19.01.2019 18:14

10 bestu íslensku plötur 2018

Magnús Þór og Árstíðir – Garðurinn minn

Þetta er einkar glæsilegt kombó og glæsileg plata, hjartahlý og heillandi. Svo manneskjuleg og full af fallegum tilfinningum. Það er unaðslegt að dvelja í þessum garði og ég er ekki frá því að þetta sé hápunkturinn á ferli meistara Magnúsar... allavegana einn af þeim.

Jóel Pálsson – Dagar koma

Saxafónleikarinn snjalli, Jóel Pálsson með enn eina snilldarplötuna og þá fyrstu sungnu. Það er enginn smákall sem sér um sönginn hér, en það er enginn annar en Valdimar Guðmundsson og auk þess spilar hann á básúnu. Hér er jazzað við ljóð okkar hestu nútímaskálda, eins og t.d. Þórarins Eldjárn og Gerðar Kristnýjar. Plata sem vinnur á og verður betri við hverja hlustun.

Lost – Fastir í fegurðinni

Akureyrskt pönk/rokk af bestu gerð. Þessi skemmtilega sveit kom saman aftur eftir langt hlé og uppfærða liðskipan. Það var svo skemmtilegt að ný tónlist fæddist og sem betur fer ákváðu þeir að koma henni út. Hljómsveit með slíka framvarðasveit sem Kristján Pétur og Jóa Ásmunds getur ekki klikkað.

Benny Crespo´s Gang – Minor mistakes

11 árum eftir frumburðinn sendir rokksveitin,  Benny Crespo´s Gang frá sér aðra plötu. Skemmtileg rokk Lovísu Elísabetar (Lay Low) og félaga hennar átti greiða leið að mínu rokkhjarta. Skemmtilegar pælingar í gangi  og tónlistin tímalaus.

Hildur Vala – Geimvísindi

Eftir langa bið sendi hin frábæra söngkona, Hildur Vala frá sér sína þriðju plötu. Hún sýnir á sér nýja hlið sem lagasmiður og þar er ekki neinn byrjendabrag að finna. Hlý og manneskjuleg plata, hógvær og heillandi og eftir því sem ég eldist kæri ég mig frekar um þannig tónlist. Eitthvað sem nærir hjartað.

Hjörvar – 52 fjöll

Hjörvar með sína þriðju plötu og þá fyrstu á íslensku. Við sem munum 9. áratuginn og allar þær hræringar er þá urðu, góðar og slæmar  í tónlist getum glaðst yfir þessari plötu. Minnir eilítið á þyngri popptónlist þess tíma eins og t.d. Echo and the Bunnyman, Davið Sylvian, The Cure og svo okkar íslenska Rúnar Þórisson og Grafík. Hjörvar hefur einmitt leikið með Rúnari.

Kjass – Rætur

Hin unga söngkona, Fanney Kristjáns og Snjólaugardóttir er stórhuga og hugrökk og sendir frá sér sína fyrstu plötu undir nafninu Kjass og það var sannarlega tímabært. Það hefði örugglega vafist fyrir einhverjum að senda frá sér vinyl plötu á þessum viðsjálverðu tímum í tónlistarútgáfu en sem betur fer fékk þessi fallega plata brautargengi örlaganna. Jazzskotin, ljúf og flutningur til stakrar prýði. Ekki ómerkari menn en Tómas R. Einarsson líta við og söngur Fanneyjar er einkar heillandi. Framtíðarstjarna.

Valdimar - Sitt sýnist hverjum

Aftur kemur Valdimar við sögu og nú með sinni eigin sveit. Minnir að þetta sé 4. platan hans og alltaf kemur hann með góða og einkar áhugaverða tónlist. Flestar plöturnar hans eru „slowburners“, vinna á við hverja hlustun, en það er oft einkenni bestu platnanna og þeirra er lengst lifa.

PS & Bjóla – Plasteyjan

Önnur plata tvíeykisins Péturs Stefánssonar og Sigurðar Bjólu, en sú fyrsta kom 1987. Skemmtilegt sækadelíu/progg/popp/rokk og fyrsta lagið gæti hafa verið tekið af óútgefinni sólóplötu Dave Gilmore. Það er ekki á hverjum degi sem þessir merku tónbæður bera afurðir sínar undir almenning og mikill fengur af þessari plötu. Vandað til verka og úrvals mannskapur kemur þessu vel til skila.

Kalli Tomm – Oddaflug

Önnur plata Kalla Tomm, fyrrum Gildru trommara. Þegar Gildran hætti vildi Kalli halda áfram í tónlistinni. Þá fæddist lagasmiðurinn og söngvarinn og hann kom skemmtilega á óvart með sinni fyrstu plötu, Örlagagaldri. Hann sýnir á Oddaflugi að sú frammistaða var engin tilviljun. Honum hefur vaxið ásmegin og gott ef þetta er ekki sterkari plata á allan hátt. Vönduð og hlý plata og Kalla og aðstoðarfólki til mikils sóma.

 

16.12.2018 14:59

Jak

Stefán Jakobsson

Jak – 2018

8/10

Ég man fyrst eftir Stebba er hann söng Scorpions slagarann, Still loving you og gott ef það var ekki tengslum við söngkeppni framhaldsskólanna. Ein af þessum sjaldgæfu röddum sem gæti náð langt, hugsaði ég og í mínum huga var það aldrei spurning hvort, heldur hvenær.  Í framhaldinu var hann farinn að syngja með norlensku hljómsveinni Douglas Wilson en þeir sendu frá sér eina plötu, Stuck in a world árið 2005. Svo skemmtilega vill til að á því herrans ári sendir svo Reykvíska rokksveitin Dimma frá sér frumburð sinn, en þar átti okkar maður heldur betur eftir að koma við sögu nokkrum árum seinna og stimpla sig endanlega inn sem einn okkar besti rokksöngvari. Stúdíóplöturnar með Dimmu og Stebba eru orðnar 3 auk nokkurra tónleikaplatna. Þar fyrir utan hefur strákurinn sungið lög á plötum annara listamanna eins og t.d. eitt á síðustu Sniglabandsplötu og 2 athyglisverð lög á sólóplötu Gunna Þórða sem út kom í fyrra og kallast einfaldlega 16. Stebbi mun hafa ákveðið það fyrir þrítugt að hann skyldi gefa út sólóplötu og hér er hún loksins komin í öllu sínu veldi.

Það mun hafa verið er Stebbi söng einhver demo fyrir eurovision að hann kynnist Dóra í Legend (Halldóri Á Björnssyni) og  kemur þá í ljós að báðir virtust vera með fullar kistur af lögum sem ekki höfðu fengið þann farveg er hæfði. Eitt leiddi af öðru og markið var sett hátt og hugur var í mönnum að gera plötu. Fljótlega sá Stebbi að hann hefði ekki þá reynslu í textagerð til að halda uppi þeim gæðastandard sem hann var búinn að setja sér og leitaði því til vinar síns, Magnúsar Þórs Sigmundsson, en þeir hjálpast ýmist að við textagerðina eða Maggi semur einn.

Meðreiðarsveinar og meyjar okkar manns eru ekki að verri endanum og áður hefur verið nefndur til sögunnar Halldór Á Björnsson úr Legend, en það hefii alveg eins verið hægt að titla hann fyrir afurðinni eins og Stebba. Hann á einn 7 lög auk þriggja sem sem þeir Stebbi semja saman. Hann spilar á píanó og synta og er ábyrgur fyrir heillandi og epískri hljóðmyndinni. Birkir Rafn Gíslason skilar gítarhlutverkinu af stakri prýði, Birgir Jónsson er klettur á bak við settið og hinn magnaði bassaleikari, Hálfdán Árnason er akkúrat það, magnaður. Á þessum drengjum mæðir mest en fleiri koma við sögu.

Þó þetta sé ekki endilega líkt hvorki Dimmu eða Legend þá er auðvitað skarast hljóðheimar beggja sveita hér og það er bara gott og gilt. Platan er mest öll í þessu miðjutempói  sem var til að byrja með til þess að þetta rann svolítið saman og ég var ekkert alveg að kaupa þetta í byrjun, enda er þetta mikil og stór plata sem ekki verður gleypt í einum munnbita. Lögin eru flest svipuð að uppbyggingu, malla flest í hægagangi til að byrja með og það skapast spenna, síðan springa þau út með flugeldasýningu og þó dramatíkin verði mikil á stundum, verður hún aldrei óþægilega yfirþyrmandi eða væmin. Eftir nokkrar hlustanir fóru lögin að koma til manns á sínum forsendum og skjóta rótum og setjast að í hugskotinu og hér er fullt af flottum lögum. Bræðingur af rokki poppi og nýrómantísku kuldarokki.

Það verður þó að segjast að fyrri hluti plötunnar er ívið sterkari en sá seinni en alls ekki þannig að það skekki heildarmyndina. Stebbi selur manni þetta allt með sannfærandi og einlægri túlkun og hann fær að njóta sín vel hér og sýna allar sýnar bestu hliðar sem sá frábæri söngvari sem hann er. Það ásamt flottum lögum og flutningi, skilar plötunni í þann gæðaflokk sem hæfir.

Þeir eru frekar dimmir sumir textarnir en ég býst við að margir geti samsvarað sig í þeim. Hann gerir upp við fortíðardrauga og reynir að finna sig í brothættri  tilveru  gleði og sorgar, en alltaf greinir maður von. Eitt fallegasta lagið á plötunni er hið magnþrungna, Vatnið, en þar gerir hann upp við slys sem varð á Mývatni í lok síðustu aldar og fær aðstoð við textagerðin frá hagyrðingnum og sveitunga sínum, Friðriki Steingrímssyni. Hið stórgóða lag, Ánauð, náði manni einna fyrst og er kannski augljósasti hittarinn á plötunni.  Flóttamaður gæti líka náð langt á öldum ljósvakans, en þar sem ég sygli lítið á þeim öldum veit ég ekkert um stöðu þeirra mála. Bandið er þétt og gott og eins og áður hefur verið minnst á mæðir ekki hvað síst á Halldóri sem tekst hér að skapa hljóðheim við hæfi.

Kannski má segja að Stebbi sé á þessari plötu sinni á svipuðum stað í ferlinum og Eiki Hauks var er hann gaf út sína sólóplötu forðum, en plata Stebba hittir vissulega betur í mark, því plata Eika, þrátt fyrir ágæta spretti, var skot í myrkri. Smekklegar umbúðir prýða síðan þennan grip.

Hefði alveg vilað fá meira frá Stebba  sjálfum sem lagasmið, en það verður bara næst. Kraftmikil, dramatísk, einlæg og heiðarleg rokkplata frá einum okkar besta söngvara og mögnuðum meðreiðarsveinum og meyjum. 

16.11.2018 14:11

Sacred Blues

Tholly´s Sacred Blues Band

Sacred Blues – 2018

8/10

Það mun hafa verið 2003 sem Blúshljómsveit Þollýjar verður til, en þá kynnast söngkonan Þollý Rósmunds og gítarleikarinn Magnús Axel Hansen í fjallgönguferð. Fljótlega kemur trommarinn Benjamín Ingi Böðvarsson til sögunnar og um bassaleik til að byrja með sáu m.a. þær Herdís Hallvarðs fyrrum Grýla og Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir sem við þekkjum betur sem Lay Low. 2009 kemur svo Jonni Richter á bassan, reynslubolti úr rokkaðri hlið bransans og átti feril með Árblik, Stálfélaginu og Exizt svo eitthvað sé nefnt. Þannig skipuð (Þollý, Magnús, Benni og Jonni) sendir Blússveitin frá sér sína fyrstu plötu, My dying bed árið 20119. Textarnir eru margir  á trúarlegum nótum og mætti  kalla þetta gospelblús, en þau taka gjarnan sálma og gospellög og setja í blúsbúning auk blússlagara og fumsamins efnis.  Útfærslan er á stundum vel rokkuð og jafnvel metalskotin og um margt var þessi frumburður einkar athyglisverður.

Margur vatnsdropinn hefur til sjávar runnið síðan sú plata kom og nýjir spilarar komnir í áhöfn blúsdrottningarinnar og þeir sannarlega ekki af verri endanum. Friðrik Karlsson hefur leyst Magnús af hólmi á gítarinn og Fúsi Óttars er kominn á bak við trommusettið. Þá er Sigurður Ingimarsson kominn á rhytmagítar auk þess að syngja eitt lag, en Kapteinninn kom lítillega við sögu á frumburðinum þar sem hann spilaði á munnhörpu  í einu lagi. Jonni er svo hér ennþá á bassanum og gerir góðan félagsskap fullkominn.

En er þetta ekki bara hefðbundinn blús, er nokkuð verið að matreiða nýja spennandi rétti hér. Hvað er þá svona heillandi?... er þetta ekki bara enn ein klisjukennda blúsplatan? Því er til að svara að þetta er alls ekki óhefðbundin og frumleg blúsplata , (enda gera sennilega fáir kröfur um að fá frumlegar blúsplötur og við blúsunnendur óttalegir pappakassar hvað það snertir) og við höfum heyrt þetta allt áður. En málið er bara ekki svo einfalt og það er þetta aukakrydd sem oft skilur á milli feigs og ófeigs í bransanum sem hér er til staðar, þetta extra sem oft er ekki auðvelt að átta sig á í fyrstu hvað er, en bragðbætir réttinn svo um munar. Þessi auka sigurvilji sem bjargar frá að missa leikinn í steindautt jafntefli. Eitt af því sem ræður úrslitum um hvort ég nenni að hlusta á nýjar blúsplötur er t.d. hvernig hljómurinn  á henni  er og eitt það fyrsta sem ég tók eftir hér er frábær hljómurinn á plötunni, og hann grípur mann og umfaðmar og platan er frábærlega unnin í alla staði. Upptökumaður var Ásmundur Jóhannsson, en um hljóðblöndun og masteringu sá Jói Ásmunds. Það verður bara að segjast að þessi plata kemur mér töluvert á óvart, því hér eru framfarir miklar á milli platna, kannski svona svipað og fara úr 1. deild í úrvalsdeildina. Bandið frábærlega þétt og hér er bæði dínamik og grúv til staðar og þetta tekið á annað level, svo maður leyfi sér að sletta aðeins.

Blús af ýmsum gerðum úr ýmsum áttum sem verður til þess að platan verður aldrei þreytandi og leiðinleg. Rúmur helmingur laganna kemur frá hljómsveitarmeðlimum og er Þollý þar atkvæðamest með 5 lög. Kapteinninn á síðan eitt og Friðrik eitt og það verður að segjast að lög þeirra þremenninga standa hinum erlendu ekkert að baki nema síður sé.  Það er sneitt hjá þekktum slögurum sem allir eru búnir að hljóðrita hundrað sinnum ef frá er skilið bónuslagið Albatros frá Peter Green. Þar er engu bætt við fyrri útgáfur, en smekklega gert engu að síður. Minnir að Tryggvi Höbner hafi einnig gefið þetta  sama lag út fyrir nokkrum árum, og þar með eigum við allavegana tvær íslenskar útgáfur. Sem dæmi um að ekki sé ráðist á þreyttustu blúsbykkjurnar má nefna að það er lítt þekktur blús, Who will be next, úr smiðju meistara Howling Wolf (Chester Burnett) sem startar plötunni á hressilegan hátt (Annars er líttþekktur blús kannski ekki frábrugðinn blússlagaranum þegar allt kemur til alls) Blásarasveitin sem aðstoðar í tveimur  lögum, er þarna kynnt til sögunnar, þeir Jens, Ívar og Jón Arnar, og maður fær það á tilfinninguna að ekkert geti klikkað í framhaldinu. Vel til fundið að breikka aðeins hljóðheiminn með blásurum. Einnig kemur Hjörtur Howser við sögu á hljómborð og það er vel þegið krydd í hljóðmyndina. Siggi Kapteinn brýtur plötuna  skemmtilega upp á réttum stað í lagi sínu, Oh Lord, þvílíkur fantasöngvari.

Annar er hér einn sem kom mér  á óvart á einhvern hátt, og hefst þá Friðriks þáttur Karlssonar gítarleikara. Ég veit nú ekki afhverju hann kom mér svona á óvart, einn af okkar bestu og virtustu gítarleikurum og sem fyrir löngu er búinn að gera garðinn fægan og sanna sig. Kannski átti ég ekki von á að hann tæklaði blúsgítarleik svona smekklega og sneiddi þetta líka snyrtilega framhjá öllum gildrum. Þá rifjuðust upp smekkleg tilþrif hans í Jakarta dreams með Messoforte og allt kom heim og saman, og hugleiðslugítarplöturnar 100, gleymdust. Blúsgítarleikur á nefnilega ekki að vera eitthvað kapphlaup um að spila sem flestar nótur á sem skemstum tíma eins og sumir gítarleikarar halda. Ok, tónninn er frekar rokkaður á stundum, en það er mikil sál og tilfinning í gítarleik Friðriks og þá kemst maður nú upp með margt og það er þessi smekklega yfirvegun sem er alveg óskaplega heillandi í spilamennsku hans, láta gítarinn gráta fáar nótur. Það er helst í Mr Abuse sem hann hleypir klárnum aðeins á skeið.

 Hver sú hljómsveit sem hefur afnot af hæfileikum Fúsa Óttars telst heppinn því leitun er af slíkum afbragðstrommara sem getur spilað nánast hvaða tegund tónlistar sem er. Rhytmaparið hér er því í dýrari kantinum því annar eins bassaklettur og Jonni Righter er vandfundinn. Svo er það þetta náttúruafl sem Þollý sjálf er, dökk og mikil rödd sem maður meðtekur ekki strax, en guð hvað hún verður sjarmerandi við nánari kynni.

Þetta er flott blúsplata í rokkaðri kantinum og sannarlega með þeim betri sem út hafa komið hérlendis. Eins og góð sunnudagssteik hjá mömmu, þú villt ekki hafa steikina eitthvað frumlega og öðruvísi en síðast, bara með þessu extra braði sem gerir mömmusteik svo góða. Magnað band með flotta söngkonu, en ég væri alveg til í að heyra hana á íslensku. Hér eru allir textar á ensku eins og á fyrri plötunni. En hér er allt gert  með ást, tilfinningu og trúarhita og þá getur ekkert klikkað.

Umbúðirnar einfaldar og smekklegar, en kannski það sísta við þennan hörku blúspakka.

14.11.2018 20:18

Eiífa tungl

Guðrún Gunnarsdóttir

Eilífa tungl - 2018

8/10

Ég held ég sé ekki að ljúga miklu þegar ég segist fyrst hafa séð nafn Guðrúnar Gunnarsdóttur á plötunni Spilduljónið með hljómsveitinni Svefngalsar sem kom 1986. Í Svefngölsum voru meðal annars Níels Ragnarsson hljómborð, Sigurgeir Sigmundsson á gítar og Stefán Stefánsson saxafónleikari. Myndin framan á plötunni var athyglisverð, en ekki hvetjandi til kaupa, en þar var hljómsveitin utan á Ferguson traktor, spilduljóninu. Ekki man ég fyrir mitt litla líf hvernig sú plata hljómar, og þá hverslags músík þar var á ferðinni, enda skiptir það svosem engu máli hér. Væntanlega var þetta ein fyrsta platan sem stúlkan söng inná.

