarar tónlistar er til staðar eitthvað sem mætti kalla ímyndaðan þröskuld.
Alltof margir trúa því að klassískir tónleikar séu bara fyrir einhverja sérstaka tegund af fólki. Bara fyrir þá sem "hafa vit á tónlist". Eina vitið hinsvegar sem þarf til að njóta klassískrar tónlistar er sama vit og þarf til að njóta hvaða tónlistar sem er. Það eina sem þarf er heyrn og hjarta. Svo þarf að vita að maður hafi viljann til að opna hjartað fyrir þeim áhrifum sem tónlistin færir manni í gegnum heyrnina. Þetta er eina vitið sem skiptir máli." tilvitnun líkur.

Hlustum og njótum og verum ekki hrædd við að hafa okkar tónlistarsmekk og okkar skoðanir á tónlist...öll höfum við "vitið" sem til þarf.

07.02.2017 20:15

Flottur jazz

Stína Ágústsdóttir – Jazz á íslensku

8/10

 

Söngkonan Kristín Birgitta Ágústsdóttir, ja hver er nú það ? Ég get alveg játað á mig fáfræði hvað varðar þá mætu spurningu, og nafnið Stína Ágústsdóttir kveikti ekki á mikið fleiri perum. Mig rámaði þó í að hafa séð plötu með Stínu August fyrir nokkrum árum, en hún komst þó aldrei í mín eyru. Þar syngur stúlkan lög Jóa G. í svolítið óhefðbundnum útsetningum við undirleik kanadísk/íslensku sveitarinnar Nista. Ég held ég sé ekki að ljúga miklu þegar ég segi að Stína sé frá Reykjavík, en hún hefur búið erlendis hin seinni ár. Kanada, England, Danmörk og Svíþjóð eru á meðal búsetu landa hennar og hún býr einmitt í síðastnefnda landinu um þessar mundir. Hún er lærð í jazzfræðum en hefur einnig fengist við popp og rokktónlist og víða komið fram um heiminn. Auk þessa að hafa verið í áðurnefndri Nista, hefur hún starfað í erlectro dúóinu Axxe.

 

Seint á síðasta ári kom plata sú er hér er til umfjöllunnar og mun þetta vera þriðja plata Stínu. Viðfangsefnið eru misgrænir jazzslagarar frá síðustu öld, og aðallega frá bandarísku gullöldinni með íslenskum textum eftir stúlkuna.  Þrjú sænsk lög eru hér kærkomin og hin sænska melankólía blandast vel við vestrið. Sænski vísna jazzinn er okkur íslendingum vel kunnur og á meðal laga hér er Visa från Utanmyra, sem hér heitir Vísa um veginn og sænski píanóleikarinn Jan Johansson gerði ódauðleg skil á Jazz på svenska, og hið grátbroslega Trubbel, eftir vísnatónlistarmanninn Olle Adolpson sem fengið hefur nafnið Vesen. Þess má geta að Anna Pálína Árnadóttir söng þetta eftirminnilega á plötunni Guð og gamlar konur við texta Aðalsteins Ásbergs og þá tók ég ástfóstri við lagið Vandkvæði.

 

Það eru engir smákallar sem hér eiga lög og má því til staðfestingar nefna til sögunnar þá Gershwin, Jimmy McHugh, Cole Porter og Charlie Parker. Þetta eru þó fjarri þreyttustu lummur viðkomandi sem hér eru teknar til kostanna og lög minni spámanna njóta sín ekki síður hér eins og t.d. Grindavíkur jazz eftir höfund Santa Claus is coming to town, Arthur Schwartz.

 

Eins og flestir vita þá er ekki nóg að vera með góð lög á plötum, alveg eins og það er ekki nóg að vera með steik í ofninum. Það eitt tryggir ekki að endanleg útkoma verði góð. Hér gengur þetta þó allt ákaflega vel upp og vel útilátin og mátulega krydduð veisluföngin gleðja sannarlega þann er þetta ritar.

 

Ekki er það síst að þakka þessu frábæra tónlistarfólki sem gefa þessu öllu líf og lit, sál og tilgang. Sjálfur Einar Scheving á trommur, Siggi Flosa á saxafón, Þorgrímur Jónsson á kontrabassanum og hin frábæra Anna Gréta Sigurðardóttir fer víða á kostum á píanóinu, eins og t.d. í sænsku þjóðlagi sem hér hefur fengið nafnið Ég veit einn gimstein. Hún á ekki langt að sækja hæfileikana, en hún er dóttir saxafónleikarans góðkunna.

 

Rúsínan í þessum pilsuenda er síðan hin stórgóða Stína, sem túlkar þessi lög af öryggi og gæðir þau hlýrri tilfinningu og glettnin er oft ekki langt undan í textum og túlkun. Hún ræður jafnt við ballöður sem sveiflu og gerir víða vel hér, og er algjörlega laus við tilgerð og sýndarmennsku. Margir textarnir hennar eru mjög góðir og þeir falla vel að lögunum, en sum eru þannig að það hlýtur að hafa verið smá kúnst að láta þá passa. Það hefur ekki vafist fyrir stúlkunni, en hún naut aðstoðar Þórarins Eldjárn við yfirlestur. Þessi hópur myndar sterka heild og hljóðfæraleikararnir eru ekki bara undirleikarar hjá Stínu. Öll njóta þau sín vel, og allt styður þetta hvað annað í fullkomnu jafnvægi þeirra sem þurfa ekki að sýnast, til að vera góð.

 

Hljómurinn á plötunni er hlýr og tónlistin fær að anda og maður er kominn í huganum á skuggsælan bar og reykurinn liðast um loftið í algleymi þess sem kann að njóta líðandi stundar.

 

Það er ekkert frumlegt við það að taka jazzarfinn og bjóða hann áheyrendum aftur og enn á ný í hefðbundnum útsetningum. Það þarf heldur ekkert að vera það ef fólk setur hjartað í verkið og yfirleitt skilur það á milli feigs og ófeigs. Hér er það gert og unnendur þessarar tónlistar verða ekki sviknir af þessari plötu og ég mæli sannarlega með henni.

 

Mér skilst að Stína hyggist næst taka tónlistina hennar Bjarkar okkar og setja hana í jazzbúning, og það verður spennandi dæmi. Ég ætla allavegana að fylgjast með þessari hæfileikaríku stúlku í framtíðinni.

 

Bestu lög: Ég veit einn gimstein, Kysstu mig að morgni, Vorið og tómið, Vesen og Ég kveð þig ást, en þar eru þær bara tvær, Anna og Stína.

 

 

14.01.2017 20:24

Notalegheit

Hjalti og Lára – Árbraut

7,5/10

 

Þau hjónin, Hjalti og Lára eru ungt og hæfileikaríkt listafólk hér á Akureyri sem getið hafa sér gott orð fyrir tónlistarflutning við hin ýmsu tækifæri. Húnvetningurinn Hjalti og Húsvíkingurinn Lára Sóley eru bæði lærð á tónlistarsviðinu og hafa komið nálægt klassískri tónlist ekki síður en poppinu og fjarri því hægt að kalla þau nýgræðinga. Hjalti gamall rokkari úr Kanis, en hefur lagt stund á klassískan söng og Lára Sóley er klassískt mentuð og hefur víða komið við sem fiðluleikari, bæði sem einleikari og með hljómsveitum.

Árið 2013 kom frumburður þeirra saman á tónlistarsviðinu út í formi plötunnar Hjalti og Lára og fékk hún ágætar viðtökur. Þar voru flest lögin eftir aðra og þau renndu sér ljúflega í gegnum gjörkunnar ballöður, aðallega íslenskar eins og t.d. Rósina eftir Frikka, Nú andar suðrið, Ó þú og Tvær stjörnur. Mér finnst Lára Sóley gera lagi Megasar ákaflega góð skil og falleg rödd hennar nýtur sín ákaflega á lágu nótunum.

