17.07.2014 11:11

Borgarbarnið lítur til baka

Felix Bergsson
Borgin 
stjörnugjöf  ****
 
Felix Bergsson er óþarfi að kynna fyrir fólki og skiptir þá engu hvort um er að ræða eldri eða yngri kynslóðina.  Fyrir stuttu kom út hans önnur sólóplata og kallst hún Borgin og fylgir í kjölfarið á Þögul nóttin (2012) sem var um margt ágætisplata, hvar Felix söng ástarljóð Páls Ólafssonar á vísnapoppnótum.
 
Felix segist í viðtali við Moggann vera hrifinn af þeirri gerjun og sköpun sem og þeim tilfinningaskala sem finna má í borgum og þó honum finnist afskaplega gott að fara út í kyrrðina og náttúruna, þrífist hann alltaf best í borgum því það er þar sem hlutirnir gerast.
 
Drengurinn hefur aldrei verið í uppáhaldi hjá mér sem söngvari en ég held að hann hafi aldrei sungið betur en hér og honum tekst að vinna mig á sitt band á þessari skemmtilegu plötu. Tilgerðarlaus, blátt áfram, einlægur og hlýr, það eru ekki kostir sem prýða allt of marga söngvara eða bara fólk almennt.
 
Þetta er stórskemmtileg poppplata og kom mér verulega á óvart. Hvað tónlistina varðar er Felix náttúrulega gamall "eitís" poppari sem gerði garðinn frægan með Greifunum og því ekki óeðlilegt að hann finni fjölina sína hér Það er nefnilega leitað aftur á 9. áratuginn í efnistökum víða. Syntar og önnur hljómborð sem einkenndu þann áratug setja skemmtilegan svip á plötuna og tengja við fortíðina án þess að glatað sé sjónar á nútímanum. Því fer víðs fjarri að platan sé eitthvað gamaldags eða hallærisleg. Það má ef til vill segja að Eydís (eitís) jaðri við að vera "eitís" parodía og ekkert að því að grínast eilítið með tímabilið.
 
Eitt sem fljótlega vakti athygli mína var skemmtilegur bassaleikur og bassasánd framarlega í mixinu og maður fékk netta Stranglers tilfinningu. Það mætti vera meira af þessu á plötum í dag. Stefán Már Magnússon sér um bassaleik ásamt gítarleik. Upptökustjóri og á hin ýmsu hljómborð leikur Jón Ólafsson og ferst honum það vel úr hendi eins og vænta mátti. Af Mánakyni er trommarinn Bassi Ólafsson og ekki klikkar hann. Hildur Vala syngur síðan með Felix í laginu Næturljóð sem er eftir Jón. Platan er vel spiluð og útsetningar skemmtilegar og það er einhver óræð gleði og jákvæðni yfir öllu.
 
Felix fékk úr ógrynni laga að velja úr frá vinum og samstarfsmonnum og það er morgunljóst að vel tókst honum valið, en hann naut við það aðstoðar Jóns. Platan hljómar nefnilega eins og "best of " í bestu merkingu þeirra orða, en þannig plötur standa ekkert endilega undir nafni. Þeir sem eiga lög á plötunni eru Jón Ólafsson (2), Eberg (2), Otto Tynes (2), Karl Olgeirsson (2) Sigurður Örn Jónsson og Dr. Gunni eiga síðan eitt hver. Dr. Gunni og Bjartmar Guðlaugs eiga síðan sitt hvorn textann og Felix restina.
 
Hér er allt morandi í fínum lögum. Áðurnefnt Næturljóð Jóns gefur tóninn. Þar segir Felix sögu frá London hvar hann sat í fallegu hauströkkri og beið eftir manninum sínum sem var með lykilinn að húsinu. Þetta er dansvænn slagari og eina lagið þar sem notast er við trommuheila. Eitt fallegasta lagið á plötunni er Augun þín, Felix einlægur og hlýr í fallegum ástartexta og það er kalt hjarta sem ekki hrífst með. Skemmtilegt píanóspil Jóns endar lagið síðan á viðeigandi hátt.
 
Gemmér annan séns eftir Otto Tynes er sennilega kraftmesta lagið á plötunni. Ofboðslega flott lag og Felix sýnir hvers hann er megnugur ekki síður en Stefán á gítarinn. Dr. Gunni hefur löngum haft sens fyrir grípandi poppi og Í kvöld er sannarlega af því taginu. Með betri lögum hér er Hvert liggur leið eftir Jón og það er ekki laust við að það sé smá SúEllen keimur af því, en sú mæta sveit frá Neskaupsstað rekur ættir sínar aftur á 9. áratuginn.
 
Annars ætla ég ekki að tína öll lögin til þó þau eigi það skilið. Það lag sem mér fannst einna minnst skemmtilegt er áðurnefnt Eydís eftir Kalla. Alls ekki slæmt lag og smellpassar í pakkann, nema hvað.
 
Textarnir hjá Felix finnst mér stórfínir, fullir af hlýjum tilfinningum margir, einlægir og vekja mann til umhugsunar um lífið og tilveruna. Þeir eiga ekki síst þátt í að hér tekst svona ljómandi vel til.
 
Þetta er ekki plata sem á að vera með "Best fyrir" merkingu eins og margar, því hún þolir vel ítrekaðar spilanir og er klárlega með skemmtilegri poppplötum sem ég hef heyrt lengi og óska ég aðstandendum til hamingju með vel unnið verk.
 
Umslagið er skemmtilegt en silfraðar útlínur kennileita hinna ýmsu borga skera það í miðju.
 
léleg              *
sæmileg         **
góð                ***
mjög góð       ****
meistaraverk  *****
Flettingar í dag: 159
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 110
Gestir í gær: 41
Samtals flettingar: 224762
Samtals gestir: 72525
Tölur uppfærðar: 20.6.2018 22:11:39