Guðrún er fyrir löngu búin að syngja sig inn í hug og hjörtu tónelskra íslendinga og getur þar með talist ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar. Hún gerði lengi vel tónlist þeirri er Ellý Vilhjálms söng til frægðar góð skil, bæði á plötu og fjölmörgum tónleikum. Það hefur kannski verið minna fyrir Guðrúnu að gera á því sviði eftir að Ellý líkamnaðist í Katrínu Halldóru eins og frægt er orðið. Þá er hún kunn fjölmiðlamanneska eins og alþjóð veit, en mér finnst toppurinn hjá henni þar vera þegar hún neitaði að taka viðtal við klámmyndaleikarann Ron Jeremy um árið. Þar fékk hún prik í kladdann frá mér.

Eilífa tungl er 6. sólóplata söngkonunnar og sú fyrsta í 9 ár, en þá gerði hún tónlist sænska vísnatónskáldsins Cornelis Vreesvijk góð skil. Við þekkjum Guðrúnu úr allskonar tónlist í gegn um tíðina , en sennilega má alveg með góðu móti titla hana vísnasöngkonu, eða kannski réttara að segja ljóðasöngkonu, og þar liggja ræturnar. En hér uppi á litla Íslandi þarf tónlistarfólk að vera fjölhæft og Guðrún er að sjálfsögðu dægurlagasöngkona í bestu merkingu þess orðs.

Undir formerkjum vísnatónlistar kemur einatt hlý og manneskjuleg tónlist, blátt áfram og heiðarleg, þar eru flytjendur ekkert að þykjast og í besta falli skilur hún mann eftir hugsandi um fjölbreytileika tilverunnar og hvað við erum mikils virði hvert öðru í fallvöltum heimi. Lag og ljóð heldur yfirleitt vel við hvort annað og samhljómurinn er málið. Þannig er þessi plata og notalegheit er útganspunktur hér. Guðrún neglir þetta sjálf í viðtali við Vikuna er hún segir: „ Þessi plata er róleg með góðum textum, góðum lögum og góðum hljóðfæraleikurum. Akkúrat svona plata sem ég myndi sjálf vilja setja á fóninn heima“. Annarsstaðar segir hún eitthvað á þá leið, að stuð sé ofmetið fyrirbæri, og eftir því sem aldurinn færist yfir mann verður maður sannfærðari um það.

Platar byrjar á einu fallegasta lagi úr ljúfu deildinni sem ég hef lengi heyrt, en þar fara einstaka vel saman, fallegur texti Braga Valdimars og lag Haraldar V. Sveinbjörnssonar og falleg og næm túlkun Guðrúnar.

Því lífið er svo stutt, svo stutt

stokkaðu vel þín spil

Það fæst ekki endurflutt

svo faðmaðu það – meðan tími vinnst til.

Annars er tæplega helmingur laganna, ný íslensk lög. Skagfyrðingurinn Sveinn Arnar Sæmundsson, organisti  á Akranesi á hið fallega titillag plötunnar en textann Sigurbjörg Þrastardóttir. Ásgeir Ásgeirsson gítarleikari á eitt og útgefandinn Aðalsteinn Ásberg á eitt lag og texta auk tveggja texta við erlend lög. Annan við skoskt þjóðlag sem margir hafa spreytt sig á og er þekkt undir a.m.k. þremur nöfnum, en  Wild mountain tyme ef til vill kunnast, hér heitir það Kondu með, komum nú. Sama lag kom út á plötu í fyrra með þjólagasveitinni Kólgu, en þar heitir það, Þar sem beytilingið grær.. nóg um það.

Annars talandi um Aðalstein Ásberg, þá hefur hann í gegnum árin vera mikilvægur í vísnatónlistarsenunni, bæði sem laga og textahöfundur, en ekki síður sem útgefandi, að ógleymdum útvarpsþáttum um þessa tónlist. Hið rómaða samstarf þeirra hjóna, Aðalsteins og Önnu Pálínu heitinnar er unnendum gæðatónlistar af þessum meiði,  í fersku minni og skilaði af sér nokkrum frábærum plötum sem gott er að geta sótt í. Lag  Aðalsteins, Með storminn í fangið, sem er eitt besta lagið á plötunni minnir um margt á samstarf þeirra hjóna.

Jón Þorsteinsson á Vor í Þórsmörk við texta Guðjóns Helgasonar, en hvorugan þeirra kannast ég við. Þar syngur Svavar Knútur með Guðrúnu og ég geri ekki ráð fyrir að það komi nokkrum sem til hans þekkja á óvart, að hann gerir ákaflega vel.

Svo eru hér eldri íslensk lög, annað þeirra lítið þekkt lag eftir Sigvalda Kaldlóns, Vöggubarnsins mál við ljóð Guðfinnu frá Hömrum og svo gamalkunnugt Eyjalag etir Oddgeir Kristjáns og Ása í Bæ, Vögguvísa (Ég vildi geta sungið þér), en það er eitt af lögunum sem Svanhildur söng á hinni rómuðu Eyjaplötu Sextetts Óla Gauks. Sú mæta plata varð einmitt fimmtug á þessu ári og ef ég man það rétt tók Guðrún þátt í afmælistónleikum af þess völdum. Smekkleg útgáfa af þessum gamla gullmola sem manni er ekki sama um hvernig er leikið og ekkert stenst samanburð við Óla Gauks útsetninguna.

Af erlendu lögunum finnst mér standa uppúr lag hins norska Lars Bremnes, sem hér heitir, Ótækt lag. Þau Bremnes systkynin hafa getir sér gott orð í norskri vísnatónlist og sennilega er Kari Bremnes þeirra þekktust og á margar fyrirmyndarplötur að baki. Þá er hið fallega Galileo, eftir Írana Declan O´Rourke og Seamus Kotter,  velheppnað. Declan er rísandi stjarna og menn keppast við að hlaða hann lofi. Sjálfur Paul Veller lét hafa það eftir sér í tónlistartímariti að af lögum síðustu tveggja áratuga væri Galileo það lag sem hann vildi óska að hann hafi samið og Eddy Vedder  taldi hann eitt sinn vera eitt besta söngvaskáld samtímasns. Hér svífur léttur jazzandi yfir og lagið gæti alveg ein verið tekið úr amerísku söngbókinn frá miðri síðustu öld. Síst á plötunni finnst mér lokalagið eftir þá Björn og Benny.

Annars er ég bara glaður með þessa plötu og hún hentar mínu tilfinningalífi mjög vel. Aldraðri móður minni sem hugnast einmitt svona tónlist spurði mig hvort mér fyndist lögin ekki alltof lík hvert öðru og stemmningin þreytandi. Nú er ég af þeim gamla skóla að ég set plötur á fóninn eða í spilarann, sest niður og hlusta, les textana og lifi mig inn í tónlistina. Margir í dag nota tónlist bara sem hljóðrás í bakgrunninum og eru að brasa í hinu og þessu á meðan. Taka þá ekki eftir einkennum hvers lags og allt verður að sama grautnum í sömu skálinni. En það er rétt að það er sterkur heildarsvipur yfir plötunni, en lögin, þó komi úr sitthvorri áttinni hæfa hvert öðru einstaklega vel. Þessi plata er hlý og umfaðmandi og hentar einkar vel í bláu skammdegisrökkrinu við lámarks ljósmengun, er veturinn grobbar sig fyrir utan gluggann. Laus við væmni og sýndarmensku. Ég er alltaf til í að kaupa það.

Hljómsveitin sem tekur þátt í þessu veit hvað til síns friðar tilheyrir og hefur sig lítið í frammi þannig lagað og falleg rödd Guðrún dregur plötuna áfram. Ég hefði alveg sætt mig við frekari tilþrif, meiri hljómsveitarplötu því hér eru toppmenn í hverri stöðu sem kunna sitthvað fyrir sér. Gunnar Gunnarsson leikur á píanó, Ásgeir Ásgeirsson spilar á gítar, Hannes Friðbjarnarson trommar, Þorgrímur Jónsson plokkar bassann svo þeir helstu séu upptaldir. Þetta er þó þannig að ég sætti mig vel við útkomuna og eins og venjulega er hægt að gera hlutina endalaust á einhvern annan hátt.

 Svona var þetta gert og það eitt skiptir máli, smekklegheitin í fyrirrúmi, en kannski er það sem gerir þessa plötu svo áheyrilega sem raun ber vitni að hún er falleg, heiðarleg og sönn og svona tónlist er sannarlega nauðsynleg til að gera harðneskjulegan heiminn að aðeins betri stað að búa í.

Ég verð að játa að frekar kaldar umbúðirnar henta ekki hlýju innihaldinu. Það er eitthvað við þetta fókus misræmi hjá Danna ljósmyndara ( sem vel að merkja er frábær ljósmyndari) sem truflar mig, en hluti af myndinni af Guðrúnu framan á umslaginu er ekki í fókus og finnst mér þetta koma frekar illa út eins og þetta er gert hér. Ég vil taka það fram að ég hef ég nú ákaflega lítið vit á ljósmyndun og eflaust á þetta að vera arty og töff og ég bara gamall nöldrandi kall. En ég hef bara ekki smekk fyrir þessu og finnst þetta skemma umbúðirnar

 

 

30.09.2018 21:21

Útvarp Satan

Austurvígstöðvarnar

Útvarp Satan

9/10

Pönksveitin Austurvígstöðvarnar rekur ættir sínar til Austurlands þó höfurpaurinn, séra Davíð Þór Jónsson ukulele leikari, sé væntanlega borinn og barnfæddur á suðvesturhorninu og kannski fleiri af þessu góða fólki. Sveitina skipa auk Davíðs, þau Jón Knútur Ásmundsson (trommur), Jón Hafliði Sigurjónsson (gítar), Díana Mjöll Sveinsdóttir (söngur) Helga Elísabet Beck (bassa) og Þórunn Gréta Sigurðardóttir (hljómborð).  Það hafa komið prýðilegar pönksveitir frá austurlandi í gegnum tíðina og má í því sambandi nefna Niturbasana, Gleðisveitina Döðlur og Kóngulóarbandið, en þessar sveitir sendu allar frá sér plötur á 10. áratug síðustu aldar ef ég man rétt. 

Austurvígstöðvarnar eru ekki endilega svo líkar þessum sveitum enda er aldursmunur töluverður. Í fyrrnefndu sveitunum voru menn vart komnir af unglingsaldri en hér er fólk sem er þjakað af reynslu hinnar miðaldra manneskju þó unggæðinglegur hráleikinn sé til staðar sem betur fer. Það er samt aðalega munur á textagerðinni sem skilur á milli ef maður leifir sér að halda samanburðinum áfram. Hárbeitt ádeila á „fyrirmyndarþjóðfélagið Ísland“  er hér í fyrirrúmi og ég verð nú bara að segja að mikið hef ég saknað þess að einhver hafi haft rænu á því að segja okkur til syndanna í textum og tónlist, og hvað er betra en að gera það í hressu pönki og ég er sannarlega tilbúinn að hlusta á presta „messa“ á þennan hátt. Annars hef ég alltaf lagt við hlustir eða lesið ef Davíð hefur komið í viðtöl eða skrifað eitthvað,  því hann hefur skemmtilega sýn á heiminn og er geysilega rökfastur.

Það fyrsta sem tekið er eftir er nátturulega titillinn á plötunni og hvernig hann er settur upp. Þar er hæðst  að Útvarpi Sögu, en sú undarlega útvarpsstöð fær það líka óþvegið í textum a.m.k. tveggja laga og ég get ekki sagt að ég gráti það. Eftir að ég eignaðist þessa plötu safnaði ég kjarki í nokkra daga til að hlusta á þessa umdeildu útvarpsstoð eftir margra ára aðskilnað, því mig langaði að heyra með eigin eyrum hvað þarna færi fram. Það er skemmst frá því að segja að þegar ég skipti um stöð var ég orðinn lífsleiður og dapur, og alveg miður mín lengi fram eftir degi.  

Já, hér er fast skotið og þó merki sveitarinnar sé skýrskotun í fána sovétríkjanna, gítar og sigð, þá fá meira að segja vinstri menn  gusu yfir sig í laginu, Gröð í völd. Davíð Oddson fær sinn skerf í Upplitsdjarfur álþýðupiltur (Ég lýg), sem og Þjóðfylkingin í Þrammað í stígvélunum. Það er deilt á „Innlits – útlits“ þætti allra stöðva í laginu,  Ósmekkleg sýning á auð og svona mætti áfram telja því ádeilunni linnir ekki.  Allir textarnir eru eftir Davíð og oft fer hann á kostum á því sviði. Hann á einnig öll lögin fyrir utan þrjú, en m.a. á Steinn Ármann Magnússon fyrrum félagi hans í Kátum piltum og Radíusbróðir eitt lag og finnska tónskáldið Veikko Samuli, en ég varði heilu síðdegi youtube í að finna út hvað af lögum hans er hér undir nafninu, Æstir ásta. Það tókst ekki en nokkur komu til greina.  

Það er hér boðið uppá 16 hressileg pönklög og ekki teknir neinir fangar. Platan rétt skríður yfir hálftímann, sem er alveg mátuleg plötulengd fyrir athyglisskertan nútímamanninn. Davíð syngur með sinni hrjúfu rödd sem passar einkarvel í þetta púkk en á móti kemur há og hvell rödd Díönu Mjallar og þessar tvær ólíku raddir mynda skemmtilegan kontrast sem er stór hluti af töfrum plötunnar. Annað sem kemur einkar skemmtilega út er hljómborðsleikur prestfrúarinnar Þórunnar Grétu sem setur stundum nýbylgjulegan bæ á tónlistina sem gefur henni aukna vídd. Sum lögin gætu alveg eins verið úr söngleik, eða hafa þannig blæ á sér, en það er síður en svo til vansa og kannski væri pönksöngleikur málið. Þau Jón Knútur, Jón Hafliði og Helga Elísabet standa síðan fyllilega fyrir sínu, en einhverjum kann að finnast spilamennskan full vönduð fyrir pönk, og hljómurinn fullgóður, en Jón Ólafsson var upptökustjóri. Mér finnst það aldrei til vansa ef vandað er til verka,  og þetta kemur bara einstaklega vel og skemmtilega út. Lögin eru auðvitað missterk og misföst í pönkhefðinni, en öll á því plani að það þarf ekkert að skippa nokkru þeirra og hér er sterk og kraftmikil heild í boði og maður er kominn með krepptan hnefann í lokin, tilbúin í uppreisn.

Margir verða hræddir er þeir heyra orðið pönk og kannski hafa fáar tónlistarstefnur mætt meiri fordómum. Það er fátt hallærislegra en dæma tónlist út frá merkimiðanum, en bæði ég og fleiri hafa örugglega lent í því. Man alltaf eftir manni sem ég hitti forðum, sem sagðist ekki hlusta á Geirmund þar sem hann hlustaði ekki á jazz. Hann tengdi skagfirsku sveifluna (swing) eðlilega við jazz. Ég reikna hinsvegar ekkert með að hann hafi borið skaða af að hlusta ekki á Geirmund, með fullri virðingu fyrir honum.

Hér er ekkert að óttast og engir subbulegir hrækjandi pönkarar með hanakamb og litað hár, en hárbeittir og þeim liggur mikið á hjarta og hafa margt fram að færa. Ég hvet alla til að kynna sér þessa bráðskemmtilegu plötu, hvort sem menn kaupa sér geislaplötu, vinylplötu, eða hlusta á spotify.  Vel þeginn og hressadi andblær í íslenska tónlistaflóru og löngu kominn tími til að einhver rífi kjaft á kostnað ástartextanna, þó ástin sé alltaf að endingu málið. Nægt er yrkisefnið og vonandi kemur meir út með þessari skemmtilegu sveit í þessa veru.

Eins og ég sagði áður er snúið skemmtilega út úr lógói Útvarps Sögu á umslaginu og þar má einnig  finna tilvísanir í frumherja íslensku pönksenunnar, Fræbbblana, með appelsínugula litnum. Það er við hæfi að nikka til frumherjanna.

26.08.2018 14:23

Volta - Á nýjum stað

 

 

Volta - Á nýjum stað

7,5/10

Hljómsveitin Volta er stofnuð 2015 á Akureyri  með það að markmiði að spila eingöngu frumsamda tónlist og leyfa sköpunargleðinni að njóta sín. Hljómsveitina skipa þeir Aðalsteinn Jóhannsson sem spilar á bassa og semur lög og texta, Heimir Bjarni Ingimarsson  sér um sönginn, spilar á kassagítar og á þrjú lög og texta, Ingvar Leví Gunnarsson spilar á rafgítar og það gerir Jóhannes Stefánsson líka, Arnar Scheving á trommur og Hans Friðrik Hilarius Guðmundsson spilar síðan á Hammond.

Tónlistin er í klassískum „feelgood“ popp/rokk stíl með viðkomu í kántrí og folk rokk ef það segir einhverjum eitthvað. Frekar afslappað yfirbrað og flest lögin í millitempói eða rólegri kantinum. Við fyrstu hlustanir heyrðist að hér væru menn ekkert að finna upp hjólið, en það heyrðist að hér væru drengir sem sitthvað kynnu fyrir sér. Það er nefnilega margt ákaflega snotur hér og virkilega áheyrileg lög í boði hér innan um, þó ekki sé það frumlegt.

 Farið er ákaflega vel af stað í titilaginu Á nýjum stað og mikið vildi ég að þeim hafi borið gæfu til að hafa alla plötuna á íslensku, því mér finnst það trufla flæðið að hafa texta bæði á íslensku og ensku, auk þess sem íslenski hreimurinn hjálpar ekki til. Platan hefði nefnilega orðið sterkari á íslensku. Ég blæs á þær röksemdir að það sé svo erfitt að semja texta á íslensku og afhverju ætti að vera auðveldara að semja á einhverju öðru tungumáli. En nóg um það, þetta er ekkert þess valdandi að platan verði óáheyrileg og það er öllu hægt að venjast, en hitt hefði bara lyft plötunni uppá annað plan. Climbing upp on the the wall er dálítið Jet Black Joe legt, svona „feelgood“ slagari og eins og í gegnum plötuna setur hammondinn skemtilegan svip. Trail back home er fallegt lag og eitthvað sálmalegt við það... einhverskonar folk/kántrí/gospel fílingur í gangi. Fuglabúrið er rokkari af bestu gerð og textinn varð til eftir heimsókn í kvenna fangelsið hér á Akureyri, hvar hljómsveitin spilaði. Eitt besta lagið á plötunni er Betrun, en textinn fjallar um samband Aðalsteins við konu sína sem komið var á endastöð... látlaust og fallegt lag. Help me this way er fínt lag og hef ég Aðalstein sjálfan sterklega grunaðan um að syngja lagið, en það er ekki tekið fram á umslaginu. En eins og viða á plötunni finnst mér trommurnar vera of aftarlega í mixinu og þær virka stundum hálf kraftlausar, sérstaklega snerilsándið, en þetta er víða í góðu lagi.