Það var svo árið 2015 sem Lára Sóley sendir frá sér vel heppnaða vögguvísnaplötu, Draumahöll hvar hún nýtur dyggrar aðstoðar Stefáns Arnar Gunnlaugssonar „ Íkorna“ á hljómborð.

Síðla sumars í fyrra kom svo Árbraut sem hér er til umfjöllunar. Það eru kannski ekki nein ægileg vísindi sem liggja að baki nafni plötunnar, en platan heitir í höfuðið á götunni sem Hjalti ólst upp við á Blönduósi, og nánast öll fjölskylda hans einhvern tíman búið við. Vilji menn taka nafnið eitthvað lengra þá er það líka tákn um eitthvað sem er stöðugt en síbreytilegt. Ætli líf okkar flestra sé ekki í árbraut.

Það hefði legið nokkuð beint við að fylgja eftir vinsældum frumburðarins með því að höggva í sama knérunn, halda sig í hlýjunni innan þægindarammans. Vera ekkert að rugga bátnum sem vaggar blíðlega  í logninu og raula nokkrar vel þekktar lummur í viðbót. Þau heiðurshjón höfðu hugrekki til að hugsa stærra og hærra og miðað við útkomuna hér ber að þakka fyrir það. Hér semja þau allt sjálf utan eins lags og tveggja texta. Platan hefst á fallegu forspili Láru Sóleyjar sem vísar svo veginn í hið seiðandi og þjóðlega Vornæturljóð, eftir þá fjölhæfu listakonu, Elísabetu Geirmundsdóttur frá  Akureyri (1915- 1959) sem kölluð hefur verið Listakonan í fjörunni.  Séra Hildur Eir Bolladóttir, sóknarprestur hér á Akureyri á svo textann í hinu fallega, Þú og ég sem byrjar á þennan yndislega hátt: Skuggar flýja daga þegar hlátur þinn / fer með vængjuðu vor´inn um glugga...

Það má segja að Hjalti og Lára finni fjölina sína hér í þessu akústíska „folk“ skotna poppi sem þau krydda klassískum áhrifum. Þau eru ekkert að reyna að vera hressi gaurinn í partíinu sem segir flesta brandarana. Hér er stemmning víðast hvar afslöppuð og fallegar ballöður, einlægni og hlýja ráða ríkjum. Angurværð er áberandi og svona „dreyminn með strá í munni liggjandi í grasinu horfandi á skýin, að hugsa um lífið og tilveruna“ stemning gerir vart við sig, t.d. í hinu flotta Engin orð, sem sannarlega stendur undir nafni og heldur áfram í titillaginu Árbraut. Tvö frábær lög og ekki tekur síðra lag við er Heimleiðin fer að hljóma. Eitt besta lagið á plötunni.

Síðasta lagið er síðan eitt af þremur lögunum með ensku textunum, The feel good song. Eitt hressasta lagið á plötunni í nettum valstakti, og rennur síðan inní eftirspil Láru Sóleyjar sem klárar plötuna. Mér finnst lögin með ensku textunum aðeins draga plötuna niður þar sem það er dálítið áberandi að þar eru Íslendingar að syngja ensku. Sérstaklega finnst mér hreimurinn hjá Hjalta áberandi. Þetta eru ekki neitt verri lög en hin, en ná ekki til mín á sama hátt og lögin með íslensku textunum, ekki það að þessir textar séu endilega neitt verri. Ég get ekki af því gert að mér finnst stundum pínu tilgerðarlegt þegar íslendingar syngja á ensku og þeir eru alltaf meira sannfærandi á okkar ástkæra ylhýra. Ef til vill er þetta meinloka í hausnum á mér og sjálfsagt skiptir þetta fæsta einhverju máli. Yesterday is gone er flott lag sem og The Feel good song, en þau hafa allt annað yfirbragð en önnu lög hér. Annars eru textarnir á plötunni ágætir, fullir af notalegheitum, ást, von og bjartsýni.

Áður hefur verið nefndur til sögunnar Stefán Örn Gunnlaugsson. Titlaður framleiðslu og upptökustjóri og sá um hljóðblöndun og eftirvinnslu plötunnar. Hann spilar auk þess á píanó og gítar og syngur bakraddir. Það mæðir mikið á „Íkornanum“ og það munar sannarlega um að hafa svona snillinga eins og hann með sér. Margir fleiri koma að gerð plötunnar og má þar nefna Valgarð Óla Ómarasson á slagverk og Stefán Gunnarsson á bassa, Ásdísi Arnardóttur á selló, Ellu Völu Ármannsdóttur á horn og Petreu Óskarsdóttur á þverflautu. Lára spilar síðan á fiðlu og Hjalti á gítar auk þess að syngja bæði, og þau standa sig ákaflega vel sem og aðrir hér. Falleg rödd Láru nýtur sín best á lágu nótunum og hún vefur angurværð í lögin með fiðluleik sínum. Hjalti er flottur söngvari og gerir víða vel. Góður hljómur á plötunni og umbúðirnar eru smekklegar hjá Þórgunni Oddsdóttur.

Þessi plata er töluvert þyngri en frumburðurinn, ef þannig má til orða taka, og hér er meira kjöt á beinunum. Ég get alveg játað það að hún kom mér töluvert á óvart á góðan hátt. Skapandi listamenn samankomnir sem hafa mikið fram að færa til að gera heiminn að betri stað til að búa á með sinni fallegu tónlist og notalegu nærveru, á hógværan og hlýlegan hátt. Vonandi kemur meira af góðri tónlist frá þessu góða fólki í framtíðinni.

Bestu lög:  Árbraut, Heimleiðin, Þú og ég og Undurfagra sýn.

12.01.2017 21:07

Gullbarkinn

Stefán Hilmarasson – Úrvalslög

Soulheimar - 2016

7,5/10

Stebbi Hilmars er fyrir þó nokkru orðinn einn albesti söngvari sem íslensk popptónlist hefur af sér alið og hann hefur alveg fram á þennan dag verið að taka framförum strákurinn. Hann var kannski ekki beisinn í byrjun miðað við hvað hann er í dag. Nú er röddin orðin þroskuð og meiri fylling komin í hana og hann er með fullt vald á henni og er held ég bara á kaliberi við Bo sjálfan í dag, enda tónlistin sem Stebbi syngur, æ meira farinn að líkjast tónlistinni sem Björgvin flytur hvort sem mönnum þykir það svo gott eða slæmt. Hann er meira að seginn kominn á fullt í jólaplötunum eins og Bo.

Ekki má gleyma því að Stebbi er líka lunkinn textasmiður, en þeir eru ekkert endilega á hverju strái. Þá hefur hann frá sinni fyrstu sólóplötu á 10. áratug síðustu aldar, fengist við lagasmíðar, og þá aðallega í samstarfi við aðra, og koma mörg þeirra laga við sögu hér. Óþarfi held ég að sé að fara eitthvað sérstaklega yfir ferilinn hjá honum, hann er velflestum kunnur, er fylgst hafa með íslenskri dægurtónlist síðustu rúmlega 30 árin. Sálin er þar hryggjarstykkið og sólóplöturnar eru síðan að minnsta kosti orðnar 4 fyrir utan tvær jólaplötur.