Annars er hljómurinn bara fínn, en Haukur Pálmason er upptökustjóri á plötunni. Kristján Edelstein kemur við sögu sem hljóðfæraleikari og Andrea Gylfadóttir ljær hinu ágæta lokalagi, Time waits for no one rödd sína og liftir því uppá annað plan, og fleiri góðir koma við sögu. Hljómsveitin er virkilega góð og ákaflega smekkleg spilamennska hér í boði og allt í góðu jafnvægi. Heimir er náttúrulega frábær söngvari og skilar sínu af stakri prýði og það hljóta að vera forréttindi að starfa í bandi með svona stórsöngvara. Eitt og annað hefði auðvitað mátt betur fara en  ég er bara nokkuð sáttur við þessa plötu og það var sannarlega betur af stað farið en heima setið. Umbúðirnar eru smekklegar.

18.07.2018 21:09

Eistnaflugshugleiðingar

 

Jæja, maður er við það að vera búinn að jafna sig eftir Eistnaflugið sem lauk á sunnudagsnóttina með dansiballi. Þriðja hátíðin okkar hjóna og ég ber mikla virðingu fyrir Þóru minni taka það í mál að fara á þessa hávaðasamkomu sem Flugið vissulega er. Ég verð nú líka að játa að þó mér sé rokkið í blóð borið þá er ég af þeim gamla skóla að vilja hafa melodíur í minni tónlist og það gerir lítið fyrir mig að menn standi bara á öskrinu og geti spilað voða hratt, eða skvetti svínablóði fram í salinn. Ég hef samt verið sáttur við flugið fram að þessu, því það hefur verið mátulega fjölbreitt og flestir ættu að hafa fundið þar tónlist við sitt hæfi og stundum uppgvötar maður eitthvað nýtt. Veðrið lék við veislugesti yfir hátíðina og einhvernveginn verður góða veðrið betra á austurlandinu en á Akureyrinni. Miðvikudagurinn og fimmtudagurinn voru bara með þeim betri dögum veðurfarslega séð sem ég hef upplifað á landinu bláa. En að hátíðinni og því helsta er vakti athygli mína.

Það voru heimamenn sem riðu á vaðið á miðvikudeginum, en miðaldra pönkararnir í DDT Skordýraeitur hófu hátíðina af krafti og voru bráðskemmtilegir. Þar innanborðs er norðanmaðurinn Arnar Guðmunds, en við sem sóttum öldurhús á Akureyri á fyrri hluta 10 áratugar síðustu aldar könnumst við kappann sem trúbador í Kjallaranum og víða.. Coney Island babys tóku síðan við af þeim og komu mér á óvart, virkilega flott band sem einnig er frá Neskaupsstað, en þeir spila eitísskotna og á köflum Nick Cavelega popp/rokk músík. Um kvöldið voru það Tappi Tíkarrass, Vintage Caravan og Legend sem heilluðu, en smá rafmagnsvandræði voru að gera vart við sig annað slagið. Legend er orðið alvöruband og mun rokkaðri en í byrjun ferils og þeim fer það bara mjög vel. Fimmtudagurinn var níðþungur og þar kannaðist ég ekki við neina flytjendur aðra en VC sem slúttuðu. Þar vöktu þó athygli hin íslenska Une Misére, sem full orku þeyttist um sviðið og krafturinn var ofboðslegur. Danirnir í Hatesphere voru hressir og sænsku blackmetal strákarnir í Watain með sitt svínablóð nógu djöfullegir fyrir viðstadda. Þegar komið var fram á föstudaginn hugsaði ég gott til glóðarinnar því fimmtudagurinn gerði lítið fyrir mig þannig lagað og sólin þá meira freistandi en myrkrið í tónleikasalnum og í tónlistinni og það fannst greinilega fleirum. Hemúllinn reið á vaðið á föstudeginum og var alveg frábær, hæðinn, beinskeyttur og virkilega fyndinn í sinni sérkennilegu tónlist. Kvöldið áður horfði ég á fyrrum borgarstjórakandidat í Tappanum en nú fékk ég að sjá alvöru bæjarstjóra, en fyrir Saktmóðugi fer Karl Óttar nýskipaður bæjarstjóri Fjarðabyggðar og þeir klikkuðu ekki frekar en venjulega. Um kvöldið kom svo Glerakur, en ég beið spenntur eftir að sjá þá merku sveit sem sendi frá sér magnaða plötu á síðasta ári. 4 gítarleikarar mynduðu þéttann og háværan gítarvegg og tónlistin var áhrifamikil og seiðandi. Sólstafir tóku síðan við keflinu og skiluðu sér í mark af miklu öryggi. En eins og mér finnst Sólstafir fínt band þá er oftast alveg á mörkunum að ég hafi þolinmæði í heila tónleika með þeim, enda vilja þeir dragast á langinn. En þar fer frábær sveit í stöðugri þróun. Þá var komið að annari af þeim sveitum sem drógu mig á Flugið, en það var Liverpool krakkarnir í Anathema. Hef fylgt þeim að málum síðan 95 og það er ein af þessum böndum sem eru í stöðugri þróun. Byrjaði sem dauða/doom metalband en þróaðist síðan meira í gothic og svo progg og ef til mætti segja að bandið spili poppskotið proggrokk í dag. Þau stóðu sannarlega undir væntingum og vel það, en þar sem fáir virðast þekkja þetta band var salurinn frekar þunnskipaður sem var sorglegt. Þegar ég mætti út í veitingatjaldið eftir settið þeirra var það fullt og allir að syngja "holy diver" er Andrea Jónsdóttir grjóthafi Eistnaflugs og plötusnúður, skellti yfir líðinn. Með fullri virðingu fyrir bæði Dio og Andreu fannst mér skjóta skökku við að discotekið í tjaldinu væri að keppa við tónleikasalinn með gömlum misþreyttum rokklummum, og spurning um að það fari seinna af stað. Þarna var komið fram yfir miðnætti og tími fyrir gamalt edrúfólk að koma sér í bólið.

Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur og álitlegasta dagskrá framundan. Hinar umdeildu Austurvígsstöðvarnar, pönksveit séra Davíðs Þórs og félaga startaði dagskránni af krafti, en þau hafa nýverið sent frá sér plötuna Útvarp Satan, hvar skotið er grimmt á Útvarp Sögu og margt annað. Mér fannst þau einna skemmtilegasta atriði hátíðarinnar, virkilega þétt band með einkar beinskeytta ádeilu í textum sínum. Við af þeim tók svo hin íslenska Alchemia, en þeir flytja melódískt tuddarokk og vænkaðist nú hagur þeirra er meira eru fyrir melódíuna en bara hávaðann og skiluðu þeir af sér kraftmiklu og þéttu setti, eða eins og maðurinn sagði við mig... svona vil ég hafa mitt þungarokk. Annars er merkilegt með margar sveitir og þar á meðal Alchemia, hvað menn eru lítið fyrir að leggja í einhverja smá kynningu á sér. Fáir vita eitthvað um þessa sveit, sem hefur þó sent frá sér tvær stórar plötur og eina stuttskífu (allavegana) og bara alveg hörkugóðar. Stærsti gallinn þeirra er samt að mínu viti að þeir syngja á ensku. Held þeir kæmust alveg í deild með Dimmu, Skálmöld og Sólstöfum ef þeir tileinkuðu sér móðurmálið. Kontiuum er ein okkar fremsta rokksveit, sem líka hljómar betur á íslensku en þeir hafa alfarið snúið sér að enskunni. Þeir skiluðu sínu frekar myrka rokki af stakri prýði og alltaf heyri ég einhvern óræðan Ecco and The Bunnyman tón í þeim. Pólska blackmetalsveitin Batushka mætti í fullum skrúða á sviðið með hauskúpur og kerti, huldu andlit sín og klæddumst hettu hempun miklum og engu líkara en boðið væri uppá djöflamessu, en ekkert var þó blóðið. Alls ekki slæmt band en höfðaði ákaflega lítið til mín. Þá var komið að því sem einna helst dróg mig á flugið, en það var þýska trassbandið Kreator. Þeir eru sannarlega ennþá í fullu fjöri og hafa á undanförnum árum verið að senda frá sér alveg magnaðar plötur, og mér til mikillar ánægju var uppistaðan í prógramminu af þeim. Hafa blandað saman við trassið hefðbundnari metaláhrifum án þess að tapa krafti og ákafa. Skemmst er frá því að segja að þeir voru frábærir og stóðu framar mínum björtustu vonum. Höfðu salinn alveg á sínu bandi og Mille gítarleikari lét menn ekki komast upp með neitt múður. Færeysku frændur okkar í Tý tóku síðan við, en þá var ég búinn að fá nóg af rokki og róli og hreinlega gafst bara upp. Hafði ætlað mér að sjá Agent Fresco og jafnvel GusGus til að ná mér niður, en varð að játa mig sigraðan og við hjónakornin gengum til okkar síðustu náða á Norðfirðinum góða.

Það hefur fram að þessu alltaf verið gaman að koma á þessa hátíð og njóta gestrisni bæjarbúa. Mér fundust frekar fáir mæta núna og eins og áður sagði skiluðu menn sér ekki inn á tónleikana nema í takmörkuðu mæli. Ég saknaði íslensku rokkrisanna í Dimmu, Skálmöld og Ham, og ég heyrði mikið að það gerðu fleiri. Ham eru að hætta svo það er sjálfgefið að þeir mæti ekki meira, en ég geri kröfu um að takist að semja við hinar tvær fyrir næsta ár. Flugið hefur verið jákvætt og uppbyggilegt samfélag fram að þessu og ást og friður svifið yfir vötnum. Þarna geta allir mætt, stórir, litlir, feitir og mjóir, klætt sig upp og málað sig eða ekki, verið á hvern þann hátt er tilfinningin bíður og presinterað sig sem þeir/þær eru, án þess að verða fyrir aðkasti. Á Eistnaflugi eru allir kóngar einn dag. Það var boðið uppá AA fundi alla dagana, sem er til fyrirmyndar og hefur vafalaust verið vel þegið fyrir þá er á þurfa að halda. Einnig fór fram málþing þungarokkara um þunglyndi og andlega líðan með sálfræðingnum Orra Smárasyni og valinkunnum rokkurum í panel. Allt svona lagað eykur vigt hátíðarinnar til muna og styrkir hana. En þá að því neikvæða:

 

Saga konu sem byrlað var einhver ólifjan á hátíðinni bendir þó til að minnsta kosti einn drullusokkur hafi mætt og kjörorðið góða að það sé bannað að vera fáviti, því ef til vill hætt að virka. Vonandi nær hún sér, en það er ömurlegt að finna sig ekki lengur öruggan á Eistnafluginu. Það væri sorglegt ef þetta yrði til þess að fólki þyki nóg komið og segi stopp, en það hugsa sennilega allir vel sinn gang er að hátíðinni standa. Eitt tilvik, hvort sem það er nauðgun eða tilraun til nauðgunar er einu tilviki of mikið, og ekki hægt að segja að hátíð þar sem "bara" eitt atvik eigi sér stað, fari vel fram.

20.06.2018 17:45

90´s eyðieyjulisti Tónskrattans 50 plötur

 

Plata10 er eina plata Temple of the Dog og er frá 1991. Hljómsveitin er stofnuð til að heiðra minningu Andrew Wood söngvara Mother Love Bone sem látist hafði árið áður, 24 ára gamall af völdum of mikilla eiturlyfja. Fyrir þessari sveit fór stórsöngvari sem einnig er látinn, Chris nokkur Cornell og aðrir með honum í þessu bandi voru Matt Cameron félagi hans í Soungarden og tveir fyrrum MLB meðlimir, þeir Jeff Ament og Stone Gossard og svo Mike McCready en þessir þrír eru allir í Pearl Jam eins og einhverjir vita. Eddie Vedder kemur einnig við sögu á plötunni. Frábær rokkplata og eitt af því besta sem út kom á þessum áratug. 
Sterk áhrif af 70´s rokki í bland við nýja strauma og Cornell fer á kostum ekki síður en Mike McCready sem er stórkostlegur á gítarinn.

Plata 11 er frumburður Rage Against The Machine frá árinu 1992. Féll fyrir þessari sleggju, en hjálpi mér guð, hvað arflegð RAGTM (allt helvítis numetalið) er leiðinleg tónlist. Ég man að það var engin dans hljómsveit með dans hljómsveitum nema að Killing in the name of væri á setlistanum og bara núna fyrir nokkrum vikum renndu Meistarar dauðans sér í gegnum þennan ódauðlega slagara er þeir hituðu upp fyrir Skálmöld á Græna. Þannig að þetta er komið til nýrra kynslóða, sem er ágætt. Það er einhver dásamlega heilandi kraftur í þessu meistaraverki og við liggur að maður sé tilbúinn að fara út og frelsa heiminn undan helvítis kapítalistunum. 

Plata 12 er Judgement með Liverpool sveitinni Anathema frá 1999. Nýbúinn að sjá þessa gæðasveit á Eistnafluginu, en því miður tóku þeir ekkert lag af þessari plötu. Það koma lítið að sök þar sem þeir eiga svo mikið af góðri tónlist. Það er melankólísk ára yfir þessari plötu eins og mörgum frá þeim, og ef til mætti heimfæra umsögn um uppáhalds Anathema plötuna mína, A natural disaster frá 2003, á þessa en niðurlagið í dómnum á Allmusic var eitthvað á þessa leið...misery has never sounded this beautiful. Já þau búa til fallega tónlist. Metaláhrifin á undanhaldi og progg áhrifin að koma sterk inn. Gæðagripur frá gæðasveit. Áfram Liverpool... í poppinu

Plata 13 er Urban hymns með Bresku sveitinni The Verve og kemur út 1997 og er þeirra þriðja plata. Ég var ekki mjög hallur undir brit- poppið þarna á þessum áratug og í rauninni var það ekki fyrr en löngu síðar að ég fór að kynna mér þær sveitir allar. Ég hef heldur aldrei átt vini eða kunningja sem hlustuðu á þessa músík og held ég að okkur hafi þótt það fyrir neðan virðingu okkar. En í tónlist er allt í lagi að vera vitur eftirá. Það eru nokkur lög á þessari plötu sem fengu það óþvegið á útvarpsstöðvum og urðu ofspilun að bráð, en núna mörgum árum síðar næ ég að spila þessa plötu í heild án þess að þau trufli mig sérstaklega. Það er ekki síst sækadelíuáhrifin sem eru svo heillandi á plötunni og hér er allt morandi í frábærum lögum. Platan á undan þessari, A Northern soul sækir líka mikið í spilarann.

Plata 14 er Time out of mind með Bob Dylan frá 1997 og er plata 30 frá þeim gamla. Daniel Lanois er upptökustjóri hér eins og á Oh mercy (1989) og hann hefur gert mikið fyrir kallinn, en þessar tvær plötur eru hörkugóðar og hljóma ákaflega vel í mín eyru. Með betri Dylan plötum og ein af þeim sem oftast rata í spilarann. Hörkugripur.

Plata 15 er Seasons in the abyss með Slayer og kemur út 1990. Sennilega er þetta næstbesta plata Slayer, næst á eftir Reign in blood. Ok, þessi er betri en samt ekki...æi það skiptir engu máli, báðar frábærar og South of heaven líka. Nú er þessi magnaða metalsveit að syngja sitt síðasta og það verður einhverjum sárt að sakna. Get alveg játað að ég hef lítið fylgst með þeim eftir þessa plötu, enda haft öðrum hnöppum að hneppa. Vitja þessara þriggja er nefndar eru þó reglulega og þær veitir mér hugarró og vellíðan eins og góður metall gerir jafnan.

Plata 16 er Beat the bastards með Skosku pönksveitinni The Exploited frá 1996 og er þeirra 7unda. Þessi plata er bræðingur af hardcore pönki og trashmetal og sándið mjög metalskotið. The Exploted minna ef til vill hér örlítið á Chicago bandið Zoetrope, sem spiluðu svokallað streetmetal á 9. áratugnum. Þessi plata er algjör sleggja í eyrun og við liggur að maður þurfi áfallahjálp að lokinni hlustun. Hef grun um að þessi plata sé dálítið vanmetin í rokkheimum og kannski er þetta of mikið pönk fyrir metalhausana og of mikill metall fyrir pönkhausana. Þá koma eyrun á mér sterk inn því ég elska bæði pönk og metal og hef gaman af svona crossover dæmum.

 

 

Plata 17 er frumburður Bristol krakkanna í Portishead og nefnist Dummy og kemur út 1994. Þessi flottu brautryðjendur í trip-hoppi sendu aðeins frá sér 3 plötur á ferlinum, enn sem komið er a.m.k. og eru þær allar mjög áhugaverðar. Hinar tvær eru mjög tilraunakenndar og alls ekki auðteknar, en það finnst mér kostur við músík. Dummy er aðgengilegust og að mínu mati þeirra langbesta plata. Melankólisk, seiðandi og dimm á köflum og jafnvel blúsuð. Beth Gibbons er síðan alveg einstaklega heillandi söngkona og hafi maður fallið fyrir henni er ekki aftur snúið. Flott plata sem ennþá er í mikilli spilun hjá mér.

Plata 18 er Sehnsucht með þýsku strákunum í Rammstein frá árinu 1997 og er þeirra önnur. Féll strax fyrir þeirra kalda og vélræna rokki og fannst þeir koma með ferskan blæ inn í bransann. Eitt af því sem gerir þá svo sérstaka og skemmtilega er að þeir syngja á móðurmálinu og ég er ekki viss um að þeir væru jafnvinsælir hefðu þeir brugðið fyrir sig ensku með þýskum hreim. Aðeins Klaus Meine í Scorpions kemst upp með að syngja ensku með þýskum hreim. Tónleikar og myndbönd Rammstein eru svo sér kapítuli, er þar er engu til sparað eins og margir vita.

Plata 19, er Wildflower með Tom Petty, ok þetta er sólóplata en samt með Heartbreakers. Steve Ferrone sem trommar þessa plötu varð fullgildur meðlimur í kjölfarið. Þetta er önnur sólóplata kappans, en hin frábæra Full moon fever kom 1989. Hér eru Traveling Wilburys og Jeff Lynne áhrifin farin og Petty kominn aftur. Platan er fjölbreytt og sýnir ágætlega hæfileika þessa listamanns sem féll frá á síðasta ári. Hér allt frá Petty rokkurum niðrí minimanilískari lög þar sem hann er bara einn með kassagítarinn.

Plata 20 er Radiator með Welsku sveitinni Super Furry Animals og er önnur plata þeirra og kemur út 1997. Ári á eftir frábærum frumburðinum Fuzzy Logic. Super Furry Animals spila skemmtilegt sækadelíu popp/rokk og sækja áhrif aftur á 7. áratuginn. Samt finnst mér tónlist þeirra vera skemmtilega tímalaus og hún á alltaf við í mínum eyrum.

Plata 21 er Walk on the water með bresku rokksveitinni UFO og kemur hún út 1997. Hér kemur aftur saman mannskapurinn sem skapaði þessa mögnuðu rokksveit,sem átti sína mektardaga á 8. og fram á 9. áratuginn. Andy Parker, Phil Mogg, Pete Way, Paul Raymond og gítarkóngurinn Michael Schenker. Alltaf samt verið frekar vanmetin sveit og hvað þá þessi plata. Hér má líka fynna tvær endurgerðir á tveimur af þeirra helstu númerum, hinum ódauðlegu perlum, Doctor doktor og Light´s out og gaman að fá þau loks í góðu stúdíósándi, þó þau séu auðvitað best á tónleikaplötunni frábæru Stranger in the night frá 79. Schenkerinn fer á kostum á þessari plötu og greinilegt að menn njóta sín til fullnustu hér. Afhverju þessi sveit náði ekki meiri hilli en raun ber vitni er mér óskiljanlegt, en þeir eru enn að og hefur annar gítarsnillingur, Vinnie Moore verið með þeim undanfarin ár. Minnir þó að ég hafi séð það í einhverju blaði nýlega að hinn magnaði söngvari, Phil Mogg segði þetta vera orðið gott og hann væri að hætta. Góður leikur að hætta á meðan maður er lifandi og getur tekið ákvörðun um það.

Plata 22 er Handful of blues með gítarsnillningnum Robben Ford og sveit hans Blue Mile frá 1995. Ford er einn af þessum sjaldgæfu snillingum sem einatt tekst að sneiða hjá klisjum í gítarleik sínum og alltaf er unun að hlusta á drenginn spila á gítar, annálaður smekkmaður. Hann getur spilað hvað sem er en hefur mest haldið sig við blús og jazz en spilar jazz ekki eins og blúsleikari og blús ekki eins og jazzleikari. Hann spilar bara eins og sá Robben Ford sem hann er. Hann er auðvitað ekki alveg óumdeildur, en mörgum þykir hann ekki góður söngvari og röddin stundum á skjön við tónlistina. Þeir sem vilja hrjúfa og dökka rödd í sínum blús finna lítið við hæfi í rödd Robba. Hafandi hlustað á kappan til fjölda ára hef ég fyrir löngu sætt við söngvarann Robben Ford. Hann hefur kannski ekki mikla rödd en mér finnst hann afbrags söngvari og smekklega gerir hann alla hluti. Mörgum er ef til vill í fersku minni er hann gerði plötu með Bjössa Thor og Önnu fyrir nokkrum árum og hefur auðvitað komið hér á klakann til tónleikahalds.Einn almagnaðasti gítarsnillingur rokk og blússögunnar.

Plata 23 er Aftertaste með New York alternative rokk/metal bandinu Helmet og kemur út 1997. Þessi er sú 4. frá þeim og er almennt ekki talin til þeirra bestu verka en hitti mig í hjartastað forðum daga og ennþá finnst mér þetta alveg geggjuð rokkplata, kraftmikil, melódísk og mátulega þung.

Plata 24 heitir í höfuðið á hljómsveitinni, eða Sublime og er þeirra þriðja og jafnframt sú síðasta. Í lok upptökuferlisins varð tríóið að dúett er aðalgaurinn, Brad Nowell overdósaði á heróíni. Tónlist drengjann er ska, pönk reggae og rokk með útúrdúrum. Þeir eru óhræddir að fá lánað héðan og þaðan og gera að sínu og taka þar Led Zeppelin sér til fyrirmyndar. Upptökuferlið var erfitt og segir upptökustjórinn Paul Leary svo frá að þeir hafi mætt kl 9 á morgnanna með margarítu í annari hendinni og hljóðfærin í hinni. Af og til þurfti einhver að fara inn á baðherbergið til að athuga hvort Brad væri á lífi og eins sorglegt og það er, þá lifði hann ekki upptökuferlið af. Þessi plata er samt full af lífi og er kraftmikil og grúvar feitt á köflum.

Plata 25 er Metalhead með hinum öldnu stríðshrossunum í Saxon og kemur hún út 1999. 90´s katalógur sveitarinnar er mjög vanmetinn, en þar eru margir gullmolarnir. Finnst þessi standa þar fremst á meðal jafningja. Saxon er ein af þessum ódrepandi metalsveitum sem maður hefur ennþá sterkar taugar til. Þeir hafa fram að þessu verið að senda frá sér hörkuskífur og nú bara í fyrra kom hin prýðisgóða, Thunderbolt.

Plata 26, er Mezzanine með Bristol sveitinni Massive Attack frá 1998, og er þeirra þriðja plata. Það var komið fram á þessa öld er ég fór að kynna mér Bristol senuna og trip-hoppið fyrir alvöru. Hafði þó átt Dummy með Portised sem uppáhaldplötu frá því hún kom út 94. Féll svo fyrir Blue lines, fyrstu MA plötunni, en þessi er meistaraverkið sem ég sæki reglulega í. Þungur og dimmur undirtónn og tónlistin er ákaflega seiðandi og leiðir mann ínn í áhugaverða veröld.

Plata 27 er 100% fun frá 1995 með konungi power gítarpoppsins, Matthew Sweet frá Nebraska. Hann hefur ýmislegt verið að braska í gegnum tíðina og m.a. gefið út þrjár dúettaplötur með Susanna Hoffs sem kannski einhverjir muna eftir úr kvennasveitinni Bangles og Sweet var í sveitinni The Thorns sem sendi frá eina stóra plötu 2003 og lagið I can´t rember hljómaði eitthvað í útvarpin hérlendis. Sólóplöturnar eru svo orðnar sirka 14. Sweet er snjall lagasmiður og melódískt gítarpoppið sækir m.a. áhrift í 7. og 8. áratuginn og stundum blandast smá sækadelía saman við. Sweet hefur aldrei notið þeirrar hylli sem hann á skilið að mínu mati og er einn af þessum "unsung heros" sem heimurinn er fullur af.

Plata 28 er Sweet Black Angel með blúsmeistaranum Joe Willie "Pinetop" Perkins frá 1998. Hér er þessi frábæri Mississippi píanóleikari og söngvari orðinn 88 ára og fjörið enn til staðar en kannski meira breyst í yfirvegun. Þjakaður af reynslu, fer kallinn á sínum kunnu kostum og valinkunnir meðreiðarsveinar hjálpa til við gera þessa plötu svo áheyrilega sem raun ber vitni. Hann dó 9 árum síðar, en það ár fékk hann Grammy fyrir bestu hefðbundnu blúsplötuna og varð þar með sá elsti til að fá Grammy 97 ára. Hann átti bókuð 20 gigg er hann féll frá.

Plata 29 er Throwing Copper og er önnur plata Pennsylvaniu strákanna í Live og kemur út 1993. Ef þetta er ekki 90´s rokk þá veit ég ekki hvað, en ég verð að játa að ég hætti að fylgjast náið með þessari sveit eftir þessa plötu og finnst þeir hafa gert lítið að viti síðan. Þessi plata steinlá á skrítnum tíma í lífi mínu og mér finnst alltaf gott að vitja hennar. Hún dansar þó stundum á mörkum þess að vera of útvarpsvæn en sleppur þó oftast réttu megin við strikið. Hún nýtur sín betur í dag sem heild en þegar hún kom út forðum og lög af henni heyrðust í útvarpinu. Útvarpi hættir til að eyðileggja tónlist og þessvegna er ég löngu hættur að hlusta á tónlistarútvarp.

Plata 30 er Stranger than fiction með LA pönkurunum í Bad Religion frá árinu 1994. B.R er stofnuð 1980 og þetta er ein albesta sveitin í sínum flokki tónlistar (og þá erum við að tala um bandarískt popp/pönk) og Green Day komast ekki með tærnar þar sem þeir hafa hælana þrátt fyrir góða spretti. Dead Kennedys og Ramones eru auðvitað konungar bandaríska pönksins, en ég freistast til að hafa BR þar með. Ein af þeim plötum sem rata reglulega í spilarann og gleðja rokkhjartað.

Plata 31 er Wandering spirit með Mick Jagger frá 1993 og er þriðja sólóplatan hans. Stones senda frá sér tvær plötur á þessum áratug sem alls ekki eru svo slæmar og margt mjög gott á þeim. Þessi er betri en þær báðar og ég tók strax ástfóstri við hana. Sumt hér eðli málsins samkvæmt ansi Stoneslegt, en ég hef aldrei litið á það sem galla á tónlist. Hér er allt morandi í flottum lögum og Jaggerinn syngur eins og sá engill sem hann er. Rokk og rólegheit að hætti eins almagnaðasta karakters rokksögunnar og þess sem á fallegasta brosið.

 

Plata 32 er Grand Prix með skosku strákunum í Teenage Fanclub frá árinu 1995 og er þeirra 5. plata. TF eru undir 60´s og 70´s áhrifum og þetta powerpopp þeirra er ákaflega skemmtilegt og gefandi fyrir okkur sem viljum melódíu í okkar tónlist og unnum Byrds og Bítlapoppi.

Plata 33 er Toolbox með meistara Ian Gillan frá 1991. Þessi kemur áður en hann gengur í Purple í síðasta sinn (væntanlega). Ein harðasta og þyngsta platan frá Gillan, kannski fyrir utan Sabbath, og þeir sem elska öskrin hans fá nóg af þeim hér. Hann er í frábæru söngformi hér og leikur við hvern sinn fingur ásamt þeim Steve Morris sem er líttþekktur breskur gítarleikari, og væntanlega er þetta hápunkturinn á ferli hans, og svo er hér bandaríska rhytmaparið Brett Bloomfield á bassa og Leonard Haze trommari Y&T. Ekkert hljómborð. Kraftmikið metalskotið rokk og ról sem gleður gamla kalla og ég er ekki frá því að þessi plata sé töluvert vanmetin.

Plata 34 er ...And you ? með Manitoba´s Wild Kingdom frá 1990. Þetta er eina plata sveitarinnar og ekki nema 25 mínútna löng þrátt fyrir 10 lög, það er alveg nóg og maður rennir henni bara tvisvar í staðinn. Sveitin er afkvæmi New York pönkaranna The Dictators, en sú sveit var stofnuð 1973 og er því ein af forverum Bandarísku pönksenunnar er seinna leit dagsins ljós. Söngvarinn Handsome Dick Manitoba, bassaleikarinn og aðallagahöfundur, Andy Shernoff og gítarleikarinn Ross The Boss koma allir úr Dictators og fara hér á kostum í hressum pönkskotnum metal sínum. Ross The Boss klingir væntanlega bjöllum hjá einhverjum en hann var náttúrulega gítarleikari í Manowar og spilar á 6 fyrstu plötnunum þeirra, Rokk og ról eins og það gerist hvað skemmtilegast.

Plata 35 er Wrecking ball með Emmylou Harris frá 1995. Hér kveður við annan tón hjá þessari frábæru söngkonu og óhætt að segja að hér sé ekki dæmigerð E.H. plata á ferðinni. Hér er meistari Daniel Lanois við stjórnvölinn í stúdíóinu og setur sannarlega sinn sérstaka blæ á gripinn. Danni er einn af þessum stóru sem stjórnað upptökum hjá helstu stjörnum samtímans og nægir að nefna U2 og Bob Dylan. Hann er líka tónlistarmaður og spilar hér á gítar og klingjandi gítarsándið minnir stundum eilítið á hinn eina og sanna The Edge. Fyrst minnst var á Edge má geta þess að Larry nokkurn Mullen trommar þessa plötu af sinni smekkvísi. Lögin eru úr ýmsum áttum og á meðal höfunda eru Jimi Hendrix, Neil Young, Bob Dylan, Lucinda Williams. Emmylou er einstök listakona og með þessari plötu hefur hún örugglega eignast nýja aðdáendur, en kannski glatað gömlum. Alltaf gaman þegar listamenn hafa hugrekki til á kanna nýjar lendur á tónlistarakrinum. Frábær plata.

Plata 36 er Perfectly good guitar með John Hiatt og er frá 1993. Hér er kallinn á rokkbuxunum venju fremur og þetta verður að teljast rokkaðasta plata þessa meistara. Hiatt er ákaflega virtur á meðal tónlistarmanna og ótal margir hafa spreytt sig á lögunum hans, en hann sjálfur hefur aldrei náð að slá almennilega í gegn þrátt fyrir að vera einn besti lagasmiður samtímans. Titillagið ætti fyrir löngu að vera komið í hóp rock anthema ekki síður en Rockin´in the free world með Neil Young, það lýsir húmor Hiatt´s vel:

Well he threw one down form the top of the stairs
Beautiful women were standing everywhere
They all got wet when he smashed that thing
But off in the dark you could hear somebody sing

[Chorus:]
Oh it breaks my heart to see those stars
Smashing a perfectly good guitar
I don't know who they think they are
Smashing a perfectly good guitar

Hiatt hefur sent frá sér 22 sólóplötur og eitt af markmiðum mínum í lífinu er að eignast þær allar. Þess vegna hef ég það fyrir sið að grípa alltaf plötu með kallinum ef ég sé hana í plötubúð.

Plata 37 er Remember með Rusted Root sem kemur frá Pittsburgh í Pennsilvaniu, er þeirra þriðja plata og kemur út 1996. Rusted Root flytur rokk og popp með heimstónlistaráhrifum ef það segir einhverjum eitthvað. Þeim er fátt heilagt hvað áhrifavalda varðar og útkoman verður ákaflega skemmtileg blanda af allskonar. Söngvari þeirra Michael Glabicki er ákaflega sérstæður og á stóran þátt í töfrum sveitarinnar. Gæti samt trúað því að hann sé einn af þessum söngvurum sem menn annaðhvort elska eða hata. 


Plata 38 er Flaming pie með Paul MacCartney og hún kemur út 1997. Hér Palli í sinni tærustu mynd og þessi plata er tvímælalaust á topp 5 af sólóplötunum hans. Hann nýtur aðstoðar reynslubolta úr bransanum eins og Jeff Lynne og Stevie Miller að ógleymdum Ringó Starr í tveimur lögum. Annars trommar Paul sjálfur alla plötuna og hann hefur þennan skemmtilega stíl "ekki trommara". Það kemur upp í hugann kvótið sem haft er eftir Lennon er hann hann var spurður hvort Ringo væri besti trommari í heimi: "Bestur í heimi? hann er ekki einu sinni besti trommarinn í Bítlunum". Kannski átti hann við að Paul væri betri. Mér finnst Ringó frábær trommari og það kemur vel fram hér er þeir félagar Paul, Ringo og Jeff Lynne jamma saman Really love you hvað hann er þéttur og hvað þeir grúva vel saman. Þessi plata hefur í gegnum tíðina mikið sótt í spilarann og skilur mann alltaf eftir glaðan og sáttan.

Plata 39 er Born to quit, önnur plata Chicago popppönk sveitarinnar skemmtilegu, Smoking Popes frá 1995. Ólikt mörgum sveitum í þessum geira er söngurinn svolítið á skjön við tónlistin til að byrja með, en svo fer maður að fíla Josh Caterer. Ef Morrissey og Pat Dinizio hefðu eignast barn saman hefði það væntanlega sungið svona. Hressilegt, melódíst "feelgood" punk sem alltaf gleður mitt einfalda hjarta. Eignaðist líka plötuna á eftir þessari og hún er í sama gæðaflokki.

Plata 40 er Come on home með gítarleikaranum og söngvaranum Boz Scaggs og kemur hún út 1997. Boz var í Steve Miller bandinu á 7. áratugnum en er ef til vill hvað þekktastur fyrir sólóplötuna Silk degrees sem kom 1976 og sló heldur betur í gegn. Hér tekur hann fyrir gamlan rhytmablús og blússöngva og gerir sérdeilis góð skil. Afar sérstæður og skemmtilegur söngvari hann Boz, og vel frambærilegur gítarleikari og hann ásamt góðum aðstoðarmönnum, gerir þessum slögurum ákaflega góð skil á þessari skemmtilegu plötu.

Plata 41 er The First day með þeim David Sylvian og Robert Fripp frá 1993. Þessi plata er sú fyrsta af þremur plötum sem þessir snillingar gerðu saman. Fripparinn einn frumlegasti gítarleikari rokksögunnar og væntanlega hvað þekktastur fyrir veru sína í King Crimson. Hljómborðleikarinn, gítarleikarinn og söngvarinn Sylvian kemur úr hinni skemmtilegu bresku sveit, Japan sem átti sína mektardaga á 8. og 9. áratugnum. Það má eiginlega segja að skrattinn hitti ömmu sína hér því þessir kallar hæfa hvor öðrum ákaflega vel. Stundum vel víruð og framsækin rokktónlist, seiðandi og heillandi. Lögin frá 4 mínútum uppí 17 mínútna ópusa. Ekki skemmir fyrir að sjálfur Jerry Marotta trommar plötuna. Snilldarplata hér.

Plata 42 er fyrri platan af tveimur er Kaliforníu sveitin Sugartooth sendi frá sér og árið er 1994. Ein af þessum sveitum sem hurfu jafnhratt og þær komu en rokk-radar undirritaðs náði þó að nema. Kannski voru það Sabbath áhrifin sem fyrst kveiktu á bandinu en samt má segja að bandið hljómi mjög 90´s. Seinni platan sem þeir sendu frá sér er tuddagóð líka en samt er eins og um allt aðra sveit sé þar að ræða, svo ólíkar eru plöturnar og tónlistarstílarnir. "Unsung hero´s" í 9o´s rokkinu. Tuddagott band og plata.

Það er hrikalega gaman að rifja upp þennan áratug í safninu og hverju einn sankaði að sér. Ég held mér við mæður um stund en í kjölfarið af Mother´s Finest kemur hér sjálf móðurstöðin, en plata 43 er Brand new bag sem er eina plata Bandarísku soul/blús/rokk sveitarinnar Mother Station sem rekur ættir sínar til Memphis og kom út 1994. Hljómsveitin sækir innblástur til blússkotinna rokksveita 7. og byrjun 8. áratugarins, eða hippaáranna, og Janis kemur upp í hugann og hér má finna eitt lag frá Steve Marriott og félögum í Humble Pie sem smellpassar við stílinn. Fyrir sveitinni fer hin magnaða og kraftmikla söngkona, Susan Marshall en svo undarlegt sem það hefur hún aðallega unnið sem bakradda söngkona eftir veru sína í Mother station en hefur þó sent frá sér að minsta kosti þrjár sólóplötur. Önnur frábær stúlka sér um gítarleikinn, en það er Gvin Spencer. Mother Station voru búin að taka upp aðra plötu en hún hefur ekki litið dagsins ljós og mun sennilega ekki gera. Þessi er ein af þeim plötum sem eiga það til að festast í spilaranum vikum saman, og ég hvet áhugamenn og konur um þess háttar músík að kynna sér gripinn.

Plata 44 er "Black radio won´t play this record" með Mother´s Finest sem kemur frá Atlanta í Bandaríkjunum og er frá 1992.
Rætur sveitarinnar má rekja aftur til 1972 og tónlist MF hefur verið skilgreind sem funkrokk en það er kannski ónákvæm skilgreining, hard rokk r&b funkmetal eða bara heavy metal bætir ef til vill einhverju við. Sveitin er ein af þessum vanmetnu böndum sem einatt flugu undir radarinn en áttu skilið mikið meiri athygli. Flestir meðlimir hafa verið svartir í gegnum tíðina og þá meina ég ekki af drykkju og dópneyslu og fyrir henni fara hinir mögnuðu söngfuglar, Joyce "Baby Jean" Kennedy og Glenn "Doc" Murdock. Baby Jean svipar mjög til Tinu Turner og það mætti gera ráð fyrir að Tina hljómaði eitthvað svipað væri hún í harðari efnum (þyngri tónlist). Þetta er það þyngsta sem ég hef heyrt frá MF og skratti skemmtileg plata. Þau njóta hér í nokkrum lögum, aðstoðar gítarleikarans Tracay "Spacy T" Singelton sem kemur úr annar svartri metalsveit sem starfaði á 9. áratugnum og hét Sound Barrier. Upptökustjóri er enginn annar en Thom Panunzio, sem þeir sem láta sig varða hverjir stjórna upptökum á plötum og fleira því tengdu, þekkja af góðu, en hann hefur á sinni afrekaskrá marga af helstu artistum sem skiptir máli í rokksögunni, Bruce Springsteen, Bob Dylan, U2, Deep Purple, Aerosmith, Black Sabbath, Motörhead, Tom Petty og Iggy Pop svo einhverjir séu nefndir. Á meðan einhverjir voru að hlusta á Living Colour og Tinu Turner, hlustaði sveitastrákurinn á Mother´s Finest og undraðist á afhverju þessi gæðasveit næði ekki heimsathygli.