Stefán varð fimmtugur á árinu og sló því upp heljarinnar tónlistarveislu í Elborgarsalnum í Hörpu í septembermánuði. Í kjölfarið kom svo þessi tvöfalda safnplata sem fékk nafnið Úrvalslög. Vissulega er hér fullt af úrvalslögum innan um og samanvið, en þetta safn gæti varla staðið undir því að vera „best of“, enda örugglega ekki ætlunin.

Hér er áherslan lögð á ferilinn fyrir utan Sálina og af 39 lögum eru einungis 6 frá þeim. Það eru aðallega lög frá seinni hluta ferils þeirra og sum af bestu lögum plötunnar eins og t.d. hin rómantíska þrenning, Okkar nótt, Undir þínum áhrifum og Þú fullkomnar mig, allt flott lög eftir meistara Guðmund Jónsson við textana hans Stebba og hann gerir þeim ákaflega góð skil og má segja að hann fullkomni þau... eins og mörg önnur.

13 lög eru af sólóplötunum og þau eru nokkuð misjöfn af gæðum eins og sólóplöturnar og hafa elst misvel. Bestu lögin koma af Húm frá 2008 og má í því sambandi nefna, Nú er allt eins og nýtt eftir Togga og Sveinbjörn Jónsson, Enn á ný eftir Kalla Olgeirs við texta Friðriks Sturlusonar, Til þín eftir Gunna Þórðar og Aðalstein Ásberg,  (skemmtilegur Private investigations (Dire Straits) andblær í byrjun lagsins) Aldrei einn á ferð eftir Einar Örn Jónsson við texta Stebba og Lítið lausnarorð eftir Magnús Þór, svo dæmi sé tekið. Hið fallega í fylgsnum hjartans af Eins og er.. eftir þá Stebba og Ástvald Traustason fær að sjálfsögðu inni, sem og hin ágætu Enginn efi og Lokaðu augunum eftir þá félaga af Popplín. Stefán var aðeins að gæla við raftónlistina þarna á 10. ártug síðustu aldar og þá aðallega  í samstarfi við Mána Svavarsson. Það er kannski það efni sem hefur elst hvað síst á plötunni.

Pláhnetan fær 5 lög og sjálfsagt muna flestir eftir Þú vissir það, hvar áðurnefndur Bo syngur með Stebba. Þeir eiga svo annan dúett í lagi frá Eroz Ramasotti af dúettaplötu Björgvins. Funheitur tröllreið einnig öllum útvarpsstöðvum á sínum tima og nokkuð sjálfgefið að hafa það með.

Hvorki meira né minna en  7 lög tekin af ábreiðuplötum þeim er Stebbi og Eyfi gerðu saman og það finnst nú kannski einhverjum aðeins of vel  í lagt. Þar á hinn frábæri lagagasmiður,  David Gates úr Bread þrjú lög, allavegana tvö frá Bread, Pínulítið lengur (Baby i´m a want you) Og svo er hljótt (Aubrey) og eitt sólólag held ég, gott ef ekki Goodby girl.  Something so right eftir Paul Simon heitir hér, Þau héldust í hendur og svo koma tvö frumsamin lög af ábreiðuplötunum. Þessar ábreiður bæta alls engu við frumgerðirnar frekar en ábreiður yfirleitt gera, en eru  vissulega vel sungnar og spilaðar og það rifjaðist upp flott bassasándið hjá Friðriki Sturlusyni á ábreiðuplötunum.

Miljónamæringarnir eiga tvö lög hér sem brjóta stemmninguna skemmtilega upp og síðan eru lög frá ýmsun verkefnum er Stebbi hefur komið að og eitt nýtt lag eftir Jón Ólafsson, en hann á eitt vinsælasta sólólag drengsins, sem er Líf af samnefndri fyrstu sólóplötu. Ein flottasta útgáfan hér er soul/blús Sigurðar Flosasonar, Þegar þú ert hér af plötu Sálgæslunnar, Dauði og djöfull sem kom 2011.

Ekkert er frá Sniglabandstímanum, eða Sverri Stormsker og ég sakna þess ekkert endilega, og það hefði vafalaust skemmt heildamyndina, en Tunglið mitt sem Stebbi söng með Possibillies og Hvernig lýður þér í dag með Rafni Jónssyni, hefði alveg passað inn í stemmninguna, en eins og er með svona plötur þá er misjafn smekkur manna, einn saknar þessa og annar hins. 

Stebbi  er góður í því sem hann gerir og ég er ekkert  sammála kunningja mínum sem sagði að aðaláherslan hér væri lögð á sykraðar ballöður og millitempó lög fyrir miðaldra kéllingar og útvarpsstöðina Bylgjuna. Það er bara ekkert að því að við kéllingarnar fáum eitthvað við okkar hæfi og Bylgjan má alveg við því að batna og því ágætt ef menn færu að spila þar góða tónlist. Þetta er ekki átakamikið og stundum saknar maður að fá ekki kalda norðangoluna í andlitið, en hér er víða framreidd flott popptónlist, frábærlega sungin oftast og með íslenskum textum. Það fer að verða æ sjaldgæfara. Misgott efni sem hefur elst misvel, en heildarmyndin nokkuð sterk. Stebbi hefði alveg ráðið við þrefalda ferilplötu  (Bo kom með fjórfalda síðast)  og hún kemur bara næst. Þessi hluti ferilsins er alveg áhugaverður og honum gerð nokkuð  góð skil hér, en ef ég vil hlusta á „best of“ Stefán Hilmarsson, þá verður einfaldlega þrefalda safnið með Sálinni fyrir valinu, Hér er draumurinn.

05.01.2017 22:55

Þvílík snilld

Rolling Stones – Blue and lonesome

Polydor - 2016

9/10

 

 

Þegar ég frétti að gömlu brýnin í Rolling Stones væru að setja í blúsplötu tók hjarta mitt aukakipp sem snöggvast, því ég var búinn að bíða eftir því í mörg ár.Verði þetta síðasta platan þeirra, sem vel er líklegt, væri það sannarlega við hæfi að enda ferilinn á svipuðum nótum og hann hófst fyrir rúmum 50 árum. Það eru liðin 11 ár síðan drengirnir sendu síðast frá sér stúdíóplötu, en það var hin ágæta, Bigger Bang.

 

Það var svo í desember byrjun sem Blue and lonesome kom út og eitt ljótasta umslag á Stones plötu blasti við fólki. Forveri útgáfunnar hafði þó komið tveimur mánuðum áður, en hinn ágæti blús Buddy Johnson,  Just your fool, gaf góð fyrirheit um það sem koma skyldi. Walter Jacobs er þó skrifaður fyrir honum á plötunni, enda útgáfa hans af laginu, fyrirmynd Stónsara.

 

Ég hafði nú þær vonir haft helstar um þessa útgáfu að þeir yrðu sér ekki til skammar og kæmust nokkuð klakklaust frá þessu. Gamlir menn geta nefnilega auðveldlega farið sér að voða í stúdíóum, sem og annarsstaðar. Ekki í mínum villtustu draumum hvarflaði það að mér að útgáfan yrði jafn glæsileg og raun ber vitni. Þetta er bara ein dásamlegasta blúsplata sem ég hef heyrt til margra ára, ákaflega sönn og heiðarleg og greinilegt að blúsinn er í DNA þessara manna. Mikil dýpt í tónlistinni og tilfinningin og tóninn bara eitthvað svo sannur og réttur. Hljómurinn lifandi, hlýr og dýnamískur. Svona plötu er ekki hægt að gera nema að þekkja blúsinn út og inn, elska hann og bera mátulega virðingu fyrir honum.