Plata 45 er "Vauxhall and I" með meistara Morrissey og kemur út það ágæta ár 1994. Umdeildur maður og hefur stundum hagað sér eins og hálfviti... hver hefur ekki gert það. Svei mér þá ef þetta er ekki bara meistaraverkið hans, en hann hefur sent frá sér helling af gæðaplötum á sólóferlinum. Ekki má gleyma töfrum The Smiths áratugnum á undan, en það er allt önnur ella. Mér finnst þetta frábær plata eins og margt annað með honum og elska melankólíuna í röddinni og kallinn er frábær laga og texta smiður. Einn af mínum uppáhaldköllum í músíkinni.

Plata 46 er On the blue side með bandaríska gítarleikarnum snjalla og söngvaranum ekki síður snjalla, Dave Meniketti og kemur út 1998. Dave er hvað kunnastur fyrir að vera aðalsprautan í metalbandinu Y&T sem næstum því gerði garðinn frægan "in the 80´s". Þessi snillingur er enn eitt dæmið um hinar ósungnu hetjur, gífurlega hæfileikaríkur tónlistarmaður en bar aldrei gæfa til að slá verulega í gegn. Hljómsveitin frábæra, Y&T var alltaf undir radarnum þrátt fyrir nokkrar frábærar melódískar metalplötur, og þó þeir færu í fataskápinn hjá eiginkonunum og fengu lánað hárspreyið þeirra og málninguna dugði það ekki til. Meniketti hefur hina eftirsóttu þrennu, er góður lagasmiður og frábær gítarleikari og söngvari og hefur sál í sinni tónlist. Þetta er fyrsta sólóplatan frá kappanum og hér kemur hann ást sinni á blús vel til skila, því þetta er vel rafmögnuð blúsplata og þá meira svona rokkblúsplata og Gary Moore kemur upp í hugann sem eitthvað sambærilegt. Mér finnst bara Meniketti mikið skemmtilegri en Moore. Yfirleitt fynnst mér svona metalskotinn blús ekki skemmtilegur en þessi plata er undantekningin og Meniketti hefur sál og tilfinningu í sínum flutningi. Það skilur sennilega á milli feigs og ófeigs. Það er búið að vera gífurlega gaman að rifja upp þessa plötu og hún er mikið betri en mig minnti.

Plata 47 er Heaven and Hull með hinum magnaða Mick Ronson gítarleikara og kemur hún út 1994. Flestir þekkja hann vafalaust best sem gítarleikara og útsetjara Bowie og Kóngulónna frá Mars og margir telja að Bowie hefði aldrei orðið sú sjarna sem hann varð nema fyrir Ronson. Sumir af þeim hlusta hvorki á Bowie eða Ronson en þykjast samt geta um það dæmt. En Ronson á stóran kafla í ferli Bowie á 8. áratugnum, enda Bowie þekktur fyrir að vinna bara með gæðamannskap. Það er ekki víst að margir vissu hver Mick Ronson væri ef ekki væri fyrir veru hans í Bowie bandinu. Þessi plata kom út rúmu ári eftir dauða hans, en hann lést úr lifrarkrabba 46 ára 1993. Hörkuflott plata og áðurnefndur Bowie kemur við sögu og syngur kraftmikla útgáfu af Bob Dylan slagarann Just like a woman. Joe Elliott úr Def Leppard, Chrissie Hynde, John Mellenkamp og fleiri góðir syngja líka á plötunni auk Ronsons sjálfs, sem þrátt fyrir að vera margt til lista lagt, er enginn stórsöngvari. Hann sleppur þó vel frá sínu og eitt flottasta lagið syngur hann, sem er hið fallega When the world falls down, sem eins og flest lögin eru eftir Ronson og S. Morris. Þykir alltaf vænt um þessa plötu og finnst skemmtilega oft við hæfi að setja hana í spilarann.

Plata 48 er Stomping ground með hinum hressu strákum í Kentucky Headhunters sem koma einmitt frá Kentucky. Skemmtileg tilviljun það. Þessi plata þeirra kemur út 1997 og er sú 5. í röðinni, en það má rekja ferilinn allt aftur til 1968 en þá undir nafninu Itchy Brothers. Hafa starfað undir K.H. nafninu síðan 1986 og fyrsta platan kom 1989. Tónlist þeirra er einhverskonar blanda af kántríi, blús, soul og rokki og róli. Kannski bara einfaldast að kalla þetta kántrírokk af kraftmeiri gerðinni. Þeir hafa sent frá sér 11 plötur og skoruðu hátt hjá mér þarna á síðasta áratugnum og alltaf kemst ég í gott skap er í set Kentucky Headhunters plötu í spilarann.

 

Plata 49 er Brave með hinni bresku Marillion og er frá 1994. Ég hef löngum átt frekar erfitt með að tengjast þessari sveit og enn síður Hogarth tímabilinu sem enn varir, en Fish tímabilinu. Eigandi Marillion vin sem lagði sig allan fram við að kristna kallinn er þetta frekar vandræðalegt, eða kannski ekki. Þar sem ég á nokkrar Marillion plötur með báðum söngvurunum, set ég þær nú af og til í spilarann og Misplaced Childhood og og Clutching at straws með Fiskinum eru fínar plötur og þessi Hogarth plata hefur nú verið að tengjast mér sterkari böndum hin seinni ár en aðrar frá sveitinni. Er orðin svolítið skotinn í hvernig þeir blanda saman proggi, poppi og rokki í sérstæðan bræðing. Það er frekar þungt yfir þessari consept plötu og hún þarf margar hlustanir til að síast inn, en á leiðinni uppgvötar maður margt fallegt og flott og í rauninni er þetta tímalaus tónlist sem þar af leiðandi eldist vel. Ég vona að Marillion fari í tónleikaferð til Indlands, það myndi gleðja vin minn.

Sæti 50, eða heiðurssætið fá strákarnir í Ramones með plötu sína, Mondo Bizarro frá 1992. Fyrsta plata þeirra í 3 ár og sú síðasta sem talist getur góð, en sennilega kom bara ein í viðbót við þessa. Ramones rokkið hefur alltaf á greiða leið að hjarta mínu og komandi úr sveit er gott að vera fjárglöggur. 200 hvítar kindur eru allar eins fyrir utanaðkomandi en svo þekkir bóndinn þær allar með nafni. Ég þekki Ramones lögin hvert frá öðru. 

10.06.2018 14:43

Geimvísindi fyrir alla

Hildur Vala - Geimvísindi - 8,5/10

 

Hildur Vala Einarsdóttir vakti fyrst landsathygli er hún sigraði í annar Idol sjörnuleitinni árið 2005. Járnið var að sjálfsögðu hamrað á meðan það var heitt og strax sama ár kom út fyrsta platan hennar samnefnd. Þar voru m.a. lög sem hún söng í keppninni auk annar coverlaga, íslenskra og erlendra og gerði stúlkan lögunum mörgum góð skil og þau hentuðu flest ágætlega. Maður saknaði þó að fá ekki að heyra hana syngja einhver ný lög, en fallinn var ég fljótlega  fyrir þessari fallegu rödd sem söng til míns hjarta. Árið eftir kemur út platan Lalala og heitir hún í höfuðið á lagi Svavars Knúts sem finna má plötunni. Þar eru að mestu ný íslensk lög frá nokkrum höfundum eins og Agli Ólafs, Valgeiri Guðjóns, Sigurði Bjólu og að sjálfsögðu Jóni Ólafs og fl. Þarna fannst mér Hildur Vala finna fjölina sína og er hér um stórgóða plötu að ræða sem mér finnst ekki hafa fengið það lof sem hún á skilið. Hún hverfur síðan að mestu úr hinu misbjarta sviðsljósi og hefur íslenskur tónlistarheimur verið mun fátækari kvenraddalega séð í ein 12 ár. Svo ber við á nýju plötunni að Hildur semur öll lögin og á tvo texta, en fyrirferðamestur í textagerð er Dagur Hjartarson sem á 6, Hjalti Þorkelsson á einn og Skúli Jónsson  einn. Góðir textarnir hæfa lögunum einkar vel, eða lögin textunum, hvernig sem menn vilja líta á það og ég tek alltaf sérstaklega ofan fyrir þeim sem syngja á íslensku, það er ákaflega mikils virði. Þessi yndislega ljúfsára melankólía sem umlykur sum lögin, kristallast kannski besti í þessu textabroti Hildar Völu „úti næða vindar vályndir / úti geysa stormar stjórnlausir / sem mér feykja til og frá / lof mér / að vera einn með þér / og gleyma sjálfri mér“. Þó það sé stundum vetur á plötunni er þetta ákaflega falleg og hlý plata, full af ást og væntumþykju, og þó sorgin seytli gegn um þakið, þá eru öll tár þerruð að lokum. Lagasmíðar er til mikillar fyrirmyndar hér og ég bara veit ekki hvort það hafi komið mér eitthvað á óvart frá þessari mjög svo hæfileikaríku tónlistarkonu, átti alveg eins von á einhverju góðu. Platan er er á ljúfum og notalegum nótum og á það til að detta í þessa dásamlegu angurværð sem er svo heillandi, eins og t.d. í hinum fallegu og strípuðu,  „Ég held áfram“,  „Vængir næturinnar“ og lokalaginu „Kalt“. Fyrri hluti plötunnar heillaði mig þó meira í byrjun og hápunkturinn finnst mér vera titillagið um miðja plötuna, en þar kemur Ómar Guðjónsson við sögu á gítar og bassa og hann lætur ekki að sér hæða frekar en fyrri daginn. Hann spilar einnig í „Tími“. Annars er platan sterk heild og eftir nokkrar hlustanir kunni ég ekki síður við seinni hálfleik og værðin í lokin skylur mann eftir afslappaðan og endurnærðan, já öll platan að sjálfsögðu. Blessunarlega engir áberandi hittarar, bara fullt af góðum lögum sem skila heilsteyptri plötu sem gefandi er að hlusta á. Hildur er frábær söngkona og þessi 12 ár úr sviðsljósinu hafa bara gert henni gott. Röddin þroskaðri og fyllri og full af þessari hógværð sem er svo heillandi, veit hvað hún getur en þarf ekkert alltaf að vera sýna sig og sanna. Meðreiðarfólk hennar við gerð plötunnar á svo náttúrulega stóran þátt í glæsilegri útkomu og þar skal fyrstan nefna eiginmanninn, upptökustjórann og hljómborðsleikarann, Jón Ólafsson, Birgir Baldurson trommar hér eins og á hinum tveimur plötum Hildar Völu og trommuleikurinn skemmtilega flæðandi eins og hann á vanda til, Stefán Már Magnússon gítarleikari spilaði líka á hinum tveimur eins og þessari og ekki þarf að fjölyrða um hæfni hans. Andri Ólafsson spilar á bassa, Grímur Helgason á klarinett og á skemmtilegt sóló  í upphaflaginu og lyftir því uppá annað plan í lokin. Þórdís Gerður Jónsdóttir spilar síðan á cello. Þó þetta sé notalegt sunnudags værðarpopp að upplagi þá er svo margt hérna sem er áhugavert í lagasmíðum og spili og útsetningum að það er engin hætta á að platan verði bara einhver þægileg bakgrunnstónlist undir hlýju teppi er rigningin lekur niður gluggann fyrir utan. Í hinni margþvældu mótsögn sannast hér að minna er meira og hér er sannarlega kjöt á beinum. Hlýr hljómurinn fullur andrýmis vefur sig um hlustirnar og umbúðirnar eru fallegar eins og annað hér. Þetta er búin að vera skemmtileg þróun frá fyrstu plötu til þessarar, og ég segi hiklaust að þessi stendur fremst í þessari þrennu og sannarlega 12 ára biðar virði. Vona samt sannarlega að ekki þurfi að bíða í önnur 12 ár eftir efni frá þessu nýja söngvaskáldi okkar.

03.04.2018 17:43

60´s eyðieyjulisti Tónskrattans 50 plötur

Gullið fær Everybody knows this is nowhere með Neil Young and Crazy Horse frá 1969. Þegar ég byrjaði á þessu 60´s nölli mínu var aldrei spurning að þessi yrði í fyrsta sætinu... jú kannski spurning, en svarið kom strax. Þetta er bara ein albesta plata rokksögunnar að mínum dómi. Fáar plötur hafa byrjað jafn flott (Cinnamon girl) og engin endað jafn glæsilega og þessi (Cowgirl in the sand). Allt þar á milli ber þessum snillingum fagurt vitni og það er auðvellt fyrir rokkhjarta að sameinast þessari snilld. Fyrir nokkrum árum kom út tónleikaplata með Young og Crazy Horse tekin upp í Fillmore 1970 og þar má m.a. heyra frábærar útgáfur af langhundunum tveimur hér og þeir lengjast ef eitthvað er. Neil Young er snillingur sem spyr hvorki kóng eða prest af því hvernig tónlist hann á að gera og gerir þar af leiðandi það sem honum sýnist. Það er bæði gott, slæmt og sæmilegt, en það góða svo gott að hitt skiptir engu máli. Áfram Kanada og Neil Young.

Silfrið fær Rubber soul með Bítlunum frá 1965. Sko, valið snérist um þessa, Revolver eða Abbey road. Plata með Yellow submarine kemur tæplega til greina (þó hún sé frábær þar fyrir utan) og þar með var Revolver úr sögunni. Abbey road er í miklu uppáhaldi og á alveg eins heima hér, en ég tek reglulega ástfóstri við Rubber soul og á í heitu ástarsambandi við hana þessar vikurnar. Annars hef ég ekkert síður gaman af plötunum á undan þessari, en eftir og Bítlakassinn er auðvitað málið. Ég vel Stones fyrir attitjútið, Bítlana fyrir tónlistina og Kinks fyrir textana, en auðvitað vita þeir sem til þekkja að það er hægt að velja allar þessar sveitir fyrir tónlistina. Svo er það gullplatan á morgun og einnig verða gerða smávægilegar breytingar á listanum þar sem ég ætla að taka íslensku plöturnar út og hafa topp tíu íslenskan lista, og þá koma aðrar inn í staðinn.

 

Bronsið fá Kinks fyrir plötu sína Face to face frá 1966. Fjórða platan frá þessum hressu Lundúnastrákum, en það er um ákaflega auðugan garð að gresja ef velja skal plötu á eyðieyju úr þeirra katalóg. Án efa ein áhrifamesta breska sveitin og ein sú langflottasta og með besta textahöfundinn í bresku rokki ef menn nenna að leggja sig eftir textum í tónlist. Fjölbreytt plata sem forðum tók sér bólfestu í mínu rokkhjarta og mun væntanlega gleðja mig um ókomin ár sem hingað til.

 

Plata 4 er Disraeli gears með hinu magnaða rjómatríói frá 1967 og fylgdi vel eftir frábærum frumburðinum frá árinu áður. Þvílíkir kallar þessir þrír en ferlill þessarar sveitar var allt of stuttur eins og stundum vill gerast, en áhrifin sem þeir höfðu í rokkheimum vörðu lengi og vara kannski ennþá. Jack Bruce verður alltaf einn af mínum uppáhalds söngvurum og bassaleikurum og þessi plata ein af mínum uppáhalds, alltaf. Upptökustjórinn Felix Pappalardi fór síðan með Cream áhrifin vestur um haf og Bandaríkjamenn fengu sína Cream í formi Mountain. Við íslendingar áttum svo Óðmenn sem voru undir sterkum áhrifum. En það jafnast ekkert á við Cream.

 

Plata 5 á listanum er hinn magnaði frumburður King Crimson, In the court of a crimson king frá 1969. Þessi gæðasveit hefur marga fjöruna sopið og ýmsir spilarar komið við sögu. Það er sjaldan í kot vísað ef drepið er niður hjá þessum drengjum og það er ákaflega gefandi að detta í King Crimson annað slagið.

 

Plata 6 er önnur plata Led Zeppelin frá 1969. Hef alltaf verið meira fyrir Purple og Sabbath af þessum þremur böndum sem eru eins konar heilög þrenning klassíska rokksins og forverar þungarokksins. Þyrfti samt að vera lasinn í rokktauginni ef ég fílaði ekki Zeppelin. Whole lotta love neglir mann flatan í byrjun og enn þann dag í dag er það jafnfott og fyrst þegar maður heyrði það fyrir fjölda ára. Þeir stálu því auðvitað frá Willie Dixon, eða frekar frá Small Faces að stela því frá Willie í flutningi Muddy, en Zep gerðu það algerlega að sínu og Page á auðvitað þetta fræga riff. Mögnuð plata og alltaf jafnfersk. Moby Dick hefði samt mátt missa sig fyrir utan gítarriffið sem er eitt það flottasta frá Zep.

 

Plata 7 er Beggers banquet með Rolling Stones frá 1968. Hér snúa strákarnir aftur í ræturnar eftir hina gallsúru Their 
Satanic Majesties request og blús andi í rokkbuxum og strigaskóm svífur yfir vötnum og sándið er hrátt og skítugt eins og óþægum strákum sæmir. Aftermath, Between the buttons og Let it bleed komu sannarlega til greina, en þessi er einhvernveginn næst mér ásamt Sticky fingers sem kom náttúrulega ekki til greina þar sem hún tiheyrir næsta áratug. 
Sumum finnst Stones vera algjört drasl, og það er allt í lagi, Fegurðin er í augum sjándans og eyrum hlustandans og til lítils að deila eitthvað um hana, frekar en bragðið sem við finnum í munninum af matnum.

 

Plata 8 er Highway 61 revisited með Bob Dylan frá 1965. Sumum finnst Dylan ekkert merkilegur tónlistarmaður og það er allt í lagi að dyssa kallinn, þó ekki væri nema fyrir endalaus Sinatra tribute hin seinni ár. Mér hefur ekki alltaf þótt Dylan skemmtilegur, en það eru æði mörg ár síðan ég uppgvötaði snilligáfuna og það er lítið annað í boði en að elska meistarann, þó plötur hans séu vissulega misjafnar að gæðum. Á margar uppáhaldsplötur með honum, en þessi snilld fær að koma með mér á eyjuna. Dylan er dásamlegur þegar hann er bestur.

 

Plata 9 er frumburður Doors samnefndur og kemur hann út í janúar 1967, þannig að það ár byrjar ekki mjög illa. Ég missti áhugann á Doors þegar mynd Oliver Stone kom 1991 og allir fóru að hlusta á bandið. Það gerist oft að þegar eitthvað sem maður er að hlusta á slær í gegn að ég missi áhugann og fer að snúa mér að annari músík. En ég kom aftur til baka seinna þegar Doorsæðið var runnið af mönnum og ekki þótti lengur hipp og kúl að hlusta á Doors. Mér finnst þetta alveg mögnuð plata og hún hefur elst vel. Eitt sem er t.d. mjög merkilegt við þessa 40 ára afmælisútgáfu sem kom fyrir 11 árum og ég hampa hér, er að það er búið að leiðrétta hraðann á laginu "Light my fire" en hann hafði á öllum útgáfum plötunnar fram að því verið 3,5% of hægur. Hann var að vísu réttur á smáskífunni.

 

Plata 10 er Surrealistic Pillow með Jefferson Airplane frá árinu 1967. Önnur plata þessarar merku sveitar og hér eru þau komin í bandið, trommarinn Spencer Dryden og hin magnaða söngkona, Grace Slick. Hún kemur með tvö þekktustu lög JA úr sinni fyrrum sveit, The Great Society, "Sombody to love" eftir mág hennar Darby Slick og svo "White rabbit" eftir hana sjálfa. Mögnuð folk/sækadelía þessi plata og hér er að finna eitt af mínum al uppáhalds lögum, sem er hið ákaflega fallega "Comin´back to me" eftir söngvarann Marty Balin.

 

Plata 11 er The Notorious Bird Brothers með hinni mögnuðu sveit, The Byrds frá 1968. The Birds er klárlega ein af 100 hljómsveitum sem eru í hópi 10 bestu hljómsveita sem hafa uppi verið og ákaflega vanmetin eins og ég upplifi það. Það er orðið töluvert langt síðan ég tók ástfóstri við þessa plötu, en hún er önnur tveggja platna sem þeir sendu frá sér þetta ár og undanfari þeirra frægustu plötu sennilega, sem er Sweetheart of the rodeo, og er ein af upphafsplötum kántrýrokksins er gaf okkur sveitir eins og Poco og Eagles. Þá var Gram Parson gengin til liðs við sveitina. Hér er sækadelían við völd og þeir m.a. farnir að experimenta með moog synta og slík tól og tæki.
Algerlega geggjuð plata sem ég get endalaust hlustað á ásamt mörgum öðrum frá þessari merku Los Angeles sveit.

 

Plata 12 er Forever changes með hljómsveitinni Love frá 1967. Þegar maður er búinn að aðlagast þessari er ekki aftur snúið og hún er engri annari lík. Það gerðist þó ekki fyrr en löngu eftir að ég sá það haft eftir Arthur Lee að Janis Joplin væri bara lítil gargandi gæs. Ég var verulega móðgaður þá en í dag finnst mér hann hafa hitt naglann á höfuðið. Annars kemur Janis þessari plötu ekkert við. Það er erfitt að staðsetja þessa tónlist og segja að hún sé eitthvað eitt... annað en gæðamúsík frá hippatímanum. Í dag væri þetta sennilega kallað indýrokk og þetta er ein af þeim plötum sem ég þurfti að gefa verulegan tíma og þolinmæði, en það skilaði sér sannarlega. Annars hef ég aldrei hitt neinn Love aðdánda og velti stundum fyrir mér hvort einhverjir séu þarna úti.

 

Plata 13 er frumburður Allmann Brothers Band frá 1969. ABB er klárlega eitt magnaðasta band rokksögunnar og ferillinn fór glæsilega af stað. Eins og hjá kollegum þeirra í The Band norðan við landamærin, þá var músík þeirra einkar skemmtilegur bræðingur úr bandaríkum tónlistararfi. Blús, rokk, soul og jazz, framreitt á einkar smekklegan máta og suðurríkjarokkið verður til. Aljörir snillingar þessir drengir, en saga þeirra er lituð af áföllum og missi.

 

Plata 14 heitir í höfuðið á hljómsveitinni, The Band og er önnur platan þeirra og er frá 1969 og fylgir í kjölfarið á glæstum frumburðinum, Music from big pink. Sniglabandið er að fara að heiðra þessa gæðasveit og plötu hennar, The Last waltz og sagði Skúlí Gauta aðspurður hvað væri svona merkilegt við þessa sveit, að sennilega væri það merkilegast að það væri ekkert merkilegt við hana. Margt til í því, músíkin frekar hallærisleg og sveitó ef eitthvað er, en samt svo einstök á sama tíma og óendanlega heillandi. Þetta eru einstakir snillingar sem þekkja Bandarískan tónlistararf uppá sína 10 og miðla sinni vitneskju með heitu hjarta svo úr verður eitthvað svo einstakt, en samt svo venjulegt. Sniglabandið er með syngjandi trommuleikara eins og The Band, þannig að það er ekki víst að þetta klikki hjá þeim. Þetta er alger snilldarplata sem alltaf á erindi í spilarann.

 

Plata 15 er The Who sell out frá 1967 og er hún þeirra þriðja. Eftir þessa mögnuðu og áhrifamiklu sveit standa 4 sterkar plötur frá þessum áratug og ef til vill mætti segja að þessi sé ágætur undanfari að þeirra frægustu plötu, rokkóperunni Tommy sem kom tveimur árum síðar og ætti alveg heima hér ekki síður en þessi. Hérna eru þeir að heiðra sjóræningja útvarpsstöðvarnar sem voru út um allt á þessum árum. Hrikalega skemmtileg plata og sennilega mesta sækadelían sem frá þeim kom, plata sem ákaflega erfitt er að verða leiður á.

 

Plata 16 er stundum kölluð Beano platan, en framan á albúminu situr Eric Clapton og les Beano teiknimyndablað, en þetta er að sjálfsögðu önnur plata John Mayall og Blúsbjótanna og kemur út 1966. Það var að mig minnir verið að fjalla um það í fréttum í síðustu viku að Gibson gítarframleiðandinn væri á barmi gjaldþrots, en þessi plata er ákaflega góð auglýsing fyrir þá þar sem Clapton spilar hér á Gibson Les Paul og hefur varla í annan tíma spilað betur á plötu. John Mayall er ákaflega merkilegur blúskall og margir eiga honum mikið að þakka og í gegnum tíðina hefur hann verið hálfgerð útungunarstöð fyrir efnilega gítarleikara og má í því sambandi nefna Clapton, ( þó hann hafi vissulega verið búinn að geta sér gott orð hjá Yardbirds) Peter Green og Mick Taylor. Mayall er ennþá á fullu í sínum blús og hefur sent frá sér vel ásættanlegar plötur hin seinni ár. Clapton hætti í bandinu eftir þessa plötu og Cream komst á laggirnar skömmu síðar. Held að Robert Johnson blúsinn "Ramblin on my mind" sem hér er að finna sé fyrsta lagið á plötu sem Clapton syngur sóló. Þessi útgáfa inniheldur plötuna bæði í mono og sterió.

 

Plata 17 er frumburður Santana frá 1969. Þriðja platan þeirra verður alltaf uppáhalds Santana platan mín en hún er ekki gjaldgeng á þennan lista. Þessi útgáfa af bandinu gerði bestu plöturnar og ég er mikill Greg Rolie maður, sem sannarlega er betri en enginn á Hammondinn. Upprunalega bandið, eða megnið af því koma aftur saman fyrir einu eða tveimur árum og sendu frá sér eina plötu sem ég hef nú reyndar ekki heyrt. Annars hefur Santana karlinn riðið misfeitum hesti í gegnum tónlistarferilinn og stundum algjörum horbykkjum hin seinni ár. Árin þarna fyrir og uppúr 70 voru hinsvegar mikil gullár og ferillinn fór einkar glæsilega af stað með þessari plötu.

 

Plata 18 er frumburður Frank Zappa and The Mothers of invention og kom hún fyrst út 1966. Zappa er einstakur og tímalaus en fyrir svona seinþroska titt eins og mig tekur það alla ævina að kynna mér tónlist hans svo vel sé. Þessi frumburður er hrikalega skemmtileg plata og kemur mér alltaf í gott skap og mikið vildi ég hafa uppgvötað hana á rauntíma, það er 1966, en þá var ég bara 7 ára og hlustaði á Ragga Bjarna og eitthvað álíka á gömlu gufunni. En eins og með flestar plöturnar á þessum lista gerist það löngu seinna og ég er enn að kaupa plötur frá þessum áratug og uppgvöta eittvað "nýtt" gamalt.

 

Plata 19 er Green river með hinni frábæru Creedence Clearwater Revival og er ein að þremur góðum plötum sem þeir sendu frá sér 1969. CCR áttu enga sína líka og þrátt fyrir að vera pínu halló, þá voru þeir líka eitursvalir. Ef frá eru talin ofspiluðustu lögin þeirra þá get ég alltaf unað mér við að hlusta á þessa stráka og Fogerty er mikill meistari.

 

Plata 20 er hin tvöfalda, The story of Them featuring Van Morrisson og rekur feril þessarar mögnuðu Norður Írsku hljómsveitar á meðan hún hafði innanborðs einn besta söngvara sem komið hefur frá Bretlandseyjum og Van the man er enn að, alveg ódrepandi hreint. Kannski var hann hvað skemmtilegastur þarna í denn, og þetta er áður en hann tileinkar sér þennan þvoglumælta söngstíl sem hefur einkennt hann á köflum hin seinni ár, en hann yfirgaf bandið 1966. Hér eru margar perlurnar að finna sem enn glampar á og alltaf er gaman að rifja upp.

 

Það verður að vera einn Cliff á 60´s eyðieyjulista og fyrir valinu verður Cliff Bennett, magnaður söngvari og einn af þessum "unsung heroes" í bresku rokki. Hér eru upptökur frá 63-69 og mest með Cliff og bandinu hans Rebel Rousers. Mestrar velgengni naut Cliff 1966 með útgáfu sína af Bílalaginu Got to get you in to my life sem Cliff heyrði hjá Paul er hann túraði með Bítlunum. Lagið var þá ekki komið út með Bítlunum en þeir létu Cliff fá lagið, Paul stjórnaði upptökum og það var gefið út á lítilli plötu og ná 6. sæti á breska listanum. Hér er á ferðinni rhytmablús eins og hann gerðist bestur í Bretlandi á þessum árum, en sennilega ákaflega fáir sem þekkja haus eða sporð á þessum listamanni, sem er miður.

 

Plata 22 er From the beginning sem kom út 1967. Þegar Small Faces fóru frá Decca yfir til Immediate eftir eina stóra plötu, skröpuðu Decca menn saman óútgefnu efni og gáfu út í bland við nokkra smelli eins og hið ódauðlega "All or nothing". Sveitin, sem er klárlega ein sú alskemmtilegasta frá þessum áratug hafði á að skipa einum flottasta söngvara breskrar rokksögu, Stevie Marriott, og ekki voru neinir aukvisar með honum í bandinu. Hrikalega skemmtilegt stöff.

 

Plata 23 er Electric ladyland með meistara Jimmy Hendrix 1968. Hendrix er náttúrulega engum líkur eins og þeir vita er til þekkja og hans blúsaða sækadelíurokk er einstakt í sinni röð. 

 

Plata 24 er Lightnin´strikes back með Texas blúsmanninum Sam 'Lightnin' Hopkins sem er klárlega ein af helstu blúshetjum síðustu aldar. Hér eru upptökur frá 60 og 62 og Hopkins eins og hann er bestur, einn með kassagítarinn. Í tveimur lögum er hann þó með hljómsveit með sér. Þessi rödd er svo einstök, og ásamt Sonny Boy Williamsson (Rice Miller) í hvað mestu uppáhaldi hjá mér af blússöngvurum. Maður trúir þessum mönnum skilyrðislaust. Frábær blúsplata.

 

Plata 25 er Otis blue með hinum frábæra Otis Redding frá 1965. Sálatónlistin verður ekki betri en þetta get ég fullyrt án þessa vera í nokkrum einasta vafa. Húsbandið hjá Stax, Booker T and The MG´s og fl góðir, gera hér gott mót ekki síður en Otis sjálfur og það er hrein unun að hlusta á þennan gæðagrip. Þessi magnaði söngvari fórst í flugslysi aðeins 26 ára gamall og náði því ekki að komast í hinn vafasama 27 klúbb, enda yfir alla klúbba hafin.

 

Plata 26 er Odessey and oracle með The Zombies frá 1968. Þessi er með þeim albestu frá þessum áratug og ég elska þetta sækadelíu popp þeirra. Mér finnst þessi plata oft verða útundan þegar tónlist þessa áratugar er gerð upp og það er synd. Hér er sennilega að finna þeirra þekktasta lag, "Time of the season" en það er langt frá því að bera af öðrum. Yndisleg plata.

 

Plata 27 er önnur plata Traffic og heitir bara í hausinn á bandinu og kom út 1968. Traffic var hrikalega skemmtilegt band með eintóma snillinga innanborðs og má í því sambandi nefna þá Steve Winwood og Dave Mason og þeir láta sannarlega ljós sitt skína hér. Þessi og The Low spark of high heeled boys eru í mestu uppáhaldi hjá mér, en eiginlega hef ég gaman af flestum plötum þeirra,. Gott stöff

 

Plata 28 er Grand Funk, með Grand Funk Railroad frá 1969. Önnur platan frá þessari bandarísku rokksveit sem gagnrýnendur elskuðu að hata en lýðurinn hyllti. "We´re an Amercan band" sungu þeir 4 árum seinna til mikilla vinsælda, eða réttara sagt Don Brewer trommuleikari, sem einnig samdi lagið. Þetta er seinni platan frá þeim sem út kom 69 og maður heyrir stórstígar framfarir frá þeirri fyrstu. Mun alltaf verða Grand Funk maður og tónlist þeirra hefur fylgt mér æði lengi og þetta er klárlega ein albesta platan þeirra. En það skal alveg viðurkennt að sumar plöturnar þeirra eru ekki uppá marga fiska og meira að segja platan sem sjálfur Frank Zappa stjórnaði upptökum á er ákaflega slöpp.

 

Plata 29 er fyrsta plata Henry Saint Clair Fredericks, sem tók sér hið sérkennilega sviðsnafn, Taj Mahal og kom út 1968. Þessi frábæri tónlistarmaður hefur fengist við allrahanda músík í gegnum tíðina og er fátt heilagt. Ferillinn hófst á blúsplötu og blúsinn hefur verið fyrirferðamikill á ferlinum og leitun að flottari blússöngvara. Ekki ómerkari menn en Ry Cooder og Jessie Ed Davis eru þarna gítarleikarar, og þó Cooder sé þekktur slide gítarleikari er það indíáninn Jessie Ed sem sér um slide gítarleik hér. Hér er að finna blúsinn góða, Statesboro blues eftir Blind Willie McTell, sem sennilega er hvað þekktastur í flutningi Almann Brothers Band, en sennilega er þessi útgáfa hér prototípan að útgáfu ABB. Annars er Jessie Ed merkur kall og hefur spilað á plötum með flestum merkustu tónlistarmönnum sinnar kynslóðar. Spilaði á sólóplötum Bítlanna, Eric Clapton, Donovan og Neil Diamond svo einhverjir séu nefndir. Hann óverdósaði 1988 aðeins 43 ára gamall. Uppáhalds blúsplata.
 

Plata 30 er A salty dog með Procol Harum frá 1969 og er þriðja platan frá þessu magnaða bandi. Það fyrsta sem manni dettur í hug er nafnið Procol Harum ber á góma eru hljómborð, en það gleymist stundum að bandið hafði innanborðs einn besta og jafnframt einn vanmetnasta gítarleikara breskrar rokksögu, Robin Trower. Hann á stórleik á þessari plötu og ljóst að hann stefnir í aðra átt, og þó hann sé enginn stórsöngvari kemst hann ágætlega frá söngnum í "Crucifiction lane". Frábær plata... og ekki síst á sjómannadaginn.

 

Plata 31 er Hoodoo man blues með  Junior Wells frá 1965. Munnhörpublús eins og hann gerist bestur á frumburði meistarans. Buddy Guy er þarna á gítar en þeir áttu eftir að vinna mikið saman. Blúsplötur verða ekki mikið betri en þessi.

 

Plata 32 er samnefnd flytjendunum, Nancy & Lee og kemur út 1968. Með merkilegri dúettum rokksögunnar og það eru skemmtilegir "beauty and the best" kontrastar á þessari plötu. Hin silkimjúka og seiðandi Nancy Sinatra og hinn ekki svo ekki mjúki en eitursvali Lee Hazelwood renna sér í gegnum hvert gullkornið á fætur öðru og bæta hvert annað upp. Þó það væri bara fyrir meistarasnilldina "Some velvet mornig" þá væri þetta eiguleg plata. Af því að sumardagurinn fyrsti er í dag þá er ekki úr vegi að rifja upp "Summer wine" sem er hér ekki síður en "Jackson". Já það er mikið sumar í þessari plötu og alltaf jafn yndislegt að bregða henni á fóninn.

 

Plata 33 er St.Louis to Liverpool með Chuck Berry frá 1964 eða um það leyti er lærlingar Berry´s, Bítlar og Stones eru verulega farnir að láta til sín taka í Bretlandi. Berry var konungur rokksins og einn besti textasmiður þess. Þetta vita náttúrulega allir, en alltaf jafn gaman að halda því fram. Kallinn féll frá í fyrra, níræður og saddur lífdaga og sama ár kom út síðasta platan sem hann gerði og hún var honum síður en svo til skammar. Hér má finna þrjú af uppáhalds Berry lögunum mínum, No particular place to go, Promise land og You never can tell og ég á verulega erfitt með að ímynda mér hvernig rokksagan hefði orðið án Berry... eða hvort það hefði orðið nokkur rokksaga.

 

Plata 34 er Songs of Leonard Cohen, frumburður þessa Kanadíska meistara frá 1967. Kallinn var orðinn 33 ára þegar ferilinn hefst fyrir alvöru og þessi snilldarplata kemur út og það má með sanni segja að lítið hafi verið um feilspor á þeirri vegleið. Útgangan úr þessari jarðvist var síðan af sömu hlýju hógværu reisninni og tónlist þessa merkilega listamanns, og ég er ekki frá því að tvær síðustu plötur hans séu bara í hópi hans bestu.

 

Plata 35 er Boss guitar með jazz snillingnum Wes Montgomery og kemur út 1963. Gítarjazz eins og hann gerist allra bestur og áður en Wes varð alltof mjúkur og minna áhugaverður. Þeir Melvin Rhyne á Hammond og Jimmy Cobb á trommur fylgja Wes í gegnum þessa plötu og vægt til orða tekið að kalla þetta trío kunnáttumenn í jazzi. Kannski ekki uppáhaldsplatan mín með Wes, en klárlega í þeirra hópi

 

Plata 36 er West side soul með hinum frábæra gítarleikara og söngvara Magic Sam, eða Samuel Gene Maghett eins og hann hét fullu nafni. Platan kom út 1967, en Sam deyr úr hjartaáfalli tveimur árum síðar aðeins 32 ára gamall. Þessi er mikil uppáhalds blúsplata og eldist ákaflega vel og er gullslegin blúsklassík sem ákaflega reglulega ratar í spilarann.