 

Það má ef til vill segja að þessi plata hafi verið 50 ár á leiðinni, en það tók ekki nema þrjá daga að hljóðrita hana. Hún var hljóðrituð lifandi í stúdíóinu upp á gamla móðinn. Hljóðfæraleikaranir stilltu sér í kringum mígrafóninn og svo var bara spilað inn. Mick sagði að þeir hefðu aldrei haft þennan háttinn á áður við upptökur, og meira að segja fyrsta platan þeirra hafi haft „overdubs“.

 

Það er Chicago blúsinn sem er fyrirferðamestur hér og flest lögin frá 6. áratugnum er hetjur á borð við Muddy, Howling Wolf, Sonny Boy og Little Walter trylltu lýðinn í Windy City. Stósarar eru þó það sniðugir að sniðganga helstu blúslummur þess tíma, og minna þekkt lög eru í forgangi. Hinn frábæri munnhörpuleikari, Walter Jacobs, eða Little Walter eins og hann var oftast kallaður, á hér fjögur lög og það gefur Mick gott tækifæri á að spreyta sig á munnhörpuna. Það er skemmst frá því að segja að þar fer hann víða á kostum. Howling Wolf á eitt lag, Magic Sam eitt, Eddie Taylor eitt og  minna þekktir spámenn koma einnig við sögu.

 

Eric Clapton var að taka upp í sama stúdíói og Stóns, og því voru hæg heimatökin að fá hann yfir til að spila í tveimur lögum. Hann slædar í Everybody knows about my good thing, lagi er Little Johnny Taylor hljóðritaði 1971 og síðan tekur hann frábært sóló í, I Can´t Quit You Baby eftir Willie Dixon, sem sennilega er þekktasta lagið hér. Það var fyrst gefið út af Otis Rush og er eini hittari hans. Flestir kannast væntanlega við útgáfu Zeppelin á laginu, á þeirra fyrstu plötu. Aðrir aðstoðamenn, náttúrulega fyrir utan Darryl Jones á bassa, sem ég skil ekki afhverju er ekki gerður að opinberum meðlimi sveitarinnar, eru Chuck Leavell, sem ekki er nýgræðingur hjá strákunum og svo Matt Clifford, en þeir spila á píanó, Hammond b3 og slík tæki.

 

Hér eru hægir blúsar, hraðir blúsar og allt þar á milli. Þetta er gert af mikilli reisn og fagmennsku án þess að glata Stones elementunum, og þeir sína þeim tónlistararfi er skapaði stærstu rokksveit heimsins mikla virðingu. Þó erfitt sé að tína einhvern út hér verð ég að segja að Jagger er stjarna plötunnar, einstakur snillingur. Mér hefur fundist ýmislegt um Rollings Stones í gegnum tíðina og bæði elskað þá og elskað þá mikið minna. Hér eru þeir dásamlegir og þó að það sé skrítið að segja það, þá er þessi fyrsta plata þeirra sem eingöngu inniheldur kóverlög,  ein þeirra albesta plata. Hún hefur glatt mitt bláa blúshjarta óumræðilega mikið og mörg ár síðan ég hef hjakkast svona á einni blúsplötu... vikum saman. Rolling Stones... klárlega besta elliheimilið í bransanum... en aldur er vissulega afstætt hugtak eins og hér sannast.. Þeir hefðu væntanlega ekki getað gert slíka plötu fyrir 50 árum, en núna er þroskinn og lífsreynslan komin til að allt virki eins og það á að gera.

04.01.2017 21:36

Gott hjá Helenu

Helena Eyjólfsdóttir – Helena

JR music ehf – 2016

7/10

 

Það er best að viðurkenna það að ég hef aldrei verið neinn sérstakur aðdáandi hinnar ástsælu  söngkonu, Helenu Eyjólfsdóttur. Hvort það segir meira um mig eða hana skal ósagt látið. Mér hugnast þó tónlistin hennar frá 6. og 7. áratugnum ágætlega. Helena er yndælismanneska og prýðileg söngkona og söng sig inn í hjörtu fólks hér forðum.  Flestir muna eflaust helst eftir henni með Hljómsveit Ingimars Eydal, standandi á sviðinu í Sjallanum syngjandi slagara fyrir misdrukkinn lýðinn. Hver man ekki eftir Maríu Isabel og Á skíðum skemmti ég mér (sem heitir eitthvað annað, gott ef ekki bara Hoppsabomm eða eitthvað slíkt). Kannski eru þó Hvítir mávar frá 1959 þekktasta lagið sem hún hefur sungið og Gestur Einar gerði nánast ódauðlegt.

 

Ég er ekki viss um að margir geri sér grein fyrir að það eru 63 ár síðan Helena söng inn á sína fyrstu plötu. 1954 kemur jólaplata með lögunum Heims um ból og Í betlehem er barn oss fætt, en þá er stúlkan einungis 12 ára. Það eru svo til enn eldri útvarpsupptökur með henni, þannig að hún er búinn að vera lengi að, þó ekki hafi hún komið mikið fram hin seinni ár.

 

Helena, sem verður 75 ára seinna í mánuðinum, sendi skömmu fyrir jól frá sér sína fyrstu stóru sólóplötu og það var algjörlega rökrétt að kalla hana bara Helena.  Nú er það alltaf spurning þegar gamlar goðsagnir senda frá sér plötur á efri árum, hver efnistökin eigi að vera. Á að höggva í sama knérunn og forðum  í von um að markhópurinn sé enn lifandi og sprækur. Taka gamla slagara upp á ný, eða „nýja“  gamla slagara. Hafa blöndu af gömlum og nýjum lögum. Raggi Bjarna sendi frá sér stórgóða sólóplötu fyrir þremur árum hvar öll lögin voru ný og brúuðu þau smekklega fortíð og nútíð.

 

Hér er sá póll tekinn í hæðina að hafa blöndu af gömlu og nýju. Íslensku lögin 6 eru ný eða nýleg og síðan koma 5 erlend lög með íslenskum textum. Þetta gengur alveg ágætlega upp að mestu og Helena getur verið sátt með þessa plötu

 

Fyrsta lagið á plötunni, Saman á ný er hress "feelgood" slagari eftir upptökustjórann Karl Olgeirsson. Þar er mættur gamall söngbróðir Helenu, Þorvaldur Halldórsson og í þessum skemmtilega dúett tekst þeim nánast að fanga anda Sjallaáranna bærilega. Maggi Eiríks á Lúku af mold, kátann kántríslagara og höfundareinkenni hans leyna sér ekki. Matti Stefáns mætir með fiðluna og allir komast vel frá sínu í miklu stuði. Augun blíð, er eftir Jóhann G.Jóhannsson heitinn og kannski ekki eitt af hans stekari lögum. Þessi útgáfa stenst ekki samanburð við útgáfu Stebba Hilmars á sólóplötu sinni Húm, nær ekki að fanga rómantíkina í laginu.

 

Það fyrsta sem fór á öldur ljósvakans af plötunni var hið seiðandi og skemmtilega, Reykur eftir Kalla Olgeirs og Trausta Örn Einarsson. Shadowsleg gítarlína og svo leiðir bassinn og Helena er þrælgóð þarna. Lagið sker sig frá öðrum lögum hér sem meira eru upp á gamla móðinn og er bara pínulítið töff. Hefðu alveg mátt vera fleiri á þessum nótum.

 

Ingvi  Þór Kormáksson á hér tvö lög og Undurfagra líf er sniðið að Helenu, létt latin sveifla og Brasilískur andvari  blandast norðangolunni blíðlega. Hitt lagið hans er er Manstu ?, falleg ballaða lituð af  fortíðarþrá og harmonikkan neglir í hana ljúfsáran þráð.

 

Helena valdi nokkur erlend uppáhaldslög sem hana langaði að syngja. Rose, sem Betti Midler gerði góð skil í samnemdri kvikmynd og allt of margir hafa spreytt sig á er hér við texta Ómars Ragnarssonar. Ekki svo eftirminnileg útgáfa en Helena syngur ágætlega. Það var engin sérstök þörf á nýrri útgáfu af einu þekktasta lagi Helenu, Í rökkurró eða Twilight time eins og það hét hjá Platters forðum og heitir væntanlega enn, sleppur þó alveg fyrir horn.  Hin rómaða ballaða Boz Scaggs, We´re all alone, sem endar hina frábæru Silk degrees frá 1976, heitir hér, Að eilífu og Bragi V. Bergmann hefur gert snotran texta við lagið. Helena skilar laginu ágætlega .

 

Glitra gullin ský er gamall standard frá 1949 etir Victor Young. My foolish heart heitir það á frummálinu og var í samnemdri kvikmynd og meira að segja tilnefnt til Óskarverðlauna. Það tapaði hins vegar fyrir öllu þekktara lagi, Baby it´s a cold outside. Þetta er hér uppá gamla móðinn og mér finnst þetta einna best heppnað af erlendu lögunum og hentar Helenu vel. Þess má geta að ævisaga hennar sem kom fyrir nokkrum árum heitir Gullin ský.

 

Hljómsveit Ingimars Eydal spilaði oft á Spáni í gamla daga og tóku nokkur spæsk lög á dagskrána. Hér fáum við eitt ættað frá Spáni og í sumarlegri stemmningunni í Enginn veit, er Helena á heimavelli.

 

Hljófæraleikurinn er ágætur á plötunni en en ég skil ekki af hverju ekki var fenginn reyndari trommuleikari til að spila plötuna.  Þó Stefán Már Magnússon  gítarleikari, bassaleikari, banjóleikari, trommuleikari og slagverksleikari hér, sleppi viðast hvar vel frá trommuleiknum hefði sumstaðar hefði verið betra að hafa reyndari  trommara, eins og t.d. í Undurfagra líf.  

 

Upptökustjórinn, Karl Olgeirsson spilar á píanó og önnur hljómborð, slagverk, harmoikku, banjó og hann er reynslubolti sem sleppur vel frá sínu. Það mæðir mest á þeim Stefáni í spilamennskunni og þó ég hafi sett spurningamerki við trommuleikinn hér ofar þá gerir Stefán yfirleitt vel hér, enda báðir þessir kallar snillingar á sínum sviðum. Aðrir kappar líta við eins og t.d. Sigurður Flosason og Jón Rafnsson og áður var nefndur til sögunnar Matthías Stefánsson fiðlusnillingur. Hljómurinn er allt í lagi en trommusándið er ekki alltaf gott.

 

Umbúðirnar eru fínar, en það er þetta með lokuðu handstöðuna á Helenu. Lokuð handstaða táknar að viðkomandi er ekki tilbúinn að opna sig eða gefa af sér, en það er Helena sannarlega tilbúinn að gera... og gerir hér. Þetta skrifa ég á ljósmyndarann.

 

Ég held að það sé verulegur fengur í þessari plötu fyrir aðdáendur stúlkunnar og hún stendur sig víðast hvar með prýði þó röddin sé auðvitað ekki eins og fyrrum. Frábært framtak að senda frá sér plötu þegar hillir undir ævikvöldið og hún getur bara borið höfuðið hátt og verið stolt af gripnum. Hér er margt vel gert.

 

Bestu lög: Reykur,  Saman á ný, Lúka af mold, Mannstu og Glitra gullin ský

03.01.2017 17:22

Lengi lifir í gömlum...

Nú er öldin önnur – Mánar

Tónverk - 2016

8/10

 

Frelsi! Við viljum algert frelsi.

Frelsi! Við hötum höft og helsi.

Ég vil fá að lifa eins og mig langar.

Í þvinganir og bönn gef ég

frat.

 

Einhverjir gætu haldið að þetta væri brot úr frelsissöng Sjálfstæðisflokksins, en svona byrjar eitt af þekktari lögum hinnar goðsagnakenndu rokksveitar, Mána frá Selfossi sem út kom 1968 eða 9.

 

Þeir voru á dögunum að senda frá sér sína aðra stóru plötu og ber hún hið viðeigandi nafn, Nú er öldin önnur. Við sem eldri erum en tvævetur, munum vel eftir fyrstu plötunni sem kom út 1971, ákaflega skemmtileg plata og mér ákaflega kær. Hún hefur vel að merkja verið endurútgefin á geisladiski og er ein af þeim plötum sem maður kunni alla textana utan af og kann marga enn. Margir höfðu á orði að það hefði ekki tekist að fanga Mána hljóminn alveg á þá plötu, sveitin hefði verið mikið kraftmeiri og rokkaðri en platan gæfi til kynna. Á sínum tíma þarna í kringum 1970, voru Mánar  framarlega í flokki íslenskra rokksveita  og báru keim af gullaldarsveitum rokksins sem þá voru í óða önn að sigra heiminn, sveitir eins og Uriah Heep, Deep Purple og jafnvel Jethro Tull. Sveitir sem enn þann dag í dag starfa og spila sitt klassíska rokk... með mismiklum áragri. Mánar höfðu þó sinn eigin hljóm.

 

Þeir hafa ekki starfað mikið síðan á 8. áratugnum, en sveitin tók þó þátt í því heljarinnar ævintýri að hita upp fyrir Deep Purple í Laugardalshöllinni 2004. Þá var undirritaður að sjá báðar svetirnar í fyrsta sinn og þótti mikið til koma. Ég verð þó að játa,  að Mánarnir heilluðu mig meira... þó Purple hafi verið uppáhaldssveit til margra áratuga.

 

Vonum og væntingum var stillt verulega í hóf gagnvart þessari útgáfu, en ég átti alveg eins von á að þetta slippi fyrir horn hjá drengjunum. Maður  veit aldrei þegar sveitir sem löngu eru hættar störfum, vakna af dvalanum og oftar en ekki verður útkoman bara neyðarleg. Það er skemmst frá því að segja að þessi plata hefði vart getað orðið neitt betur heppnuð, jafnvel þó ekki sé miðað við aldur og fyrri störf. Þetta steinliggur nefnilega hjá þeim og ná þeir að fanga fortíðina fimlega, án þess að virka hallærislegir og gamaldags. Hafa greinilega gefið sér góðan tíma og vandað til verka. Mánahljómurinn er til staðar og fyrir okkur sem þekkjum eldra efnið með þeim má stundum heyra kunnuleg minni. Það fer aldrei á milli mála hverjir eru hér á ferð. Mánapoppið og rokkið hefur fengið upplyftingu sem hæfir nýrri öld og það er eins og kær vinur hafi loks ákveðið að koma í heimsókn og gleðja mann.

 

Lögin eru flest mjög góð þó þau láti ekki öll mikið yfir sér. Maður tekur eftir að þeir hafa sett hjartað í verkið og eru sjálfum sér samkvæmir. Hér er enginn að þykjast eða verið að reyna einhver ný trix til að ná til ungu kynslóðarinnar sem ofurseld er rappinu. Menn gera bara það sem þeir kunna best, það dugði þá og það dugar núna og ég verð illa svikinn ef  markhópurinn verður ekki hæstánægður með gripinn. Það er meira að segja hægt að fá hann á vinyl.