 

Plata 37 er fyrsta og eina plata Chicago Transit Authority, sem stuttu seinna varð vel þekkt bara sem Chicago, og kemur út 1969. Mér finnst þetta alltaf vera besta platan þeirra, en þessi sveit átti eftir að ganga í gegnum miklar breytingar tónlistarlega og sennilega margir sem þekkja hana bara sem ballöðubergrisana sem fluttu "If you leave me now" og "Baby , what a big suprise" svo eitthvað sé nefnt af þeirra ballöðum, sem maður þoldi frekar illa í gamla daga. Þetta var mögnuð sveit í denn og hafði á að skipa flottum spilurum og einum flottasta gítarleikara og söngvara þessara ára sem Terry Kath var, en mig minnir að hann hafi verið kallaður hinn hvíti Ray Charles og ekki minni menn en Jimi Hendrix voru meðal aðdáenda hans. Einn af þessum svokölluðu "unsung heros" rokksins. Þrátt fyrir að Peter Cetera sé þarna kemur það ekki að sök og þó ég hafi aldrei fílað þann kauða sem söngvara, má hann alveg eiga það að hann syngur uppáhalds Chicago lagið mitt, 25 or 6 to 4, en það kom út á næstu plötu þeirra sem heitir bara Chicago og kom ári seinna, og er flott plata einnig. Hann er hins vegar flottur bassaleikari. Þessi frumburður er æðisleg plata.

 

Plata 38 er heitir í höfuðið á hljómsveitinni, Yardbirds en er betur þekkt sem Roger the engineer og kemur út 1966. Hún heitir síðan Over under sideways down í Þýskalandi, Frakklandi og Bandaríkjunum, en það þurfti alltaf að flækja hlutina í denn eins og hægt var og gott ef hún var ekki hljóðblönduð sérstaklega fyrir Bandaríkjamarkað eins og var alsiða. Hrikalega skemmtileg plata og hér ægir saman öllum fjandanum, blús, rokki, sækadelía og svei mér þá ef örlar ekki á pönki í Psycho daisies. Þarna var hinn frábæri Jeff Beck í bandinu og syngur m.a.s. eitt lag og gott ef þetta er ekki bara eina skiptið sem hann söng á plötu... kannski skyljanlega. Á þessari útgáfu er platan bæði í mónó og sterio og auk þess fylgja með 5 sólólög frá Keith Relf. Það er oft kosturinn við að endurnýja plöturnar sýnar að fá aukaefni með, þó það sé nú ekki alltaf uppá marga fiska.

 

Plata 39 er "What we did on our holidays" með folk rokksveitinni Fairport Convention og er frá 1969. Það eru ekkert mörg ár síðan ég fór að kynna mér þessa sveit, og er ekki nærri búin með það verkefni. Þau kynni hafa verið ákaflega ánægjuleg og ekki síst við þessa plötu og Liege & lief sem er frá sama ári og hefði alveg verið verðugur fulltrúi á listanum. Sveitin skartar einni flottustu söngkonu rokksögunnar sem Sandy Denny var, en hún er ein af alltof mörgum tónlistarmönnum og konum sem hafa fallið frá langt fyrir aldur fram, einungis 31 árs. Það má eflaust deila um hve vel þessi plata hefur elst eins og annað stöff frá þessum tíma, en mér finnst hún yndisleg, enda gömul sál með gamaldags smekk.

 

Plata 40 er "To our children´s children´s children" með Moody Blues frá 1969. Fjórða platan frá þessari ensku rokksveit sem byrjaði í rhytmabús 1965. Hér er boðið uppá framsækið rokk og sækadelíáhrifin eru sterk. Konsept plata hvar fyrsta lending manna á tunglinu, sem einmitt var í júlí þetta ár, var innblásturinn. Hún skiptist dálítið í tvö horn hjá Moody´s aðdáendum, sumir telja hana eina þeirra veikustu á meðan aðrir telja hana þeirra strerkustu. Það er um ákaflega auðugan garð að gresja í þeirra katalóg og þarna sitthvorumegin við 70 sendu þeir frá sér gæðaplötur í hrönnum. Einhverra hluta vegna hef ég tekið ástfóstri við þessa og hún verður oftast fyrir valinu þegar ég vitja þessara snillinga. Ákaflega falleg plata og dásamleg ljúfsár melankólia einkennir hana. Ég verð alltaf glaður þegar hlusta á melankólíska tónlist.

 

Plata 41 er Jazz på svenska með sænska píanóleikaranum Jan Johansson sem út kemur 1964. Hér fara þeir Jan og kontrabassaleikarinn Georg Riedel einkar sparlega með nóturnar, en einkar smekklega með sænskan þjóðlagaarf, vitandi að minna er meira. Það er ekki alveg víst að landi þeirra Yngvie Malmsteen hafi kunnað að meta þetta, (þó hann hafi kunnað að meta syni Jans) en hann er eins og kunnugt er metalhausum, þekktur fyrir að reyna ætíðað spila sem flestar nótur á sem skemmstum tíma og á sennilega metið innahúss, án atrennu. Það er yndisleg melankólísk ljóðræna yfir öllu hér og þetta er bara dásamlega plata í alla staði, en einfaldleikinn er sannarlega ekki á allra færi. Þetta er lang söluhæsta jazzplata Svía fyrr og það er væntanlega hægt að segja síðar, en hann lifði nú ekki lengi til að njóta velgengni hennar því hann fórst í bílslysi 37 ára gamall, fjórum árum eftir að þessi plata kom út. Af því ég kom inn á þungarokk áðan, má geta þess að sænska rokksveitin Opeth telur þessa plötu til áhrifavalda sinna og má glökkt heyra það í titilagi plötunnar Heritage, en það gæti hæglega verið af Jazz på svenska. Þess má líka geta að synir Jan Johansson hafa gert það gott í þungarokksenunni í Svíþjóð og víðar og m.a. spilað með áðurnefndum Malmsteen, en margir ættu að kannast við hljómborðsleikarann Jens Johansson og Anders bróðir hans. En það er allt önnur ella og kemur þessari yndislegu plötu ekkert við, en kannski kemur það henni pínulítið við að hún á tvær systurplötur, Jazz på ryska, eða Jazz á rússnesku og Jazz på ungerska.

 

Plata 42 er SF Sorrow með bresku sveitinni Pretty Things og kom hún út í desember 1968 og er fjórða platan frá þessari mjög svo merku sveit. Platan er talin með fyrstu consept plötum í rokkinu og einhverjir hafa kallað hana fyrstu rokkóperuna, og án efa hefur hún haft áhrif á Pete Townsend er sendi frá sér Tommy um hálfu ári síðar og allir rokkáhugamenn kannast við. Það má hinsvegar segja að frumkvöðla starf Pretty Things á þessu sviði hafi farið fyrir ofan garð og neðan og einhvernveginn tókst að klúðra þessari útgáfu. Þeir höfðu lítið fjármagn og urðu meðal annars að hanna umslagið sjálfir og á framhliðinni er mynd eftir Phil May söngvara og Dick Taylor gítarleikari tók að sér að sjá um að taka ljósmynd fyrir bakhliðina. EMI gerði síðan lítið í að kynna plötuna og það var ekki fyrr en hálfu ári síðar sem hún var gefin út í Bandaríkjunum hjá Rare Earth sem þá var nýstofnað hjá Motown til að sjá um rokkútgáfu þess fyrirtækis. Tommy var þá komin út fyrir nokkru, en Motown lagði lítið í kynningu og auk þess var platan illa hljóðblönduð fyrir Bandarísku útgáfuna sem ekki hjálpaði til. Þetta er því allt hálfgerð raunasaga varðandi þessa plötu. Sumar plötur eru hálfgerð völundarhús og það verður villugjarnt ef maður ratar ekki og skilur ekki út á hvað músíkin gengur. Þessi plata var völundarhús í byrjun en samt strax heillandi, en þegar leiðin var fundin varð hún dásamleg og mér hefur fundist hún batna við hverja hlustun síðan, en væntanlega þarf maður samt að vera pínu skrítinn til að fíla þetta í tætlur. Þarna eru Pretty Things búnir að yfirgefa hráan rhytmablúsinn sem einkenndi bandið í byrjun og komnir á kaf í sækadelíu. Mér finnst þessi plata eldast vel, dásamlega skrítin og skemmtileg og gefur manni alltaf eitthvað nýtt í hverji hlustun. Ætli megi ekki telja Pretty Things eina af þessum ósungnu hetjum (unsung heros) í bresku rokki, ein af vanmetnustu rokksveitum Breta. Þeir voru meira töff og mikið hrárri en Stones á sínum tíma og skiptir þá engu hvort var í rhytmablúsnum eða sækadelíunni, en sviðsljósið varð ekki þeirra.

 

Plata 43 er frumburður folk tríósins Peter, Paul and Mary og heitir í höfuðið á flytjendum eins og frumburðir einatt gera. Þessi plata kemur út árið 1962 og sló heldur betur í gegn og var einar 7 vikur í fyrsta sæti Bilboard listans, og er held ég mest selda plata tríósins. Ég er nú ekki mikill folk maður og þá frekar fyrir folkrokk, en þessi plata er svo frábær að mitt litla hjarta féll algerlega fyrir henni. Hún hefur líka nostalgíu tengingar til þessa áratugar er lög af henni fengu að hljóma á gömlu gufunni og barnið, blautt á bak við eyrun hafði gaman af. Þarna eru gullkorn eins og If i had a hammer, Lemon tree, Where have all the flowers gone, 500 miles og Early in the morning svo eitthvað sé nefnt. Dásamleg plata.

 

Plata 44 er Giant Steps með meistara John Coltrane og kom út í janúar 1960. Það var góð uppskera hjá þessum magnaða saxafónleikara á þessum áratug og má í því sambandi líka nefna plötuna Love supreme frá 65 og margir telja eina bestu jazzplötu sem út hefur komið. Mér finnst hún frekar leiðinleg og hef aldrei náð neinu sambandi við hana, en hún á kannski eftir að detta inn. Þessi er allt önnur ella og hér fara menn á kostum og þetta er sannarlega með skemmtilegri jassplötum. Ekki reyna að skilja jazzmúsík, sagði eitt sinn lífreyndur maður mér. Slepptu hömlunum, hallaðu þér bara aftur og hlustaðu með hjartanu og leyfðu þér að njóta. Láttu tónana hríslast um líkamann og þú munt skilja það sem þú þarft að skilja. Þessi ráð hafa reynst mér ágætlega og eiga ekki síst þátt í að ég elska þessa plötu.

 

Plata 45 er Mann made með Mannfred Mann og er önnur plata sveitarinnar og kemur út 1965. Mannfred Mann var ein af þessum gæðaböndum sem spruttu upp er breska beat bylgjan skall á heiminum og hét í höfuðið á snillingnum sem spilaði á hljómborðin. Hér á sinni annari plötu hafa þeir aðeins færst frá Chessblúsnum á fyrstu plötunni og músíkin orðin fjölbreyttari. Samt er rhytmablús mest áberandi en soul áhrifa gætir og jafnvel jazzáhrifa, enda með saxfón og flautuleikara sem var Mike Vickers, hvers aðalhlutverk var annars gítarleikur. Svo er hér vibrafónn er Mike Hugg trommari sá um að spila á. Sveitin hafði svo á að skipa einum flottasta söngvar breskrar rokksögu, Paul Jones sem auk þess var fantagóður munnhörpuleikari. Jones og Vickers yfirgefa síðan sveitina eftir þessa plötu. Jones átti eftir að gera garðinn frægan með The Blues Band, ásamt hinum gítarleikaranum, Tom Mc Guinnes, sem er held ég ennþá starfandi. Tvær fyrstu plöturnar þeirra eru stórskemmtilegar.
 

Plata 46 er I´m a lonesome fugitive með kántríboltanum, Merle Haggard frá 1967. Það verður að vera smá kántrí á eyðieyjunni og finnst mér þessi tilvalin. Þetta er þriðja platan frá þessum merka kántríkalli sem féll í valinn fyrir tveimur árum og titillagið fyrsti hittarinn sem fór í fyrsta sætið. Þarna er stórkallar eins og Glenn Campell og James Burton á gítara auk meistarans og allt er hér smekklega framreitt að sönnum sveitasið.
 
Plata 47 er með breska gítarleikaranum Albert Lee og er hér um að ræða hljóritanir er hann gerði með hljómsveitunum Country Fever og Black Claw árið 1969. Kántrýrokk af bestu gerð, en sami mannskapur var í báðum sveitunum og hét hún Country Fever er Albert söng, en Black Claw er Chas Hodges sá um sönginn.
Albert Lee er einn af albestu gítarleikurum rokksögunnar en fjarri því sá frægasti  og hann er enn að að best ég veit.
 

 

Plata 48 er The Legendary Italian westerns.The Film Composers series, volume II og inniheldur hún spagettivestra tónlist Ennio Morricone frá 1963 - 1969. Hér má finna allt besta stöffið úr þessum mögnuðu myndum sem heilluðu margan óharðnaðan unglinginn á sínum tíma. Bæði þeim þekktustu eins og dollaramyndunum og einnig minna þekktum myndum eins og Gunfight at red sands, Guns don´t argue og A gun for Ringo. Alls tónlist úr 9 myndum. Maður finnur púðurlyktina og blóðbragðið og þurrt rykið þyrlast um vitin. Morricone var einstakur í að skapa stemmningu og það besta við þessa tónlist er að hún stendur alveg ein og sér og það er jafn heillandi að hlusta á hana og að skoða gamlar leikaramyndir sem krakkar söfnuðu í gamla daga. Dásamlegt stöff.

 

Plata 49 er sko ekki af verri endanum frekar en nokkur á þessum lista. Stand!, 4. platan frá hinni mögnuðu Sly and The Family Stone og kemur út 1969. Þetta leiðir hugann að því að gaman væri að gera lista með svartri músík eingöngu. Jú, vissulega voru nokkrir af meðlimum sveitarinnar hvítir en þetta er svört músík eins og hún gerist best. Funk, soul og rokk í hæfilegum hlutföllum og nettum skammti af sækadelíu dreift yfir og maður situr sannarlega ekki stirður og stífur undir þessari músík. Það er gaman hvað hún er laus í sér og villt og er einhverskonar frjáls og óheft gleðiganga niður tónlistargötur rokksögunnar. Tímalaus snilld sem á alltaf erindi í mín eyru.

 

Plata 50 er From Elvis in Mephis frá árinu 1969. Það verður að vera einhver heldri maður í heiðurssætinu og sennilega engin betur til þess fallinn en Presley. Þessi áratugur var nú kannski ekki hans sterkasti en hér hittir hann á töfrastund í stúdíóinu og sannur suðurríkjasoulkántrýbluesgospel andi svífur yfir vötnum. Spilamennska og lagaval til fyrirmyndar og kallinn í fínu formi. Sé einhver að velta fyrir sér hvar Bo fékk hugmyndina að lagi sínu, Lennon (Hinn eini sanni Jón) þá má finna hana hér. Bitlarnir eða Stones, Wham eða Duran Duran... svona spurningar hafa alltaf komið fram varðandi þessa tvo turna sem oft myndast á hverjum tíma. Varðandi Presley eða Berry, þá stendur sá síðarnefndi ávallt nær hjarta mínu, en auðvitað ber maður virðingu fyrir Presley og þetta er geggjuð plata og ágætt að halda því til haga.

29.03.2018 14:46

Íslenska eyðieyjan 100 plötur

Íslensk eyðieyja  100 plötur

Skálmöld – Börn Loka

Megas – Á bleikum náttkjólum

Óðmenn – Óðmenn – 1970  

Spilverk Þjóðanna - Götuskór

Dimma – Myrkaraverk         

Þursaflokkurinn – Gæti eins verið – 1982

Trúbrot - Lifun

Sigurrós – Ágætis byrjun

Stuðmenn – Tívolí

Nýdönsk – Deluxe

 

Utangarðsmenn – Geislavirkir

Sólstafir - Berdreyminn

Mannakorn – Mannakorn

Strishow Late night cult show

Jón Ólafsson – Fiskar

Vintage Caravan - Arrival

Morðingjarnir – Flóttinn mikli

Hymnodía - Kveldúlfur

Baraflokkurinn – Zahir

Katla - Móðurástin

 

Grafík – 1981 - 2011

GCD – Bubbi + Rúnar

Röskun – Á brúninni

Ham – Svik, harmur og dauði

Innvortis – Reykjavík er ömurleg

Nykur - II

Svavar Knútur - Ölduslóð

XII – Black Box

Glerakur The Mountains are beatiful

Sálin  - Hér er draumurinn

 

Bubbi – Allar áttir

Skurk - Blóðbragð

Agent Fresco - Destrier

Bjartmar og Bergrisarnir – Skrítin veröld

Elín Helena – Til þeirra sem málið varðar

KK – Á Æðruleysinu

Boungura Band – Boungura Band

Kontinuum - Kyrr

200.000 Naglbítar – Vögguvísur fyrir skuggaprins

Maus – Í þessi sekúntubrot sem ég flýt

 

Helgi Björnsson – Veröldin er ný

Sugarcubes – Life´s to good

Sigurður Flosason – Bláir skuggar

Red Barnett - Shine

Hljómar - Hljómar

Rokk í Reykjavík - Ýmsir

Einar Scheving – Land míns föður

Herdís Hallvarðsdóttir - Gullfiskar

Ragga Gröndal - Svefnljóð

SH Draumur – Goð

 

Samaris – Silkidrangar

Helgi og Hljóðfæraleikararnir – Bæ Hæli

Snorri Helga – Vittu til

Ellen Kristjáns - Draumey

Mammút – Svarta systir

Árstíðir – Svefns og vökuskil

Todmobile - Todmobile

Anna María Björnsdóttir – Saknað fortíðar

Ómar Guðjónsson – Fram af

Legend – Fearless

 

Icecross - Icecross

Hrekkjusvín – Lög Unga fólksins

Orri Harðarson - Trú

Ylfa Mist – Ylfa Mist

Purrkur Pillnikk – Eigi enn

Karl Hallgrímsson – Draumur um koss

Hildur Vala - Lalala

Mánar – Nú er öldin önnur

Bang Gang – Something wrong

Sigurgeir Sigmundsson

 

Bootlegs - WC Monster

Sextett Ólafs Gauks - Þjóðhátíðarlögin

ONI – Misadventure – 2015

Rúnar Þórisson - Ólundardýr

Björn Thoroddsen - Luther

Magnús og Jóhann – Í tíma

Rúnar Gunnarsson – Undarlegt með unga menn

Lay Low – Brostinn strengur

Jóhann G. Jóhannsson - Langspil

Fræbbblarnir – Viltu bjór væna

 

Valdemar – Batnar útsýnið

Alchemia – Lunatic lullaby

Tómas R Einarsson - Bongó

Gímaldin – Blóðlegur fróðleikur

Buff – Buff

Einar Vilberg - Starlight

Jón Múli Árnason – Söngdansar og Ópusar - 2011

Eik – Speglun - 1976

Stella Hauksdóttir – Stella - 1999

Pelican – Uppteknir - 1974

 

Kristinn Sigmundsson – Uppáhaldslög – 2001

Skytturnar – Illgresi 2003

Þokkabót – Fráfærur 1976

SúEllen – Fram til fortíðar 2013

Lost – Lost – 2017

Gæðablóð – Með sorg í hjarta – 2014

Björgvin Gíslason – Örlagaglettur

Guðmundur Ingólfsson – Guðmundur Ingólfsson

Kalli Tomm – Örlagagaldur - 2015

Jet Black Joe – Fuzz – 1994

 

28.01.2018 16:58

Best fyrir 50 árum

Allt í einu er ég horfinn langt aftur í tímann og farinn að grúska í tónlist sem á hálfrar aldar afmæli á þessu ári. Ég var bara 9 ára fyrir 50 árum og sumt  af þessari tónlist hef ég uppgvötað löngu eftir að hún kom út og fallið fyrir henni á mismunandi æviskeiðum, margt hefur þó fylgt mér æði lengi. Eins og gengur hefur tónlist frá þessum tíma elst misvel, raunar eins og tónlist frá öllum tímum gerir. Ákvað að henda í 20 platna lista yfir það sem helst hefur heillað fyrir frá þessum tíma. Þetta er ekki í sérstakri röð, ekki einu sinni stafrófsröð sem hefði ef til vill verið réttlátast. Hér eru lofandi byrjendaverk og rúmlega það og aðrir á hátindi frægðarinnar, en margar sveitir sem hér eiga plötur áttu eftir að gera mun betur seinna meir. Það er ákaflega gefandi að detta svona í ákveðin tímabil tónlistarsögunnar og þetta eru allt plötur sem gott er að týna sér í og gefa mér ennþá mikið og ennþá má uppgvöta eitthvað "nýtt" í þessu. 1968 var gott ár í tónlist.