 

Þó að öldin sé önnur, þá hefur kannski ekki svo mikið breyst í þjóðfélaginu síðan Mánar voru á toppnum. Villi verkamaður á fyrri plötunni, lepur ennþá dauðann úr skel, það er lágt á honum risið, því blessaðir verkamennirnir eru ennþá kúgaðir af valdhöfunum. Já, Mánarnir eru víða í svipuðum gír textalega og fyrrum. Sterk réttlætiskennd og von um betri heim er ávallt leiðarstef í þeirra tónlist.

 

Áhyggjur af móður Jörð koma sterkt fram í fallegu lokalagi Bassa við texta spúsu sinnar, Sigríðar Birnu, en þar er nú ekki bjartsýninni fyrir að fara og textinn endar á þessum dimmu nótum:  Hér var fagurt og frjótt / Hér var friðsælt og rótt / Nú er dimmt, nú er kalt, nú er hljótt. Móðir Jörð hefur komið út áður fyrir nokkrum árum. Sigríður Birna á fleiri fína texta hér og meira að segja eitt lag. Við fengum Haustregn eftir Ólaf á frumburðinum, og hér kemur Haustlauf eftir Sigríði Birnu. Flott lag og fallegur texti í ekta Mánastíl og sómir sér vel á meðal ættingja á borð við áðurnefnt Haustregn eða Ég horfi á brimið af fyrrri plötunni.  Klárlega "Mánalegasta" lagið á plötunni.

 

Annars er Ólafur afkastamestur í lagasmíðum eins og fyrrum og er hér með 5 lög. Hann hefur löngum verið okkar albesti söngvari og fyrirtaks lagasmiður, og skiptir þá engu hvort um rokk eða rólegheit er að ræða, þó hann hafi kannski ekki rokkað mikið í seinni tíð. Lögin hans hér eru fjölbreytt, Ástarþrá  flott hetjuballaða, Töfrum og tryllum, hörkurokkari sem Gummi syngur að mestu og Ég vil hafa hana hjá mér í einhverskonar blues shuffle takti og það er í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum.  Ellismellur er einnig eftir Ólaf, hvar gert er grín að því að eldast og þurfa að taka upp nýja siði. Þetta finnst mér einna sísta lagið hér, en það skemmir alls ekkert fyrir.

 

Guðmundur Ben á hér tvö afbragðslög. Hann spilaði á píanó og söng á fyrri plötunni, en spilar á gítar hér og syngur. Lag hans, Að eiga þig, hefur yfir sér einhvern skemmtilegan Santanafíling,  smekklegur gítarleikur og flott orgelsóló hjá Bassa endar lagið en hefði alveg mátt vera lengra. Eitt af mínum upphalds á plötunni er, Ég sé í gegnum þig eftir Gumma, flott lag með smá suðurríkja-rokkblæ. Guðmundur er einn af mínum uppáhaldssöngvurum og kemst ákaflega vel frá söngnum á plötunni. Þó bæði hann og Ólafur fari alveg að takmörkum sínum í söng, standa þeir sig frábærlega. Allt of lítið til af söng Gumma á plötum, og ég man ekki hvort mikið hefur komið með honum síðan, Herbergið mitt kom með Brimkló 1979.

 

Björn á 3 lög og áður hefur verið minnst á hina dramatísku ballöðu, Móðir jörð, sem er hans besta hér. Ég veit ekki hver syngur, Hvernig get ég lifað án þín, en gruna jafnvel Bassa sjálfan um að eiga þessa pínu Gunna Þórðar-legu rödd. Fallegt lag og gott mótvægi við hetjusöngvarana Guðmund og Ólaf og Unnur Birna mætir með fiðluna. Flóttabörn byrjar eins og Links 2-3-4- með Rammstein, á taktföstu göngulagi, síðan kemur sneriltrommann  inn og svolítið kirkjulegt orgel intró hjá Bassa og bandið smellur síðan inn. Barnakór myndar skemmtilegan kontrast í laginu, og algjörlega við hæfi að hafa blessuð börnin með.

 

Smári bassaleikari á svo instrumental lagið á plötunni sem heitir Lækurinn. Einhver spænsk eða arabísk stemmning læðist þar um og lagið er ákaflega snoturt þó ekki láti það mikið yfir sér. Þar mætir gömul hetja okkar úr klassíska rokkinu í kringum 1970 og síðar, Ian Anderson, lengst af tengdur við hina mögnuðu Jethro Tull.  Unnur Birna dóttir Bassa hefur einmitt verið að túra með Anderson og eitthvað komið fram með Tull líka. Skemmtilegt að það hafi tekist að fá gamla einfættunginn til að vera með á plötunni.

 

Mánar eru ákaflega flinkir spilarar og nánast þjakaðir af reynslu í bransanum þó ekki hafi þeir mikið spilað saman síðustu áratugi. Ekki skemmir að hafa Mánabörnin sér til aðstoðar hér, því þeim kippir sannarlega í kynið. Þetta er virkilega vel flutt plata og skemmtileg, flottur gítarleikur og geggjað orgelspil út um allt og söngur í fyrsta klassa. Þeim feðgum Bassa Ólafs og Ólafi hefur hér tekist að skapa hljóm við hæfi. Hljómurinn er lifandi og hlýr og krafturinn og dýnamíkin eru til staðar. Platan vekur notalega fortíðarþrá og manni finnst til einhhvers sé unnið að fá loks nýja plötu með Mánum, þó það væri ekki nema til að minna sig á að lítið hafi kannski breyst í stóra samhenginu í veröldinni, og betur má ef duga skal í að færa hlutina til betri vegar á Hótel Jörð. Ennþá viljum við frelsi og hér eftir sem hingað til munum við þurfa að berjast fyrir því. Frelsi frá spilltum og gráðugum valdhöfum sem víla ekki fyrir sér að níðast á lýðnum og fórna náttúrunni ef það hentar. Takk Mánar... ég er stoltur af ykkur.

Umbúðirnar eru skemmtilegar og ríma vel við frumburðinn. Þessir kappar bera aldurinn einkar vel og eru orðnir mátulega virðulegir.

 

Bestu lög: Ég sé í gegnum þig, Ástarþrá, Móðir Jörð, Haustlauf og Ég vil hafa hana hjá mér.

18.12.2016 15:46

exskjúsmí nennirðu að fær´ennan pung?

Kronika - Tinnitus forte - Smekkleysa - 2016

8/10

 

ég  er nornin sem brennir brýr að baki

prakkarast um á píkunni splittar ekki káli

því ég fíl´etta frelsi og nýt þess í drasl

bakkabræðraveldi ekkert helvítis kjass

exskjúsmí nennirðu að fær´ennan pung?

 

Þannig hefst platan Tinnitus forte, og hvernig í ósköpunum ætti eitthvað að geta klikkað sem fer svona hressilega af stað. Tinna Sverrisdóttir, söngkona og rappari og m.a. ein Reykjavíkurdætra, var stödd út í Víetnam þegar hún frétti að hún væri  orðin söngkona í nýju íslensku rokkbandi.  Bibbi úr Skálmöld smalaði saman fólki úr ólíkum áttum og stofnaði rokk/rapp kvartettinn Kroniku, og hittist hópurinn fyrst saman á æfingu í ágúst. Flest lögin urðu til á æfingum. Strákarnir mættu með riff og Tinna bætti síðan við textum og melódíum. Tveimur mánuðum seinna kemur svo 8 laga plata, Tinnitus forte og því óhætt að segja að hlutirnir hafi gengið frekar hratt fyrir sig.

 

Þarna eru auk Tinnu og Bibba, sem spilar á bassa, hinn höggþétti Birgir Jónsson úr Dimmu á trommur og gítarleikarinn Guðmundur Stefán Þorvaldsson sem kemur úr ögn krúttlegri átt, en meðal annars hefur hann spilað með Sunnyside Road og gott ef hann var ekki gítarleikari Hrauns forðum daga. Hann er þá þriðji meðlimur þeirrar sveitar er Bibbi hefur spilað með í hljómsveit, en hinir tveir er auðvitað Gunnar Ben og Jón Geir, Skálmaldarbræður.

 

Á Tinnitus forte er boðið upp á vel riff-laðan og hressan rokk/rapp bræðing, og feiki grípandi melódíur innanum og saman við og auðvitað eru þarna poppáhrif. Ef Rage against the machine og Guano Apes hefðu eignast barn, væri það væntanlega í líkingu við Kroniku, og sveitin hefði örugglega slegið rækilega í gegn á tíunda áratug síðustu aldar. Barnið myndi þó væntanlega afneita Guano Apes er á reyndi. Ég er ekki að segja að þessi tónlist geti ekki slegið í gegn í dag, því þó tónlistin sé ekki hámóðins þannig lagað þá hljómar hún hvorki  þreytt né hallærisleg, allt gengur í hringi eins og við vitum og þetta gengur prýðilega upp. Góð tónlist er alltaf góð tónlist.

 

Hér er auðvitað ekki hvað síst því að þakka, að þetta er svo vel gert og af heilindum og þessi tónlist hefur bæði hjarta, pung og píku, og er spiluð af gleði og greddu, og hér er kraftur og stuð. Sönnun þess að það þarf ekki alltaf að liggja lengi yfir hlutunum svo þeir virki vel, þá á ferksleikinn það til að hverfa. Bibbi er snillingur í að smala saman flottu fólki í bönd og ná því besta fram í því. Hér skipta allir jafnmiklu máli og það er undirstaða þess að vel takist til að það jafnvægi raskist ekki verulega. Það gerir það ekki.

 

Ég verð þó að segja að hin dásamlega Tinna Sverrisdóttir, söngkona, rappari og textasmiður er stjarna plötunnar. Þegar ég fór á tónleika með þeim á Græna fyrir nokkrum vikum féll ég algjörlega fyrir stúlkunni og þvílíkt sjarmatröll hef ég ekki séð lengi á sviði, prakkaralegur töffari með æðislega útgeislun og frábær söngkona. Það er ekki sjálfgefið að slíkt skili sér á plötu en það gerir það sannarlega  í þessu tilfelli.

 

Rhytmaparið, Biggi og Bibbi er sannarlega af dýrari gerðinni og eru alveg tussuþéttir eins og þeir eiga vanda til, og Guðmundur er meistaragítarleikari sem virðist ekki hafa gert annað um dagana en spila kraftmikið, riffað rokk.

 

Textarnir hjá Tinnu er góðir og í þeim er orka í stíl við tónlistina Hún gefur stundum á kjaftinn og það hafa allir gott af því, hún er áleitin, vekur til umhugsunar og fjallar um líf nútíma mannsins á raunsannan hátt.

 

Eitt besta lagið á plötunni er Kondu nær, melódískt millitempó lag og rappið víðsfjarri og hér fara allir á kostum. Ákaflega flott bassasándið hjá Bibba og kraftmikill bassinn leiðir ásamt trommunum tvisvar að viðlaginu, þá kemur uppbrot, spennan magnast, hlaðið í lokakaflann, upphækkun og BÚMM... Tinna öskrar... kondu nær, kondu nær... gæsahúðin hríslast og maður titrar allur. Það skal tekið fram að ég get verið óþarflega viðkvæmur og meir ef eitthvað snertir mig, en þetta er hrikalega góð tilfinning og það er ekki síst svona augnablik sem eru þess valdandi að maður nennir enn að hlusta á rokk og ról.

 

Önnur uppáhaldslög er t.d. Á fullu tungli, kraftmikið með grípandi viðlagi, Skot, svolítið RAGTM-legt, en brotið skemmtilega upp með hröðum rokkkafla. Andaðu er afbraðgslag, riffið minnir pínu á Ego lagið Vægan fékk hann dóm, en það er ekkert til vansa.

 

Einn er sá maður er á ekki síst þátt í því að vel tekst til hér , en það er hann Einar Vilberg uptökustjóri. Sándið er ákaflega gott, kraftmikið en ekkert of fínpússað og dínamíkin er til staðar. Það er æ sjaldgæfara á rokk plötum í dag þar sem allt þarf að vera svo samanpressað, að öllu andrými er ofaukið. Umbúðirnar eru svalar og smellpassa við rokkið. Gaui H ljósmyndari er með allt á hreinu.

 

Virkilega góð frumraun hjá drulluþéttu bandi. Kraftur og stuð fyrir allan peninginn og það skilar sér vel að engum leiddist við gerð þessarar plötu. Nú er það spurningin hvort þau haldi frekar í átt að hefðbundnu rokki eða rappi. Hér er þatta í skemmtilegu jafnvægi og þau ráða við hvort tveggja.

 

Allavegana vona ég að þau haldi áfram, því þetta er nauðsynlegt innlegg í flóruna.

17.12.2016 21:28

Gæðapopp frá Kristjönu

 

Bambaló - Ófelía - Dimma - 2016

9/10

 

Fyrsta plata Kristjönu Stefánsdóttur kom út fyrir sléttum 20 árum og var jólaplata með jasskvartett hennar. Síðan hafa komið fjölmargar plötur, hún tekið þátt í hinum ýmsu verkefnum og hefur fyrir löngu skapað sér sess sem ein okkar albesta tónlistarkona. Hún verður að teljast einna þekktust fyrir jass og blússöng og hefur þá aðallega flutt lög eftir aðra, en hún er marghöm og einskorðar sig ekkert við einhverja ákveðna tónlistarstefnu.

 

Hún hefur starfað mikið í leikhúsinu undanfarin ár, tekið þátt í að semja leikverk og tónlist á þeim vettvangi sem unnið hafa til verðlauna. Þess má geta, að nú er einmitt að koma plata úr sýningunni, Blái hnötturinn, en þar er tónlistin eftir Kristjönu.

 

Platan sem hér er til umfjöllunar hefur verið á teikniborðinu í mörg ár, en eins og oft vill verða fannst ekki rétti tíminn fyrr en nú. Hér stígur Kristjana inn í dálítið annan heim en flestir þekkja hana í, en ekki er að heyra að hún sé nýgæðingur í „fullorðins, jaðar,  samtíma poppi“ (adult alternative/contemporary pop), ef maður leyfir sér að draga þessa tónlist í svo hátíðlega dilka. Hún semur hér öll lögin utan eitt sem er eftir Jackie Allen og Bill Anchell, og ensku textana. Bergur Ingólfsson, hennar helsti samstarfsmaður í leikhúsinu til margra ára, á íslensku textana á plötunni. Textarnir eru góðir og textarnir hans Bergs skemmtilega ævintýralegir.

 

Á þetta hliðarsjálf sitt notar Kristjana nafnið Bambaló, en það mun faðir hennar heitinn hafa kallað hana. Hún tileinkar honum eitt lag á plötunni, en það er hið fallega Impress the boy. Einhver óræður seventís prog andi svífur þar yfir vötnum sem og víðar á plötunni. Einhverra hluta vegna kom John Grant líka upp í hugann.

 

Annars er Ófelía sem platan heitir eftir, persóna sem Kristjana heillaðist af úr einni af sýningunum sem þau Bergur hafa sett á fjalirnar. Væntanlega er það Hamlet litli sem þar um ræðir, því þar sem Hamlet danaprins er, þar er Ófelía. Hún Ófelía á í mikilli baráttu og þarf að glíma við erfiða hluti eins og vanrækslu og rof af ýmsu tagi eins og þeir vita er til þekkja. Saga hennar þræðir lúfasára ljóðrænu og melankólíu á plötuna.