 

 

Traffic – Traffic

 

The Zombies – Odessey and Oracle

 

The Band – Music from a big pink

 

Super session – Mike Bloomfield Al Kooper Steven Stills

 

The Kinks – Are The Village Green preservation society

 

Rolling Stones – Beggars Banquet

 

Hljómar - Hljómar

 

Jimi Hendrix – Electric Ladyland

 

The Beatles – The Beatles (White album)

 

Ten Years After - Undead

 

Fleedwood Mac – Fleedwood Mac

 

The Pretty Things – S.F. Sorrow

 

Taj Mahal – Taj Mahal 

  

             

Deep Purple -  The Book of Taliesyn

 

The Fairport Convention – The Fairport Convention

 

Johnny Winter -  The Progressive Blues Experiment

 

Frank Zappa – Were only in it for the money

 

Sextett Ólafs Gauks – 14 þjóðhátíðarlög

 

Bee Gees - Horizontal

 

Jethro Tull – This was

25.01.2018 19:11

The Shady

The Shady

Aren´t you that girl...?

8/10

 

Hvað skyldu íslenska sveitin, The Shady og Iron Maiden eiga sameiginlegt ? Jú, báðar sveitir skarta flugmönnum innanborðs, Sigurði Stein Matthíassyni trommara og Bruce Dickinson söngvara. Örugglega væri hægt að finna annað sameiginlegt með sveitunum, þó ekki væri nema að hér er um tvær gæðasveitir að ræða þó ólíkar séu.

The Shady rekur ættir sínar til Norðurlands, nánar tiltekið til Eyjarfjarðarsvæðisins. Siggi trommari, Einar gítarleikari og Sigurður Marteinsson voru í rokksveitinni Dauglas Wilson forðum, en þar var einnig söngvarinn Stefán Jakobsson sem seinna átti eftir að gera garðinn frægan með Dimmu og er einn okkar besti söngvari í dag eins og hvert mannsbarn veit. DW sendi frá sér eina plötu 2005, Stuck in a world og það er óhætt að segja án þess að móðga nokkurn, að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og þessir strákar tekið út mikinn þroska sem tónlistarmenn. Eins og þó nokkuð tíðkast í dag var ákveðið að safna fyrir Aren´t you that girl...?  á Karolina Fund og þar var tónlistin kynnt til sögunnar sem 70´s skotið alternatíf rokk, keyrt áfram af trommum, bassa, gitar, hammondi og kraftmikilli kvenrödd. Ef vitnað er frekar í kynningu þeirra á plötunni má lesa eftirfarandi:

„Hugmyndin af Aren't you that girl...? kviknaði við lestur blaðagreinar af ungri stúlku sem varð fyrir kynferðislegri áreitni. Úr þeim lestri varð til textinn við titillagið og á endanum þema plötunnar. Þar er farið yfir örlagarík ár í lífi stúlku. Myrku stundirnar og þær góðu. Slæmu dagana og þá góðu. Slæmu hugsanirnar og þær góðu og baráttu hennar við því hvort hægt sé að lenda á fótunum þrátt fyrir allt sem á undan hefur gengið". Heimilisofbeldi kemur einnig við sögu og því ákvað sveitin að láta 25% af sölunni renna til Kvennaathvarfsins. Virðing á það.

Textarnir  eru flestir samdir af trommaranum Sigurði Stein, ( fetar þar í spor annars trommubróðurs, Neil Peart úr Rush) en hann á 4 einn og 4 með Evu söngkonu. Sigurður Marteinsson bassaleikari á einn, Lawrent Somers einn og Einar Máni, höfundur laganna á einn. Þeir ná að lýsa baráttunni sem stúlkan lendir í á sannfærandi hátt og á köflum dramatísk og seiðandi tónlistin styður vel við þá. Ákaflega þarft umfjöllunarefni hér á ferðinni á þessum dramatísku #metoo tímum.

Unnendur klassíska rokksins ættu að kætast við þessa plötu og fá hér mikið til að kjamsa á. Það er kannski hammondinn sem sterkast tengir við fortíðina og sveitir eins og Uriah Heep og ekki síst Jet Black Joe, sem vissulega er nær í tíma,  koma upp í hugann og það er vitnað í þær báðar hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað. En nóg um áhrif því Shady er mikið meira en bara einhver áhrif héðan og þaðan.  Þegar byrjað var að hlusta tók maður fljótt eftir þessri kraftmiklu kvenrödd er áður var kynnt til sögunnar. Hún kemur úr barka Evu Björnsdóttur, sem var bara sturtusöngkona úr Kópavogi áður hún fékk þetta gullna tækifæri. Hún klúðrar því svo sannarlega ekki og er án efa stjarna plötunnar án þess þó að skyggja á aðra og skapa eitthvað ójafnvægi. Kraftmikil  rödd  í stúlkunni og ef hún á ekki eftir að slá í gegn, þá er eitthvað mikið að. Ég vil að sjálfsögðu að The Shady haldi áfram og þrói sína tónlist og þar á Eva sannarlega heima og hún á bara eftir að batna með meiri reynslu og ég hlakka til að fá að heyra hana syngja á íslensku, en hún sleppur alveg ágætlega frá enskunni miðað við marga íslenska söngvara. Það er einhver seventís tónn í röddinni sem er svo heillandi og ég held að hún geti sungið hvaða tónlist sem er. Hef heyrt hana syngja lasna á tónleikum og hún lét það ekkert aftra sér og gaf sig alla í hlutverkið. Hún hefur líka þann kost að þurfa ekki alltaf að vera blasta röddinni og fer sparlega með bomburnar, er yfirveguð og framvindan alltaf eðlileg. Einn fyrir alla, allir fyrir einn.

Við fyrstu hlustanir fannst mér lögin renna svolítið saman og platan virkaði einsleit og kannski af því voru flest í svipuðu tempói og svipuð að uppbyggingu.  Það er því óhætt að segja að platan sé heilsteypt verk og með ítrekuðum hlustunum fór maður að meta karekter hvers lags og þau aðgreindust hver frá öðru. Það hefur stundum eyðilagt heildarmyndir platna að vera með hittara sem útvarpsstöðvar ofspila út í eitt, en þeim fækkar óðum sem leggja upp úr því að hlusta á plötur sem heildarverk. Það hefði þó verið gaman að fá einn hressann rokkara til að brjóta þetta upp, en ég sakna ekki hittarans.

Lögin eru góð og í raun ekkert sem hefði mátt missa sig. Það er einhver yfirvegaður blær yfir þessari plötu og greinilegt að það er virkilega vandað til verka hér og nostrað við hvert smáatriði. Spilamennskan er virkilega góð og laus við sýndarmennsku og stæla og Hammondinn einskonar vörumerki. Gítarsólóin hjá Einari eru alltaf smekkleg og melódísk og einhvern veginn alltaf mátulega löng. Hann virðist ekki hafa þörfina fyrir að leika einhverja sérstaka gítarhetju. Talandi um gítarhetjur, þá á Akureyringurinn Andri Ívarsson ákaflega skemmtilega innkomu í hinu frábæra Elements of fire sem sker sig nokkuð úr lögunum hér og brýtur aðeins upp hljóðmyndina. Frábært sóló hjá Andra og rodes píanóið hjá Jóni setur skemmtilegan svip á lagið.

Sjálfur Barak Obama lítur í heimsókn í laginu Fracta, en vitnað er í ræðu hans, hvar talað er meðal annars um að skapa heim þar sem hvers kyns ofbeldi er ekki umborið. Skemmtilegt innlit og áhrifaríkt.

Platan hljómar ákaflega vel en upptökustjórn var í höndum  Einars Mána Friðrikssonar og hljómsveitarinnar en Sigurdór Guðmundssonar (Skonrokk Studios) sá um hljóðblöndun og hljómjöfnun auk þess að koma að útsetningum og production á nokkrum lögum. Umbúðirnar smekklegar, en þær voru hannaðar af systir trommarans, Rósu Matt. Handskrifaðir textarnir koma vel út.

Þó þetta sé nú ekkert brjálæðislega frumlegt þá er þetta hörkuplata sem á sannarlega skilið athygli og vonandi hlítur hún ekki þau örlög að týnast í hippi og hoppi nútímans. Hefði kannski slegið í gegn á öðrum tímum, það veit maður aldrei. Vissulega er ég þeirrar skoðunar að hún hefði verið sterkari hefði verið sungið á íslensku, en það er kannski bara mín sérviska. Þetta er virkilega góð músík sem kannski höfðar frekar til þeirra sem komnir eru af léttasta skeiði og áttu sín mótunarár á „gullöld“ rokksins frá 65 – 75, unnenda klassíska rokksins. En góð músík höfðar vissulega til allra tónlistarunnenda og margir ættu að geta samsvarað sig þessari tónlist og því miður... allt of margir textunum. 

24.01.2018 22:21

Þúsund ár

 

Guðmundur R

Þúsund ár

9/10

                    

Guðmundur R er sólólistamannsnafn Guðmundar Rafnkels Gíslasonar sem væntanlega er kunnastur fyrir sönghlutverk sitt í poppsveitinni SúEllen, sem rekur ættir sínar til Norðfjarðar og gerði garðinn frægan á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Einhverjir muna kannski eftir smellum á borð við Kona, Þessi nótt, Ferð á enda og Svart silki svo einhver séu nefnd. Sveitin vaknar af og til lífsins ennþá, en þar sem meðlimir eru dreifðir víðsvegar um landið er eðli málsins samkvæmt örðugra að koma henni saman til spilamennsku en ella. Þúsund ár, er önnur sólóplata Gumma, en sú fyrsta heitir Íslensk tónlist og kom út 2007.

Það má ef til vill segja að drengirnir í hljómsveitinni Coney Island Babies, sem er bílskúrsband frá Norðfirði, eigi að stórum hluta heiðurinn af að þessi plata lítur dagsins ljós þó Guðmundur hafi lengi verið á leiðinni með að skella sér í aðra sólóplötu. Þeir höfðu samband við drenginn fyrir rúmu ári síðan og spurðu  hvort hann ætti ekki fullt af lögum sem hann væri til í að æfa með þeim. Þess má þó geta að um helmingur laganna urðu til eftir að æfingar hófust. Plötuútgáfa kom svo til sögunnar seint í ferlinu og þar sem Gummi á öll lögin og textana lá það kannski beinast við að platan kæmi út undir hans nafni. Coney Island Babies hafa sent frá sér eina plötu undir eigin nafni, Morning to kill sem kom 2012.

 Jón Ólafsson féllst síðan á að stjórna upptökum auk þess sem hann spilar á píanó og raddar og kemur að útsetningum. Þó það sé nú ekki alltaf fengur að fá „sérfræðinga að sunnan“ eins og við landsbyggðatútturnar köllum þá stundum, þá er vissulega fengur að fá snillinga á borð við Jón í hverskyns tónlistarverefni. Hann klikkar ekki hér frekar en fyrri daginn.

Hér hefur virkilega vel tekist til og þessi plata er abragðsgóð í alla staði og aðstandendum sínum til mikils sóma. Tónlistin dregur skemmtilega dám af því besta frá 9. áratugnum án þess að vera eitthvað óþarflega eitís. Það er ekkert óeðlilegt við það þar sem flytjendur áttu sín mótunarár á þeim tíma er hetjur á borð við The Smiths, Ecco and The Bunnyman, Stranglers,  Prefab Sprout, Baraflokkinn og Bubba heilluðu unga menn og konur og breska nýbylgjan var gott mótvægi við allan metalinn sem tröllreið öllu á hinum kantinum og svo var svuntuþeisasúpu poppið einhversstaðar þarna á milli.

Það sem m.a. einkennir þessa plötu er þetta afslappaða látleysi sem unnendur SúEllen kannast svo vel við hjá sínum mönnum. Vissulega minnir hér sumt á þá ágætu sveit eins og t.d. Öreigi í langreið, en Bubbaáhrif koma líka þar sterk inn. Annars er hér hvert lagið öðru betra og öll hafa þau sinn sérstaka sjarma og karakter og textarnir hjá Gumma eru góðir og vekja mann til umhugsunar um lífið og tilveruna. Margir hverjir hvatning um að njóta stundarinnar og dagsins því við vitum ekki hversu snemma það verður of seint... „Haltu fast í hamingju / því við vitum ekki lengd okkar líflínu“. Hann nær einnig að koma með skemmtilegar myndlíkingar í textum  eins og í hinu ágæta titillagi, Þúsund ár

Platan opnar á, Eins og vangalag,  fallegt lag sem Gummi tileinkar spúsu sinni og hefur töluvert hljómað á Rás2 segja mér menn og þess má geta að platan er plata vikunnar þar á bæ.

Hvatningin um að njóta dagsins fær dýpri merkingu þegar við gerum okkur grein fyrir hversu línan milli lífs og dauða er hárfín og við áttum okkur á að gleði og sorg er sitthvor hliðin á sama peningnum.  Kveikjan að laginu, Dagur um miðja nótt, var fráfall vinar er varð bráðkvaddur langt fyrir aldur fram, virkilega flott lag og bassaleikurinn virkilega skemmtilegur og gott ef maður heyrir ekki smá Cure áhrif í bassasándinu. Eins og víða á plötunni er nostrað við útsetningar og hér t.d. setur básúnúleikur Gumma skemmtilegan svip á þessa afbragssmíð. 

Talandi um dauðann þá er þessi plata tileinkuð unga fólkinu okkar sem kvatt hefur þetta líf alltof fljótt. Geðheilbrigðismál eru dauðans alvara og við sem samfélag verðum að gera miklu, miklu betur, skrifar Gummi innan í umslagið. Lagið Grafarþögn, er til minningar um Bjarna gítarleikara Akureyrsku rokksveitarinnar Churchhouse Creepers sem tók líf sitt á síðasta ári. Gummi þekkir til slíkra sorgaratburða þar sem hann missti bróðir sinn á svipaðan hátt.

 

Far þú í friði fugl minn

fljúgðu burt í nótt

Syngdu með öðrum sálum

er þurftu að fara líka

of fljótt.

 

Eitt skemmtilegasta lagið á plötunni og eitt það hressasta er, Aldrei einn,  létt shuffle bítið keyrir það áfram og Gummi á hér einn sinn besta söngperformans á plötunni. Texti um að það er alltaf hægt að fá hjálp við hvers kyns fíkn, við þurfum bara að bera okkur eftir henni. „Að biðja um hjáparhönd er aldrei of seint“.

Lagið, Mikið lengur kemur inn á hvernig er að missa barn sitt í klær eiturlyfja. Flott bassagrúf og klingjandi og Chris Isaack legur gítarinn draga mann til síðari hluta 9. áratugarins og Gummi syngur eins og engill.

Smá pönkuð ádeila er í hinu hressa, Best í heimi og ég er ekki frá því að ég heyri hér einhver óræð Waterboys áhrif... en að sjálfsögðu er Ísland best í heimi.

1974 sem endar plötuna er í rauninni sama laga og opnar hana, Eins og vangalag, en útsetningin er aðeins öðruvísi og t.d. hefur Jón hér bætt fallegum píanólínum við. Ofan á lagið les Ingvar Sigurðsson leikari, sem rekur ættir sínar til Norðfjarðar prósa, hvers innihald eru hugleiðingar höfundar um snjóflóðin tvö sem féll á Norðfirði í desember 1974 er hann var fjögurra ára snáði. Þetta var gífurlegt högg fyrir lítið byggðarlag að missa 12 manneskjur og  atvinnufyritæki lögð í rúst. Ákaflega áhrifamikil útgáfa og þar kemur fyrir hin áleitna spurning: Er dagurinn í dag kannski svarið við spurningum allra daga?

Hljóðfæraleikur á plötunni  er fumlaus og til fyrirmyndar. Átakalítill en alltaf við hæfi og útsetningarnar skemmtilegar og svo er hljómurinn einstaklega lifandi og skemmtilegur og þá ekki síst bassasándið og þetta eftirsótta andrími er sannarlega til staðar. Gummi hefur greinilega lagt góð lög í þetta púkk, en þau breittust vissulega í meðförum strákanna og Jóns. Gummi er fínn söngvari og á marga virkilega góða spretti hér. Vinur minn sem kom í heimsókn er ég var að hlusta spurði hvort ég væri að hlusta á Felix Bergsson. Þegar betur er að gáð er sú spurning alls ekki út í hött því raddir þeirra liggja alveg lýgilega vel saman á köflum. Flottir söngvarar báðir tveir. Umbúðirnar er skemmtilegar, en Múlinn, fjallið handans Neskaupsstaðar birtist þar hvítur undir gráum himni og vínrauðum sjó.

Þetta er bara fjandigóður gripur, vönduð íslensk dægurtónlist sem vekur vellíðan auk þess að vekja okkur til umhugsunar um allt of stutta tilveru okkar á Hótel Jörð. Manneskjuleg nálgun og hlýja en aldrei væmni eða væl. Það eru ekkert allt of margir sem eru að búa til svona tónlist í dag, tónlist sem heldur á lofti merkjum sígildrar dægurlagahefðar okkar, og þora að nikka til gamalla áhrifavalda hér og þar án þess að verða eitthvað hallærislegir. Þetta er virkilega smekklega gert hjá þessum góða mannskap og platan er alveg laus við uppfyllingarefni og því óþarfi að skippa einhverjum lögum. Vonandi er þetta bara byrjun á einhverju meira hjá þeim því þetta er greinilega gefandi samstarf.

  • 1
Flettingar í dag: 17
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 316
Gestir í gær: 141
Samtals flettingar: 251402
Samtals gestir: 81418
Tölur uppfærðar: 24.1.2019 03:20:17