 

Ég var svosem ekki með neinar sérstakar væntingar fyrirfram, gagnvart þessari plötu og vissi í raun ekkert hverju ég mætti eiga von á. Ein okkar besta söngkona að stíga út fyrir þægindarammann og hasla sér völl í poppinu sem lagasmiður og flytjandi. Það voru vissulega miklar líkur á að það heppnaðist, og sú er sannarlega raunin.

 

Þetta er nefnilega hörkugóð plata og ákaflega vel unnin í alla staði. Hér er fullt af flottum hugmyndum, og skýr markmið leiða menn og konur að skynsamlegum niðurstöðum, þannig að úrvinslan er til fyrirmyndar. Afslöppuð og á köflum dreymin stemning og tónlistin flýtur notalega um hlustirnar, en aldrei er hún ódýr og hlustandinn er krafinn um að leggja við hlustir. Einfaldleikinn látinn njóta sín, en fullt af smátriðum í útsetningum og spilamensku þegar vel er að gáð, sem gaman er að njóta. Lögin eru flest mjög góð og ekki boðið upp á neitt uppfyllingarefni hér. Heildarmyndin því sterk, og fallegur hljómurinn á plötunni fullkomnar upplifunina. Ekkert endilega frumlegt, bara tímlaus gæðapopptónlist.

 

Það að hafa textana bæði á ensku og íslensku truflar mig ekki verulega, en ég er ekki frá því að platan hefði orðið enn sterkari hefðu þeir allir verið á íslensku. Lögin hér með íslensku textunum grípa mann sterkar, en ekki af því að þau séu eitthvað betri, það er þessi auka trúverðugleiki sem kemur ef sungið er á móðurmálinu og maður finnur að hlustað er á íslenska plötu. Það er þetta sem einhver sagði einhvern tímann... að þegar íslendingar syngja um epli á ensku, þá sérðu fyrir þér epli, en ef sungið er á íslensku finnurðu bragðið líka.

 

Kristjana er frábær í hlutverki poppsöngkonunnar og þessi plata er enn ein rósin í hennar hnappagat. Hún spilar auk þess á píanó, Rhodes píanó og moog hljóðgerfil. Hennar nánasti fylgisveinn við gerð plötunnar var Daði Birgisson og hann sá um bassaleik, syntabssa, lúppur og hljóðgerfla. Daníel Helgason sá um gítarleik og þeir Kristinn Snær og Bassi Ólafs trommuðu plötuna. Þau og fleiri sem koma að gerð plötunnar skila sínu ákaflega vel og vert er að geta líka Arnars Guðjónssonar sem syngur dúett með Kristjönu í virkilega flottu lagi, For all time.

 

Það er ákaflega erfitt að gera upp á milli laganna, sum eru poppaði en önnur og því auðmeltari, en það eru hér áhrif víða að. Ég heyri folk áhrif og einhver seventís progg áhrif gera einnig vart við sig eins og áður hefur komið fram, og þá á ég við þessa ljúfsáru melankólíu sem einkenndi sveitir eins og t.d. Pink floyd. Hvaðan áhrifin koma er aukaatriði því úrvinnslan er glæsileg. Lögin Hvar varstu?, Snjókornið, Dauði Ófelíu,  Impress the boy og Charlie (sem er hressasta lagið á plötunni), eru í mestu uppáhaldi núna. Lokalagið, Faðmlag endar svo plötuna á viðeigandi hátt og þar leyfir Kristjana vel skólaðri röddinni að njóta sín studd af kór. Fallegt. Platan nýtur sín best sem ein heild, eins og gjarnt er með góðar plötur. 

 

En nú til dags er komin heil kynslóð sem hefur ekki þolinmæði í svoleiðis og ræður ekki við að halda athygli mörg lög í einu, og sá góði siður að setjast niður og hlusta á heila plötu og gera ekkert annað á meðan heyrir sjálfsagt  brátt sögunni til. Margir þekkja ekki plötur sem heildarverk, kannast bara við einstök lög. Þeir fara mikils á mis segi ég og sérstaklega hérna.

 

Hér er ein besta íslenska platan sem kom á þessu ári og aðstandendum sínum til mikils sóma. Vönduð popptónlist í hæsta gæðaflokki og það sem skiptir mig líka máli, er í fallegum umbúðum, þannig að þetta styður allt hvað annað. Ég veit ekki hvort það sé við hæfi að tala um þroskað byrjendaverk hér, því það eru engir nýgræðingar sem að þessu koma. Þetta er alltént þroskað verk og ég vænti þess að við fáum að heyra meira frá Bambaló i framtíðinni.

14.12.2016 19:17

Uppáhalds á árinu

Svona er listinn minn yfir þær plötur sem helst heilluðu á árinu fyrir utan allt eldra efnið sem ég kynntist. Sumt er enn að vinna á í hausnum á mér Auðvitað er margt annað sem á heima hér en plássin voru öll frátekin. Áberandi eru misshress gamalmenni og sum þeirra það hrum að þau lifðu nú ekki árið af. Blessuð sé minning þeirra. Sennilega er það nýja Stones platan sem gladdi mig mest, en hún er bæði með stórt hjarta og dragsíðan pung. Spilagleði fyrir allan peninginn. Álíka gleði vöktu íslenskir þjáningarbræður þeirra frá Selfossi, en Mánarnir glöddu sannarlega gamla rokkhjartað. Það er þessi þroski og reynsla hjá eldra fólkinu, og það að þurfa ekkert að sanna sig sem oft skilar einhverju góðu. Bæði Megadeth og Metallica komu með hressar plötur eftir þó nokkuð mörg mögur ár, og það er skemmtileg tilbreyting að heyra Metallicu plötu með þokkalegu sándi. Tvær endurútgáfur koma svo í enda erlenda listans. 30 plötur sem ég mæli með og þetta er nokkuð fjölbreytt held ég bara, því hér er bæði að finna rokk og ról. Röðin er ekkert heilög, og eins og stendur einhversstaðar... þeir fyrstu verða síðastir og þeir síðustu fyrstir.

Íslenski listinn:

 

Helgi og Hljóðfæraleikaranir – Bæ Hæli

Snorri Helgason – Vittu til

Gímaldin – Blóðlegur fróðleikur

Alchemia – Lunatic lullabies

Bambaló – Ófelía

Nykur – II

Hymnodia – Kveldúlfur

ADHD – 6

Mánar – Þá var öldin önnur

Skálmöld – Vögguvísur Yggdrasils

Kronika – Tinnitus forte

Reykjavíkurdætur – RVK DTR

Pascal Pinion – Sundur

Mugison – Enjoy!

Elíza Newman - Straumhvörf

Samaris – Black light

Hún Andar - Demos

 

Erlendi listinn:

Opeth -Sorceress

Rolling Stones - Blue and lonesome

David Bowie – Black Star

Leonard Cohen – You want it darker

Nick Cave and the Bad Seeds – Skeleton tree

Megadeth – Dystopia

Paul Simon – Stranger to stranger

Iggy Pop – Post pop depression

Metallica – Hardwire

Radiohead – A moon shaped pool

Anderson/Stolt – Invention of knowledge

Norah Jones – Day breakes

Joe Bonamassa – Blues of desperation

Led Zeppelin – Complete BBC sessions

The Band – Last waltz

 

Flettingar í dag: 99
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 255
Gestir í gær: 159
Samtals flettingar: 178991
Samtals gestir: 56690
Tölur uppfærðar: 29.5.2017 20:26:19